Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Hvað þarf marga viðskiptafræðinga til að ...

... reka eitt viðskiptablað?

Hæðni mín er hér lítt afsakanleg og ég biðst afsökunar. Mér mjög leitt að sjá fyrirtækið í erfiðleikum en þetta endurspeglar samt hvað sérfræðikunnáttan ristir í raun grunnt þegar á reynir.

Þetta á líka við um alla þá sérfræðinga sem áttu að vera færir um að setja regluverk og hafa eftirlit með því að Ísland væri vel rekið samfélag. Hlutfallslega erum við með eitt hæsta hlutfall í heimi i fjölda starfa á þingi, ríkisstjórn, Seðlabanka, Fjármálaeftirliti og bönkunum.

Maður hlýtur að spyrja: Hvað var allt þetta fólk að gera? 


mbl.is Framtíðarsýn í greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland ER gjaldþrota og stjórnin gæti fallið í dag

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með þetta. Ísland á ekki þá a.m.k. 10.000 milljarða sem það skuldar í gegnum bankakerfið. Hér eftir er bara um það eitt að ræða að sætta sig við orðinn hlut í þeim efnum og byrja bara upp á nýtt.

Að auki er kominn tími á að skipta út stjórninni, hún var hvort eð er bara fær um að eyða lánsfénu og sukka með bönkunum.

Ég tel það alveg kýrskýrt í mínum huga að ef IMF hafnar því að ganga frá láninu í dag til Íslands þá er ríkisstjórnin fallin. Þá er ekkert í spilunum nema utanþingsstjórn eða í versta falli blönduð þjóðstjórn á meðan málunum er komið í gang að nýju. 


mbl.is Mörg fyrirtæki eru tæknilega gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan er enn höfð fyrir rangri sök

Edda Rós Karlsdóttir er virðingarlaus í þessu máli.

Hún, ásamt, öðrum bankamönnum gerðist svo dómgreindarlaus að nota krónuna, sem er teskeið meðal gjaldmiðla, þegar þörf var á jarðýtu eins og Evru eða dollar.

Að hallmæla krónunni er eins og að hallmæla Yaris þegar þú þarft rútu til fólksflutninga. 

Blaðamanni Moggans má vera ljóst að það er ekkert til sem heitir "Nýi Landsbanki". Bankinn heitir nú NBI hf.


mbl.is Koma „krónulufsunni" í gang á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytum kosningalögum strax

Opið bréf sent til þingmanna:

Ágæti þingmaður,

Haustið 2006 sendi ég öllum þingmönnum tillögur um breytingar á kosningalögum í þá veru að nútímavæða kjör þingmanna með það í huga að leyfa kjósendum að velja nákvæmlega þá þingmenn sem þeir vilja. Tillögurnar ganga í þá veru að viðurkenna líka að kjósendur hafa skoðanir þvert á flokkslínur (sbr. aðild að ESB svo dæmi sé tekið) og eins vill fólk fá að kjósa þingmenn úr mismunandi flokkum. Með nútíma tækni þ.e. almennum aðgangi að internetinu er þetta ekki bara mögulegt heldur einfaldar þetta og styrkir val á bestu fáanlegum þingmannsefnum sem völ er á hverju sinni.

Vinsamlegast kynnið ykkur neðangreindar tillögur:

Kostirnir við þetta kerfi eru í stærstu atriðum þessi:

  • Landið verður eitt kjördæmi.
  • Þingmenn verði 49.
  • Prófkjör verður fellt inn í kosningarnar.
  • Flokkar bjóða fram eins og áður og skila inn sínum nafnalista.
  • Einstaklingar geta boðið sig fram með lágmarksfjölda meðmælenda og geta valið að tilheyra flokki eða ekki.
  • Hverju atkvæði er hægt að skipta niður í allt að 20 einingar. Þú getur dreift atkvæði þínu niður þvert á flokka eða einstaklinga ef þú svo ákveður. Þetta er til þess að hugsa fyrir þörfum þeirra sem frekar vilja kjósa einstaklinga fremur en flokka.
  • Þú getur eins og áður kosið þinn flokk, án þess að gera kosninguna nokkuð flóknari en það. Þínar atkvæðiseiningar skiptast þá niður á 10 efstu menn þíns flokks eins og aðrir ákveða röð hans.
  •  Atkvæðagreiðsla verður að stofni til rafræn og notaður auðkennislykill eða útbúinn sérstakur kosningalykill (í stíl við veflykil vegna skattskila).
  • Sérstakt forrit leiðir kjósanda að niðurröðun og hjálpar honum að skila gildu atkvæði.
  • Fólk sem ekki er flokkspólitískt hefur tækifæri til að kjósa þá einstaklinga úr öllum flokkum ef það svo kýs.
  • Þeir sem bjóða sig fram utan flokka geta eftir kosningar ákveðið að ganga til liðs við flokka eftir kosningar eða starfa sjálfstætt sem þingmenn eða jafnvel að mynda bandalag þingmanna utan flokka.
  • Sérstakur kostnaður vegna prófkjara fellur niður við þetta.
  • Kosningar á kjörstöðum eru allar rafrænar.
  • Úrslit kosninga og niðurröðun þingmanna er ljós um leið og kosningu lýkur. 

Kostirnir eru hins vegar aðallega þeir að þú getur kosið nákvæmlega þá flokka og einstaklinga sem þú vilt. Með þessu geturðu tryggt að þinn vilji endurspeglast í úrslitunum.

Einu rökin sem ég heyri gegn þessum hugmyndum er að hugsanlega muni formenn flokkanna muni ekki samþykkja svona gengisfellingu á skipunarvaldi sínu á frambjóðendum. Á móti er því til svarað: Eru kosningar til að þjóna vilja örfárra flokksformanna eða þjóðarinnar?

Ég skora á þingmenn að taka upp þetta mál sem þverpólitískt verkefni til að bæta möguleika fólks á að velja í alvöru fulltrúa sína á þing og stuðla þannig að auknum gæðum starfsmanna þingsins.

Er einhver ástæða til að hræðast það að framkvæma þetta strax? Miðað við núverandi stöðu efnahagsmála þarf að spara í ríkisrekstri og gera öll störf skilvirkari. Nú er tækifæri til að sýna hugrekki og vinna að nauðsynlegum endurbótum á störfum þingsins og vali á þingmönnum.


Stjórnin segi af sér nú þegar - Hún er ónýt!

Það kemur mér ekkert á óvart að IMF dragi lappirnar við að lána íslenskri þjóð sem búið er að breyta í eitt allsherjar þjófagengi af stjórnvöldum. Við íslendingar erum svo blindir á eigin galla að það neita næstum allir að horfast í augu við að með setningu neyðarlaga var valin óheiðarleg leið út úr vandanum. Það var óþarfi, en í stíl við þann óheiðarleika og spillingu sem ríkir innan stjórnkerfisins til allt of langs tíma.

Davíð og Geir: Þetta er orðið gott hjá ykkur. Látið aðra taka við málunum! 


mbl.is IMF-beiðni frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hægt að réttlæta mismunun hluthafa

Í þessu dæmi er formaður VR að einfalda málin. Væri um venjulega hluthafa að ræða væri engu eyrt. Þeir væru látnir borga. Mismunun af þessu tagi er ekkert hægt að verja þótt hluthafar séu hér starfsmenn.

Hafa verður líka í huga að starfsmenn bankans fengu lánað eins mikið og þeir vildu sem ekki stóð venjulegum hlutabréfakaupendum til boða. Engar tryggingar voru teknar aðrar en veð í bréfunum. Samkvæmt þessu átti bara að láta starfsmennina njóta væntanlegs ágóða án nokkurrar hlutdeildar í áhættu.

Einnig má leiða að því líkum að umfang hlutabréfakaupa starfsmanna hafi verið svo umfangsmikil að það hafi hjálpað til við að ýta verðinu upp í 1000 krónur á hlut. Svo hátt hefði hlutabréfaverð trúlega ekki orðið nema vegna eftirspurnar starfsmannanna.

Allar ákvarðanir sem teknar hafa verið í kringum hrun bankanna hafa verið rangar. Gildir hér einu hvort um er að ræða seðlabankann, eftirlitsaðila, ríkið eða Alþingi.

Ríkið kemst ekki upp með að ætla að innheimta útlán bankanna að fullu, því skuldarar munu ekki taka því þegjandi að ríkið ætli sér að eignast allar skuldakröfurnar án þess að ætla að standa skil á einni einustu krónu, dollar eða Evru til erlendra banka sem lögðu þeim til góssið. Erlendir lánveitendur eru að tapa líklega 8000-9000 milljörðum. Finnst okkur það bara sjálfsagt mál? Hafa íslendingar enga samvisku?

Ef ekki verður byrjað strax á því að frysta öll bankalán, verðtryggingar og annað á meðan leitað er sanngjarnrar lausnar mun stefna í uppreisn. Þjóðin lætur ekki bjóða sér að ríkið og bankarnir ætli sér að sleppa skaðlaust frá hruninu með því að láta bara innlendu skuldarana standa skil á öllu. Það verður að eiga sér stað niðurfærsla skulda úr því að ríkið gerðist svo dómgreindarskert að fara með bankana í kennitöluflakk og stórfelld svik við erlenda kröfuhafa. Með þessu var Ísland í heilu lagi gert að risastórum þjófi. Er einhver sem ekki kveikir á þessari staðreynd?

Ég gæti alveg skilið að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn vildi ekki lána ríki sem notar lagasetningu til að stela og mismuna kröfuhöfum. Enn og aftur ítreka ég þá skoðun mína að neyðarlögin voru sóðaleg og óheiðarleg aðgerð framkvæmd í óðagoti og dómgreindarleysi. Það átti að láta bankana fara í gegnum formlegt gjaldþrot. Það lá ekkert á að fremja efnahagslegt sjálfsmorð heillar þjóðar með vitleysunni í Davíð og Geir. 


mbl.is Ekki hægt að taka aðra ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnendur lugu upp hlutabréfaverð Kaupþings

Í þessu máli eru stjórnendur og starfsmenn að velta svo stórkostlegum upphæðum að ég efast ekki um að þetta hafi sprengt upp verð hlutabréfa í Kaupþingi. Fólk var blekkt til að kaupa á verði sem var í algjöru rugli, ef ég man rétt, 800 krónur fyrir hverja krónu um tíma!

Fólk tók lán til að kaupa hlutabréf og situr margt uppi með gjaldþrot þess vegna.

Hvað sem öllum lögum viðvíkur þá er a.m.k. ljóst að sölumennska á hlutabréfum bankans var með öllu siðlaus. Hér var í gangi lygavefur sem þarf að rannsaka.

Ég er sannfærður um að niðurfelling skulda og ábyrgða er riftanleg m.t.t. gjaldþrotalaga. Stjórnendur og lykilstarfsmenn eru ekki lausir allra mála, svo mikið er víst. 

Viðbót: Varðandi Þorgerði Katrínu og umkvartanir um tortryggni

Venjulegt fólk stofnar ekki fyrirtæki um hlutabréfaeign sína. Fólk stofnar bara hlutafélag um hlutabréfaeign til að geta fleygt skuldum vegna kaupanna ef illa fer. Þetta þýðir að þú tekur enga áhættu með kaupunum í slíkum tilfellum.

Sala bankanna á áhættulausu hlutafé til lykilstarfsmanna er þannig siðlaus og Þorgerður Katrín veit betur en hún kærir sig um að viðurkenna að líklega hafa þau hjónakornin ekki í raun tapað neinu nema að nafninu til. Þau hafa líklega eins og aðrir skuldað megnið af þessum kaupum og geta því bara labbað frá þessu eins og þetta komi þeim ekki við.


mbl.is Yfirlýsingin kom frá forstjóra Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Von um betri tíð - friðsamlegri tíð

Mér er enginn efi í hug að Obama gaf manni meiri von um frið en McCain. Af þeirri ástæðu vildi ég sjá hann kosinn frekar en McCain. Loksins sér maður fram á að Bush hverfi af vettvangi, versti forseti Bandaríkjanna sem ég tel okkur hafa upplifað á síðari tímum.

Þetta er gleðidagur fyrir þá sem vilja meiri mildi í yfirbragð stjórnmála. Obama tókst að komast hvítþveginn í gegnum umræður og kosningar og hann lofar sannarlega góðu. Vonandi stendur hann undir því.


mbl.is Obama kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er tortryggni óeðlileg í ljósi þjóðargjaldþrots?

Stjórn er heiti þeirra sem hér ráða ríkjum í þessu landi. Ef hún lætur efnahag þjóðarinnar og peningamálastefnu reka stjórnlaust og eftirlitslaust í þjóðargjaldþrot er ennþá hægt að kalla það stjórn?

Stjórnin á að segja af sér. Hún er getulaus, rúin trausti og það er ekkert trúverðugt við "björgunaraðgerðir" hennar. Óheiðarleikinn í neyðarlögunum með tilheyrandi kennitöluflakki á eftir að verða þessar þjóð dýrkeyptari en ég kæri mig um að hugleiða of djúpt. Við þessar aðstæður er tortryggni bara það að nálgast örlítið óþægilega sannleikann varðandi hið séríslenska hrun bankanna og efnahagskerfisins.

Þorgerður Katrín er þátttakandi í þessu sinnuleysi og á þess vegna líka að taka ábyrgð og hætta. Hún er ein af meginstoðunum undir Davíð og Geir og á þess vegna sinn þátt í að verja þessa kalla verðskulduðu falli af stalli sínum. Það er andskotalegt að atast í Sollu í veikindum hennar, en hún á samt líka að hverfa ásamt næstum öllum Samfylkingarráðherrunum. Sjálfumgleði þeirra flestra og bruðl með fjármuni er ekki skoðunarhæft sbr. rekstur varnar- og utanríkismála, ferðagleði, framboð til öryggisráðsins og fleira sem er bara huglægt bull og leikaraskapur með almannafé.

Stjórn sem stjórnar ekki er ekki bara þarflaus, hún er hreinræktaður þjóðarskaðvaldur. 


mbl.is Óþolandi að líða fyrir tortryggni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður að koma upp þjóðstjórn fram að næstu kosningum

Það hlýtur flestu fólki að vera ljóst að það neyðarástand sem nú ríkir kallar á aðkomu helst allra, öll mál verði gagnsæ og það að nú er ekki tíminn til að stunda neinn feluleik.

Sögusagnir um að ráðamenn og bankafólk sé að skúra af sér skuldir og skuldbindingar á meðan almenningur verður keyrður í þrot er ekki ásættanlegt. Með þessu áframhaldi stefnir í hreina og klára uppreisn.

Það treystir enginn neinu lengur. Er eitthvað óljóst við það? 


mbl.is „Hefði átt að vera búið að stoppa ykkur fyrir löngu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband