Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Áframhaldandi bruðl með verðmæti

Það ætlar ekki að verða neinu viti komandi fyrir stjórnvöld í sambandi við varnarsvæðið. Fyrst sér Valgerður Sverrisdóttir um það í aulaskap sínum að spilla eignum þarna fyrir hátt í milljarð og síðan á að fara girða af svæði fyrir áframhaldandi leikaraskap.

Samkvæmt þessari frétt á að taka eigninar frá sem gistiaðstöðu fyrir erlendar hersveitir og æfingaaðstöðu. Arðsemi þessa svæðis verður í stórum mínus fyrir þjóðarbúið og þær væntingar sem fólk hafði um að þessar eignir nýttust að einhverju viti í þágu þjóðarinnar eru fyrir borð bornar með þessum sífellda og óstöðvandi áhuga fyrir varnar- og herleikjabrölti þeirra sem ráða ferðinni hér á landi.

Hvenær ætlar fólk að sjá ljósið varðandi þessi mál?


mbl.is Öryggissvæðið að verða tilbúið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygin hefur alltaf verið besta vopnið í pólitík - og það versta!

"Þetta var rétt ákvörðun miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir" var viðkvæði frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins þegar prófkjörin fóru fram síðasta haust. Þessi dæmalausa setning á að fara á spjöld sögunnar því hún var fundin upp í Valhöll þegar menn urðu rökþrota varðandi stuðningsyfirlýsingar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar við stríðsrekstur Bush bandaríkjaforseta í Írak. Þessi gjörningur þeirra félaga mun tryggja þeim veglegan sess í ruslatunnu sögunnar. Þetta voru stærstu mistökin sem þeir gerðu á sínum stjórnmálaferli og það sem þeir gerðu vel mun falla í skuggann af þessu. Þessi undarlega hóplygi í fyrstu setningunni, sem næstum allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa borið fyrir sig var og er móðgun við allt hugsandi fólk.

Afgreiðsla allsherjarnefndar Alþingis á ríkisborgararétti til handa tengdadóttur umhverfisráðherrans er skandall. Það er eins og sumt fólk trúi því í alvöru að spilling geti ekki náð á milli flokka. Hugsið ykkur betur um! Flokkarnir stóðu saman að spillta eftirlaunafrumvarpinu og stóðu líka saman að því að stela með lögum hundruðum milljóna til að stinga í kosningasjóðina hjá sér. Þeir kaupa og selja bitlinga og stöðuveitingar þvers og kruss eins og dæmin sanna. Framsóknarmennirnir og nefndarmennirnir keppast nú við að hópljúga fyrir Jónínu og ganga jafnvel svo langt að hrósa henni fyrir að lenda í rifrildi við fréttamann i beinni útsendingu eins og um afrek sé að ræða. Hér er pólitíska blindan orðin alger og endurspeglar hversu firrt fólk er orðið á síðustu metrum þessarar kosningabaráttu. Nú er logið blákalt og svo vonast eftir því að lygin haldi bara rétt fram yfir kosningar. Eftir það skiptir hún engu máli, úrslitin breytast ekkert.

Dæmi um vonda og aulalega lygi manns í hárri pólitískri stöðu: "I did not have sexual relations with that woman, Monica Lewinski." 


Þarna hefði maður viljað vera í dag!

Þetta er nú bara einn yndislegasti staður á jörðinni, Ásbyrgi. Það er næsta víst að maður verður að heimsækja þennan stað í sumar.

Í hvert skipti sem maður heimsækir hann upplifir maður að nýju öll þau blæbrigði sem sjást í íslenskri náttúru. 

Einu vonbrigðin eru þau að ekki er lengur leyft að tjalda á tjaldsvæðinu í botninum þar sem veðursældin er hvað mest heldur aðeins út við munnann þar sem gustar meira.

Ég hef reyndar aldrei heyrt almennileg rök fyrir því að leyfa ekki lengur afnot af innra tjaldsvæðinu.


mbl.is Hitinn í 23°C í Ásbyrgi samkvæmt sjálfvirkum mæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herra forseti, fáum við svar?

23. apríl s.l. sendi ég í tölvupósti þessa spurningu til forseta Íslands:

Herra Ólafur Ragnar Grímsson,

Getur þú upplýst mig og þjóðina um það hvort þú hefðir veitt Árna Johnsen uppreista æru skv. þeirri heimild sem forsetinn hefur í hegningarlögum?

Handhafar forsetavalds skrifuðu undir þá beiðni í fjarveru þinni og fleirum en mér þætti fróðlegt að heyra hvernig þú hefðir brugðist við þessari beiðni.

Svar hefur ekki borist. Móttaka póstsins míns var þó staðfest hjá embættinu.

Þar sem ég tel að handhafar forsetavalds hafi beinlínis farið með ósannindi í þessu máli myndi ég gjarnan vilja fá svar við þessari spurningu tímanlega fyrir kosningar svo maður geti tekið upplýsta ákvörðun um það hvernig maður notar atkvæði sitt.

Forsetinn er ekkert yfir það hafinn að svara svona spurningu þótt viðkvæm sé. Þetta varðar starf hans og þeirra sem eru handhafar forsetavalds á hverjum tíma og það er hápólitískt, hvað svo sem fólki kann að finnast um að forsetinn eigi helst ekki að skipta sér af neinu. 


Af hverju að spyrja fólk um skoðun á máli sem það hefur ekki vit á?

Á meðan Sturla Böðvarsson notar öll brögð í bókinni til að hindra að skýrslan um flugvallarmálið verði birt fyrir kosningar finnst mér það skrýtið af fjölmiðlum að vera gera skoðanakönnun meðal fólks sem hefur í versta falli mjög grunnhyggna skoðun á því verandi úti á landi með þær hugmyndir einar í pokahorninu að færa eigi flugvöllinn til Keflavíkurflugvallar.

Það er á svona stundum sem maður segir við sjálfan sig: Fólk er fífl. Þetta mál þarf miklu meiri kynningu meðal almennings svo fólk sjái hvers konar dæmalaus firra það er að vera með verðmætasta svæði landsins bundið undir flugvöll. Það fara hátt í 13 milljarðar á ári í súginn við að fresta flutningnum og að auki er búið að færa rök fyrir því að heildarverðmæti Vatnsmýrarinnar sé u.þ.b. 200 milljarðar þegar búið er að draga frá kostnað við að byggja nýjan og fullkominn flugvöll á Reykjavíkursvæðinu.

Kynnið málið fyrst og gerið svo skoðanakönnun byggða á upplýstri umræðu en ekki óánægjubulli þeirra sem hafa ekki eitt nema hálfri mínútu í að mynda sér skoðun.


mbl.is Yfir 60% landsmanna telja að flugvöllur eigi að vera í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur ekki á óvart!

Þeir sem til þekkja kemur þetta ekkert á óvart. Báráttusamtök eldri borgara og öryrkja sárvantaði nothæfan leiðtoga og virkari stjórnarmenn.

Óánægja með kjör aldraðra og öryrkja nægir ekki ein til þess að búa til nothæft stjórnmálaafl. Hæfni til að skipuleggja starf, laða fólk til samstarfs og einhverjir samskiptahæfileikar eru bráðnauðsynlegir þættir til að koma einhverju vitlegu í gang.

Það er ekki vænlegt til árangurs að byrja baráttu á því að henda burtu samstarfsaðilum sem voru tilbúnir að leggja þessum málum lið.


mbl.is Baráttusamtökin skiluðu inn gögnum í Reykjavík suður eftir að frestur rann út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangslaust að deila á svona sérvitringa

Mörgum finnst Björk vera snillingur á tónlistarsviðinu. Ég er ekki einn þeirra. Hef aldrei haft smekk fyrir gólinu hennar og finnst bara ekkert frumlegt við það. Ég skal hins vegar alveg unna fólki þess að þykja þetta mesta snilligáfa tónlistarsögunnar af þeirri einföldu staðreynd að það sé til lítils að deila um smekksatriði.

Ummæli hennar í þessari grein eru að mínu mati bara í stíl við hennar persónu sem sérvitrings. Hún hefur þessa skoðun á málunum og maður má bara vera þakklátur á meðan hún býður sig ekki fram í pólitík á Íslandi. Þá fyrst færi um mann! 


mbl.is Björk gremst stóriðjuframkvæmdir á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil ósköp hlakkar mann til að sjá Bush hverfa af sviðinu

Það eru vonandi að koma betri tímar með tillliti til þeirra sem óska þess að heimurinn verði friðsamari en nú er. George W. Bush, vinur Davíðs, verður seint kallaður friðarins maður. Næstum allt sem hann hefur ert á sviði utanríkismála hefur verið "stríð gegn hryðjuverkum" sem er að stórum hluta bara yfirvarp til að stela olíuauði Íraka. Hann gerir auk þess allt til að gera Írani tortryggilega til að réttlæta innrás en verður líklega ekki að ósk sinni því andstaða við stríðsrekstur hans hefur styrkst mjög við síðustu þingkosningar.

Bush mun fá hörmulegan dóm sögunnar sem einn herskáasti og heimskasti forseti sem bandaríkjamenn hafa kosið. Manni finnst stundum með ólíkindum að ekki skuli hafa farið þó verr í bandaríkjunum á mörgum sviðum en raun ber vitni. Það má yfir litlu gleðjast.


mbl.is Demókratar tókust á í sjónvarpskappræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarmennska í aðdraganda kosninga

Samningarnir við norðmenn og dani um varnarmál eru að sögn "rammasamningar". Við nánari eftirgrennslan er ekkert í samningunum nema rammarnir sjálfir. Þetta er í raun eins og að selja fólki dýr og flott málverk en kaupandinn fær bara rammana í fyrstu, það eigi bara eftir að mála myndirnar.

Hvers konar sýndarmennska er hér á ferðinni? Í aðdraganda kosninganna hafa ráðherrar verið á þeytingi um allar jarðir skrifandi upp á alls kyns samninga og loforð sem halda engu við nánari skoðun, allt tóm sýndarmennska og sölumennska.

Ég er raunar á þeirri skoðun að bæði Valgerður og Geir séu svo illa að sér í varnarmálum að þau hafi keypt einhverja erlenda ráðgjöf sem færir okkur svona fíflagang. Þetta viðtal við Geir er eitthvert það tómlegasta sem ég hef heyrt lengi. Í því er nákvæmlega ekkert sem á skylt við einhvern raunveruleika sem fólk þekkir.

Ef íslendingar haga sér sómasamlega í samskiptum við aðrar þjóðir og hætta að styðja hernaðarbrölt NATO með úrsögn í bandalaginu er ekkert sem ógnar öryggi landsins svo heitið geti. A.m.k. ekkert sem sæmilega búin lögregla, landhelgisgæsla og björgunarsveitir ráða ekki við innan skynsemismarka.

Fjármunirnir sem eytt er í þetta varnar- og hernaðarbrölt eru betur komnir í þjónustu við þá sem búa við slæmar aðstæður hér heima, af nógu er að taka í þeim efnum: Aldraðir, öryrkjar, sjúkir og fátækir bíða margir eftir betri kjörum og aðstæðum. Hættum þessu dómadags hernaðarrugli!  


mbl.is Forsætisráðherra segir varnir Íslands tryggðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðtogahæfileikar Geirs H. Haarde

Leiðtogi þarf að hafa marga kosti. Þessir kostir eru mis mikilvægir og það þarf enga sérstaka snillinga til að sjá út hvort viðkomandi sé "leiðtogi" eða bara efstur á blaði. Eitt af nýlegri dæmum um slíkt er að við brottfall Davíðs Oddssonar var Geir H. Haarde kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins og þar með verður hann líka valdamesti maður landsins. Ég hef áður haldið því fram að hann sé ekki leiðtogi og til þess að bakka upp slíkt "rugl" að margra mati ætla ég að gera tilraun til að gera það á þann hátt að líta svo á að við ætluðum hreinlega að ráða hann í vinnu sem leiðtoga:

Æskilegir kostir leiðtoga eru:

  • Hæfileiki til að blása öðru fólki eldmóði í brjóst sem hvetur það til dáða
  • Hæfileiki til að afla málum sínum fylgis
  • Hæfileiki til að afla persónu sinni trausts
  • Hæfileikinn til að kenna öðrum að vinna
  • Hæfileikinn til að fá aðra til að vinna
  • Hæfileikinn til að sjá hvernig fólk vinnur
  • Hæfileikinn til að sjá hvort verkefni klárist og fylgja þeim eftir
  • Hæfileiki til að greina aðalatriði frá aukaatriðum
  • Hæfileikinn til að halda samstarfsfólki "á tánum" í vinnu
  • Hæfileikinn til að fá fólk til að vinna saman
  • Yfirburða þekking á viðfangsefnum starfsins
  • Hæfileiki til tjáningar þannig að það sannfæri annað fólk
  • Hæfileikinn til að halda völdum sínum og vinna trúnaðartraust nánustu samstarfsmanna
  • Hæfileikinn til að láta aðra trúa því að hæfasti leiðtoginn sé við stjórnvölinn

Kostirnir: Geir hefur mikla hæfileika sem maður. Hann er vandaður, dagfarsprúður, virkar traustur og kemur vel fyrir. Hann hefur hæglátt yfirbragð og því stendur enginn ógn af honum. Honum er ekki frýjað vits, hann hefur tæknilega yfirburðaþekkingu á því sem hann er að fást við. Hann er þess vegna prýðilegur í rökræðum við keppinauta sína, og fer alltaf vel frá þeim. Hann er snyrtimenni í klæðaburði og hógvær í öllu tali og fasi, sem fer raunar mjög vel við persónu hans. Hann hefur listræna hæfileika og getur verið skemmtilegur og söngelskur félagsskapur.

Gallarnir: Geir skortir gersamlega eldmóð og því fellur hann á fyrsta og mikilvægasta prófinu. Þú gætir t.d. aldrei séð hann fyrir þér á hliðarlínu í fótbolta sem þjálfara gargandi hvatningarorð til leikmanna. Hann er ekki maður sem skynjar hvenær hann á að taka menn/konur "á teppið" þegar viðkomandi stendur sig illa. Það er enginn hræddur við hann og þar af leiðandi er hætt við að undirmenn hans slugsi. Hann á sjálfur lítið frumkvæði, það þarf að ýta við honum til að eitthvað gerist. Eðli hans er fremur meðal baunateljaranna en hinna þrumandi leiðtoga. Hann gerir líka of lítið af því að sýna sig þegar þess væri vissulega þörf. Á einhvern undarlegan hátt eru vinsældir hans í réttu hlutfalli við ósýnileikann.

Skv. ofansögðu fer ekkert á milli mála að Geir H. Haarde er í flestu tilliti afbragð annarra manna, en bara ekki leiðtogi. 

Hafa menn/konur eitthvað til málanna að leggja? 


Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 264902

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband