Færsluflokkur: Bloggar

Eat your heart out! - (útleggst: Öfundið!)

Hér sit ég úti fyrir á jarðhæð á Parque Santiago IV á Playa de las Americas á Tenerife og skrifa blogg. Hitinn er 18 gráður og ég er á pólóskyrtu. Við bræðurnir og fjölskyldur vorum að borða og fá okkur í glas.

Alltaf hef ég nett samviskubit þegar ég hef það gott. Ég er nefnilega einn af þeim sem daglega finnst eðlilegt að hafa það hæfilega skítt í tilverunni.

Þessi staður er yndislegur. Hér er hitastig sem hentar okkur íslendingum allt árið um kring. Þetta er eyja og hér er verðlag stöðugt. Mér finnst því eðlilegt á þessari stundu að láta öfunda mig hæfilega af því að vera hér í mildu veðri að blogga úti um miðnættið. Um leið og ég ýti á vista og birta stend ég upp og blanda aftur í glasið. Skál og góða helgi!


Afmælin verða ekki skemmtilegri

Ég fór í barnaafmæli í gær. Gunnar Baldursson leikmyndaséni hjá RÚV var sextugur. Mér finnst reyndar að ég hafi verið í afmæli hjá honum í fyrradag þegar hann varð fimmtugur. Dagarnir eru orðnir svo fljótir að líða.

Gunni er vinsæll maður og vinnur á skemmtilegum vinnustað. Afmæli hjá honum verður eins og kabarettsýning því til hans kemur nánast allt landsliðið í gríni og skemmtir. Og það er ekki ritskoðað. Maður veltist um af hlátri mest allt kvöldið.

Ég vona að ég fái boðskort frá honum í sjötugsafmælið á morgun, mig er strax farið að hlakka til! 


Hafi kílóið lést þá hefur tíminn líka styst

Í fréttum um daginn var talað um að viðmiðunin um eitt kílógramm, sem geymd er í París, hafi lést. Ekki var þó talið að um vandamál yrði að ræða.

Ég er næstum viss um að dagarnir hafi styst verulega. Mér finnst þeir æða áfram. Mér finnst eiginlega alltaf vera þriðjudagur... eða föstudagur... eða laugardagur eða... En hvernig mælum við tímann?

Hvernig má þetta vera. Er hægt að leita skýringa í því að vera í fjölbreyttri vinnu, golfi, badminton, dansi,  söng og hljóðfæraleik, músíkpælingum, bloggi, pólitískum pælingum, internetgramsi eða hvað?

Er skýringanna að leita í því að maður er kominn á seinni hálfleik tilverunnar og finnst maður aldrei hafa tíma til að gera allt það sem maður langar til? Er tíminn ekki bara fljótari að líða ef tilveran er skemmtileg? Verður maður að fara að láta sér leiðast til að hægja á tímanum svo að maður missi ekki af öllu?

Hvað sem öðru líður þá hef ég áhyggjur af þessu... ég verð að segja það! 


Sum kvöld eru bara skemmtilegri en önnur

Sum kvöld eru skemmtilegri en önnur. Hvernig á annað að vera? Hvernig getur maður upplifað skemmtilegt kvöld nema vita líka hvernig "venjuleg" kvöld eru. Satt að segja upplifi ég ekki mörg leiðinleg kvöld nú orðið.

Við Gunni tókum að okkur að spila í afmælisveislu í gærkvöldi hjá vinafólki okkar Arnari og hans yndislegu sambýliskonu Heiðu. Þetta átti að vera sameiginlegt 100 ára afmæli þar sem þau væru samtals eitt hundrað ára á um það bil þessum degi. Þetta reyndist vera allt saman bara hálfur sannleikur og eftir á að hyggja eiginlega tóm blekking!

Við byrjuðum að spila í þokkalega góðum fíling þegar upp kemst að þau létu pússa sig saman þá fyrr um daginn. Þannig að 100 ára afmælið breyttist snarlega í giftingarveislu og þar með var lokið rúmlega 40 ára syndalifnaði þeirra skötuhjúa. Rúmlega 40 árin eru semsagt eins og hitt dæmið rúmlega 20 ár sem hún hefur búið með honum og svo hin rúmlega 20 árin sem hann hefur búið með henni. Einhvern veginn hélt ég að þroskað fólk reyndi rekar að draga niður árafjöldann, en sumir gangast bara upp í því að bæta við háum tölum.

Þar sem partíið breyttist svona snarlega úr afmælisveislu í brúðkaupsveislu, þá þurftum við Gunni að vippa upp óæfðum brúðarmarsi (sem var gargandi gítarsóló í stíl við þjóðsönginn hans Jimi Hendrix á Woodstock) og svo klassískum ástarsöngvum eins og ástinni hennar Ragnheiðar Gröndal og Ó, þú eftir Magga Eiríks. Þessi lög klikka ekki, jafnvel ónýtir söngvarar geta flutt þau þannig að þau hrífi, svo vel eru þau samin.

Þetta er með skemmtilegri uppákomum sem ég hef komist í. Dúndrandi stuðið á brúðhjónunum/afmælisbörnunum og gestunum gerir þetta að sérlega eftirminnilegu kvöldi.

Til hamingju Arnar og Heiða með hnapphelduna.


Nýjung: Að skammast sín fyrir að gera vel

Ég er einn af þeim sem burðast við að reyna ná einhverjum tökum á golfinu. Þetta er á flesta lund hin ágætasta íþrótt, félagsskapur og útivera.

Oftast er hægt að segja að golfiðkunin sé til ánægju. Næstum alltaf er félagsskapurinn mjög góður, göngutúrinn fínn, veðrið misjafnt en maður er ekki alltaf ánægður með kúluspilið sjálft. Þannig er það hjá mér núna. Ég geri mig sekan um mun fleiri mistök á vellinum en forgjöfin mín gefur til kynna og það veldur því að forgjöfin hefur hækkað undanfarið ár.

Þá dettur manni í hug að fara til golfkennara og ég pantaði tíma hjá Úlfari Jónssyni, golfsnillingi og margföldum Íslandsmeistara.

Áður en Úlfar birtist í kennslutímanum náði ég í fötu af boltum og ákvað að hita aðeins upp. Mér til hálfgerðrar skelfingar voru næstum allir boltar strikbeinir! Úlfar kemur á svæðið og þessi beina vitleysa hélt bara áfram. Mér leið nú eins og algjörum hálfvita því ekkert var í raun hægt að kvarta yfir slættinum og í fyrsta skipti á ævinni skammaðist ég mín alvarlega fyrir að gera eitthvað vel.  Alltaf upplifir maður eitthvað nýtt!


Fallinn í freistni

Þeir hafa ekki verið of margir góðu dagarnir fyrir okkur sem viljum spila stundum golf. Í dag fell ég í þá freistni að fara út á golfvöll á miðjum degi og hef það til afsökunar að Konni situr inni fyrir mig í dag.

Nú er GKG kominn með tvo velli þannig að aðstæður hafa heldur batnað hjá okkur, og því upplagt að njóta þess í góðu veðri.


Þarna hefði maður viljað vera í dag!

Þetta er nú bara einn yndislegasti staður á jörðinni, Ásbyrgi. Það er næsta víst að maður verður að heimsækja þennan stað í sumar.

Í hvert skipti sem maður heimsækir hann upplifir maður að nýju öll þau blæbrigði sem sjást í íslenskri náttúru. 

Einu vonbrigðin eru þau að ekki er lengur leyft að tjalda á tjaldsvæðinu í botninum þar sem veðursældin er hvað mest heldur aðeins út við munnann þar sem gustar meira.

Ég hef reyndar aldrei heyrt almennileg rök fyrir því að leyfa ekki lengur afnot af innra tjaldsvæðinu.


mbl.is Hitinn í 23°C í Ásbyrgi samkvæmt sjálfvirkum mæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband