Færsluflokkur: Tónlist

Thats what friends are for - Dionne & Friends

Lagið That's what friends are for sem Dionne Warwick flytur hér ásamt vinum fór í efsta sæti Bandaríska listans árið 1985. Með henni á upphaflegu upptökunni eru Stevie Wonder, Elton John og Gladys Knight. Lagið var gefið út til að afla fjár vegna stuðnings við rannsóknir á AIDS. Þessi útgáfa er hins vegar með Dionne, Stevie, Whitney Houston (frænku Dionne) og Luther Vandross og er hreint afbragð.

Vinátta er kannski eitthvað sem þarf að skerpa á þessa dagana. 


The road to Hell (Part two) - Chris Rea

Ég horfði á Mamma Mia mér til skemmtunar í eftirmiðdaginn. Mæli með henni fyrir þá sem þurfa saklausa og skemmtilega upplyftingu.

The road to Hell (Part two) með Chris Rea hefur lengi verið í uppáhaldi af því að lagið er vel samið, vel flutt og flott útsett. Lagið kom út á samnefndum disk árið 1989. Titill lagsins er að sjálfsögðu í takt við tímann, kaldhæðinn assgoti... 


Shinedown - Second chance

Ég er ekki sérlega hrifnæmur þegar tónlist er annars vegar og sjaldnast get ég sagt að lag nái til mín á fyrstu hlustun. Ég horfði á Jay Leno í kvöld og oftast eru þar einhverjar hljómsveitir sem flytja leiðinleg lög. Aldrei þessu vant þá fannst mér þetta lag strax áhugavert og gott á fyrstu hlustun.

Shinedown er með feitlagna og yngri útgáfu af Ozzy Osbourne og tónlistin er tja... blanda af Boston og Soundgarden.  Mér til mikilla leiðinda hætti Soundgarden um það bil sem ég fór að kunna að meta þá. Ég held að Shinedown eigi eftir að meika það þokkalega. Kíkið á vefsíðuna þeirra, þar er hægt að hlusta á vænan slatta af flottum lögum.


Queen með Paul Rodgers - We will rock you / We are the champions

Freddie Mercury er floginn á vit feðra sinna (og mæðra). Eftirlifandi félaga í Queen vantaði þá söngvara til uppfyllingar og ákvaðu að biðja gömlu rokkhetjuna úr Free og Bad Company hann Paul Rodgers að hlaupa í skarðið. Það vita allir sem vilja vita að þeir eru gjörólíkir söngvarar þar sem sá síðarnefndi er blús og rokkmaður en Mercury hafði tónsvið óperusöngvara í bland. Mér finnst Paul Rodgers gera þetta mjög vel á sinn hátt alveg eins og Freddie Mercury á sinn.


Afmælisbarn dagsins: Fimmtugur Michael Jackson - Billie Jean

Þetta telja margir vera besta danslag allra tíma. Þið dæmið um það sjálf.

 


Stumblin' in - Suzi Quatro og Chris Norman (Smokie)

Maður dettur reglulega um gullmola á Youtube. Þetta lag var vinsælt árið 1978. Leðurrokkdrottningin Suzi Quatro og Smokie söngvarinn Chris Norman að mæma hið rómantíska lag Stumblin' in í sjónvarpsþætti. Á þessum tíma var ekki mikið um lifandi upptökur. (Nei það var ekkert á milli þeirra annað en að þeim þótti greinilega fyndið að þykjast syngja lagið þarna!)


New kid in town - Eagles tónleikar í Melbourne

Ég get ekki neitað því að tónlist er fíkn hjá mér. Hún er athvarfið mitt þegar ég vil komast í algerlega jákvætt umhverfi. Ef ég er ekki að spila eða syngja sjálfur vil ég hlusta á áferðarfallega og hrífandi tónlist. Helst að hún nái fram gæsahúð ef vel tekst til.

Eagles er ein af uppáhalds hljómsveitum mínum og ég trúi því að þeir myndu fylla vel Egilshöllina kæmu þeir hingað. Á plötunni Hotel California sem kom út 1976 var lagið New kid in town sem varð gríðarlega vinsælt og fór í efsta sæti bandaríska listans eins og titillag plötunnar sem allir þekkja.

Gunnar Jóhannsson spilaði fyrir okkur æskuvinina þessa plötu. Þetta er ein af örfáum plötum sem ég man hvar ég var nákvæmlega staddur þegar ég heyrði hana og sá í fyrsta skipti. Og Gunnar hélt í höndina á henni Auði sinni, þau voru nýfarin að búa. Það jaðrar við að ég muni líka hvernig stóllinn leit út sem ég sat í þá stundina.

Hér er lagið flutt á tónleikum í Melbourne í Ástralíu fyrir ekki mjög löngu síðan. (Athugið að hljóð kemur ekki inn fyrr en kynningin er búin.)


Maðurinn sem öskraði sönginn sinn - Little Richard og Good golly miss Molly

Hver í veröldinni gæti hafa haft bæði Bítlana og Rolling Stones sem upphitunarhljómsveitir og haft Jimi Hendrix sem óbreyttan hljómsveitarmeðlim í sveit sinni?

Það er eiginlega óborganlegt hvað Littlie Richard er svakalega mikil stórstjarna. Þegar ég var púki öskraði hann lögin sín í útvarp og ég skyldi ekki hvernig maðurinn gat komist upp með slíkan dónaskap! Hann öskraði samt svolítið flott fannst manni.

Little Richard er 75 ára og er ennþá að. Búinn að fara í gegnum feril sinn dragandi á eftir sér að vera svartur, hommi og drykkjusjúkur prestur. Í þessu myndskeiði tekur hann Good golly miss Molly á sinn kraftmikla hátt. Þetta leikur enginn eftir... ENGINN!

 


Sunrise - Uriah Heep á tónleikum í Japan 1973

1973 var ég tiltölulega nýkominn með bílpróf og farinn að fara á rúntinn með nýja Sony bílsegulbandið mitt í gamla en nýuppgerða rauða '59 Voffanum mínum. Þetta var eitt fyrsta kassettubandið sem gat spilað báðum megin þ.e. hafði Auto-Reverse. Þetta hljómar kjánalega nú en var ótrúlega flott á þessum tíma. Ég var nefnilega talsvert öfundaður af þessu tæki. Ég er nokkurn veginn viss um að 70% af spilatímanum í bílnum hafi verið undirlagt af uppáhaldshljómsveit minni á þessum tíma: Uriah Heep. Þeir áttu mjög góðan tíma þegar þeir gáfu út plöturnar Demons & Wizards og Magicians Birthday.

Hér eru þeir með sína bestu liðsuppstillingu á tónleikum í Japan: David Byron, Ken Hensley, Mick Box, Gary Thain og Lee Kerslake. Lagið er Sunrise. 

 


Líklegur spilalisti Eric Clapton í Egilshöll

Eric Clapton ("....... is God") er væntanlegur í Egilshöll n.k. föstudag 8. ágúst og þá verður það annar konsertinn hans eftir að hann tók sér mánaðarfrí eftir síðasta gigg í Leeds 29. júní s.l.

Hann spilar í Bergen á miðvikudaginn 6. ágúst áður en hann kemur hingað.

Þetta var spilalistinn hans og félaga í Leeds og þetta er nokkurn veginn það sem má búast við að hann spili í Egilshöllinni með einhverjum smávægilegum breytingum.

  • 01. Tell The Truth
    02. Key To The Highway
    03. Hoochie Coochie Man
    04. Isn't It A Pity
    05. Outside Woman Blues
    06. Here But I'm Gone
    07. Why Does Love Got To Be So Sad
    08. Driftin'
    09. Rockin' Chair
    10. Motherless Child
    11. Travellin' Riverside Blues
    12. Running On Faith
    13. Motherless Children
    14. Little Queen of Spades
    15. Before You Accuse Me
    16. Wonderful Tonight
    17. Layla
    18. Cocaine
  • Uppklappslag:
    19. I've Got My Mojo Working

Mér finnst þessi spilalisti ekki falla alveg að mínum smekk, finnst vanta rjómann úr Cream tímabilinu svo sem eins og Sunshine of your love, White Room, Crossroads, Badge auk nýrri flottra laga eins og Change the world og My fathers eyes.

Eins og með svo margt annað tjóir lítt að deila um smekksatriði eins og og það hvaða 20 lög maður vill fá á Clapton tónleikum.

Ég efast raunar ekkert um að gamla goðinu muni ekki takast að gleðja landann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 264892

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband