Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Rekstrarafgangur segir að komi sé tími á skatta- og gjaldalækkun

Það er með öllu ótækt að ríkið standi í auðsöfnun á kostnað borgaranna.  Borgararnir eiga ekki að þurfa greiða meira til ríkisins en þarf til að reka þá samfélagslegu nauðsynjar sem almenn sátt ríkir um á hverju ári. Hins vegar skal á það að líta að ríkið er að selja eignir eins og Póst og síma og fleira sem skekkir þessa mynd og kemur ekki fram hér.

Hættan við skattaokrið er nefnilega falið í því að stjórnmálamenn fái alls kyns ranghugmyndir um að nú eigi að styrkja öll þau fíflalegu mál sem heimtufrekt lið óskar eftir: Jarðgöng til Vestmannaeyja, tónlistarhús, menningarhús, tugi milljóna í viðgerðir á ónýtum bátskriflum, fleiri sendiráð með fleiri sendiherrastöðum, hundruð milljóna til að horfa á þotur og annað dót í heræfingum og ótal margt fleira sem er orðið svo heimskulegt að grátlegt er.

Enn grátlegra er að mitt í öllum þessum gróða er ekki séð almennilega um sjúka, fátæka, öryrkja, gamlingja og aðra sem þurfa ekki nema brot af þessu til að gera Ísland að besta samfélaginu á jörðinni.

Ég þarf svo sem ekki að hafa áhyggjur af þessu skattaokri (sem aðrir kalla fínu nafni "rekstrarafgang á ríkisreikningi"). Íslendingum verður refsað fyrir óráðsíu undanfarinna ára í óhóflegum erlendum lántökum hvort sem okkur líkar betur eða verr. 


mbl.is Afgangur á rekstrarreikningi ríkisins var 82 milljarðar í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afganistan, Írak og brátt Íran...

Bandaríkjamenn hafa lítð lært af mistökum sínum í sambandi við hernað. Eða eru þetta nokkuð mistök?

Til eru fjöldi manna sem trúa því að hergagnaiðnaðurinn í Bandaríkjunum geti nánast pantað styrjöld til að halda "eðlilegri" hreyfingu á framleiðsluvörum sínum sem eru flugvélar, skip, skriðdrekar og önnur farartæki, sprengjur, flugskeyti, byssuframleiðsla og svo að sjálfsögðu allur annar tæknibúnaður og fatnaður svo eitthvað sé nefnt.

Þegar Víetnam stríðinu lauk töldum við mörg að Bandaríkjamenn myndu aldrei fara út í svona vitleysu aftur. Við höfðum illilega rangt fyrir okkur. Þó svo að flestir meti mannslífin mikils þá eru hergagnaframleiðendur ekki þar á meðal, þeir meta fjármunina hærra. Og skirrast einskis til að ná þeim.

Áróðursstríðið gegn Íran er nú í fullum gangi. Það bara verið að dunda við að gera Írani að "vondu köllunum" í vestrænum fjölmiðlum og það er sama hvernig þeir reyna að bera hönd fyrir höfuð sér þá verður þeim ekki forðað. Áður en við vitum um verða Bandaríkjamenn komnir á fullt í stríð við þá. Það hlýtur að fara að draga til tíðinda vegna þess að það er kominn órói á hlutabréfamarkaðinn. Það er nefnilega hægt að róa hann með því að beina athyglinni frá honum. Skrýtin tenging en hún gengur samt. Hernaður ýtir undir framleiðslu og eykur bara á skuldir Bandaríska ríkiskassans. Bush hefur ekki áhyggjur af fjárlagahalla, hann hættir brátt sem forseti og þarf því ekki að mæta vandamálinu.

Ekki veit ég hvort kertafleytingar friðarsinna gera nokkurt gagn í friðarátt? Líklega ekkert frekar en svona hugleiðing um hugsanlegt framhald á stríðrekstrinum í löndunum sem voru vagga siðmenningar í árdaga. 


Kjánafrétt í gúrkutíðinni

Það má vorkenna blaðamönnum þegar svo lítið er að gerast að búast má við ristjórar eigri um gólf og skipi undirsátum sínum að koma nú með einhverjar fréttir. Það verði að fylla blaðsíður og dálka með einhverju... bara einhverju!

Þessi "frétt" hlýtur að flokkast með þeim fátæklegri. Hún er nú eiginlega bara barnaleg tilraun til að gera eitthvað úr engu. Henni tekst eiginlega bara eitt: Fá einhvern hálfvita út í bæ til að gera lítið úr fréttinni með álíka bulli á bloggsíðum sama miðils Devil


mbl.is Er sumarið búið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markaðurinn er kálfur með Fréttablaðinu sem stendur alveg undir nafni!

Maður á stundum ekki orð yfir þá hálfvitafjölmiðlun sem boðið er upp á.

Fréttablaðinu í dag fylgir kunnuglegur gulur blaðkálfur sem nefnist Markaðurinn.

Einn veigamesti kaflinn í þessu blaði er greinin Viðskiptabankarnir vaxa á öllum sviðum.

Greinin ber öll merki þess að greinarhöfundur er mataður af staðreyndum frá fólki sem á hagsmuna að gæta í því að ekki verði hróflað verði við ímynd viðskiptabankanna sem traustra stofnana. Það er með ólíkindum að vera með heilsíðuopnu um umjöllun um peningalega stöðu bankanna og ræða varla nema hálfu orði um skuldirnar nema þá í því samhengi að eignirnar séu betur verðtryggðar en skuldirnar. Hins vegar er ekki nefnt að næstum allar skuldirnar eru í erlendum gjaldmiðlum og því að mestu í stórkostlegri gengisáhættu hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Sem viðauki í greininni eru teknar saman og bornar saman ýmsar peningalegar stærðir sem eru allar svo fíflalegar að þær eru með öllu óboðlegar eins og t.d. þessi "Heildareignir viðskiptabankanna voru 9500 milljarðar króna í lok júní. Það eru sexfaldar hreinar eignir lífeyrissjóðanna um þessar mundir." Hér sárvantar heila hugsun í samanburðinn. Bankarnir skulda nefnilega rúmlega 8865 milljarða af þessum 9500 milljörðum sem þeir eiga. Lífeyrissjóðirnir skulda hins vegar ekkert af sinni hreinu eign. Hvað er eiginlega verið að bera saman?

Er ekki kominn tími til að einhver ritstjórinn lesi þessa dæmalausu vitleysu yfir áður en þessu er úðað í 100.000 eintökum yfir landslýð? Það sem er alvarlegt er að fólk fari að trúa þessari dómadags dellu. Það hlýtur að vera hægt að gera meiri kröfur til umfjöllunar sem á að vera alvarleg og er sett í búning virðulegs "viðskiptablaðs".


Verða eftirlaun Jóhanns Helgasonar til vegna þjófnaðar frá honum?

Ég hef skoðað lagið You raise me up (með Josh Groban og Westlife) og borið saman við Söknuð eftir Jóhann Helgason sem hann samdi 1977 við texta eftir Vilhjálm Vilhjálmsson.

Það er enginn vafi í mínum huga að þetta er sama lagið og að höfundurinn Rolf Lövland hefur ekki einu sinni hirt um að breyta einni einustu nótu í öllu laginu til að forðast þennan höfundarréttarárekstur. Það er vitað að hann kom hingað til lands sem gerir málsvörn hans mjög erfiða fyrir dómstólum. Almennt er talið að lag sem hefur afritaða laglínu í 4 takta (1 taktur er sama og 4 bít) verði dæmt stolið. Athugið að ekki er átt við hljómagang. Hundruð laga geta fallið í sama hljómagang og það telst ekki ritstuldur. Það hefur verið bent á skyldleika Söknuðar við lög eins og Oh Danny boy og fleiri en laglínan er nægilega mikið frábrugðin til að vera ekki álitamál varðandi höfundarrétt.

Það er viðurkennt að hljómlistarmenn verða fyrir áhrifum hver frá öðrum. Oft blundar óviljandi stolið lag í undirmeðvitundinni hjá þeim sem eru að semja lög og þá er tvennt til ráða a) hætta við og láta kyrrt liggja eða b) breyta laglínunni nægilega mikið innan fjögurra takta þannig að ekki sé hægt að kæra ritstuld.

Það er líka þekkt dæmi að menn játi hreinskilnislega hvaða lög eru grunnur að því sem þeir endursemja. Það er t.d. ekkert því til fyrirstöðu að semja lag eins og Yesterday upp á nýtt þannig að það teljist ekki stolið. Í slíkum dæmum hafa menn bara vit á því að breyta laglínunni innan 4ra takta þannig að dómstólar geti ekki dæmt það sem höfundarréttarbrot. Þetta er alþekkt í tónlistarheiminum. Mörg vinsæl íslensk lög eru svo nálægt erlendum fyrirmyndum sínum að maður eiginlega skilur ekki hvernig sumir menn hafa haft geð í sér að fá þau "lánuð" með slíkum hætti. Það verður ekki hins vegar í mínum verkahring að opinbera nein dæmi um þetta hér.

Berið saman Söknuð í flutningi Vilhjálms... 

 
 ... við You raise me up með Josh Groban.
 
 
 
Hvað finnst ykkur?
 
Ég hef heyrt að Jóhann Helgason hafi ráðið breskan lögmann til að reka fyrir sig þetta mál fyrir breskum dómstól. Hefur einhver upplýsingar um það?

Rigning á Wimbledon getur stoppað tennisinn en ekki sumt annað...

Á Wimbledon mótinu 1996 fór að rigna og þá er ekkert annað hægt að gera en að breiða yfir völlinn og hanga af sér regnskúrinn. Enginn veit hversu lengi regnskúr gengur yfir en þó okkur íslendingum finnist regnskúrar stundum vara heilu dagana eru þeir oft mun styttri í útlöndum.

Þar sem liðið sat á áhorfendabekkjum Wimbledon og lét sér leiðast stóð upp maður og hóf að skemmta áhorfendum og maður spyr, hvort það hafi bara ekki verið betri upplifun en sjálfur tennisleikurinn?

Þar sem Youtube leyfir ekki beina færslu ("Embed") er linkurinn hér.


Gæti verið einfaldur fjölskylduharmleikur

Ég yrði ekki hissa ef það kæmi í ljós að annað hvort foreldrið hefði misst sig við barnið og úr hafi orðið harmleikur. Síðan hafi verið gerð þau mistök að fara út í yfirhylmingu vegna sektarkenndar.

Mér finnst það grunsamleg hegðun að foreldrarnir séu út um allt að þvælast þ.á.m. til páfans. Það gæti verið dulin óskhyggja þeirra um fyrirgefningu almættisins með nálægð við einn helsta fulltrúa hans á jörðinni!?

Ef fólkið er að þvælast um alla Evrópu, hver er þá tilgangurinn? "Týndist" barnið ekki í Portúgal?

Það var strax í upphafi skrýtið yfirbragð á þessu máli. Af hverju vöru börnin skilin eftir á herbergi á meðan foreldrarnir fóru að skemmta sér? (Jú, það var kallað því nafni að þau hafi farið í "mat".)

Því miður er stundum leitað langt yfir skammt í svona málum. 


mbl.is Telja að Madeleine hafi verið myrt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndu 3 glös af vatni gera sama gagn?

Maður hefur með árunum lært að taka svona "rannsóknarniðurstöðum" með fyrirvörum.

Ég hefði eiginlega fyrst viljað sjá það staðfest að það fólk sem drekkur vel af vatni á hverjum degi sé ekki yfirleitt betur á sig komið en þeir sem minna drekka af vökva.

Eins og margir aðrir styrkist ég í þeirri trú að mikil vatnsdrykkja (jafnvel öll drykkja óáfengra drykkja) sé heilsubætandi. Það hefði því þurft að skoða í þessari könnun hver vökvadrykkja kvennana var áður en farið var út í þessa "rannsókn". Hér væri spurningin þá sú hvort það væri í raun einhver marktækur munur á hreinu vatni og kaffi.


mbl.is Kaffidrykkja við elliglöpum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvelt að bæta þjónustuna þarna

Áherslur í ríkisrekstri eru með þeim hætti að fyrir löngu ætti að vera búið að taka til í honum.

Það er engin ástæða til annars en að íslendingar séu með besta heilbrigðiskerfi í heimi. Biðlistar eru því miður bara eins og tóbak: drepa eða í versta falli gera fólk örkumla og ósjálfbjarga.

Peningarnir sem í þetta vantar eru til dæmis hægt að finna með því að draga úr útgjöldum til: Utanríkis- og varnarmála, Ríkisútvarpsins, kirkjunnar, landbúnaðar, óþarfa jarðgangnagerðar, menningarhúsa, tónlistarhúss, lista- og menningarmála (þau eiga að vera sjálfbær) og fleira sem er óþarfi að ríkið styrki í nútíma þjóðfélagi. Mest af þessu eru spillt forréttindamál sem má bara fara að leggja niður með öllu.

Flestir eru þeirra skoðunar að þegnarnir eigi allir að hafa jafnan rétt til heilbrigðis og menntunar innan skynsemismarka. 


mbl.is Óviðunandi bið eftir hjartaþræðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona samkeppni getur verið jákvæð á endanum

Það hentar sumum íþróttamönnum að vera í svona stífri samkeppni. Það heldur þeim á tánum. Ekki skyldi mig undra að þeir héldu fyrstu tveimur sætunum til loka mótsins.
mbl.is Hamilton-Alonso ástandið „verra“ en rimmur Senna og Prost
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 265496

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband