Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Má þjófgera fólk bæði fyrirfram og eftirá?

Istorrent málið er mörgum hugleikið. Ekki ætla ég að verja neinn í því máli. Hins vegar eru stjórnvöld og rétthafar með ýmislegt á gráu svæði þegar kemur að höfundarréttarmálum.

Staðreyndin er sú að ónotaðir miðlar eins og CD-R og DVD-R diskar eru skattlagðir við innflutning fyrirfram og þau gjöld eru færð til STEFS sem úthlutar þeim til sinna félagsmanna.

STEF skilar ekki erlendum rétthöfum höfundargjöldum í samræmi við sölu eða dreifingu. Heldur eru gjöld frá Íslandi sett í sameiginlegan pott NCB (Nordisk Copyright Bureau) ef ég man þetta rétt.

Ég átti í tölvusamskiptum við Björn Bjarnason ráðherra á sínum tíma þar sem ég og aðrir "netverjar" töldum að ekki væri hægt að höfundar og rétthafar á tónlist gætu skattlagt miðil sem notaður er til afritunar á allt öðrum tölvugögnum, myndum, bókhaldi og öðru sem kemur tónlist nákvæmlega ekkert við.

Þó ég stæði í því að flytja in geisladiska til framleiðslu á efni sem engin vafi léki á um höfundarrétt var því ekki við komið að fá þessi gjöld felld niður sem eru 17 kr á hvern óskrifaðan CD disk. Þessi skattur ríkisins fyrir hönd STEFS er 5 krónum hærri heldur en algengt innkaupsverð disksins er hjá framleiðendum. DVD-R diskar eru skattlagðir um 35 krónur ef ég man rétt.

Þegar innflutningsskattlagning af þessu tagi er sett á með þeirri réttlætingu að vega upp höfundarréttarbrot má segja með þó nokkrum rökum að búið sé að greiða fyrirfram sektina fyrir ólöglegu niðurhali á tónlist og myndum. Ef þú ert sektaður fyrirfram er þá eitthvert réttlæti fólgið í því að vera líka sektaður eftirá?

Við getum ekki endalaust búið við bull í lagasetningu. Hið eina rétta er að hætta að þjófkenna alla með fyrirfram sekt eins og nú er gert. Rétthafar á tónlist og bíómyndum verði að búa við það að finna hvern og einn þjóf eins og aðrir í samfélaginu þurfi að búa við. Manni finnst það lítið jafnræði að sumir geti notið aðstoðar ríkisins við að tryggja tekjuöflun sína en ekki aðrir. Það er líka visst ógeð að vita til þess að STEF úhlutar til sinna félaga með geðþóttaaðferðum sem enginn fær að sjá. Erlendir rétthafar eru skipulega sniðgengnir.


Breytið orðinu þingsköp í þingtittlinga

Ég tel tímabært að nú sé kominn tími á að karlkenna orðið þingsköp og kalla nú framvegis þingtittlinga. Þessi tillaga er til að viðhalda því að kynjaskipting í orðavali haldi áfram að vera í jafnvægi.

Nýlegar tillögur Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um orðið ráðherra og Kolbrúnar Halldórsdóttur um bleikt og blátt á spítölum fá mann til að spá í hvort fela eigi valdaminni starfsmönnum Alþingis það vald að sía út ýmis lítt ígrunduð þingmál lítt hugsandi þingmanna sem nú sólunda dýrum tíma Alþingis.

Mér finnst það eiginlega synd, þar sem ég er stundum sagður vera umtalsverð karlremba (kvk.orð), að þessi mikilvægu þingmál komi frá þingkonum.


Heil vika á golfvöllum Spánar

Ég og Arnar fórum í viku golfferð til Spánar. Af þeim sökum hef ég ekki nennt að setja niður einn einasta punkt í bloggið, ákvað að gefa því líka frí á meðan þó ég hefði aðstöðu til þess alla ferðina.

Ferðin tókst í alla staði vel og við vorum meira að segja svo heppnir að rigningarspárnar höguðu sér þannig að rigna áður en við byrjuðum 4 og hálfan tíma (18 holur) hring og síðan bara þegar við höfðum lokið leik. Þannig gekk það í fjóra daga í röð.

Við spiluðum þrjá velli nálægt Torrevieja. Villamartin völlurinn er slæmur og varla boðlegt að rukka þar fullt gjald. Þar er mikil vinna í gangi og búið að klessa öllum teigum á rautt og jafnvel færa þá framfyrir rauða teiga. La Finca nálægt Algorfa er 4ra ára gamall og er stór, breiður og glæsilegur í alla staði. Hann er erfiður á fótinn. Þarna er umhirða gjörólík Villamartin sem er þó í eigu sömu aðila. Las Ramblas völlurinn er mjög fallegur og þokkalega hirtur. Þar er verið að byggja nýtt klúbbhús og því erfitt að finna afgreiðsluna í fyrstu. Þarna er mikið landslag og því mjög gaman að labba þennan völl. Brautirnar eru líka skemmtilega fjölbreyttar. Campoamor völlinn fórum við ekki vegna þess orðspors sem fer af honum núna þ.e. að hann sé í óboðlegu ástandi. Við keyrðum þó á svæðið og því verður ekki neitað að umhverfi hans er mjög glæsilegt.

Pabbi og mamma tóku mjög vel á móti okkur og gistum við hjá þeim þessa viku í yfirlæti sem hæfði a.m.k. 6 stjörnu hóteli!

Eftir stendur að ekkert plagaði mann í þessari ferð nema á köflum eigið getuleysi í þessari íþrótt. Ég er hvorki fyrsti né síðasti maðurinn til að þurfa þola þá staðreynd.


Spillt einkavinavæðing Sjálfstæðismanna ekki fréttnæm hjá Morgunblaðinu

Þessi frétt Fréttablaðsins/Vísis þykir ekki hafa fréttagildi hjá Mogganum:

Gæti hagnast um milljarða á fasteignakaupum á Vellinum

Fyrirtæki í eigu bróður fjármálaráðherra gæti hagnast um milljarða á umdeildum fasteignakaupum á Keflavíkurflugvelli.

Hér er um að ræða að fyrirtækjasamsteypa að stórum hluta í eigu Þorgils Óttars Mathiesen er að kaupa stóran hluta fasteigna á Keflavíkurflugvelli á u.þ.b. hálfvirði. Allt er þetta framkvæmt án þess að bjóða nokkurn skapaðan hlut út í þessu máli. Dettur einhverjum í hug að fjármálaráðherra hafi ekki átt sinn þátt í að koma þessum viðskiptum til skila á réttan hátt?

Hvenær fáum við nóg af þessu? Þessar eignir renna áreynslulaust í vasa einkavina Sjálfstæðisflokksins eins og svo margar aðrar.

Menn hafa verið duglegir að nudda Framsóknarflokknum upp úr sinni spillingu, halda menn að íhaldið sé hótinu betra?


Barnauppeldi fært til Alþingis

Sumt af því sem okkar kjörnu fulltrúar á Alþingi taka sér fyrir hendur er í hæsta máta undarlegt og skrýtið.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir freistar þess nú að forða pirruðum foreldrum frá nöldri heimtufrekra krakka sinna með því að banna auglýsingar á því sem krakkar sífra og væla um. Þetta er formáli þingskjals nr. 47:

"Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að kanna grundvöll fyrir setningu reglna um takmörkun auglýsinga matvöru sem beint er að börnum ef matvaran inniheldur mikla fitu, sykur eða salt, með það að markmiði að sporna við offitu, einkum meðal barna og ungmenna. Ráðherra leitist í þessu skyni m.a. við að ná samstöðu með framleiðendum, innflytjendum og auglýsendum um að þessar vörur verði ekki auglýstar í sjónvarpi þegar barnaefni er á dagskrá og þá ekki fyrr en eftir klukkan níu á kvöldin."

Ég held að þingmaðurinn sé vel meinandi en samt finnst mér eins og það sé margt þarfara að gera á þessum vinnustað heldur en að standa í því að láta Alþingi taka að sér barnauppeldi með aukinni og sérkennilegri forræðishyggju.


Ekkert í húfi - Hvers vegna taka áhættuna?

Eiður er að reyna að vinna sér sæti í liðinu sem borgar honum háu launin. Ég tel nokkuð augljóst að hann taki ekki áhættu með leik sem er nánast eins og vináttuleikur. Því ekki hefur hann neina þýðingu úr því sem komið er.

Nú kann einhver að spyrja hvort hann hafi ekki stolt? Hann hefur það sjálfsagt en það hljóta að vera takmörk fyrir því hvaða áhættu menn taka gagnvart vinnuveitanda sínum. Ekki væri ég heldur hissa þó hann hefði verið beittur sams konar þrýstingi og þegar Barcelona meinaði honum að taka þátt í landsleiknum gegn Spáni. Það var hins vegar hneyksli.

Ef aðrar ástæður en ofangreindar væru hér að baki gæti hann sagt það bara hreint út, en ekki þegar um er að ræða yfirgang vinnuveitanda sem á skv. öllum fótboltareglum og hefðum að sleppa honum í landsleiki. Sá sannleikur þolir ekki opna umræðu.


mbl.is Eiður: „Ákvörðunin hefur ekkert með þjálfarann að gera“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða hálfvitar trúa því að menn fagni húsleit af þessu tagi?

Við erum mörg eldri en tvævetra eins og sagt er.

Framkvæmdastjórar Bónuss og Krónunnar hafa stamað, svitnað,  hóstað og þvælt svo mikið í viðtölum að annað eins hefur ekki sést síðan Alfreð Þorsteinsson var í sem mestum vandræðum með að ljúga sig frá vandræðagangi Línu.net á sínum tíma.

Öll ofangreind einkenni ásamt þurrum límkenndum vörum eru dæmin um það þegar menn eru að ljúga blákalt. Í þessari stöðu eru þessir háttlaunuðu starfsmenn aumkvunarverðir aular. En þeir vita sem er að þeir þurfa bara að ljúga í smá tíma og svo geta þeir haldið áfram að gera það sem þeir hafa alltaf verið að gera: Víla, díla, blekkja, skekkja, breyta, skreyta, smjúga, ljúga o.s.frv.

Það sem er verst að þetta hefur nákvæmlega engar afleiðingar. Fólk er svo fljótt að gleyma og það getur hvort eð er ekki verslað annars staðar. Verslun í landinu er kominn á svo fáar hendur. En þetta er samt ekkert verra en annars staðar í heiminum. Við erum hvorki betri né verri en aðrar þjóðir í þessum efnum. 


mbl.is Samkeppniseftirlitið gerir húsleit hjá Bónus og Krónunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gátu keypt frá sér óléttuleiðindin!

Dennis Quaid er af minni kynslóð og ég get einhvern vegin ekki öfundað hann af því að sturta sér í smábarnapakkann þegar því á að vera lokið ef allt er eðlilegt. Flestar konur eru hættar að eiga börn talsvert fyrir fimmtugt, en því er öðruvísi farið þegar menn yngja upp konurnar í eitthvað tuttugu árum yngra með bullandi eggjahljóði.

Mikið var það sniðugt hjá þeim að forða frúnni frá morgunógleði, fitusöfnun, bjúg, hugsanlegri meðgöngueitrun, hækkuðum blóðþrýstingi, bakverkjum og öðrum leiðindum sem mögulega fylgja svona óléttu. Að ég tala ekki um aukið álag vegna tvíbura.

Konan keypti sig sem sagt frá þeirri reynslu sem er endalaus uppspretta samræðna meðal mæðra og konugreyið kveikir ekki á því að hún verður líklega utanveltu meðal annarra mæðra sem upplifa sjálfar meðgönguna. Þegar frá líður er ég ekki endilega viss um að það hafi verið góð kaup í aðkeypta meðgönguhýslinum.


mbl.is Dennis Quaid og frú eignuðust tvíbura sem önnur kona gekk með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef Ísland yrði núllstillt - Hvað yrði örugglega öðruvísi?

Ég fékk hvasst tiltal frá einum félaga mínum í Badmintonu fyrir að kalla bændur "verndaða" stétt. Var hann klár á því að bændur væru stórlega hlunnfarnir í samfélaginu og lýsti auk þessi þeirri skoðun sinni að land sem ekki framleiddi "eigin" matvæli væri ekki alvöru samfélag. Ég var nú ekki sammála þessu en það fékk mig samt til að hugsa að bændur eru ekkert ofsaddir af sínum kjörum þrátt fyrir að við kvörtum hástöfum yfir matarverðinu.

Eru bændur ábyrgir að hluta fyrir matarokrinu á Íslandi? Eða eru þeir frekar fórnarlömb vandræðalegra breytinga á þessum síðustu og verstu tímum. Þessi umræða okkar félaganna fékk mig til að hugsa þetta allt í ennþá stærra samhengi.

Hvað ef Ísland væri óbyggt og við værum að hefja hér búsetu með 300.000 manns? Setjum sem svo að við hefðum peninga til að byggja og skipuleggja að vild, hvað yrði þá frábrugðið því sem nú er?

Mig langar að leggja upp fáein atriði og þætti gaman að fá sýn annarra á þessa ógáfulegu umræðu.

Hefst þá upptalningin eins og ég sé þetta:

Reykjavík yrði líkast til ekki aðal byggðakjarninn. Hann yrði líklegast á svæðinu í kringum Egilsstaði. Hvers vegna? Jú Egilsstaðir er á land- og jarðfræðilega rólegu svæði. Þarna er lítil hætta á stórum jarðskjálftum og þetta er ekki eldvirkt svæði. Ennfremur er ekki flóðahætta frá hafi ef um jarðskjálfta væri að ræða þar. Veðurfar á Austurlandi er trúlega betra í það heila tekið heldur en á suðvestur horninu.

Stórir byggðakjarnar í landinu yrðu líkast til þrír. Vestfirðir yrðu trúlega eingöngu með eina verstöð vegna nálægðar við fiskimið. Ég sé ekki fyrir mér bestu staðsetninguna, þó trúlega framarlega í Arnarfirði sem væri nokkuð miðsvæðis.

Trúlega yrði stærsti byggðakjarninn vestanlands á svæðinu á milli Akraness og Borgarness.

Norðanlands er Aðaldalur og svæðið að Húsavík trúlega best til þess fallið að vera með stóran byggðakjarna, frekar en Eyjafjörður. Þar er meira samfellt láglendi. 

Við myndum ekki vera með þjóðkirkju. Það sæi enginn ástæðu til þess. Trúmál yrðu einkamál.

Það væri ekkert Ríkisútvarp, engin sinfóníuhljómsveit og enginn Seðlabanki.  Gjaldmiðillinn væri Evra. Við yrðum samt ekki hluti af ESB. Til þess væri landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna okkar t.d. of gáfuleg fyrir þá!

Við værum tollfrítt ríki. Hér væru engin höft á flutningum á vörum nema þeirri sem almennt  væru bannaðar. Það gæfi tilefni til að vera hér með dreifimiðstöðvar fyrir bæði Ameríku og Evrópu. 

Það væru engin umdeild eftirlaun stjórnmálamanna.

Allur veiðkvóti væri boðin út til hæstbjóðenda. Það ætti engin kvóta.

Þó ég vilji opinbera eigu orkuauðlinda sé ég ekki fyrir mér hvernig því máli yrði háttar í þessari núllstillingu. 

Meirihluti þjóðarinnar væri trúlega sammála um að reka öflugt sameiginlegt heilsu- félags- og tryggingakerfi. Einnig menntastofnanir. Um nánast alla aðra menningar- og afþreyingarstarfsemi myndi ríkja sátt um að fólk notaði til þess sjálfsaflafé og myndaði til þess frjáls samtök um áhugamál sín, enda væru skattar lægri vegna minni miðstýringu ríkisvalds.

Stjórnsýslan yrði bara á einu stigi. Engin sveitarfélög væru rekin. Allar ákvarðanir um uppbyggingu byggðakjarna og samgöngur þeirra á milli væri teknar á þjóðhagslegum grunni. Þetta sparar að sjálfsögðu kostnað við rekstur óþarfs stjórnsýslustigs og hendir sjálfkrafa burtu öllum málum sem nú þvælast á milli ríkis og sveitarfélaga öllum til leiðinda og ama. Landið yrði eitt kjördæmi í kosningum og þingmannafjöldi trúlega undir 40 og ráðherrar 4-5. Hversu mikla stjórn þarf á 300.000 manns ef grunnurinn er skynsamari en nú er?

Nú má spyrja: Hvers vegna er þessu velt upp núna? Jú, tilgangurinn er sá að reyna að sjá hvernig við myndum reka íslenskt samfélag öðruvísi ef það væri ekki gegnsýrt af tímaskekkjum, ranglátri skiptingu auðlinda, og þeirri staðreynd að stjórnmálamenn og þrýstihópar nota gamlar vitleysur til að réttlæta endalaust nýjar vitleysur.

Hér hætti ég upptalningunni minni. Hvað finnst þér?


Veit maðurinn ekkert hvað á að gera við peningana núna?

Ég á ekki orð yfir þennan fíflagang í fjármálum.

Forsætisráðherra er ekki fyrr búinn að koma konunni sinni fyrir í feitu nefndarstarfi og þá bætist þetta við í ofanálag.

Þessari sjálftöku og mútum í sambandi við "störf" á vegum opinberra aðila verður að linna. Það kemur nákvæmlega ekkert út úr þessu nefndarrugli annað en að einkavinir forsætisráðherrans fá peninga út úr samfélagsbuddunni og reitir almenning til reiði vegna bruðls. Mönnum er steinhætt að vera sjálfrátt í sóuninni á almannafé.

Það kemur að því að góðlegt bangsaandlit forsætisráðherrans fái sama blæ og góðlegt stráksandlitið á Bjarna Ármannssyni. Græðgi þessara manna eru engin takmörk sett.


mbl.is Forsætisráðherra skipar nefnd um ímynd Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 265495

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband