Ókeypis efnahagsráðgjöf - Betri tillögur einhver?

Mér finnst við þessar aðstæður tilvalið að rifja upp þær skoðanir sem ég hef viðrað undanfarin tæp tvö ár í nærri 800 pistlum, sem flestir hafa verið um stjórnmál.

Hér koma nokkrar þeirra:

Fella niður milljarða styrki til landbúnaðarmála. Í fyrsta lagi er ekki eðlilegt að ein starfstétt njóti verndar umfram aðrar í nútímasamfélagi. Hagræðing þarf að vera í formi stækkun búa. Það er nokkuð sjálfgefið að landbúnaður verður nú samkeppnisfærari þegar gengi krónunnar hefur fallið.

Fella niður styrki til allra trúarbragða. Þjóðkirkjan verði tekinn af fjárlögum og hinir trúuðu reki þessi starfsemi eins og hver önnur hugðarefni og áhugamál. Þetta er fáránlegasta tímaskekkjan í siðuðu og upplýstu samfélagi. Hér sparast milljarðar.

Fella niður styrki til menningarmála og íþrótta fullorðinna. Fólk á sjálft að sjá um þetta. Þetta innifelur að hætta opinberum styrk til Sinfóníunnar og RÚV (sem á að selja). Hætta styrkjum til leikhúsa og annarrra stofnana sem eru niðurgreiddar af ríkinu til að fólk geti leikið sér. Það er ekki ásættanlegt að ríkið niðurgreiði leikarskap þeirra áhugamála sem njótendur vilja ekki halda uppi með sjálfsaflafé.

Hætta öllum útgjöldum til varnarmála. Þetta hefur engan tilgang lengur. Við höfum ekki lengur ráð á útgjöldum í svona huglægan ótta.

Hætta rekstri óþarfa sendiráða um allan heim og kaupa þá þjónustu hjá sendiráðum hinna norðurlandanna með t.d. einum sendifulltrúa hjá þeim.  Hér sparast milljarðar og hægt að selja talsverðar eignir.

Hætta þátttöku í NATO. Þetta sparar mörg hundruð milljóna. Auk þess er tímabært að afneita þátttöku í Íraksstríðinu og biðjast afsökunar á frumhlaupi Davíðs og Halldórs í því efni.

Breyta Íslandi í eitt kjördæmi og ganga þannig frá kosningum að fella prófkjör inn í þær og leyfa kjósendum að velja þingmenn úr öllum flokkum og gera einstaklingum kleift að bjóða sig fram án flokks. Nútíma tækni getur leyft að kosningar endurspegli raunverulegan vilja þjóðarinnar en ekki örfárra flokksleiðtoga. Þetta sparar milljarða í óraunhæfum framkvæmdum sem tengjast kjördæmapoti.

Leiðrétta eftirlaunafrumvarpið. Það sparar kannski ekki nema einhver hundruð milljóna en setur nauðsynlegt fordæmi í að siðbæta stjórnmálin.

Yfirfara og fella niður launuð nefndarstörf sem engu skila. Sem dæmi þá er forsætisráðherrafrúin á háum launum hjá byggingarnefnd spítalanna og nú þegar búið að slá af verkefnið. Þegar Geir talar um að herða sultarólina má hann líta í eigin garð með hliðsjón af þessu og eftirlaunafrumvarpinu.

Ríkið innkalli allan fiskveiðikvóta og bjóði út. Það er hefur aldrei gefist betri tími til að taka til í kvótakerfinu.

Rikið taki til baka eignaupptökuna á Varnarsvæðinu. Heyrst að ekkert hafi verið greitt ennþá fyrir eignirnar sem þá voru metnar á 30 milljarða en seldar fyrir 14 fyrir tilhlutan fjármálaráðherra til bróður síns og vina. Í tengslum við þetta er hneyksli að fjármálaráðherrann skipi stóran hluthafa í eigendahópnum í stjórn nýja Landsbankans. Honum verður væntanlega falið að láta Landsbankann aðstoða þá við að halda fengnum. Pólitísk spilling dó ekki með bankahruninu, því miður!

Með öllum þessum sparnaði er hægt að lækka skatta og fella niður tolla og gera Ísland að tollfríríki. Við eigum að hefja til vegs og virðingar algerlega haftalaus viðskipti við allar þjóðir heims, ekki bara Evrópu. Ísland hefur alla möguleika á að vera öðrum fyrirmynd þó nú syrti í álinn í bili.

Aðalhlutverk ríkisins á að vera vandaður rekstur nauðsynlegrar samfélagsþjónustu. Undir þetta falla heilbrigðis-, mennta-, félags-, trygginga- og öldrunarmál. Auk þessu rekstur löggæslu, dómskerfis og samgöngumannvirkja. Eflaust má bæta einhverjum liðum sem við teljum nauðsynlegt en eru veigaminni.

Áhuga- og dekurmál sjálfskipaðra fagurkera eiga ekkert erindi í útgöldum samfélagsins.

Hvað finnst þér? 


Thats what friends are for - Dionne & Friends

Lagið That's what friends are for sem Dionne Warwick flytur hér ásamt vinum fór í efsta sæti Bandaríska listans árið 1985. Með henni á upphaflegu upptökunni eru Stevie Wonder, Elton John og Gladys Knight. Lagið var gefið út til að afla fjár vegna stuðnings við rannsóknir á AIDS. Þessi útgáfa er hins vegar með Dionne, Stevie, Whitney Houston (frænku Dionne) og Luther Vandross og er hreint afbragð.

Vinátta er kannski eitthvað sem þarf að skerpa á þessa dagana. 


Egill Helgason varð sjálfum sér til skammar í nornaveiðum

Ef menn ætla að slá sig til riddara meðal þjóðarinnar með því að taka "útrásarvíkinga" af lífi í beinni útsendingu er betra að þeir hafi kynnt sér málin í fyrsta lagi, haldi ró sinni, hrópi ekki hálfgerð ókvæðisorð að viðmælandanum og leyfi þeim örlítið að tjá sig. Hafi maður vonast eftir því að fá svör við vitrænum spurningum þá eyðilagði Egill það með vanhæfni sinni.

Egill Helgason var svo stjórnlaus í eigin þætti að hann kvaddi Jón Ásgeir í fýlu en hélt svo áfram viðræðunni.

Nú geta menn spurt sig: Hvor fékk betri meðferð hjá RÚV: Davíð eða Jón Ásgeir? 


mbl.is Jón Ásgeir: Fær ekkert út úr sölunni á Baugsfyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The road to Hell (Part two) - Chris Rea

Ég horfði á Mamma Mia mér til skemmtunar í eftirmiðdaginn. Mæli með henni fyrir þá sem þurfa saklausa og skemmtilega upplyftingu.

The road to Hell (Part two) með Chris Rea hefur lengi verið í uppáhaldi af því að lagið er vel samið, vel flutt og flott útsett. Lagið kom út á samnefndum disk árið 1989. Titill lagsins er að sjálfsögðu í takt við tímann, kaldhæðinn assgoti... 


Áður hafði Davíð (óvart?!) knésett hina tvo bankana á undan

Það er þægilegt að benda á Gordon Brown til að finna sameiginlegan óvin. Hann hefur sannarlega áunnið sér óvild íslendinga með vanhugsuðum og ofbeldisfullum aðgerðum í skjóli hryðjuverkalaga. Ég vona innilega, okkar allra vegna, að við náum fram rétti okkar í því máli.

Orsök atburðanna byrjar samt hjá óhæfri stjórn Seðlabanka og þeirri staðreynd að Geir lét leiða þjóðina í tómt tjón með svo ótrúlega klaufalegum hætti að það verður að skoðast sem mestu stjórnunarmistök Íslandssögunnar.

Lánið sem Glitnir óskaði eftir fyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum var vegna gjalddaga 15. október næstkomandi. Óðagotið og ruglið sem Seðlabankinn dró ríkisstjórnina inn í framhaldinu hefur valdið hruni bankakerfisins, hruni á lánstrausti Íslands og trausti okkar sem þjóðar, og á eftir að draga borgarana miklu dýpra niður en lánsfjárkreppan þurfti að gera. Þetta getur maður fullyrt í ljósi þeirra frétta að íslendingum hefur staðið nægilegt fé til boða til að standa þetta af sér. Þeir nenntu bara ekki að bera sig eftir því og töldu ekkert í hættu.

Gjalddagi Glitnislánsins sem allt byrjaði á er ekki einu sinni runninn upp. Samt er Ísland algerlega rúið í skítinn efnahagslega, fjárhagslega og situr eftir virðingarlaust hálfvitaríki meðal þjóða heims.

Finnst einhverjum skrýtið að fólki verði heitt í hamsi og vilji draga mestu vitleysingana til ábyrgðar?

Dóminókubburinn sem Davíð stjakaði svo létt við er orðinn að mesta skrýmsli sem þessi þjóð hefur þurft að eiga við. Mín skoðun er sú að hefði Davíð ekki verið í Seðlabankanum hefði þjóðin ekki verið orðin gjaldþrota og rúin öllu trausti áður en kom að skuldadögum Glitnis svo hálfvitalega sem það hljómar. Á sama hátt og menn hafa sakað Geir um aðgerðarleysi þá er mér ljóst að skortur á aðgerðarleysi Davíðs kemur af stað þessari atburðarás, Geir lét hann ráða í fullkomnu skapleysi.

Gordon Brown er svo annað dæmi um mann sem heldur að það sé í góðu lagi að dangla aðeins í okkur til að afla sér vinsælda, ekki hjálpaði það. Þann skaða eigum við að sækja fyrir dómstólum.


mbl.is Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslendinga með valdníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að lögsækja ríkisstjórn breta fyrir misnotkun eigin laga?

Ég er alveg rasandi yfir því hvernig bretar hafa nú misnotað hryðjuverkalöggjöf til að klekkja á heilli þjóð vegna bankaviðskipta. Lokun Kaupþings í Bretlandi var hreint efnahagslegt hryðjuverk af þeirra hálfu og ég vil hvetja ríkisstjórnina til að hefja athugun á því að hefja skaðabótamál á hendur þeim vegna misnotkunar á hryðjuverkalögum. Það er alveg möguleiki á að þeir falli á eigin bragði.

 


mbl.is Ekki bara hryðjuverkalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk fyrir Færeyjar!

Það er alltaf gott að vita af því að, þrátt fyrir allt, eigum við aðra vini á pollinum. Færeyingar eiga sömuleiðis allt gott skilið, þeir hafa farið í gegnum sína eigin erfiðu tíma, ég man vel þeirra bankakreppu fyrir mörgum árum síðan.
mbl.is Vinarkveðja frá Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsti Pyrrhosarsigur Íslandssögunnar. Davíð sigrar að lokum!

Það verður hlutverk sagnfræðinga og annarra rannsakenda að setja saman þá ótrúlegu röð heimskulegra atvika sem hafa leitt til algjörs falls íslenska bankakerfisins og íslenska hagkerfisins nánast í heild.

Vissulega voru erfiðleikar á lánsfjármarkaði en að það skuli fella allt kerfið er með ólíkindum.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að stærsta einstaka meinið hafi verið Davíð Oddsson, sem sumir kalla gereyðingarvopn, og það sem byrjaði sem tiltölulega saklaus hrekkur af hans hálfu hefur snúist upp í eitt allsherjar geggjað hrun alls bankakerfisins og lánstrausts Íslands sem þjóðar. Hugsið ykkur, það er þó ekki sinni komið að þeim gjalddaga á Glitnislánunum sem allt dæmið byrjaði á, sem er 15. október næstkomandi.

Stærsti Pyrrhosarsigur Íslandssögunnar vannst endanlega í nótt með fullnaðarsigri. Davíð Oddssyni tókst að fella Jón Ásgeir Jóhannesson og Sigurð Einarsson eins og hann lofaði. Hann dró bara allt Ísland með sér í fallinu.

Keðjuverkunin sem af þessu hlýst er nú rétt að byrja.

Nú þurfa íslendingar hefja nýjan manndóm til vegs og virðingar á ný. Sá manndómur snýst nú um að vinna saman, hjálpa hvert öðru að lifa af en ekki að keppa í lífsgæðasukki eins og áður var.

Ég votta okkur öllum samúð mína. 


mbl.is FME yfirtekur Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin svarta framtíðarsýn - Rættist hraðar og verr!

Sumir hafa verið duglegir að benda á að þessi og hinn hafi viðhaft varnaðarorð vegna bankaþenslunnar undanfarin ár. Ég telst seint meðal þungavigtarmanna í sambandi við efnahags- eða bankamál en samt ég birti á blogginu þann 6. apríl 2007 þessa grein: Hin svarta framtíðarsýn - Hvað ef bankarnir tapa? .

Ég fékk enga sérstaka athygli vegna þessarar greinar og engar athugasemdir. Málið var einfaldlega ekki í hugum fólks á þessum tíma.

Ég finn samt til með þeim tugum þúsunda sem höfðu fjárfest í hlutabréfum í stað hefðbundinna innlána og sérstaklega þeim sem settu allt sitt í hlutabréfin. Þetta er vægast sagt ömurlegur tími.


Davíð = litla stúlkan með eldspýturnar

Ég er á því að Davíð hafi varist fimlega í Kastljósinu í gærkvöld, enda fékk hann heilan þátt sem hann stjórnaði. Sigmar kom engu að því Davíð sagði honum bara endalaust bíddu! og blaðraði út í eitt. Svo fimlegar voru röksemdafærslurnar að hann hefði getað talað ömmu sína upp úr gröfinni. Þetta kann hann manna best.

En fólki sem finnst eitthvað mikið til koma má benda á að það er auðvelt að færa rök fyrir því að hvítt sé svart og svart sé hvítt. Maðurinn sem kallaði útrásarvíkingana "óráðsíupésa" er nefnilega sá sami sem fann upp eftirlaunafrumvarpið og skipaði sjálfan sig seðlabankastjóra. Mig undrar ekki að maðurinn vaði yfir hina bankastjóra Seðlabankans og ríkisstjórnina á skítugum skónum.

Samlíking hans um að skamma slökkviliðið var alveg brilliant. Hann gleymdi því bara að hann var sjálfur litla stúlkan með eldspýturnar sem bar eld að húsinu áður en slökkviliðið kom á staðinn.

Rússagullsklúðrið hans er prívateign og ótrúlega barnalegt háttalag manns sem á að vera varkár embættismaður með lágan róm. Það var líka hneisa að hann skuli tala um erfiða stöðu Kaupþings.

Tilboð rússa og síðar norðmanna eru búin að afsanna að ekki hafi verið nægur tími til að aðstoða báða bankana ef unnið hefði verið af yfirvegun. Lánagjalddagi Glitnis er ekki einu sinni runninn upp ennþá. Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa bara verið í stjórnlausu kvíðakasti og panikki í rétt rúma viku. 

Það er mín skoðun að engum manni í íslandssögunni hefur tekist að vinna þjóð sinni jafn mikið tjón á jafn skömmum tíma og Davíð Oddsson nú. Hafi hann gert eitthvað gott á ferlinum hingað til mun það hverfa djúpt í þeim fjárhagslega drullupytt sem hann skapaði þjóðinni núna.

Til að taka af allan vafa, þá átti ég hvorki hlutabréf í Glitni né Landsbankanum. 

 


mbl.is FME tekur Glitni yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekin ósannindi - Kaupþing selur Evru á tæpa 151 krónu kl. 15.53

Það virðist fátt standa af því sem sagt er.

Lofað var að bankarnir myndu starfa með eðlilegum hætti en samt getur fólk ekki hreyft innistæður sínar og sagt að bíða.

Og fasta gengið á Evrunni sem átti að vera 131 króna er til sölu hjá Kaupþingi á kr. 150.98 skv. gengisskráningu þeirra á vefnum.

Eitthvað vantar hér verulega upp á að fyrirmælum sé hlýtt, hverju sem um er að kenna.
mbl.is Gengi krónu fest tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð eins og fíll í glervörubúð

Hvert klúðrið úr Seðlabankanum rekur nú annað. Því er haldið fram af Landsbankamönnum að harkaleg og illa grunduð yfirtaka Glitnis hafi sett Landsbankann í óþarfa vandræði vegna þess vantrausts sem hræðsluumræðan skapar. Í framhaldinu fer allt lánstraust bankakerfisins og ríkisins á hliðina í heilu lagi. Er furða að fólki sé ofboðið?

Davíð er eins og fíll í glervörubúð. Hann snýr hausnum til að hagræða smávöru í einu horninu en rekur rassgatið í allar hillur búðarinnar í leiðinni. Hvernig er hægt að sjá þetta með öðrum hætti? 


mbl.is Seðlabankastjóri: Viðræður standa yfir við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi að Eiður viðhaldi eldmóðnum til að ná árangri

Okkur veitir ekkert af gleðitíðindum á þessum síðustu og verstu.

Aldrei hefur leikið vafi á hæfileikum Eiðs Smára á knattspyrnuvellinum. Við erum hins vegar sumir sem höfum stundum efast um að hann hafi alltaf eldmóðinn sem þarf til að vera í allra fremstu röð. 

Eiður má alveg vita af því að þegar harðnar á dalnum getur hann átt sinn þátt í að lyfta andanum hjá landanum með góðri frammistöðu á vellinum. 


mbl.is Eiður Smári fær fína dóma á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðalausir, hugmyndalausir og vonlausir

Mér finnst eins og að fundahöld helgarinnar endurspegli ofangreinda fyrirsögn. Það er nefnilega að verða morgunljóst að enginn hefur hugmynd um það hvernig á að bregðast við svona ástandi.

Það hljóp styggð í fuglagerið og það veit enginn í hvaða átt hópurinn flýgur og því siður hvar og hvenær hann sest aftur. Hagfræði er þess vegna í svona ástandi bara ágiskunarvísindi eins og svo mörg önnur fræði.

Þokukennd yfirlýsing um að ná samkomulagi um HUGMYNDIR um hvernig bankarnir gætu unnið saman að því að tryggja stöðugleika í fjármálalífinu í samvinnu við ríkisstjórn og Seðlabanka hlýtur að segja okkur allt um algert ráðleysi. Ég hef á tilfinningunni að það hafi verið setið lengur við að búa til loðna orðalagið í feitletruðu setningunni en að velta upp einhverjum raunverulegum góðum ráðum. 

Milljarðar sem hafa verið settir í alls kyns bruðl og tímaskekkjur væru betur komnar í varasjóðum núna. Það er orðið tímabært að færa þetta samfélag til nútímans og fleygja út óþarfa huglægu rugli sem þjóðin getur verið án. 


mbl.is Sameiginleg aðkoma að Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háir stýrivextir og krónubréfin rústuðu krónunni

Ég er kominn á þá skoðun að hávaxtastefna Seðlabankans hafi valdið hruni krónunnar meira en annað.

Útgáfa erlendra fjármálastofnana á krónubréfum í skjóli hárra stýrivaxta hafi gert krónuna óeðlilega sterka á meðan allt lék í lyndi en valdi hruni þegar almenn tiltrú á efnahagslífið gufar upp. Þjóðnýting Glitnis bætir síðan enn í vegna þess að það fór nákvæmlega engum sögum af erfiðleikum á þeim bæ og það gerir okkur ótrúverðug í framhaldinu með hina bankana og fjármál ríkisins.

Þetta styður enn frekar þá skoðun að Seðlabankinn og stefna hans í stýrivaxtamálum sé hér mjög stór þáttur í gengishruninu. Ef ekki hefðu verið himinháir stýrivextir og þar af leiðandi svona svakaleg eftirspurn eftir krónum í spákaupmennsku útlendinga, hefði gengi krónunnar trúlega verið mun lægra og ekki komið svona þungur og illbær skellur í einu lagi eins og nú er raunin. 


mbl.is Rætt við norræna seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband