Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Ótrúlega hraður leikur og tæpur sigur þegar á reyndi

Þessi leikur gekk hratt fyrir sig. Sóknirnar voru stuttar, af því að varnirnar og markvarslan voru eins og gatasigti a.m.k. í fyrri hálfleik. Það segir sína sögu að skoruð eru 82 mörk í leiknum.

Serbarnir byrjuðu leikinn það vel að ég hélt um tíma að við værum að fá blauta tusku í andlitið á sjálfan þjóðhátíðardaginn, fyrir fullu húsi í brjálaðri stemmingu og með þvílíkt fánahaf að annað eins hefur ekki sést. Fánarnir trúlega í boði HSÍ vegna dagsins.

Það sem bjargaði íslenska liðinu í dag var að sóknin gekk þokkalega vel og þeir héldu haus til loka, en ekki mátti miklu muna.

Til hamingju með þennan sigur, við öll! 


mbl.is Ísland sigraði Serbíu 42:40 og er komið á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prik fyrir Steinunni Valdísi!

Ég er ánægður með þetta hjá Steinunni Valdísi. Helst hefði ég viljað sjá ráðherra afsala sér þingsætum og viðurkenna þar með að bæði þingmennska og ráðherradómur séu hvor tveggja full störf. Hver getur sagt til um það hvort þingmaður sé góður ráðherra eða ráðherra góður þingmaður þegar viðkomandi getur ekki verið nema annað í einu?

Sá sem heldur því fram að þetta sé mögulegt vanvirðir bæði meðreiðarsveina sína og kjósendur með því að halda því fram að hann sé tvöfalt betri vinnukraftur en næsti frambjóðandi.


mbl.is Hættir í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrokinn lengi lifi!

Ég tek ofan fyrir Ásthildi Helgadóttur. Það er einmitt svona sjálfstraust og hroki sem fleytir fólki áfram í íþróttunum. Ég vona innilega að þessi keppnisandi hennar smiti allt liðið og það vinni Frakkana.

Það má kalla mig karlrembu hvenær sem er, en kvennalið Íslands stendur sig mun betur en karlaliðið og ég sendi þeim mínar bestu baráttukveðjur fyrir leikinn. Áfram Ísland! 

PS. Eitt ráð fyrir leikinn stelpur: Étið nógu mikið af hvítlauk fyrir leikinn og látið þær frönsku aldrei fara svo langt frá ykkur að þær finni ekki af ykkur hvítlauksfnykinn

PPS: Til hamingju stelpur með glæsilegan sigur! - Hvítlaukurinn lætur ekki að sér hæða!


mbl.is Ásthildur Helgadóttir: „Erum besta íþróttalið á landinu eins og er"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neysluvenjur íslendinga breyttust vegna veiðibannsins

Það er engum blöðum um það að fletta að neysluvenjur íslendinga hafa breyst það mikið að hvalkjöt verður líklega aldrei aftur matur hins almenna borgara.

Flestum íslendingum þótti hvalveiðibannið frekleg afskipti af okkar sjálfbæra veiðiskap. Hvalveiðar voru ekki stofninum hættulegar með tilliti til útrýmingarhættu. Samt sem áður hljótum við að viðurkenna að það sé of seint að ætla að fara í gamla farið aftur. Þvert á alla skynsemi er heimurinn almennt á móti hvalveiðum og ýmsir hópar vilja refsa okkur fyrir þessar veiðar. Auðvitað vekur það í okkur þrjóskuna við að láta segja sér fyrir verkum.

Sem krakka þótti mér hvalkjöt ekkert sérstaklega spennandi. Það þurfti að liggja í mjólk til að vera ætt og jafnvel þá var enn eitthvert skrýtið þráa- og fitubragð af þessu kjöti. Manni fannst alltaf þetta vera ódýr hallærismatur í virðingaröð á eftir næstum öllu öðru kjötmeti sem fékkst.

Einar K. Guðfinnsson tók nánast einhliða ákvörðun um endurnýjun hvalveiða fyrir vin sinn Kristján Loftsson. Ég hef ekki heyrt marga fleiri mæla með þessum veiðum, enda hljóta menn að sjá að það er lítið unnið með því að setja óseljanlegt hvalkjöt í frystigeymslur bara til að storka alþjóðasamfélaginu og sýna heiminum að við ráðum einhverju. Á móti sköðum við ferðamannaiðnaðinn og þar með tapa allir á endanum. 


mbl.is Íslendingar vilja ekki hrefnukjötið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KR þarf aukinn eldmóð - ekki meiri peninga!

Það er sorglegt að fylgjast með raunum KR-inga þessa dagana í fótboltanum. Ríkasta félag á Íslandi, með bestu pappírsleikmennina, reyndan þjálfara og fjölmarga og trausta stuðningsmenn, situr á botninum í deildinni og virðist varla eiga nokkra möguleika gegn nokkrum andstæðinga sinna. Hvað er að?

Heildin er skemmd. Skemmd af vannæringu. Næringin sem þeir þurfa heitir eldmóður. Samheiti yfir það þegar leikmenn ná í alla sína getu á réttum tíma. Þessi andlega næring verður að koma frá þjálfaranum og komi hún ekki er sjálfgert að hann fari. Það er engin spurning að þó að leikmennirnir beri blak af þjálfara sínum, sem oftar en ekki eru hinir geðþekkustu og vandaðir menn, verða þeir að víkja. Þetta er bara viðurkennd staðreynd í boltanum. Það er frekar fátítt að þjálfarar geti verið lengur en 3-5 ár með sama liðið. Eftir það kemur þetta andleysi oft upp og þá þarf að breyta til. Sami þjálfari nær sér þó oftast á skrið annars staðar ef hann hefur góðan persónuleika.

Það er hins vegar sjaldnar að andleysið sé jafn algert frá byrjun og nú virðist málið hjá Teiti Þórðarsyni. Og það má alveg taka fram að árangur og árangursleysi í fótbolta er stundum ekki í takt við þá vinnu sem menn leggja á sig. Menn hafa áður mátt sætta sig við að vinna mikið en vinna samt ekki neitt! 


Sléttubanda-Baugur

Baugur saklaus, ekkert annað,
atið svíður sárt.
Haugur mála, bíður, bannað
Brotið alltaf klárt.

Klárt alltaf, brotið bannað,
bíður mála haugur.
Sárt svíður, atið annað.
Ekkert saklaus Baugur

Undirlægjuhátturinn heldur áfram í utanríkis- og varnarmálum

Mig svíður það alltaf að horfa upp á undirlægjuhátt. Í utanríkis- og varnarmálum er undirlægjuháttur íslendinga alger og Ingibjörg Sólrún tekur strax þátt í honum.

Íslendingar eru lítið og aumt leppríki bandaríkjanna. Það hefur aldrei farið á milli mála hvað svo sem hver segir. Við höfum alltaf fylgt þeim að málum á alþjóðavettvangi nánast skilyrðislaust.

Samt erum við svo miklir aumingjadvergar í augum þeirra að þeir geta ekki einu sinni skuldbundið sig til að kjósa leppríkið í öryggisráðið. Hvers konar gagnkvæmur stuðningur er hér á ferð?

Ingibjörg Sólrún var kosin af sumum okkar til að segja hávært NEI við stuðningi við Íraksstríðið. Hún hefur koðnað niður í stólnum sínum og mjálmar nú bara um stakar hórur frá Eystrasaltslöndunum eins og að það sé stærsta vandamálið sem við er að fást. Hvernig væri að hún færi að standa í lappirnar og koma íslendingum í þá stöðu að leiða sókn til friðar og mannúðar í stað þess að sleikja sig inn í NATO hermangið eins og allt stefnir í núna.

Þar sem ég kaus ekki íhaldið að þessu sinni er undirlægjuháttur Geirs Haarde ekki mitt mál lengur, en Solla stendur sig alls ekki og ég trúi ekki öðru en að fleiri kjósendur Samfylkingarinnar séu óánægðir með byrjun hennar í embættinu. 


mbl.is Nicholas Burns fagnar framboði Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju á íslenskt samfélag að halda úti áhugamálum fólks?

Sem áhugatónlistarmanni hefur mér alltaf gramist að íslenska ríkið greiði hundruð milljóna til að halda úti sinfóníuhljómsveitinni. Þarna eru 45 manns á launum við að saga fiðlur, 10 cellóleikarar og 7 bassaleikarar. Þá er þarna að finna 25 manns sem blása í lúðra og rör, 7 trommara, 2 hörpuleikara og 1 einmana píanóleikara. Hljóðfæraleikararnir eru 97, þar af eru 23 útlendingar eða 25% af mannskapnum.

Auk 97 hljóðfæraleikara eru 11 starfsmenn til að þjóna þeim, þar á meðal eru tveir til að halda á nótunum og svo kona til að færa þeim kaffið.

Að stærstum hluta er þessi hljómsveit að spila í sífellu sömu gömlu tónverkin eftir Bach, Beethoven og Brahms og margbúið að setja þetta dót á plötur.

Ég skil ekki hvers vegna ekki er búið að einkavæða þessa hljómsveit? Hvers vegna þarf að standa í því að niðurgreiða þennan leikaraskap á sama tíma og þjóðin sér ekki einu sinni sæmilega um gamla fólkið, heilbrigðis- og félagsmálin og menntun og umönnun barnanna? Af hverju geta þeir ekki borgað þetta sem vilja njóta? Er eitthvað að því?

Gaman væri að vita hvort einhver geti svarað því hversu há þessi upphæð er orðin í dag sem samfélagið greiðir? 


Obb obb obb bíðið nú við! Hvar er Bernhöftstorfan? Gleymdist hún?

Ég held að Torfusamtökin ættu að fá hér einhverja alvarlega endurskoðun á málinu. Merkilegasta byggingalist heimsins er jú eins og allir vita íslensku bárujárnsklæddu timburhúsin í miðbæ Reykjavíkur.

Alltaf sama sagan með þessa útlendinga virða bara stór og massív grjótmannvirki sem byggingalist en ekki hin snilldarlega smíðuðu íslensku bárujárnshús sem lagt er ofurkapp á að vernda frá eldi, ryði og fúa.


mbl.is Tugir milljóna hafa greitt atkvæði í kosningu um ný undur veraldar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílastæðaleiðindi í miðborginni - Þau er hægt að lagfæra!

Ég er einn af þeim sem geri eins lítið og hægt er að heimsækja miðborg Reykjavíkur. Ég er orðinn meðvitaður um að það eru bílastæðaleiðindin sem fara í taugarnar á mér.

Málið er nefnilega það að þú þarft að hafa smápeninga með þér ef þú ætlar í miðbæinn og við erum flest okkar hætt að nota annað en kort, ýmist debit eða kredit kort. Fyrirkomulag bílastæða er líka þannig að viðskiptin eru alltaf bílastæðasjóði í hag. Þú leggur inn á stæði, ferð að næsta staur og reynir að kaupa þér bílastæðistíma skv. áætlun um tímalengd erindisins. Ef tíminn fer 5 mínútur fram úr tímanum máttu búast við sekt upp á 1500 kall. Ef þú hins vegar ferð hálftíma fyrir áætlaðan tíma færðu hins vegar ekki endurgreitt. Á þessari tækniöld eru þessir viðskiptahættir óbilgjarnir  og óásættanlegir.

Lausnin er sú að setja upp hlið með einum kortakassa eins og á Keflavíkurflugvelli og þú borgar fyrir tímann sem þú ert á svæðinu, hvorki meira né minna. Sektargreiðslur eru bara til að gera okkur fjúkandi reið yfir því óréttlæti að þú sért sektaður af hinu opinbera þegar þú ert gjarnan að heimsækja hið opinbera og starfsmennirnir þar eru stundum ekkert að flýta sér að afgreiða þig!

Nú er tíminn fyrir nýjan borgarstjóra að lagfæra þessi bílastæðaleiðindi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 265495

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband