Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Íslenska skuldafangelsið - Héðan fer enginn með peninga lengur

Það ætti að vera flestu hugsandi fólki ljóst að Ísland er gjaldþrota. Einstaklingar, fyrirtæki og ríki eru á hausnum. Er þetta ennþá eitthvað óljóst?

Samt get ég glaðst yfir því að því fólki fjölgar sem gerir sér grein fyrir því að íslenskir skuldarar voru sviknir með stórkostlegum forsendubresti og spákaupmennsku. Íslenskir skuldarar voru (eru) látnir greiða vaxtamuninn sem eigendur jökla- og krónubréfa voru að gambla með.

Tryggvi Þór Herbertsson, Framsóknarflokkurinn og fleiri eru rakkaðir niður í skítinn fyrir að leggja til það eina sem réttlæti er í og það er að leiðrétta skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Ég sendi t.d. sjálfur öllum þingheimi tillögur um þetta síðasta haust. Mig grunar raunar að þær tillögur hafi jafnvel hjálpað til við að ýta við framsóknarmönnum í þeirra tillögusmíð

Hafi einhverjum dottið í hug að flýja hið íslenska efnahagshrun þá er það orðið oft seint nema að yfirgefa skerið nokkurn veginn berrassaður. Það læðist að mér sá ljóti grunur núna að betra sé að stinga af fyrir kosningar því að ríkisstjórnin og bankarnir munu fyrst fara að sauma að skuldurum þegar kosningunum lýkur og stjórnmálamennirnir þurfa ekki að óttast um sinn eigin rass.

Það hlýtur að vera fleirum en mér umhugsunarefni að hátt í 90% landsmanna ætli að kjósa aftur ónýtu flokkanna sem bera mesta ábyrgð á hinu séríslenska og ótímabæra efnahagshruni.

Þangað leitar klárinn þar sem hann er kvaldastur segir máltækið. Á þessi þjóð eitthvað betra skilið fyrir heimsku sakir?


mbl.is Brýnt og óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú fer blátt í grátt. Nýi formaðurinn er eiginlega litlaus.

Aldrei hefur neitt gustað af Bjarna Ben. Hann á engin umtalsverð afrek úr pólitík önnur en að ljúga fyrir Jónínu Bjartmars og Stjörnuna ríkisborgararétti til handa fólki sem var aftarlega í biðröðinni og átti bara að vera þar áfram.

Það væri kannski ágætt ef einhver góður og gegn íhaldsmaður gæti sagt mér hvað hann hafi afrekað. Það hefur farið eitthvað svo innilega framhjá mér.


mbl.is Nýrri kynslóð treyst til verks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheiðarleiki neyðarlaganna mun endalaust bíta í afturenda íslendinga

Neyðarlögin voru taugaveikluð og flaustursleg mistök foringja stjórnarflokkanna og studd með vanþekkingu stjornarandstöðunnar á þingi sem blekkt var til hlýðni í nafni þjóðarnauðsynjar í hruninu.

Neyðarlögin afnámu alla góða viðskiptahætti og farið var með bankana í kennitöluflakk eins og löngum var þekkt meðal veitingahúsa í vandræðum þ.e. hirða eignirnar og fleygja skuldunum og halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. Þessi verknaður er fyrst og fremst orsökin fyrir vantrausti erlendra ríkja. Neyðarlögin voru hreinn og klár þjófnaður.

Til þess að endurvinna traust er verið að búa til plástur fyrir útlendingana og það mun aldrei komast á nein vitleg niðurstaða í það mál. Ástæðan er sú að með neyðarlögunum brást íslenska ríkið öllum góðum siðvenjum varðandi þetta gjaldþrot bankanna. Eðlilegt hefði verið að bankarnir hefðu farið í gjaldþrot og skipaðir hefðu verið hefðbundnir skiptastjórar með hæfu starfsfólki sem hefði vel getað rekið bankana áfram. Óheiðarleikinn var ekki nauðsynlegur hvað svo sem ráðandi flokkar halda fram. Hér kom berlega í ljós hversu ónýtir flestir þingmennirnir voru á neyðarstundu.

Vegna neyðarlaganna verður úrlausnarefnið endalaus þvæla, það er nefnilega hægt að klúðra málum svo gersamlega að nánast ógerlegt er að leysa úr málunum af sanngirni í framhaldinu.


mbl.is Erlendir kröfuhafar eignist hlut í bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir verður seint sakaður um viðbragðsflýti

Sami draugagangurinn og aðgerðarleysið hefur einkennt Geir allan hans feril í pólitík. Hann þótti góður í fjármálaráðuneytinu og fyrir því er góð ástæða: Hann gerði ekkert.

Eina hliðstæða starfið sem menn standa sig vel í aðgerðarlausir er að vera tjónamatsmaður hjá tryggingarfélagi en þar eru þeir líka bestir ef þeir gera ekkert (djók!).

Hræddur er ég um að eftirmælin um pólitískan feril Geirs verði ekki hagstæði svo vægt sé til orða tekið.


mbl.is Mistök gerð við einkavæðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján heppilegri formaður en Bjarni

Ég er hættur að kjósa íhaldið svo það liggi fyrir. Ég má samt hafa skoðun á því hvorn formannskandidatinn ég telji heppilegri fyrir ásýnd flokksins. Það skiptir mig máli eins og aðra sem þarf hugsanlega að búa við áhrif og stjórn viðkomandi á landsmálunum einhvern tíma í framtíðinni.

Ég trúi því ekki að óreyndu að landsfundarfulltrúar ætli að kjósa silfurskeiðarerfingja milljarða sem eru ættaðir að hluta úr stóra olíusvindlinu. Ég trúi því ekki að jafnaðarmenn í Sjálfstæðisflokknum líti á hann sem einhvers konar jafningja?

Kristján er ekki gallalaus en myndi samt vera mun betri kostur fyrir íhaldið með tilliti til atkvæðasmölunar hjá meðalíslendingnum sem er búinn að fá nóg af auðmannaspillingunn. Bjarni er of nálægt henni til að geta svarið hana af sér með öllu.


mbl.is Landsfundur settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvar eru handjárnin?

Það er spurningin sem hlýtur þá að vakna. Manni sýnist að ólíkt Enron málinu þá sé ekki ennþá komið það hugrekki að leiða menn út í handjárnum. Nýja stjórnin hefur haft tvo mánuði og ekki blakað við neinum ennþá.

Skyldi ástæðan aðallega vera sú að ráðamenn og auðmenn voru of skyldir? Stundum bræður? Stundum feðgar? Stundum frændur?


mbl.is Margt líkt með Íslandi og Enron
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju endurgreiðir flokkurinn ekki efnahagshrunið?

300.000 krónur er tittlingaskítur í spillingardæmi Sjálfstæðisflokksins.

Eiga skil á þessum smáaurum að endurspegla tandurhreint siðgæði flokksins sem færði einkavinum ríkisfyrirtæki og bankana fyrir smáaura?

Er sú skoðun Sigurðar Kára gild að þessar 300.000 krónur séu með öllu ótækar þegar sömu aðilar þiggja 425.000 milljónir úr vösum almennings en eru samt á hausnum vegna óráðsíu í eigin rekstri?

Finnst fólki að núverandi stjórnmálaflokkum eigi að treysta fyrir fjármálum ríkisins þegar þeir hafa ekki nokkra stjórn á eigin málum?

Finnst fólki eðlilegt að stjórnmálaflokkar sem stálu öllu bankakerfi landsins með kennitöluflakki neyðarlaganna eigi skilið traust fyrir að leiða þann gjörning sem og að sölsa undir ríkið nánast öllum eignum fólks sem tók lán í góðri trú?

Má ég spyrja hvort fólk sé fífl, eða er þetta bara hrein uppgjöf?


mbl.is Skilar framlagi Neyðarlínunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á taprekstur allra flokkanna að vekja traust á fjármálastjórn þeirra?

Það hefur lengi verið ljóst að stjórnmálaflokkarnir á þingi kunna ekki fótum sínum forráð í fjármálum.

Þrátt fyrir 370 milljóna króna úr ríkissjóði sem forskot á önnur stjórnmálaöfl tekst þeim ekki að halda sig frá taprekstri við bestu aðstæður lýðveldissögunnar. Þarf einhver að vera hissa á því að þeir hafi litla stjórn á fjármálum ríkisins ef þeirra eigin samtök eru rekin jafn illa og raun ber vitni.

Þar sem flokkarnir hafa gefið fordæmi með neyðarlögunum og kennitöluflakki með bankanna hlýtur næsta skref að vera Nýi Sjálfstæðisflokkurinn, Nýja Samfylkingin...


mbl.is Samanlagt tap stjórnmálaflokkanna 281 milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnaskapur viðskiptaráðherrans grátlegur

Hverja heldur viðskiptaráðherrann að hann sé að sannfæra?

Dæmið sem hann leggur upp gerir ekkert ráð fyrir því hvernig eign Herberts er tilkomin. Hún er nefnilega stolin að stærstum hluta frá erlendu bönkunum. Hann forðast líka alveg að ræða að skuldir þeirra Tryggva og Þórs uxu á fölskum forsendum í þá upphæð sem þeim ber að greiða núna.

Gylfi bætir enn um betur í að opinbera skilningsleysi nýju stjórnarinnar á raunverulegum vanda þjóðarinnar og því hvað hlýtur að teljast sanngjörn nálgun á því hvernig leysa eigi vanda heimila og fyrirtækja sem hafa verið stórkostlega svikin í lánveitingum og öllum útreikningum varðandi verðbætur og verðbólgu.

Hafi mér fallist hendur yfir skilningsleysi Jóhönnu og Steingríms í fyrri pistli þá eykst ekki trú mín á hæfileika þessa fólks til að vinna okkur út úr vandanum. Ég hafði meiri væntingar til þeirra í kjölfar fyrri spillingarstjórnar sem setti okkur ótímabært í mun meiri vanda en við þurftum.

Ég ráðlegg stjórnmálamönnum að sýna fólki meiri virðingu en þá að bjóða upp á svona ódýra og ósanngjarna gagnrýni á vel boðlegan tillöguflutning sem nú nýtur vaxandi þverpólitísks stuðnings.


mbl.is Tryggvi Þór svarar grein Gylfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er 7 mánaða frí ekki nóg handa þeim?

Mér hefur oft þótt nóg um það hversu lítil vinnuskylda alþingismanna er. Þeir eru ekki á þingi nærri 7 mánuði á ári og það hlýtur að duga þeim sem frítími.

Það er löngu tímabært að Alþingi verði að venjulegum vinnustað.


mbl.is Þingmenn mæta illa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband