Af hverju á íslenskt samfélag að halda úti áhugamálum fólks?

Sem áhugatónlistarmanni hefur mér alltaf gramist að íslenska ríkið greiði hundruð milljóna til að halda úti sinfóníuhljómsveitinni. Þarna eru 45 manns á launum við að saga fiðlur, 10 cellóleikarar og 7 bassaleikarar. Þá er þarna að finna 25 manns sem blása í lúðra og rör, 7 trommara, 2 hörpuleikara og 1 einmana píanóleikara. Hljóðfæraleikararnir eru 97, þar af eru 23 útlendingar eða 25% af mannskapnum.

Auk 97 hljóðfæraleikara eru 11 starfsmenn til að þjóna þeim, þar á meðal eru tveir til að halda á nótunum og svo kona til að færa þeim kaffið.

Að stærstum hluta er þessi hljómsveit að spila í sífellu sömu gömlu tónverkin eftir Bach, Beethoven og Brahms og margbúið að setja þetta dót á plötur.

Ég skil ekki hvers vegna ekki er búið að einkavæða þessa hljómsveit? Hvers vegna þarf að standa í því að niðurgreiða þennan leikaraskap á sama tíma og þjóðin sér ekki einu sinni sæmilega um gamla fólkið, heilbrigðis- og félagsmálin og menntun og umönnun barnanna? Af hverju geta þeir ekki borgað þetta sem vilja njóta? Er eitthvað að því?

Gaman væri að vita hvort einhver geti svarað því hversu há þessi upphæð er orðin í dag sem samfélagið greiðir? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Ég get heilshugar skrifað undir þetta. Það er asnalegt að borga grilljónir til að halda uppi einhverri koverlagahjómsveit. Miklu ódýrara fyrir ríkið að styrkja bara Skítamóral.

Þetta á þó ekki bara við um Melabandið, heldur líka íþróttafélög og ýmis önnur áhugamál ókunnugra, sem eru á spenanum. Þetta er óþolandi andsk...

Ingvar Valgeirsson, 14.6.2007 kl. 10:32

2 Smámynd: Ingi Geir Hreinsson

Auðvitað verður þetta aldrei einkavætt - það er ekki nokkur einasta leið til að græða á þessu.

Ingi Geir Hreinsson, 14.6.2007 kl. 12:35

3 Smámynd: Róbert Björnsson

Mikið væri Ísland nú fátækt land ef það hefði ekki efni á að styðja við bakið á einni af sinni mestu þjóðargersemum.  Ég er í það minnsta mun stoltari af Simfóníuhljómsveit Íslands heldur en fótboltalandsliðinu sem ég er viss um að fær þó margfalda upphæð úr ríkiskassanum á við Simfóníuhljómsveitina.  Svo þætti mér nú nærtækast að byrja á að afnema ríkis-niðurgreiðslu til trúar-iðkunar og afnema Þjóðkirkju-batteríið.  Þar væri nú hægt að spara nokkra milljarðana á ári sem hægt væri að nota til þarfari hluta.

Hér í Ameríkunni starfa flestar Simfóníuhljómsveitir fyrir tilstuðlan styrkja frá stórfyrirtækjum og gjafa frá ríkum andskotum sem geta fyrir vikið kallað sig philanthropista.  Við gætum svosem reynt að fá Bónus-feðgana, Kaupþing og Icelandair til að taka við rekstri Simfóníuhljómsveitarinnar... en mig grunar nú að listin og menningin myndi líða fyrir það til lengri tíma litið.

Róbert Björnsson, 14.6.2007 kl. 15:16

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér er skrifað af vanþekkingu og beinlínis fordómum um okkar glæsilegustu hljómsveit. Alveg ætla ég að horfa fram hjá þessum stóryrtu álitsgjöfum nr. 1 og 3 í athugasemdalistanum, en af því að ég las undarlegt sýnishorn í Blaðinu af megninu af því sem Haukur skrifaði, þá fannst mér ástæða til að mótmæla þessum allsendis neikvæða pistli hans. Þegar hann segir: "Að stærstum hluta er þessi hljómsveit að spila í sífellu sömu gömlu tónverkin eftir Bach, Beethoven og Brahms," sýnir hann vel, að hann þekkir lítið sem ekkert til tónverkaskrár Sinfóníunnar á liðnum árum og trúlega enn minna til auðlegðar þessara meistara, sem eru aðeins brot af þeim tónskáldum, gömlum og ungum, sem hljómsveitin spilar verk eftir.

Ekki eru allir stafsmenn S.Í. í fullu starfi. Hljómsveitin er á æfingum um hálfan dag hvern virkan dag að jafnaði í Háskólabíói, en að auki hver hljóðfæraleikari heima hjá sér. Það er aðeins á tónleikum sem sérstaklega getur þurft að hafa 1-2 manneskjur til að fletta nótunum (einkum fyrir einleikara) eða halda á þeim fyrir söngvara, sem þó er undantekning frá reglunni. Niðrandi tal Hauks um hljóðfæri og hljóðfæraleik meðlima S.Í. mælir engan og ekkert niður nema hans eigin illa grunduðu álitsgjöf.

Fráleitt er að sjá ofsjónum yfir því, að ein manneskja sjái um allt kaffistofuhald (þ.m.t. aðföng og annan rekstur) fyrir hljómsveitina -- ætli hátt í hundrað manns á öðrum vinnustöðum þurfi þess ekki með?

Halda mætti, að Haukur sé einn af stuttbuxnastrákunum í nýfrjálshyggjuliði Sjálfstæðisflokksins, svo mjög mælir hann með einkavæðingunni. En hafi íslenzka ríkið haft efni á sinfóníuhljómsveit fyrir um 60 árum, hvers vegna þá ekki nú?

Haukur, þú stofnaðir stjórnmálaflokk í vor, en hefur ekki ýmislegt gerzt síðan þá í gegndarlausum og jafnvel óheimilum fjáraustri stjórnmálamanna, sem myndi fremur verðskulda tillögur þínar um niðurskurð í ríkisfjármálum?

Þar að auki hefur starf S.Í. gríðarmikil uppheðsluáhrif, stuðlar m.a. að viðgangi tónlistarskóla og að við missum ekki frá okkur frábærlega hæft fólk. Að Hauki skuli detta í hug að beina gagnrýni sinni meðfram að tölu þeirra meðlima hljómsveitarinnar, sem eru af erlendu bergi brotnir, finnst mér fyrir neðan allar hellur, því að þar er margt afburða-hæfileikafólk og fengur að fyrir íslenzkt samfélag, enda ílengist hér megnið af því fólki. Voru nýlega greinar í Lesbók Mbl. einmitt um margt af þessum innflytjendum til landsins og hve mjög þeir hafa auðgað okkar tónlistarlíf.

Jón Valur Jensson, 15.6.2007 kl. 17:46

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Jón Valur misskilur að ég er að fjalla um það grundvallaratriði hvort ríkið eigi að borga fyrir að reka Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég er á móti því og tel það tímaskekkju í nútíma samfélagi að ríkið greiði fyrir áhugamál, leikaraskap og dekurverkefni.

Ég ber fulla virðingu fyrir Sinfóníuhljómsveitinni sem slíkri, tel hana vel spilandi og eiga fullan tilverurétt. BARA EKKI Á MINN KOSTNAÐ!

Ég ber fulla virðingu fyrir hljóðfærum og hljóðfæraleikurum, enda fikta ég við slíka hluti og er því málið bara fjári skilt.

Hafi Jón Valur lesið eitthvað af því sem ég hef skrifað má hann vita að ég er á móti styrkjum til stjórnmálaflokka og tel það einhverja mestu spillingaraðgerð sem framin var á síðasta ári í þinginu. Já og ég er sammála Jóni Vali að það megi taka vel á loforðarugli stjórnarherranna og kvennana í vor. Ég hef ekkert á móti útlendingum per se. Ég bara sé ofsjónum yfir því að á sama tíma og sumt fólk er hér á landi í sárri fátækt, heilsuleysi og neyð að við séum að ausa fé í erlenda hljóðfæraleikara á sama tíma. Væri þá ekki nær að ausa þessu fé í atvinnulausa íslenska hljóðfæraleikara?

Ekki veit ég hvort Jón Valur ætlar að gera mig að útlendingahatara í stíl við suma nafntogaða frambjóðendur Frjálslynda flokksins þá frábið ég mér það. 

Ég mótmæli því að skrif mín um Sinfóníuhljómsveitina séu fordómafull. Þau eru skrifuð með fullum rökum þótt tónninn í þeim sé svolítið hæðinn, ég einfaldlega get ekki verið alltaf jafn fýldur að skrifa um hluti sem fara svolítið í pirrurnar á mér.

Jón Valur og félagar geta þó enn glaðst yfir því að hafa yfirhöndina. Ég er ENNÞÁ látinn borga þennan leikarskap ásamt fjölmörgum sem kæra sig ekkert um það, frekar en að þurfa að borga þjóðkirkjupakkann þeirra líka!

Haukur Nikulásson, 16.6.2007 kl. 22:58

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 264914

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband