Ef Ísland yrði núllstillt - Hvað yrði örugglega öðruvísi?

Ég fékk hvasst tiltal frá einum félaga mínum í Badmintonu fyrir að kalla bændur "verndaða" stétt. Var hann klár á því að bændur væru stórlega hlunnfarnir í samfélaginu og lýsti auk þessi þeirri skoðun sinni að land sem ekki framleiddi "eigin" matvæli væri ekki alvöru samfélag. Ég var nú ekki sammála þessu en það fékk mig samt til að hugsa að bændur eru ekkert ofsaddir af sínum kjörum þrátt fyrir að við kvörtum hástöfum yfir matarverðinu.

Eru bændur ábyrgir að hluta fyrir matarokrinu á Íslandi? Eða eru þeir frekar fórnarlömb vandræðalegra breytinga á þessum síðustu og verstu tímum. Þessi umræða okkar félaganna fékk mig til að hugsa þetta allt í ennþá stærra samhengi.

Hvað ef Ísland væri óbyggt og við værum að hefja hér búsetu með 300.000 manns? Setjum sem svo að við hefðum peninga til að byggja og skipuleggja að vild, hvað yrði þá frábrugðið því sem nú er?

Mig langar að leggja upp fáein atriði og þætti gaman að fá sýn annarra á þessa ógáfulegu umræðu.

Hefst þá upptalningin eins og ég sé þetta:

Reykjavík yrði líkast til ekki aðal byggðakjarninn. Hann yrði líklegast á svæðinu í kringum Egilsstaði. Hvers vegna? Jú Egilsstaðir er á land- og jarðfræðilega rólegu svæði. Þarna er lítil hætta á stórum jarðskjálftum og þetta er ekki eldvirkt svæði. Ennfremur er ekki flóðahætta frá hafi ef um jarðskjálfta væri að ræða þar. Veðurfar á Austurlandi er trúlega betra í það heila tekið heldur en á suðvestur horninu.

Stórir byggðakjarnar í landinu yrðu líkast til þrír. Vestfirðir yrðu trúlega eingöngu með eina verstöð vegna nálægðar við fiskimið. Ég sé ekki fyrir mér bestu staðsetninguna, þó trúlega framarlega í Arnarfirði sem væri nokkuð miðsvæðis.

Trúlega yrði stærsti byggðakjarninn vestanlands á svæðinu á milli Akraness og Borgarness.

Norðanlands er Aðaldalur og svæðið að Húsavík trúlega best til þess fallið að vera með stóran byggðakjarna, frekar en Eyjafjörður. Þar er meira samfellt láglendi. 

Við myndum ekki vera með þjóðkirkju. Það sæi enginn ástæðu til þess. Trúmál yrðu einkamál.

Það væri ekkert Ríkisútvarp, engin sinfóníuhljómsveit og enginn Seðlabanki.  Gjaldmiðillinn væri Evra. Við yrðum samt ekki hluti af ESB. Til þess væri landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna okkar t.d. of gáfuleg fyrir þá!

Við værum tollfrítt ríki. Hér væru engin höft á flutningum á vörum nema þeirri sem almennt  væru bannaðar. Það gæfi tilefni til að vera hér með dreifimiðstöðvar fyrir bæði Ameríku og Evrópu. 

Það væru engin umdeild eftirlaun stjórnmálamanna.

Allur veiðkvóti væri boðin út til hæstbjóðenda. Það ætti engin kvóta.

Þó ég vilji opinbera eigu orkuauðlinda sé ég ekki fyrir mér hvernig því máli yrði háttar í þessari núllstillingu. 

Meirihluti þjóðarinnar væri trúlega sammála um að reka öflugt sameiginlegt heilsu- félags- og tryggingakerfi. Einnig menntastofnanir. Um nánast alla aðra menningar- og afþreyingarstarfsemi myndi ríkja sátt um að fólk notaði til þess sjálfsaflafé og myndaði til þess frjáls samtök um áhugamál sín, enda væru skattar lægri vegna minni miðstýringu ríkisvalds.

Stjórnsýslan yrði bara á einu stigi. Engin sveitarfélög væru rekin. Allar ákvarðanir um uppbyggingu byggðakjarna og samgöngur þeirra á milli væri teknar á þjóðhagslegum grunni. Þetta sparar að sjálfsögðu kostnað við rekstur óþarfs stjórnsýslustigs og hendir sjálfkrafa burtu öllum málum sem nú þvælast á milli ríkis og sveitarfélaga öllum til leiðinda og ama. Landið yrði eitt kjördæmi í kosningum og þingmannafjöldi trúlega undir 40 og ráðherrar 4-5. Hversu mikla stjórn þarf á 300.000 manns ef grunnurinn er skynsamari en nú er?

Nú má spyrja: Hvers vegna er þessu velt upp núna? Jú, tilgangurinn er sá að reyna að sjá hvernig við myndum reka íslenskt samfélag öðruvísi ef það væri ekki gegnsýrt af tímaskekkjum, ranglátri skiptingu auðlinda, og þeirri staðreynd að stjórnmálamenn og þrýstihópar nota gamlar vitleysur til að réttlæta endalaust nýjar vitleysur.

Hér hætti ég upptalningunni minni. Hvað finnst þér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Já þú segir nokkuð..........ég er þér sammála með hvar stærsti kjarninn væri ..........og þar með væru Austfirðirnir sterkir vegna nálægðar við Höfuðstaðinn........annað er ég nú ekki búinn að mynda mér skoðun um,,,melti þetta

Einar Bragi Bragason., 8.11.2007 kl. 00:22

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Mér finnst margar (ekki alveg allar) af þessum hugmyndum góðar og í fljótheitum finnst mér veigamest að skoða þetta með lýðræðislegu framkvæmdina , það þarf að vera frumlegri útfærsla á hvernig lýðurinn tekur ákvarðanir öllum til hagsbóta. Þingræðið í þeirri mynd sem það er nú stuðlar að miðstýringu og meirhlutaákvörðunum þarsem minnihlutinn er réttlaus. Kannski ætti bara taka aftur upp Þingvallafundi.

María Kristjánsdóttir, 8.11.2007 kl. 00:50

3 Smámynd: Sigurjón

Sumt er anzi gott barasta.

Málið er að löndin í ESB, auk BNA hafa líka styrkjakerfi í landbúnaðinum (reyndar á fleiri stöðum).  Við erum ekki eina landið sem hefur beingreiðslur til bænda.  Hins vegar er fáránlegt að kvóti á óveiddum fiski sé seljanlegur.  Margt gott í þessu hjá þér.  Seiseijá.

Sigurjón, 11.11.2007 kl. 04:07

4 Smámynd: Svartinaggur

Spyr sá sem ekki veit... en er ekki eitthvað lítið um jarðhita á Austurlandi og þá heldur dýrt að kynda húsnæði á veturna?

Svartinaggur, 13.11.2007 kl. 01:59

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 264821

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband