Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Við eigum sjálf að læra af mistökunum

Við eigum svo sem enga heimtingu á því að aðrar þjóðir komi hlaupandi með peninga til þjóðar sem hafa lifað jafn mikið og illa um efni fram eins og við íslendingar.

Kannski er okkur bara hollt að fara beint á rassgatið og vinna allt upp frá núllpunkti.  Með því móti er kannski hægt að vinda ofan af okkur öllum þeim tímaskekkjum í rekstri þjóðfélags sem enginn myndi setja í gang ef byrjað væri núna og langar mig að nefna örfá dæmi um það:

Ef nýtt íslenskt þjóðfélag væri stofnað í dag...

  • ...væri ekki stofnuð þjóðkirkja til að sinna andlegum áhugamálum af þeim toga. Þau yrðu skoðuð sem frjáls einkamál.
  • ...væri ekki sett upp ríkisrekin útvarps- og sjónvarpstöð.
  • ...væri ekki útbúnar niðurgreiðslur til landbúnaðarmála.
  • ...væri ekki settir á tollmúrar til að hindra að við gætum keypt vörur erlendis frá á skaplegu verði.
  • ...væri ekki keypt þjónusta erlends óvinaríkis til loftrýmiseftirlits.
  • ...væru ekki sett upp óteljandi sendiráð út um allan heim sem hafa litla sem enga þýðingu.
  • ...væri ekki stofnuð Varnarmálastofnun til að spá í ímyndaða en ófinnanlega óvini.
  • ...væri ekki stofnuð ríkisrekin Sinfóníuhljómsveit til að sinna því að spila sömu aldagömlu krákutónlistina endalaust á kostnað þeirra sem hafa engan áhuga á henni.
  • ...væri ekki settar stórar fjárhæðir í að setja upp leikhús sem almenningur vill ekki halda úti þegar á reynir.
  • ...væri ekki eytt fé í að borga listamönnum laun fyrir verk sem fólk vill ekki kaupa. Það yrði bara skoðað sem einkamál að iðka slíkar listir.
  • ... yrði landið eitt kjördæmi, hægt væri að kjósa bæði flokka og frambjóðendur þvert á flokka og jafnvel óflokksbundna sjálfstæða þingmenn. Prófkjör myndu felld inn í almennar kosningar.
  • ...yrði stjórnsýslustig bara eitt (ríki og sveitarfélög rynnu saman í eitt).
  • ...myndu stjórnmálaflokkar ekki fá fjárstyrki úr ríkissjóði til að viðhalda sjálfum sér við völd. Nýliðun yrði þannig áfram tryggð í stjórnmálum.
  • ...væri skattfé samfélagsins ekki notað til að niðurgreiða önnur áhugamál fólks sem ekki eru nauðsynleg fyrir almenna vellíðan þegnanna.
  • ...yrðu náttúruauðlindir eins og úthafsfiskveiðikvótar boðnir út hæstbjóðendum og strandbyggðir fengju aftur rétt til að nýta grunnslóðir til veiða.
  • ...myndu þingmenn ekki vera lengur með 7 mánaða leyfi frá þingstörfum og aðstoðarmenn þeirra færu í önnur störf.
  • ...yrðu eftirlaun stjórnmálamanna og embættismanna þau sömu og hjá venjulegu fólki.

Þar sem ofangreind mál myndu spara svo mikið í opinberum útgjöldum mætti færa skatta niður í 10% og samt mætti reka mjög gott heilbrigðis- mennta- og tryggingakerfi. Fólk gæti þá myndað með sér frjáls samtök til að reka trúfélög, leikhús, sínfóníur og önnur áhugamál fyrir sjálfsaflafé.

Miðað við þá stöðu sem íslensk þjóð er kominn í er tímabært að skoða nýjar lausnir til að reka samfélagið af meiri skynsemi en áður. Burt með tímaskekkjurnar!


mbl.is Gagnrýnir hin Norðurlöndin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankinn, ríkisstjórnin og Alþingi lögleiddu þjófnað

Ég er þeirrar skoðunar að neyðarlögin hafi verið ein verstu mistök sem hægt var að bæta við klúður Davíðs og Geirs þegar Glitnir bað um lán á fimmtudegi og var afgreitt með gjaldþrot og niðurlægingu aðeins fjórum dögum síðar.

Neyðarlögin eru að mínu mati ein sóðalegasta aðgerð síðari tíma, framkvæmd í óðagoti og að undirlagi manna sem sjá ekkert athugavert við kennitöluflakk sem er næstum eini og aðaltilgangur þessara laga. Með lögunum var skilanefndum Fjármálaeftirlitsins gert mögulegt að hirða allar innlendar kröfur íslenskra skuldara til að mæta lögbundinni vernd innlána. Ríkið ætlar ekki að greiða neitt af þeim erlendu sambankalánum sem notuð voru til innlendra fjárfestinga.

Undanfarin ár hefur ríkið sett hvert metið á fætur öðru í vafasömum eignatilfærslum (sumir kalla það þjófnaði). Setning neyðarlaganna slær öll önnur met í þeim efnum og verður ekki slegið í bráð.

Hafi fólk haft vonir um að hægt væri að lögsækja breta fyrir misbeitingu hryðjuverkalaga þá er setning íslensku neyðarlaganna eiginlega bara jafn hliðstæð og óheiðarleg misbeiting. Málstaður okkar var eiginlega ónýttur með okkar eigin skorti á heiðarleika. Ríkisstjórnin valdi að mínu mati klárlega óheiðarlegustu leiðina sem hægt var að fara.

Ég sárvorkenni því fólki sem hefur komið að þessum málum og fær ekkert við ráðið og tókst ekki að koma neinu viti fyrir helstu bílstjóra þessa máls. Það eru ekki allir samsekir helstu leiðtogunum en þurfa nú samt að sætta sig við að óþverrafrágangur þessara mála muni loða við það bara vegna nálægðarinnar.

Hafi ég yfirgefið íhaldið í síðustu kosningum var ég ekki par kátur með að Samfylkingin sem ég kaus í staðinn til að fella það úr stjórn, skyldi velja að viðhalda þeim handónýta og spillta flokki áfram við völd. Mig eiginlega stórundrar hversu skaplaus og leiðitöm Samfylkingin er í þessari stjórn.

Hvernig er hægt að ætlast til að venjulegt fólk virði lög og rétt þegar eitt stykki heil ríkisstjórn og þjóðþingið að auki gengur á undan með þvílíku fordæmi að setja sérstök lög til þeir geti stolið?

Steingrímur má mín vegna líka líta í eigin barm. Hann stóð að því að skenkja flokkunum styrkjum úr ríkissjóði til að viðhalda völdum sínum og koma þannig í veg fyrir nauðsynlega nýliðun í stjórnmálum og gera það illmögulegt. Stjórnarandstaðan er bara heldur ekki alveg saklaus af allri þátttöku af sukki síðustu ára.

Það verður ekki auðvelt að vinda ofan af allri þeirri vitleysu og skít sem örfáir ráðamenn þessarar þjóðar hafa komið okkur öllum í með stórkostlegum dómgreindarbresti og ógeðfelldum ákvörðunum.


mbl.is Skortur á sjálfsgagnrýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bush náði markmiði sínu áður en hann hætti

Það þarf enginn að efast um það lengur hver var raunverulegur tilgangur með innrásinni í Írak. Nú er ljóst að þessi herför bar tilætlaðan árangur. Ekki á sviði stjórn-, hernaðar- eða mannúðarmála heldur var þetta bara déskoti góður BISNISS!

Því var logið að öllum heiminum blákalt að Saddam Hussein væri stórhættulegur með gereyðingarvopnin sín og að hann væri svo mikill harðstjóri að heimurinn yrði að losna við hann.

Ísland er enn meðal stuðningsaðila þessarar innrásar. Á einhvern ótrúlega fíflalegan hátt létum við íslendingar plata okkur til að styðja Bush og samverkamenn hans hjá olíufélögunum til þess að hjálpa þeim við að búa til eitt ógeðfelldasta viðskiptaplott síðari tíma. Líklega hefur aldrei verið búið til jafn ósvífið okur á þegnum þessa heims og eldsneytisverð undanfarinna mánaða.

Það er eiginlega synd að ósóminn við innrásina í Írak og þessi fullnaðarsigur olíuþjófanna í skjóli Bush muni aldrei fá neina athygli vegna tilbúinnar heimskreppu sömu manna. Hverjir haldið þið að græði á heimskreppunni? - Jú, það blasir við: Olíufyrirtækin.


mbl.is Mesti hagnaður sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankinn stundar efnahagslegt hryðjuverk gegn þjóðinni

Það dettur engum í hug að gefast upp með rekstur heillar þjóðar í kreppu... nema Seðlabanka Íslands.

Stýrivextir eru til þess að halda því inni að jöklabréfin séu ekki öll rifin út en það hefur bara ekki tilgang lengur. Það treystir þessu enginn lengur, þau verða öll innleyst með þeim fyrirsjáanlegu afleiðingum að krónan sekkur enn dýpra.

Það á að koma öllum mistökum og röngu ákvörðunum Davíðs og Geirs á herðar þess hluta þjóðarinnar sem ekki ber ábyrgð á þeim efnahagshörmungum sem nú ríða yfir þjóðina og eru séríslensk viðbót á heimskreppuna.

Hversu lengi á að halda úti handónýtri stjórn peningamála? Það er ekki aðeins búið að setja þessi mál í rúst og nú er unnið að því... að kveikja enn frekari elda í rústunum.

 


mbl.is Stýrivextir hækkaðir um 6 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar stjórnsemi verður skynseminni yfirsterkari

Lög knattspyrnusambands Evrópu eru greinilega ekki sniðin að því að taka tillit til aðstæðna á norðurslóðum.

Áhrif íslendinga eru greinilega ekki mikil á alþjóðavísu á þessum síðustu og verstu tímum.

Líklega ætti KSÍ að nota tækifærið og fá þessum reglum breytt svo hægt sé að bjóða öllum unnendum leiksins að nota bestu aðstæður á hverjum tíma.


mbl.is Laugardalsvöllur ekki leikhæfur - UEFA synjaði beiðni KSÍ um að nota Kórinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Ventures - Syrpa með þeirra frægustu lögum

The Ventures var og er einhver þekktasta "instrumental" hljómsveit sögunnar. Engin slík sveit hefur selt jafn margar plötur og þeir, yfir 100 milljónir.

Þeirra frægðarsól skein hæst á árunum upp úr 1960. Þessi ameríska hliðstæða The Shadows náði miklum vinsældum með frábærum gítarlögum og sögð hafa haft ýtt úr vör þúsundum annarra hljómsveita með áhrifum sínum. Þessi syrpa frá 45 ára afmælistónleikum er sérlega vel heppnuð og í óvenju góðum hljómgæðum. Með því að velja tengdu myndskeiðin í lokin getið þið fengið prýðilegan helgarkonsert... ódýrt í kreppunni! 

 

 


Þetta eru helstu stærðir bankahrunsins

Um síðustu áramót var eigið fé bankanna þriggja skv. þeirra reikningum 710 milljarðar.  Eignir voru 11.352 milljarðar og skuldir 10.642. Meðal skulda eru innlend og erlend innlán upp á 3.527 milljarða.

Við gjaldþrot skreppur eignaliðurinn saman og það lítur út fyrir að eignir upp á 11.352 geti fallið niður í 10-15% af bókfærðu verði, þetta er kallað stundum hrakvirði. Það þýðir að gjaldþrotið sem við blasir sé hugsanlega upp á 9.000 milljarða króna m.v. áramótin 2007-8. Til að ala ekki á of mikilli svartsýni ætla ég ekki að uppfæra þessar tölur eða gengi til dagsins í dag.

Þessi upphæð er 28 milljónir á hvert mannsbarn í landinu, þar með talið eru börn, gamalmenni og öryrkjar. Innlánin sem ríkið þarf að semja um eða ábyrgjast geta numið allt að 11 milljónum á hvert mannsbarn í landinu. Um þetta er verið að semja við fjárhagssendinefndir breta og hollendinga.

Hafi einhver trúað því að botninn sé kominn aðeins þremur vikum eftir bankahrunið má hinn sami búa sig undir vonbrigði. Staða þjóðarinnar er núna sú að við eigum að vera þakklát fyrir máltíð og húsaskjól.

Það má með sanni segja að nú þurfi að hefja nýja þjóðfélagsskipan sem byrjar ekki bara á núlli, heldur í stórum mínus.

Hafi einhvern tíma verið þörf á krafti og samstöðu þá er það núna.


mbl.is Bankastjórarnir með of há laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lausnin sjálfsþurftarbúskapur?

Þetta hljómar náttúrulega eins og afturhvarf til grárrar forneskju. En við erum sum sem aldrei höfum komist i takt við peningahyggjuna og værum alveg til í að skoða það í alvöru að leyfa Geir að hafna öllum kúgunaraðgerðum og við sjáum bara um okkur sjálf. Hefjum sjálfsþurftarbúskap. Aðrir geta bara flutt til annarra landa ef þeim líkar það ekki. Skoðum möguleikann.

Við lærum kannski að lifa mannsæmandi og kærleiksríku lífi aftur.

Eins og annar bloggari orðaði það snyrtilega: Étum fisk og kartöflur næstum fimm árin eða svo. 


mbl.is Við munum ekki láta kúga okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ennþá treystandi?

Það er með ólíkindum að horfa upp á þau ósköp að Davíð Oddsson hafi ennþá þetta sterka taumhald á Geir Haarde eins og hverjum öðrum geðlausum og ráðvilltum tudda með hring í nefinu.

Hvar eru áhrif Samfylkingarinnar? Ætla þau að láta það endalaust yfir sig ganga að Davíð Oddsson ráði ENNÞÁ ferðinni þrátt fyrir óvéfengjalegt vantraust allrar þjóðarinnar nema örfárra íhaldsleppa gamla forsætisráðherrans?

Hótar Sjálfstæðisflokkurinn stjórnarslitum ef Davíð verði rekinn? Ef svo er þá leyfið þeim það! 


mbl.is Aðgerðir til að örva hagvöxt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband