Beggars can't be choosers

Það stingur mann við þessar aðstæður að Geir Haarde sé að bíða eftir "þjóðhagsspá". Eitthvað virðist manni það hlálegt á tíma þar sem ekki er nokkur leið að sjá á þessari stundu hvers konar tjón það er sem íslenskri alþýðu er ætlað að standa undir á næstu árum. Ef ykkur vantar þjóðhagsspá við þessar aðstæður er jafngott að reka út sleiktan fingur!

Seðlabankastjórinn sem þvælist fyrir öllum málum lagði nefnilega niður Þjóðhagsstofnun á sínum tíma vegna þess að hann taldi sig vita betur en aðrir. Eða var það vegna óvildar í garð forstjórans? Það var aldrei fyllilega ljóst. Óvild er hins vegar orð sem oft er tengt við hann.

Mikið þykir manni vænt um að heyra að Seðlabankastjórn sé ekki klofin lengur. Það er þá hægt að reka hana í heilu lagi!


mbl.is Sátt um IMF-lán í Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krafa um fyrirvaralausar kosningar er eðlileg

Það er alvarlegur tvískinnungur fólginn í því að stjórnmálamenn óski eftir friði til að "vinna" þegar þeir eru sekir um nákvæmlega sama sinnuleysið og bankastjórarnir og "útrásarmennirnir" sem sumir þeirra reka og rægja nú um stundir.

Stjórnmálamennirnir í ríkisstjórninni (a.m.k. sumir þeirra) eru jafnsekir um að hafa siglt Íslandi í strand og þá er eðlilegt að þeir séu látnir axla ábyrgð og fara líkt og hinir. Stjórnin hefur verið sinnulaus og skeytingarlaus um aðvaranir og það verður ekki af þeim skafið að hafa ekki fengið nóg af þeim. Auk þess hafa þeir haft aðgang að sérsfræðingum sem ekki hefur verið tekið nokkurt mark á. Það má vera flestum umhugsunarefni hvernig það var réttlætt að þingmenn væru í einhvers konar "leyfum" hátt í sjö mánuði á ári ásamt heilum her aðstoðarmanna!

Nýliðun í stjórnmálum hefur hins vegar verið gerð illmöguleg vegna þess að núverandi stjórnmálaflokkar settu lög sem styrkja þá í sessi með hundruð milljóna fjárframlögum úr ríkissjóði. Það hlýtur hver maður að sjá hvers konar óhæfuverk gegn lýðræðinu var unnið með þeim spillingarlögum. Allir núverandi flokkar á Alþingi eru samsekir í þessu efni.

Auk þess er sjálfsdekrið í formi eftirlaunafrumvarpsins illræmda enn við lýði og því virðist ekkert fá þokað þrátt fyrir háværa gagnrýni úr samfélaginu. Það hentar bara ekki sjálfhverfu þingi að eiga neitt við þann óþverragjörning.

Fullur skipstjóri er ekki látinn sigla af strandstað. Ríkisstjórn sem hefur komið okkur á hausinn er ekki sú sem á að leiða uppbygginguna. Nú mega aðrir taka við.

Ég ætla ekki að lýsa ALLA þingmenn og ráðherra óhæfa en óhjákvæmilega er kominn tími á að grysja út þá sem voru í stjórnmálum eingöngu í eiginhagsmuna- og auðgunarskyni.


mbl.is Engin óaðgengileg skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir í viðtali hjá Ingva Hrafni á ÍNN

Hér er viðtalið sem Ingvi Hrafn Jónsson tók í kvöld við Jón Ásgeir.

Loksins fékk maður spurningar og svör sem hægt er að nota til að fá fleiri púsl í þær efnahagshörmungar sem gengu yfir bankana og á eftir að ganga yfir fólk og fyrirtæki á næstu árum!

Egill Helgason ætti að horfa á þetta líka. Ingvi Hrafn er greinilega eldri og reyndari í þessu tilviki.


Góðir farþegar...

Þessi var í minu minni heimfærður á frændur okkar í ónefndu nágrannalandi handan hafsins. Það er samt tilefni til að endurnýta hann aftur.

Flugstjórinn:

Góðir farþegar, við nálgumst nú Keflavíkurflugvöll og lendum eftir nokkrar mínútur.

Vinsamlegast færið úrin ykkar aftur um 20 ár! 


Líklega verið mun betur sett hefði ríkisstjórnin verið áfram í fríi

Svo undarlega sem þetta kann að hljóma má líklega segja með sterkum rökum að ef enginn hefði hreyft legg né lið í ríkisstjórninni undanfarnar tvær vikur hefði hin íslenska þjóð verið mun betur sett heldur en nú. A.m.k. ekki verið kominn svona gersamlega á rassgatið. Hvernig má það vera?

Jú, ef Davíð hefði ekki náð í Geir til að knýja hann til að samþykkja yfirtöku/gjaldþrot Glitnis hefði Glitnir í versta falli klikkað á fyrstu greiðslunni til erlends banka þann 15. október s.l. Sá erlendi banki hefði varla tekið séns á því að gera það opinbert vegna þess að það hefði bara opinberað á móti að hann fengi ekki greitt og þá er hann líka í sama vanda.

Skv. þessu væri allt opið ennþá að þessu frátöldu og allir bankarnir enn starfandi. Mér þætti vænt um að heyra rök á móti því að þetta hefði getað verið staðan jafnvel í dag í stað þess tjóns sem vanhugsaðar aðgerðir seðlabanka og nokkurra ráðherra ríkisstjórnarinnar og mistök á mistök ofan hafa leitt yfir okkur sem þjóðarheild.

Það þarf ekki nema einn fullan gamlan skipstjóra til að sigla þjóðarskútunni í strand. 


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Erfiður vetur framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland skipti um nafn og verði VESTMANNAEYJAR

Úr því ríkisstjórninni varð ekki skotaskuld (Englendingaskuld) að skipta um kennitölur á bönkunum til að skúra af okkur stóran hluta af skuldunum þeirra þá hlýtur næsta skref að skipta um nafn á landinu til að skúra af okkur nýfengið hroðalegt orðspor.

Það er nærtækast að Ísland verði innlimað í Vestmannaeyjaklasann og nafninu formlega breytt í Vestmannaeyjar. (Ég geri mér að sjálfsögðu vonir um að þetta eyði þeirri ónáð sem ég var í meðal eyjamanna í 10 mínútur fyrir rúmu ári!)

Þetta ætti að tryggja að 15 mínútna heimsfrægð Íslands sem blankasta land í heimi verði stytt í 5 mínútur með svona brilliant nafnbreytingu. Devil


mbl.is Segja Ísland hafi orðið fyrir auðmýkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamennirnir urðu að fá að sólunda fé LÍKA!

Þetta var fyrirfram dauðadæmt. Hver átti að hafa trú á litlu leppríki Bush í Atlantshafi.

Staðreyndin er sú að þó að stjórnmálamenn séu nú að gagnrýna "útrásarvíkingana" þá tóku þeir þátt í að eyða líka og þetta framboð til öryggisráðsins var til marks um að hér væri til nóg af peningum í gæluverkefni og leikaraskap af þessu tagi til að halda áfram að belgja út þjóðarstoltið.

Geir og Solla voru upptekin við að klára þetta vonlitla dæmi á meðan Davíð ýtti stóra bankadómínóinu af stað.

Samt halda bæði Geir og Solla því fram að við þennan 380 milljóna króna útgjaldalið "mikið hafi áunnist" og "þetta hafi aflað okkur margra vina". Býst einhver við að stjórnmálamenn af þessum kaliber geti viðurkennt að þetta hafi fokið út um gluggann? Fyrr frýs í Helvíti!


mbl.is Ísland náði ekki kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama hefur þetta ef nokkur sanngirni er til

Ég horfði á þessar kappræður og verð að segja að Obama er álitlegri sem næsti forseti bandaríkjanna. Mér leist í upphafi mjög vel á það hversu góðlegur John McCain var í fasi en það er því miður bara leikinn framendi. Obama hefur það framyfir að McCain að vera ekki eins umtalsillur um andstæðing sinn og það fer betur í kjósendur.

Obama virðist svo ótrúlega flekklaus að maður heldur eiginlega að hér hljóti að vera brögð í tafli. Þrátt fyrir ítarlegar tilraunir finnst mér McCain ekki lukkast að klína á hann nokkrum skít sem heitið getur.

Skyldi ástæðan vera sú að Barack Obama sé svartur fyrir og þess vegna sjáist ekkert á honum? Devil


mbl.is Árásir McCain sagðar koma í bakið á honum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er kominn tími til að hætta öllu mjálmi - ÞAÐ ÞARF EITTHVAÐ AÐ HEYRAST!

Eitt stærsta ríkið innan ESB er Bretland. Þeir hafa skotið Ísland í kaf með beitingu neyðarlaga um varnir gegn hryðjuverkum. Efnahagslegu hryðjuverki þeirra á Ísland er ekki einu sinni lokið. Þeir ætla líka að hirða allar eigur íslendinga upp í skuldir og kvaðir. Ég tel Það ágætt að vera búin að komast að því hvað ESB er aumt samfélag í raun áður en meirihlutinn hér á landi kemst í að sækja um aðild.

Yfirdrepsháttur með einhverju orðagjálfri sem síðan fyllir alla fjölmiðla Evrópu mun þagga niður í mjóróma íslendingum. Okkar málstaður er kaffærður og ef við viljum sporna við því þarf að láta í sér heyra svo um munar. Til þess eru aðeins tvö lítil ráð og á þau verður hlustað:

Slíta stjórnmálasambandi við Bretland umsvifalaust. Rökin gegn því að þurfa að eiga samskipti við breta eru komin langt fram úr ásættanlegri diplómatískri kurteisi. Bretar hafa ekki sýnt okkur neitt nema yfirgang, óbilgirni og dónaskap. Við erum í nauðvörn og þurfum því núna að haga okkur samkvæmt því. Það er ekki lengur nein aukin áhætta fólgin í þessari aðgerð. Norðmenn myndu örugglega umbeðnir aðstoða okkur við að gæta hagsmuna okkar í Bretlandi á meðan þetta gengur yfir. Þykist raunar vita að þeir myndu stoltir leggja sig alla fram við að aðstoða litla bróður í því efni.

Segja Ísland úr NATO. Bandalagið er ekki einu sinni að virka innbyrðis gagnvart svokallaðri "vinaþjóð". Það liðkar örugglega fyrir samingum við rússa um lánafyrirgreiðslu og nú má Geir vera sammála mér um að það ER þörf nýrra vina.

Ég tel almennt sjálfsagt að sýna stillingu í öllum málum, en það er ófyrirgefanlegt geðleysi að bregðast ekki harkalega við því að vera sem þjóð sett á hausinn með jafn stórfelldu efnahagslegu óhæfuverki eins og bretar eru sekir um.


mbl.is ESB-leiðtogar styðja Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan ekki sökudólgurinn

Það er ekki oft sem mér finnst menn segja nákvæmlega það sem ég vildi sagt hafa. Þó dettur inn einn og einn á borð við Jóhann J. Ólafsson sem skrifar góða grein í Fréttablaðinu í dag.

Krónan hefur nefnilega verið höfð fyrir rangri sök. Þú notar ekki teskeið til að moka skurði. 


Hagsmuna hverra er verið að gæta?

Ég trúi ekki öðru en að þessi lækkun sé í hróplegu ósamræmi við væntingar næstum því allra hér á landi.

Er því furða að spurt sé um hverra hagsmuna sé verið að gæta núna? Eru það kannski erlendir eigendur eftirliggjandi krónubréfa sem stjórna förinni í þessum efnum? 


mbl.is Stýrivextir lækkaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja, Geir Haarde, er það bara GAMLI Glitnir sem verður í vanskilum?

Í dag er loksins komið að greiðsludeginum sem Glitnismenn voru að reyna að bjarga. Í stað þess að hjálpa þeim afgreiddi Seðlabankinn þá með gjaldþroti og niðurlægingu á fjórum dögum. Ég tel að sagan muni setja þetta upp sem mestu fjármálamistök Íslandssögunnar.

Það er nokkuð ljóst held ég að íslendingar hefðu frekar viljað þá stöðu í dag að Glitnir hefði fengið þessa peninga og að landið í heild sinni hefði fengið við það ráðrúm til að eiga við alþjóðlega sjúkdóminn sem felst í lánakreppunni.

Þess í stað urðum við fyrsti sjúklingurinn í heiminum sem dó og það má þakka óðagoti bankastjórnar Seðlabankans og "ábyrgra" aðila í ríkisstjórn. 


mbl.is Örlagaríkt lán á gjalddaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin skylda að birta vinnugögn fjármálafyrirtækja - Þetta er EKKIFRÉTT

Ég er nokkuð viss um að skýrslan hafi ekki sagt okkar hagfræðingum neitt mikið meira en þeir vissu sjálfir löngu áður.

Stundum er samt eðlilegt að kalla til utanaðkomandi álit, eins og gert er t.d. í sambandi við lækningar og sjúkdóma.

Ég sé heldur ekkert athugavert að þessi skýrsla hafi ekki verið birt. Hún er unnin fyrir Landsbankann , þeirra eign og því fullkomlega eðlilegt að birta ekki skjöl sem geta valdið viðskiptalegu tjóni.

Bankaskýrsla undir stól er þess vegna fréttatilbúningur í lágum gæðaflokki, og skrýtin leið til að gera vinnu bankastarfsmanna tortryggilega. Einkafyrirtækjum er ekkert skylt að birta vinnugögn og rannsóknir sem þau borga fyrir.


mbl.is Bankaskýrsla undir stól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennitöluflakkarar mega líka gæta orða sinna!

Ríkið er ekki hvítþvegið af vafasömum fjármálagjörningum frekar en aðrir síðustu daga.

Ríkið notar kennitöluflakk sem áður var bara eignað veitingahúsum borgarinnar. Ríkið ætlar að skúra sig af skuldbindingum bankanna erlendis en ætlar að hirða kröfur á skuldara hans til að eiga upp í þær innistæður sem þarf hvort eð er að ábyrgjast skv. lögum og ófrávíkjanlegum alþjóðasamningum.

Neyðarlögin sem sett voru 7. október s.l. má kalla hálfgerð "fjármálaleg hryðjuverkalög" vegna þess að þau gera Fjármálaeftirlitinu kleift að gera næstum því hvað sem því sýnist, hvernig sem því sýnist og hvenær sem því sýnist í nánustu framtíð.

Nú þegar ber á því að kennitöluflakkið ætli að þvælast fyrir. Þrátt fyrir hvatningu Geirs Haarde um að útflytjendur flytji gjaldeyri heim þá fæst hann ekki fluttur vegna skulda "gömlu bankanna" erlendis. Hér er greinilega orðin hætta á að allt stíflist vegna þeirra vanhugsuðu aðgerðar Seðlabankans að setja Glitni og Landsbankann á hausinn með það í huga að þjóðnýta eigurnar upp í óhjákvæmilegar skuldbindingar á innlánum en henda öðrum skuldum eins og hverju öðru drasli gjaldþrota óreiðumanna. Hrun Kaupþings var hins vegar ekki ætlunin.

Enn fær maður á tilfinninguna að teknar séu vondar ákvarðanir á eftir öðrum vondum. Stundum vonast maður samt til að hafa rangt fyrir sér eins og t.d. núna. Neyðarlögin eru langt í frá skotheldur verknaður hafi einhver haldið að þau væru það.

Það er nefnilega ekki allt rétt sem ríkisstjórnir gera, hvorki í Bretlandi né Íslandi.


mbl.is Verða að svara til saka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málssókn á hendur breska ríkinu má mín vegna hafa forgang

Málssókn vegna þess skaða sem Gordon Brown olli íslensku þjóðinni með frystingu eigna með hryðjuverkalögum má hafa forgang.

Það er eðlilegt að gera strax kröfu á ríkisstjórn Bretlands vegna misnotkunar laga með skelfilegum afleiðingum fyrir heila þjóð eins og okkur.

Það er reyndar svo að það er næstum illmögulegt við svona aðstæður að meta endanlegar tjónatölur.

Það er örugglega ekkert upplífgandi að fylgjast með tölum kauphallarinnar þessa dagana. 


mbl.is Úrvalsvísitalan 715 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.2.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 265523

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband