Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Without you - Harry Nilsson

Þegar Bítlarnir opnuðu útgáfufyrirtæki sitt Apple Records árið 1968 var John Lennon spurður að því hver væri uppáhalds hljómsveitin hans í Ameríku og hann svaraði Nilsson. Ástæðan var nefnilega sú að Harry Nilsson notaði ekki fornafn sitt sem listamaður og Bítlarnir héldu því að hann væri hljómsveit.

Harry Nilsson varð skjólstæðingur Bítlanna og átti íbúð í London sem Ringo Starr hafði búið í, steinsnar frá höfuðstöðvum Apple Records. Hjá Nilsson gistu oft aðrir listamenn á meðan hann dvaldi sjálfur í Ameríku. Mama Cass Elliott lést í íbúðinni 29. júlí 1974 af hjartaáfalli eftir erfiða tónleika í London. Keith Moon trommuleikari The Who lést þar einnig af of stórum skammti lyfseðilsskylds áfengisvarnarlyfs þann 7. september 1978. Sérkennileg tilviljun þetta.

Sjálfur lést Nilsson af hjartaáfalli (í Ameríku) 1994 þá 52 ára.

Without you er upphaflega eftir meðlimi hljómsveitarinnar Badfinger (aðrir skjóstæðingar Bítlanna) og var það gefið út 1971.

Þessi hrífandi ballaða fór í gegnum merg og bein á sínum tíma og síðar náði Mariah Carey að gera lagið aftur gríðarlega vinsælt árið 1993. Lagið hæfir vel þessum degi.

 

 


ESB aðild Íslands verður unnin með ómældum peningum í áróður og auglýsingar

Ég er eiginlega hálf dapur yfir þeirri borðleggjandi vitneskju að ESB mun ekki hika við að veita alls kyns styrki í þau félög og hópa sem styðja aðild að ESB. Þetta er óhjákvæmilegt. Það skal engum detta það í hug eina mínútu að stjórnarmenn ESB ætli að láta Ísland fara framhjá sér fara án þess að beita sér ekki með öllum ráðum þ.m.t. peningum til auglýsinga og styrki við alls kyns málamyndastofnanir sem eiga að sinna rannsóknum í svokölluðum Evrópumálum.

Það þarf meira en lítið kraftaverk til að sannfæra þjóðina um að halda í sjálfstæði þegar baráttan við peningana hefst fyrir alvöru.

Nú þegar virðast sumar málpípur ólmast í áróðri eins og þeir séu hreinlega á launum við þetta þ.m.t. Samtök atvinnulífsins, ASÍ og fleiri sem eru haldin eru þeim ranghugmyndum að ESB aðild sé ávísun á bætt lífskjör. 


mbl.is Evrópunefndin ekki einhliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glaður að fá að hafa þessa stöð áfram

Ég dreg enga dul á það að Skjárinn hefur sýnt það sjónvarpsefni sem mér er hvað mest að skapi undanfarin ár.

Ég lýsi því yfir sérstakri ánægju með að stöðin geti haldið áfram. 


mbl.is Flestir starfsmenn SkjásEins endurráðnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bullmálflutningur Sollu - Telur almenning heimskann

Það er nú bara kjánalegt um leið og ríkið er að skera öll lífskjör alls almennings niður um trog og hækka skatta og aðrar álögur, að hún haldi því fram að verið sé að hækka barnabætur!!!

Hvenær ætlar þessi ríkisstjórn að viðurkenna að þau geta ekkert, kunna ekkert og vilja ekkert nema að sitja sem fastast í ráðherrastólum og hirða há laun?

Hvenær verður almenningi alveg ofboðið og mokar þessu liði út með óhefðbundnum aðferðum?

Við viljum óháða sérfræðingastjórn fram að næstu kosningum sem fram fari næsta vor. 


mbl.is Hátekjuskattur bara táknrænn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri að nota álframleiðsluna sem hér er?

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er ekki vanþörf á að þessi þjóð spái í alla möguleika til alvöru verðmætasköpunnar. 

Ísland er einn af stærri álframleiðendum heims og líklega er álið svo nálægt okkur að við höfum ekki einu sinni vit á því að nota það. Á sínum tíma var reynd framleiðsla á álpönnum sem mér skilst að hafi á endanum gefist upp og verið flutt úr landi. Reyndin er samt sú að það þarf að stofna 10 fyrirtæki til að 1 til 2 komist í alvöru í gang.

Í stað þess að finna álframleiðslu allt til foráttu eigum við að hefja frumkvæði að því að framleiða úr áli meira en nokkru sinni fyrr. Við njótum þess að minnsta kosti að ekki þarf að kosta stórfé til að flytja það hingað eins er raunin með flestar aðrar vörur sem þarf til framleiðslu.

Hér koma nokkrar hugmyndir um hvað hugsanlega megi framleiða úr áli:

  • Tjaldvagnar og hjólhýsi.
  • Léttar bílakerrur, innkaupakerrur, hjólbörur o.fl.
  • Álprófílar til framleiðslu á t.d. hillum, útstillingarborðum og búðarborðum.
  • Teleskópísk álrör.
  • Loftnet fyrir sjónvarp og útvarp.
  • Þakplötur og veggklæðningar.
  • Ljósalampar, ljóskúplar og þess háttar.
  • Stigar og tröppur.
  • Geisladiskar (nota álþynnur).
  • Hljóðfæratöskur, hljóðfærakistur, myndavélakistur, tækjakistur af breytilegum stærðum.
  • Álpappír
  • Húsgagnagrindur, stólagrindur, rúmgrindur o.fl.
  • Áldósir og önnur ílát og pakkningar.
  • Gluggakarmar.
  • Vélarhlutir
  • Felgur
  • Tölvukassar þ.m.t. ferðatölvukassar
  • Raflínur fyrir dreifikerfi
  • Kælingar fyrir örgjörva og annan rafeindabúnað
  • Framleiðsla og þróun á endurhlaðanlegum rafhlöðum fyrir t.d. bíla.
Mér þætti ekki ónýtt ef lesendur bættu við fleiri hugmyndum.
mbl.is Getum ekki treyst á álið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf að verja sjálfstæði landsins með kjafti og klóm

Harkan í ESB við að komast yfir Ísland ætti núna öllum að vera augljós.

Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að samlandar mínir séu svo litlir í sér og blindir að auki að halda að við verðum eitthvert númer í Brussel. Sem mannfjöldi erum við næstum ekkert í öllum samanburði, þeir eru að sækjast eftir stóru landi, risastóru hafsvæði og tilheyrandi auðlindum.

Hvernig er hægt að gera meirihluta fólks á Íslandi ljóst að græðgin ræður öllu í tilgangi þeirra? 


mbl.is ESB býr sig undir umsókn frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áróðursvélar frá ESB með óþolandi afskipti

Það er með ólíkindum hvað ESB-sinnar eru duglegir að flytja inn áróðurinn frá Evrópusambandinu. Í hremmingum okkar sér ESB tækifærið að narra þessa hrjáðu þjóð inn í ríkjasamband sem við munum aldrei losna út úr og ég bið fólk að sjá í gegnum græðgina sem fylgir þessu dæmi.

Því er meira að segja hampað að öðlingurinn Göran Persson hafi ekki þegið sína vanalegu 3ja milljóna króna greiðslu fyrir fyrirlesturinn hér á landi. Á maður að vera þakklátur fyrir það? Halda menn að hann sé eitthvað vanhaldinn við að breiða út boðskapinn hér? Maðurinn er hér að undirlagi ESB og þeir láta hann örugglega ekki bera skarðan hlut frá borði, trúið mér!

Það landráðastarf sem nú er unnið í skjóli efnahagsþrenginga mun reyna á vilja þessarar þjóðar til að halda sjálfstæði sínu. Við höfum nú þegar séð nægileg dæmi um það að við erum sjálf okkar eigin bestu vinir þegar á reynir. ESB hélt í gíslingu lánveitingu frá IMF. Þeir kröfðust þess að íslenskur almenningur greiddi að fullu innlán í íslenskum bönkum erlendis.

Það var aldrei hugmyndin að bankarnir væru seldir með botnlausri ríkisábyrgð og það meira að segja í útlöndum. Mistök og dómgreindarleysi stjórnvalda ásamt stórkostlegum skorti á eftirliti ætlar að verða þessari þjóð þau dýrkeyptustu í sögunni. Samt krefjast þau þess að fá að stjórna "björgunaraðgerðum" sem m.a. leynt og ljóst felast í því að skríða í ESB vegna algers getuleysis þeirra.

Ég segi takk... en NEI TAKK!


mbl.is Persson: Allir verða að bera byrðarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland hafi vit á því að vera utan ESB aðildar

Ég þreytist seint á því að mæla gegn aðild að ESB.

Ég er líka viss um það að það sé alveg sama hversu mikið og lengi við ræðum þetta mál, við fáum enga betri vitneskju um aðdina en er til nú þegar. Sú skoðun alltof margra að hefja verði aðildarviðræður "til að sjá hvað okkur býðst" er undarleg og kjánaleg sölumennska á landi og þjóð. Er Ísland virkilega til sölu?

Spáið í þetta:

  • Landrými, hafrými og auðlindir Íslands eru verulegur fengur fyrir ESB.
  • Hér eru bara 320.000 manns sem þarf að beygja undir ESB valdið i Brussel þegar fram í sækir. Það verður að sjálfsögðu gert.
  • Stjórnendur ESB myndu samþykkja aðild landsins á mjög stuttum tíma, svo mjög vilja þeir fá Ísland til inngöngu.
  • ESB aðild Íslands myndi hafa talsverð áhrif á hugsanlega aðild norðmanna. Þetta vita stjórnendur ESB.
  • Ísland myndi ganga í bandalag sem hefur það að markmiði að gæta eigin hagsmuna gagnvart öðrum löndum heimsins sem eru óvart bara miklu fleiri eða 170 á móti tæplega 30.
  • Frjáls viðskipti við miklu fjölmennari hluta heims og fleiri ríki verða okkur lokuð nema í gegnum ESB.
  • ESB notar tollmúra og hömlur til að halda fátækum ríkjum þriðja heimsins frá því að selja þangað vörur. Samt eru sum meðlimaríki ESB sek um aldalangt arðrán frá nýlendutímum.
  • Hugmyndafræði ESB er ekki kærleiksríkur gagnvart ríkjum utan bandalagsins, þetta er einelti í sinni ljótustu mynd.
  • Miðstýring frá Brussel mun ekki færa okkur neina hamingju. Stór hluti regluverks ESB tekur ekki tillit til legu Íslands og aðstæðna.
  • Því er skrökvað að íslendingum að aðild að ESB lækki vöruverð. Sem innflytjandi get ég upplýst að ESB niðurgreiðir ekki flutningsgjöld sem gerir allar vörur 5-20% dýrari á Íslandi.
  • Það þarf ekki aðild að ESB til að lækka tolla og vörugjöld. Við getum það einhliða.
  • Það þarf ekki aðild að ESB til að fella niður milljarða ríkisstyrki til landbúnaðarmála. Við getum það einhliða.
  • Það þarf ekki ESB aðild til að taka upp annan gjaldmiðil. Við getum það einhliða.
  • ESB aðild er engin trygging fyrir efnahagslegri velsæld, mörg ríki eiga í verulegum vandræðum þrátt fyrir veru sína þar.
  • Aðild að ESB er ekki sjálfkrafa ávísun á lækkað vöruverð, lægri vexti eða betra líf. Slík loforð ESB sinna eru vísvitandi ósannindi.
  • Breyta þarf stjórnarskrá Íslands til að ganga í ESB. Ástæðan er fullveldisafsal þrátt fyrir þau ósannindi ESB-sinna að Ísland haldi sjálfstæði sínu.
  • Ísland á að gerast leiðandi með að taka upp tollfrjáls viðskipti við allar þjóðir heims. Staða okkar kallar á núllstillingu á úreldri hugmyndafræði um rekstur samfélags sem fór á hausinn.
Það þarf að vernda sjálfstæði og fullveldi Íslands. Um þetta verður kosið í næstu kosningum. Til þess þarf nýjan stjórnmálaflokk jafnaðarmanna sem setja á oddinn að halda okkur utan við ESB móðursýkina.
mbl.is Íslendingar mega ekki bíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arnþrúður spurð hvort hún sé drukkinn í beinni útsendingu

Ég er nokkuð dyggur hlustandi Útvarps Sögu og er að hlusta á Arnþrúði Karlsdóttur og finnst hún vera undarlega kát í tali, þvoglumælt og með óvenju miklar og skrýtnar yfirlýsingar.

Á sama augnabliki og ég er að byrja að skrifa þennan pistil og lýsa þessari undarlegu upplifun minni á þætti hennar í dag kemur hlustandi í símann hjá henni og spyr hana beint út hvort hún sé drukkin?

Ég var greinilega ekki einn um þessa upplifun á ástandi konunnar sem hún kennir um lyfjagjöf vegna raddleysis.

Ég hvet fólk til að hlusta á Arnþrúði í endurflutningi og meta sjálft ástand hennar.

Ég hélt að Sverrir Stormsker væri fullur kvóti af annarlegu ástandi hjá dagskrárgerðarfólki stöðvarinnar. 


Tímalína Davíðs og hins séríslenska efnahagshruns

Einhver var að biðja um tímalínu hins séríslenska hruns bankakerfisins og íslensks efnahagslífs. Hér er hún eins og ég sé hana:

  • 1948 Davíð Oddsson fæðist í Reykjavík.
  • 1970 Davíð Oddsson leikur  Bubba kóng í uppfærslu MR á samnefndu leikriti
  • 1972 Davíð Oddsson sér um útvarp Matthildi ásamt fleirum. Pólitísk háðsádeila.
  • 1981 Davíð Oddsson verður borgarstjóri í Reykjavík
  • 1983 Davíð Oddsson rekur ræstingarkonu fyrir að nota símann á skrifstofu hans í heimildarleysi.
  • 1991 Davíð Oddsson leggur hornstein að Ráðhúsi Reykjavíkur á afmælisdegi móður sinnar.
  • 1991 Davíð Oddsson leggur hornstein að Perlunni á afmælisdegi föður síns.
  • 1991 Davíð Oddsson verður formaður Sjálfstæðisflokksins.
  • 1991 Davíð Oddsson verður forsætisráðherra Íslands.
  • 1993 Davíð Oddsson innleiðir EES samninginn sem m.a. krefst frjálsra fjármagnsflutninga og viðskptafrelsis.
  • 1996 Davíð Oddsson hefur forgöngu um að setja upp einkavæðingarnefnd.
  • 2002 Davíð Oddsson leggur niður Þjóðhagsstofnun.
  • 2002 Davíð Oddsson sakaður um að eiga þátt í innrás skattyfirvalda í Baug.
  • 2003 Davíð Oddsson hefur forgöngu um einkavæðingu Landsbankans í hendur Björgólfsfeðga, sem taldir voru Sjálfstæðisflokknum þóknanlegir.
  • 2003 Davíð Oddsson hefur forgöngu um einkavæðingu Búnaðarbankans með Halldóri Ásgrímssyni í hendur S-hópsins sem voru þóknanlegir Framsóknarflokknum. Úr verður Kaupþing við samruna.
  • 2003 Davíð Oddsson sakaður um að eiga þátt í skattrannsókn hjá Jóni Ólafssyni kenndum við Skífuna.
  • 2003 Davíð Oddsson sakar Jón Ásgeir Jóhannesson um að gera tilraun til að múta sér með 300 milljóna króna greiðslu. Málið fór aldrei lengra.
  • 2004 Davíð Oddsson fær neitun forseta Íslands á staðfestingu fjölmiðlalaga.
  • 2004 Davíð Oddsson hættir sem forsætisráðherra og verður utanríkisráðherra.
  • 2005 Davíð Oddsson hættir sem utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
  • 2005 Davíð Oddsson veikist af krabbameini og nær bata.
  • 2005 Davíð Oddsson skipaður formaður bankastjórnar Seðlabankans.
  • 2008 Davíð Oddsson ákveður á 4 dögum að Glitnir banki sé gjaldþrota. Kallar Geir Haarde heim frá New York til að klára það dæmi yfir sömu helgina. Fjölmargir Sjálfstæðismenn viðurkenna að þetta hafi verið persónulegt spark hans í Jón Ásgeir Jóhannesson.
  • 2008 Davíð Oddsson er lykilmaður við að knýja fram neyðarlögin um kennitöluflakk bankanna. Daginn eftir kölluðu þau á viðbrögð breta í formi hryðjuverkalaga sem frystu eigur íslenskra fyrirtækja þar í landi með skelfilegum afleiðingum.
  • 2008 Davíð Oddsson lýsir því í 45 mínútna Kastljósviðtali að íslendingar muni ekki greiða "óreiðuskuldir" viðskiptabankanna erlendis.
  • 2008 Davíð Oddsson fullyrðir að rússar muni lána íslendingum allt að 4ra milljarða dollara lán. Sú frétt borin til baka samdægurs.
  • 2008 Davíð Oddsson lýsir því á fundi Viðskiptaráðs að hann viti um ástæður hryðjuverkalaga í Bretlandi gagnvart íslensku fyrirtækjum en neitar að upplýsa.
  • 2008 Davíð Oddsson sér um móttöku á rúmlega 800 milljóna dollara láni frá IMF og stjórnar noktun þess fjár fyrir hönd Seðlabankans.
  • 2008 Davíð Oddsson lýsir því að hann muni snúa sér aftur að pólitík ef hann verði neyddur til að segja af sér stöðu seðlabankastjóra.

Það blasir við öllum sem vilja vita að Davíð Oddsson hefur ráðið öllu því sem hann vildi í stjórnkerfinu síðan hann varð forsætisráðherra árið 1991. Hann hefur ráðið mestu um setningu þeirra laga og reglna sem m.a. auðmönnum og útrásarvíkingum var gert að fara eftir. Hann valdi meira að segja sjálfur þá auðmenn sem fengu að kaupa meirihluta í bönkunum og helstu ríkisfyrirtækjum. Hann stjórnaði sjálfur verðbólgumarkmiðum og peningamálastefnu Seðlabankans frá haustinu 2005 sem allir vita nú að var kolröng. Hann setti Glitni á hausinn á 4 dögum og því fylgdi bara óvart hrun Landsbankans, Kaupþings og hrun á lánstrausti íslenska ríkisins og Seðlabankans.

Dettur einhverjum í hug eftir lestur ofangreinds að nokkur maður beri meiri ábyrgð á því ástandi sem hér ríkir nú í efnahagsmálum þjóðarinnar sem er gjaldþrota. Er einhver hissa á því að reiði þorra almennings beinist að slysalegum hefndargjörðum þessa manns nú á haustdögum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband