Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Viltu vera mamman mín?

Setjið ykkur í spor munaðarlausa barnsins með sultardropann í nefinu sem mænir á vel klædda sjálfsörugga konu og segir "Viltu vera mamman mín"?

Þessi mynd kom upp í hugann þegar ég fór að velta fyrir mér af hverju svo margir íslendingar vilji ganga í Evrópusambandið. Ég fæst ekki með nokkru móti til að skilja þetta í ljósi þeirrar stöðu að við eigum að vera nú orðið ein ríkasta þjóð í heimi (miðað við fræga höfðatölu) og aðeins norðmenn séu okkur ríkari á þessu heimssvæði. Eru norðmenn í ESB? Nei, en þeir eiga olíu sem við eigum ekki og hafa safnað afrakstri olíuvinnslunnar í mikla sjóði.

Hvers vegna skyldu íslendingar þá vilja í ESB? Eftir því sem ég fæ best séð þá eru einhverjir með væntingar um að með aðild fáum við lægra matarverð. Samt hefur enginn getað skýrt út fyrir mér með hvaða hætti ESB lækkar matarverð með aðferðum sem við getum ekki framkvæmt upp á eigin spýtur.

Sumir segja að vextir lækki. Hvernig? Vextir lækka ekki með tilskipun frá ESB. Hvernig lækka þá vextir? ESB skipar ekki erlendum bönkum að hefja samkeppni við þá íslensku eða hvað?

Henda krónunni og taka upp Euro (má ekki kalla annað skv. tilskipun ESB). Það bannar okkur enginn að nota Euro ef okkur sýnist svo. Krónan hefur samt aldrei staðið sig betur á minn lífsfæddri ævi. Aldrei voru svona háværar raddir um að leggja krónuna þegar hún var áratugum saman í frjálsu gengisfalli. Menn skúruðu bara af henni nokkur núll til að snyrta hana til og héldu bara áfram.

Lög ESB eru hvort eð að stórum hluta í gildi hér vegna EES samningsins. Só! Er ekki allt í lagi að nota góð lög og hugmyndir ef það gagnast okkur. Þurfum við að afsala okkur sjálfstæðinu til þess?  Það er ekki höfundarréttur á lögum þannig að okkur er frjálst að nota þær góðu hugmyndir sem útlendingar fá, jafnvel þó þær komi frá ESB. Samt ber okkur ekki skylda til að ganga í ESB.

Það eru veruleg efnahagsleg hættumerki framundan hjá íslenskri þjóð. Í kjölfar sölu bankanna hefur einkaneysla farið úr öllu hófi og skýrist best á ævintýralegri hækkun fasteigna sem hækka aðallega vegna aukins lánaframboðs. Það er veruleg hætta á að við töpum sjálfstæði okkar ef við einkavæðum að fullu fiskimið og orkufyrirtækin. Um leið og einkavæðing hefur átt sér stað er ekkert sem hindrar að við missum þessar þjóðarauðlindir í hendur útlendinga. Við getum meira að segja búist við því að álrisarnir eignist orkuverin okkar. Er það framtíðarsýn fyrir þig?

Ég fullyrði að þá verðum við mun verr sett en nú.

Ég vil ekki ESB sem nýju mömmuna mína. En það er opið fyrir athugasemdir, líka fyrir þá sem vilja aðild. Mér greinilega veitir ekkert af duglegri innrætingu frá þeim miðað við andstöðu mína!


Alþingi: Innan við hálft starf - Meira en full laun!

Um miðjan janúar fann ég að því að Alþingi ætti að taka upp nútíma vinnubrögð.

Á síðasta ári var talið að Alþingi hefði starfað 181 dag af 365, eða um það bil hálft ár. Á þessu ári ætla þeir samt að bæta um betur. Alþingi byrjaði að funda 15. janúar á þessu ári og er því búið með 60 daga. Ef þing verður sett í haust skv. venju er farið af stað í byrjun október og þá má búast við þinghaldi til 10. desember sé tekið mið af þörfum þingmanna fyrir jólaleyfi. Það verða þá 70 dagar í haust.

Skv. þessu starfar þingið í samtals 130 daga á þessu ári. Fyrir þetta fá þingmenn full laun.

Undrar nokkurn að vinnubrögð Alþingis séu í samræmi við þetta vinnuframlag? Undrar einhvern að eftirliti Alþingis með fjárveitingum og fjárnotkun sé í samræmi við þetta vinnuframlag?  Undrar nokkurn að æðstu stjórnendur þessa lands eru að koma landsgæðum okkar allra í formi fiskveiðiréttinda, orkufyrirtækja og allra fjármálastofnana í hendur örfárra einkavina í skjóli vinnuleti?  Hvað ætlum við, almenningur á Íslandi að fá að ráð miklu um okkar framtíð? Erum við tilbúin að fórna starfi margra fyrri kynsólða í uppbyggingu íslensks samfélags í hendur örfárra auðmanna? Undrar einhvern að virðing almennings fyrir hinu "háa" Alþingi sé orðin lítil?

Er enginn þingmaður á Alþingi sem skammast sín fyrir svona vinnuframlag? Hvað höfum við eiginlega kosið yfir okkur? Og ætlum við að kjósa svona aftur? 


Á að lögsækja ríkið fyrir eiturbyrlun?

Það situr í mínu minni að kennarinn minn í barnaskóla, líklega Þórhallur Runólfsson, hafi sýnt okkur kvikmynd sem fjallaði um skaðsemi reykinga. Hér var um að ræða umfjöllun sem sýndi óumdeilt að reykingar væru stórhættulegar. Sýnd voru óhugnanleg myndskeið af sundurskornum lungum fullum af tjöruóþverranum og útbíuð í ógeðslegum krabbameinsæxlum. Síðan eru liðin 40 ár.

Þrátt fyrir þennan óhugnað varð mörgum okkar ekki forðað frá tóbakinu. Sumpart og mest vegna áróðurs í auglýsingum og upphafningu þess að reykingar væru töff og fínar. Og unglingar hópuðust að reykja til að passa inn í normið.

Nú þykir ekki lengur umdeilt að reykingar séu hættulegar, drepi fólk úr krabbameinum, hjartasjúkdómum og valdi fólki lamandi lungnaþembu og ýmsu öðrum kvillum sem of langt er að telja. Stutta útgáfan af þessu er að reykingar drepa og valda tjóni á alla lund. Það fer því ekkert á milli mála að hér eru um eitur að ræða.

Eftir situr samt hin ótrúlega tímaskekkja og ranghugsun að helsti dreifiaðili eitursins er stofnun á vegum ríkisins sem nefnist Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Hún hefur meira að segja einkarétt á sölunni, okrar á henni í skjóli einokunar og hefur þessi eitursala alltaf verið ein af drýgstu tekjulindum ríkissjóðs.

Það tók undirritaðan langan tíma og mikinn viljastyrk að losna úr viðjum tóbaksins. Enn eru tugþúsundir íslendinga fastir í þessum tilgangslausa vana og komast ekki frá honum. Skortir viljastyrk. Tóbaksframleiðendur hafa líka aukið nikótínmagn í vörum sínum til að gera fíklunum þetta ennþá erfiðara að losna. Ég hélt að vísvitandi eiturbyrlun bryti í bága við einhver hegningarlög eða hvað?

Hvenær ætla íslendingar að vakna til vitundar um það að ábyrgir aðilar hjá rikisvaldinu eigi alls ekki að eitra skipulega fyrir þegnum sínum? Af hverju sækir enginn ríkið til ábyrgðar á heilsubresti sínum vegna tóbaksins? Hvernig getum við litið svo á að stjórnmálamenn séu trúverðugir um velferð og heilsu almennings á meðan þeir beinlínis styðja eiturbyrlun af þessu tagi?


Mótmælum í næstu kosningum

Ég hef aldrei fílað mótmæli á götum. Hef alltaf einhvern vegin litið svo að mótmælagöngur séu bara fyrir fýlupúka og óánægjulið í einhverju bölvuðu þunglyndiskasti og ólund.  Oft fannst mér líka að ástæðurnar fyrir mótmælunum fyrir litlar sem engar og fólk væri bara að koma sér upp tilefni til að koma saman to tsjilla.

Íraksstríðið er annað mál. Ég skal hafa mikla samúð með mótmælagöngum. Ég held samt að bestu mótmælin gegn þessu óláns- og hörmungarstríði er að kjósa ekki Sjálla og Frammara í næstu kosningum. Þó svo að formenn þessara flokka hafa hrökklast útúr pólitíkinni (kannski sumpart vegna þessa máls) þá eru samflokksmenn þeirra samábyrgir þar sem þeir lyftu ekki litlafingri í mómælaskyni við þennan dómgreindarbrest foringjanna og sýndu að þeir kunnu bara eitt í pólitíkinni: Að hlýða foringjanum skilyrðislaust án þess að mögla!

Í næstu kosningum getur fólk sýnt vilja sinn í verki og mótmælt með atkvæði sínu. 


mbl.is Búist við fjölmennum mótmælum gegn Íraksstríði í New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar þjóðin að afsala sér öllum rétti til fisks á Íslandsmiðum?

Þvættingurinn á milli stjórnarflokkanna um auðlindaákvæðið sýndi um stund þá ógeðfelldu hlið sem birtist í viðtali við einn forkólfa LÍÚ í húsakynnum Alþingis. Hún er sem sé sú að hann stóð keikur fyrir framan myndavélarnar og sagði blákalt að þeir "ættu" fiskikvótana og það þýddi lítið að eiga við þetta úr þessu. Allar tilraunir í þá veru væru dæmdar til að mistakast.

Þetta er ögrun svo vægt sé til orða tekið.

Hvenær ætlar fólk að vakna? Á maður að trúa því að óreyndu að almenningur í þessu landi ætli að láta skósveina LÍÚ á Alþingi og í ríkisstjórn að komast upp með þetta? Þessu verður ekki forðað nema að senda mönnum skilaboð með því að kjósa ekki áframhaldandi einkavinavæðingu. Það þýðir einfaldlega að gefa Sjálfstæðismönnum og Framsóknarmönnum kærkomið frí frá stjórnarþátttöku.

Áframhaldandi einkavinavæðing er síðan Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki. Í guðanna bænum, fólk, farið að hugsa! 


Árin, sagan og rúmið

Þessi barst mér eftir vafasömum krókaleiðum. Fínn fyrir helgina:

  •  8 ára: Þú lætur hana fara í rúmið og segir henni sögu.
  • 18 ára: Þú segir henni sögu og ferð með henni í rúmið.
  • 28 ára: Þú þarft ekkert að segja neina sögu, ferð bara með henni í rúmið.
  • 38 ára: Hún segir þér sögu og fer með þig í rúmið.
  • 48 ára: Hún segir þér sögu til að losna við að fara með þig í rúmið.
  • 58 ára: Þú hangir í rúminu til að losna við sögurnar hennar.
  • 68 ára: Ef þú ferð með henni í rúmið er það bara saga til næsta bæjar!
  • 78 ára: Hvaða saga? Hvaða rúm? Hver í helvítinu ert þú?
Góða helgi!


Engir skrýtnir fundir þegar lánshæfismatið hækkaði eða hvað?

Dæmigerð fýla hér á ferðinni. Niðurstöður eru mönnum ekki að skapi og þá á að gera matsfyrirtækið tortryggilegt.

Ég man ekki eftir því að mönnum hafi þótt skýringar Fitch Ratings neitt sérstaklega skrýtnar þegar lánshæfismat var hækkað eða hvað?

 


mbl.is Segir símafund með fulltrúum Fitch hafa verið skrítinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er dómurinn í stærsta þjófnaðarmáli Íslandssögunnar

Það var svo sem ekki við öðru að búast. Það er með ólíkindum að ekki skuli vera hægt að sækja til ábyrgðar menn sem eru ábyrgir fyrir stærsta þjófnaðarmál sögunnar og játningar lágu fyrir og þessir menn afsökuðu sig frammi fyrir þjóðinni. Var afsökunarbeiðnin bara talin nægjanleg?

Á sama tíma er öllu afli stjórnvalda á dómskerfinu beitt gagnvart Baugsliðinu með engum árangri. Þar virðist ekkert bitastætt að finna en samt er málum haldið til streitu að því er virðist af tómu hatri og óvild í garð samkeppnisaðila gamla kolkrabbans.

Spilling á Íslandi... held ekki! 


mbl.is Ákæru á hendur forstjóra olíufélaga vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsagnarfölsun á engum niðurstöðum

Ef samtök iðnaðarins vilja blekkja almenning í þá veru að flestir vilji að við gerumst aðilar að Evrópusambandinu þá eiga þeir hinir sömu að sleppa því að birta allar niðurstöðurnar. Málið er nefnilega að það skín í gegnum könnunina þeirra, sem hægt er að nálgast með fréttinni, að það er ekki nokkur einasta niðurstaða þarna.

Ég myndi ekki treysta mér til að fullyrða neitt um það hvað þjóðin vill. Enda þykist ég vita það sem flestir vita og það er það að vita ekkert í alvöru hvað aðild að Evrópusambandinu í raun þýðir.

 


mbl.is 57,9% hlynnt aðildarviðræðum við Evrópusambandið samkvæmt könnun SI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiríkur Bergmann: Svona gerir maður ekki

Eíríkur Bergmann er helsti stuðningsmaður aðildar íslendinga að ESB. Hann er helsti talsmaður Samfylkingarinnar í þeim málum. Hann er gjarnan tilkallaður þegar ræða á slík mál í fjölmiðlum. Hann er líka dósent við háskólann á Bifröst með hinn glæsilega titil "forstöðumaður Evrópufræðaseturs" ef ég man þetta rétt.

Hann vill láta taka sig alvarlega og er ábúðarmikill í umræðu sinni öllu jöfnu.

Þar sem hann lokar á athugasemdir á blogginu sínu þá verð ég víst að koma því á framfæri sjálfur að mér finnst hann smekklaus að uppnefna pólitíska andstæðinga sína á bloggsíðunni. Ég ætla ekki einu sinni að gera honum það til geðs að hafa það eftir honum. Eigi þetta að vera spaug þá er það misheppnað sem slíkt.

Ég var farinn að búa mig undir hugsanlega málefnalega rökræðu við hann um Evrópumál en veit ekki hvort hann sé manni samboðinn ef hann uppnefnir þá sem honum eru ekki sammála. Hann gæti til að mynda líkt mér við Hitler ef því er að skipta og það myndi mér bara hreint ekkert líka! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband