Færsluflokkur: Tónlist

Bestu gítaristar í heimi?!

Það er algengt að fólk álíti að bestu gítarleikararnir séu þeir frægustu eins og t.d. Eric Clapton, Carlos Santana, Steve Vai, Joe Satriani, Yngwie Maalmsteen, Jeff Beck og fleiri.  Þrátt fyrir talsverða aðdáun mína á þeim og mörgum öðrum þá finnst mér þeir aldrei ná þeim hæðum í hrárri tækni sem þessir þrír ná í sínum gítarleik.

Al di Meola, Paco De Lucia og John McLaughlin hljóta að teljast í hópi þeirra bestu. Hér leika þeir Mediterranean Sundance á tónleikum sem Luciano Pavarotti heitinn stóð fyrir.

Til að njóta þessa myndskeiðs er ágætt að pása og leyfa þessu að hlaðast inn til að forðast hnökra. 

 

 

 


Nú öfunda ég alveg heiðarlega...

Mikið öfunda ég Óla Palla af því að hafa verið þarna.

Ég hef heyrt í mörgum öðrum sem segjast hafa viljað vera þarna á þessum konsert.

Þessir kallar gleyma engu, enda hafa þeir aldrei hætt að spila, þeir geta bara ekkert orðið annað en betri.


mbl.is Flottasti söngvari rokksögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HLH (Bó/Halli/Laddi) og Riddari Götunnar

Þetta er yndislegt myndband sem má núna kalla retro-retro vegna þess að þetta er líklega tekið upp í kringum 1977 og þarna er verið að fara aftur til ársins 1957 í músík, fatnaði og stíl. Þetta var glæsileg frammistaða þeirra félaga og ekki má gleyma að Ragga Gísla er ennþá jafn sæt og þá! 


Glen Campbell sjötugur að syngja Wichita Lineman

Mér finnst stundum eins og það sé að koma úr skápnum þegar maður viðurkennir að hafa dálæti á Glen Campbell. Hann átti sinn blómatíma á árunum 1965-75 og átti ótal smelli að mestu í country tónlist.

Hann leysti Brian Wilson af um tíma í Beach Boys þegar sá síðarnefndi veiktist og lýsti því sem sérstakri reynslu að spila á bassa og syngja falsettu á sama tíma. Glen var eftirsóttur session (upptöku) gítaristi og söngvari og var um tíma með vinsælan sjónvarpsþátt sem ég sá í kananum á sínum tíma: Glen Campbell Goodtime Hour. Frá þeim tíma hefur mér alltaf fundist þetta geðugur fyrirmyndarmaður og snillingur.

Á þessu myndskeiði er Glen að flytja Wichita lineman eftir snillinginn Jimmy Webb. 


Mark Knopfler (Dire Straits) og löng útgáfa af Sultans of Swing

Þetta er náttúrulega eitt af gítarlögum dauðans og hér í lengri læf útgáfu. Hér er Knopfler orðinn eldri og búinn að spila lagið nokkur þúsund sinnum. It shows!

 

 


Killer Queen - Dilana með flotta ábreiðu

Ég er ekki sérstaklega hrifnæmur og frekar seintekinn á lög en þessi útgáfa Dilönu á Killer Queen er hreint frábær. Flott útsetning og söngurinn hennar í sérdeilis góðum fíling.

Ef þetta er vel skrúfað upp getur þetta dregið út smá gæsahúð.

Þið finnið lagið á Myspace síðunni hennar hér


... Elvis has left the building!

Elvis Presley flytur hér líklega eitt af vinsælustu dægurlögum sögunnar. Þetta var þó ekki "hans" lag heldur Unchained melody. Þetta myndskeið er tekið u.þ.b. 6 mánuðum vikum fyrir dauða hans árið 1977 en það verður ekki merkt sérstaklega af þessum flutningi.

Elvis verður alltaf kóngurinn og lifir enn... 


Hið endanlega hámark móðursýkinnar!

Þær rifu í hár sitt og föt. Fóru hamförum í sætum sínum, grétu, hlógu, hoppuðu og létu öllum illum látum. Það mátti halda að þær væru gjörsamlega andsetnar.

Hugsið ykkur, öll þessi læti voru vegna hljómsveitar sem var með eitt af sínu fyrstu frægu lögum af mörgum. Maður býst alls ekki við að sjá svona hamfarir í aðdáun aftur! 

Þetta eru Bítlarnir á tónleikum í Manchester 1963 og flytja hér She loves you.


Konsert í Jökulheimum

Ég verð seint kallaður mikill ferðalangur, en það kemur fyrir. Um daginn stakk Gunni Antons upp á því að ég kæmi með honum upp í Jökulheima við rætur Tungnáarjökuls í Vatnajökli. Þetta væri vinnuferð og það yrði okkar númer að sjá um að halda konsert þarna fyrir vinnuliðið.

Við stappfylltum bílinn af hljóðfærum og lögðum í hann upp úr 8 á laugardagsmorgni. Stoppuðum stuttlega á Selfossi og Hrauneyjum. Frá Hrauneyjum er rúmlega klukkutíma akstur inn í Jökulheima og að þessu sinni var vegurinn bara óvenju góður. Fyrst var farið út að jökulsporði og þar óðu nokkur hreystimenninn drulluna með gult málband og GPS tæki. Nokkuð drjúgt var í ánum þarna en ekki mikil fyrirstaða fyrir stóra breytta jeppa. Á meðan aðrir dyttuðu að öðrum málum bárum við Gunni dótið okkar í hús.

Svo var stillt upp og var spilað við þær sérstöku aðstæður að rafmagn var fengið úr 3kW ljósavél og áheyrendur voru allir karlmenn. Maður bjóst því ekki við að það yrði dansað. En það reyndist rangt. Þegar á leið rann allt saman í graut: Guðaveigar, góður matur, tónlist og brandarar og úr varð skemmtilegt partý. Um tíma óttuðust menn að skálinn félli saman við þennan hristing og en ekki varð meira tjón en svo að rykið úr þakbitunum náðist niður. Okkur til mikils léttis kvörtuðu nágrannarnir ekkert!

Um morguninn hélt Gunni svarta sunnudagsmessu sem olli einhverjum krampakviðum en engum varð alvarlega meint af. Heim var haldið um hádegi og gekk tíðindalítið og vel fyrir sig.

Þetta má alveg endurtaka mín vegna. Félagar í Jöklarannsóknarfélaginu reyndust hinn ágætasti félagsskapur. Takk fyrir mig!


Rokklifnaðurinn hefur ekkert bitið á John Fogerty

John Fogerty var aðalsprautan í hinni rómuðu hljómsveit með stutta nafnið Creedence Clearwater Revival. Nafnið er reyndar svo langt að maður hefði haldið að þetta væri "big band". Það var öðru nær. Þetta var líklega ein alvinsælasta rokkhljómsveitin upp úr 1970.

John Fogerty lítur vel út og er hinn spengilegasti á þessu videói frá árinu 1997 og það er alls ekki að sjá að þessi kappi sé plagaður af ólifnaði, langt í frá. Hér er hann í banastuði með Travellin' Band. Fínt lag til að koma öllum í stuð á laugardagskvöldi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 265496

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband