Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Hver nærir hvern?

Þennan heyrði ég hjá Axel í dag:

"Einu sinni lifðu íslendingar á landbúnaðinum. Nú lifir landbúnaðurinn á íslendingum."

Ég spyr: Eru íslendingar að greiða landbúnaðinum gamla skuld í formi ofurtolla, okurs og styrkja? Eða erum við bara í þessu rugli til að stæra okkur af því að borga hæsta matvælaverð í heimi til þess að komast í heimsmetabók Guinness?


Áfengi og tóbaki meinað að hittast lögum samkvæmt!

Ég fékk hláturskast vegna þessarar fréttar. Áfengi og tóbak er hýst saman hjá ÁTVR en þegar þetta er komið í veitingahúsin er með öllu ólöglegt að þessir tveir löglegu vímugjafar megi vera samtímis  í höndum viðskiptavinanna. Eina lausnin er að stækka dyrnar á veitingahúsunum og þá standa nautnaseggirnir í dyrunum með glasið í hægri hendinni inni og rettuna í vinstri hendinni úti!

Talandi um bull í lögum og reglugerðum þá er hér komið dásamlegt dæmi vægast sagt Devil


mbl.is Bannað að taka drykki með sér út af veitingastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

West Ham örugglega ekki "westi" staðurinn fyrir Eið Smára

Ég hef ekki trú á að Eiður eigi framtíð hjá Barcelona og hafði það einhvern vegin ekki þegar hann fór þangað. Það var viðbúið, sem og reyndist, að honum væri ætlað hlutverk varamanns.

Eið skortir hvorki hæfileika til að leika knattspyrnu né líkamlegt atgervi til að endast í þessari íþrótt. Hann virðist helst skorta eldmóðinn og ákveðnina. Því miður tel ég hans helsta veikleika vera skort á þeim hroka sem gjarnan einkennir íþrótta- og listamenn í fremstu röð.  Þessi hroki (sem sumir kalla bara sjálfstraust) hjálpar fólki að ná hæstu hæðum í sinni grein. Þeir bestu einfaldlega trúa alltaf að það sem þeir eru að gera hverju sinni gangi upp.

Ég hef fulla trú á að þessi skipti til West Ham gæti orðið Eið til góðs. Hann fengi loksins það leiðtogahlutverk sem hann þarf til að ná á þann topp sem býr í honum. Hann þarf hins vegar að virkja andlega hlutann til fulls.


mbl.is Viðræður West Ham og Barcelona um kaup á Eiði sagðar hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúðu KR-ingar myndunum um Kf. NÖRD?

Maður veltir því fyrir sér hvort sjónvarpsþættirnir um kf. NÖRD hafi verið svo sannfærandi fyrir KR-ingana að þeir hafi trúað því að Logi gæti gert stórlið úr antisportistum? Það hljómar allavega betur en að gera nördalið úr stórstjörnum.

Kannski er upplagt að Sýn búi til raunveruleikaþátt þar sem Logi stýrir liði í botnbaráttu. Úr því sem komið er næsta víst að KR-ingar muni búa við dramatísk lok á þessu knattspyrnusumri.


mbl.is Oft staðið til að ég tæki við KR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein auðlindin sem stolið verður frá almenningi

Með yfirvofandi hættu á einkavæðingu orkufyrirtækja eins og Orkuveitu Reykjavíkur og fleiri er samfélaginu hætta búin með því að græðgisvæða grundvallarskilyrði til lífs sem er loft og vatn.

Við verðum að sporna við því að allar helstu auðlindir landsins verði seldar til einkaaðila eða festar þeim með löglegum þjófnuðum. 


mbl.is Öld bláa gullsins runnin upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sárleg vöntun á eðlilegri samkeppni

Svona fréttir þurfa ekki að koma neinum á óvart. Lyfja og Lyf og heilsa vildu sameiningu á sínum tíma en Samkeppnisstofnun heimilaði það ekki. Þau hafa í staðinn bara unnið saman án sameiningar og skipta með sér markaðinum og ákveða verð á öllu lyfjatengdu þrátt fyrir allt. Aðferðirnar við að koma öllum öðrum út af þessum markaði eru flestum ljósar. Ég ráðlegg stjórnendum þessara fyrirtækja helst að tjá sig ekki í fjölmiðla því þá losna þeir við að ljúga opinberlega. Þeir virðast gleyma því að nútíma tækni geymir mjög vel allt sem þeir segja.

Lyfjabransinn er ekkert einn í þessu samráði og samkeppnisleysi. Olíufélögin halda áfram að sverma að Atlantsolíu, Tryggingafélögin drápu FÍB tryggingar með samráði, Bankarnir eru allir í bullandi samráði og sameiginlegum einokunarrekstri kortafyrirtækja, sala matvæla og heimilistækja er brátt að verða komin á sama stig og danska einokunarverslunin og svona mætti lengi telja.

Ég tel að samkeppni sé ennþá örlítil í sérvöru og iðngreinum en að öðru leyti eru íslendingar ofurseldir einokun á flestum sviðum og stundum er þeirri verstu sem stjórnað er af ríkinu. Það eru því engar patentlausnir fólgnar hvorki í einkavæðingu né ríkisrekstri.

Á endanum er það alltaf græðgin sem ræður för og skiptir þá engu hver er haldinn henni.


mbl.is Hótuðu gjaldþroti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afreksíþróttir eru orðnar að skrípaleik vegna skorts á sannri íþróttamennsku

Það er orðið beinlínis pínlegt að fylgjast með íþróttafréttum nú orðið. Nú hafa allar helstu stjörnur í Tour de France fallið á lyfjaprófum eða skrópum í lyfjapróf sem jafngilda sektarjátningu í þeim efnum.

Þessi ósköp eru líka að gerast hér á landi. Kappsemin er orðin svo mikil að menn víla ekki fyrir sér alls kyns brögð og óþverra. Leikur Skagamanna og Keflvíkinga í fótboltanum um daginn er dæmi um bullið sem gengur.

Eftirlitsiðnaðurinn í kringum íþróttirnar er að verða jafn stór liður og sportið sjálft. Lyfjapróf eru rándýr í framkvæmd og fjármunirnir sem fara í þau nýtast að sjálfsögðu ekki annars staðar.

Skyldi þetta ekki bráðum draga úr áhuga fólks á að fylgjast með afreksíþróttum? 


mbl.is Michael Rasmussen vikið úr Tour de France
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérhverjir eru nú sérfræðingarnir!

"Sérfræðingar" eru ekki með það á hreinu hvort íslensk efnahagskerfi er á uppleið eða niðurleið. Fyrir hvaða sérfræði fá þeir launin sín?

Það tók mig nokkur ár að uppgötva sannleikann á bak við íslenska efnahagsundrið og hann er mun einfaldari en nokkur kærir sig um að vita eða vill viðurkenna: Óhófleg lántaka íslensku bankanna.

Þegar bankarnir voru seldir úr ríkiseigu fylgdi þeim ómælt lánstraust erlendis vegna gömlu ríkisábyrgðarinnar og þeir notuðu sér það í botn. Tekin vöru öll erlend lán sem hægt var að fá og þeim veitt í útrásardrauma valinkunnra fjármálamanna og hluta- og skuldabréfaútgáfu þeim tengdum. Auk þess voru þessi óhófslán sett í húsnæðiskerfið. Offramboð þessara lána er eina orsök rúmlega tvöföldunar á húsnæðisverði á Íslandi.

Allt þetta innstreymi erlends lánsfjár veldur því að allar hagtölur fara á flug. Almenningur hefur tekið lánin líka og rúllar bara með. Búið er að telja íslendingum trú um að við séum svo ótrúlega snjöll og þess vegna séum við að kaupa næstum allt bitastætt í Danmörku og vænar sneiðar annars staðar í heiminum.

Hvenær tekur þetta enda? Þetta tekur þegar enda erlendir skuldareigendur hætta að trúa því að þeir nái sínu lánsfé til baka sem verður stuttu eftir að fyrsta bakslagið kemur í algerlega bilað hlutabréfaverð erlendra stórfyrirtækja sem nú er á mörkuðum erlendis.

Staðreyndin er nefnilega sú að þrátt fyrir að bankarnir eigi gríðarlegar eignir á pappírum, þá skulda þeir eiginlega jafn svakalega mikið. Skuldir bankanna hafa nefnilega þá leiðinlegu náttúru að vera eiginlega beinharðir peningar en eignirnar eru háðar huglægari trú á verðmæti verðbréfa. Þess vegna getur hrunið orðið svakalegt. Gengi krónunnar helst hátt vegna fíflagangs Davíðs Oddssonar og hans manna í Seðlabankanum í vaxtamálum. Erlendir kaupahéðnar eru margir að taka séns á að þeir fái þessa háu vexti greidda þegar þeir gefa út krónubréfin. Ef of margir þeirra missa trúna á þessu í einu þá hrynur gengi íslensku krónunnar margfalt hraðar en það reis. 

Hvers vegna ræða sérfræðingarnir aldrei þessa hættu? Ástæðan er einföld, þeir vilja ekki gera sig ábyrga fyrir því að "kjafta niður" þennan vökudraum.

Ég hef svo sem áður röflað um þessa döpru sýn mína á íslenska efnahagsundrið og rætt þetta við menn sem ég tel hafa meira vit á þessu en ég. Enginn þeirra hefur sannfært mig um það, ekki frekar en Geir H. Haarde, að íslenska efnahagskerfið sé traust.


mbl.is Forleikur að þensluskeiði eða upphaf að samdrætti?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða, hvaða bara 11-18 milljónir á hvert mannsbarn í eyjum!

Ég held að þetta ríka pakk í Reykjavík geti bara pungað út þessum smáaurum í jarðgangnagerð. Þetta eru ekki nema í besta falli 44 milljónir á hverja 4ra manna fjölskyldu í Vestmannaeyjum eða 92 millur ef illa gengur að bora.

Héðinsfjarðargöng eru þó ekki nema 6-8 milljónir á hvert mannsbarn á Siglufirði sem eru bara peanuts í samanburði á frekjumælikvarðanum.

Hmmm.... ég var að velta fyrir mér hvort ég gæti nokkuð fengið litlar 5 millur á mann í bílastyrk til fjölskyldunnar gegn því að ég sleppi því að heimta jarðgöng á mínu svæði?

Sé talað í alvöru: Fá menn greitt stórfé fyrir að velta þessari vitleysisspurningu fyrir sér á verkfræðistofum? 

 


mbl.is „Álitamál hvort göng til Vestmannaeyja séu réttlætanleg"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útvarp Saga býr við einelti

Mér hefur hingað til þótt ágætt að hlusta stundum á Útvarp Sögu á morgnana og þá sérstaklega Sigurð G. sem tekst yfirleitt ágætlega að halda uppi dampi.

Símatímarnir eru hins vegar að verða svolítið pínlegir því þar eru nokkrir "áskrifendur" orðnir svo harðir að hringja að maður finnur pirruvíbringinn hjá þáttastjórnendum skila sér til manns. Í morgunn keyrði  fram úr hófi. Maður sem kallar sig "Steingrímur" hringdi a.m.k. tvisvar í Sigurð og svo aftur tvisvar í Grétar Mar sem var að leysa Arnþrúði af.

Þessi maður er hreinræktaður símatímastalker og ætti að setja í bann, annars hætti ég að hlusta. Hann er því miður orðinn alger óverdós og skiptir þá engu máli hér hvort hann hefur vitlegan málstað að styðja eður ei. Hann er orðinn svo þrálátur að það hríslast um mann pirringshrollur um leið og hann byrjar sitt óskipulega síendurtekna kjaftæði.

Það eru takmörk fyrir umburðarlyndinu, Steingrímur er kominn langt fram úr þeim. 


Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 265495

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband