Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hversu þungt vógu krónubréfin í stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans?

Ég gat ekki séð að Seðlabankinn hefði minnst á það einu orði hversu mikil áhrif það hafði á stýrivaxtaákvörðun óttinn við að þessir sömu eigendur krónubréfa myndu skipta þeim út í aðra gjaldmiðla ef stýrivextir lækkuðu verulega í takt við aðsteðjandi efnahagsvanda. Í niðurlagi Peningamála eru þó væntingar um að fá gjaldeyrisinnstreymi frá erlendum krónubréfaútgefendum og það ber vott um raunverulegu ástæður stýrivaxtahækkunarinnar.

Mín tilfinning er sú að 800 milljarðar í gjaldeyrisútstreymi yfir skamman tíma myndi setja bæði krónuna og efnahagslífið gjörsamlega á hliðina.

Sorglegast þykir mér þó sú ákvörðun bankans að setja á sama tíma fram spá um 30% lækkun fasteignaverðs. Það þýðir að Seðlabankinn ætlar íslenskum fasteignaskuldurum núna tvöfalt hlutverk: a) að halda upp gengi krónunnar með hæstu okurvöxtum í heimi og b) að draga niður verðbólguna með því að bankinn tali niður verðmæti þessara sömu fasteigna.

Er ég á villigötum í þessum hugrenningum? Hvar eru hagfræðingarnir núna? 


mbl.is Spákaupmenn sitja á 800 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Geir og Solla ekki til í að styðja innrás NATÓ í Simbabve?

Mér sýnist hálfvitagangurinn í þessu volaða landi hreinlega kalli á að fá íslenska lýðræðis- og fjármálasnillinga til að taka til hendinni þarna.

Þarna eru nefnilega alvöru tölur: 80% atvinnuleysi og 100.000% verðbólga. Eitthvað bitastætt til að fást við.

Svo ég dragi í land með fíflaganginn legg ég til að Geir og Solla kalli okkar fólk heim frá Afganistan, afturkalli stuðning við stríðið í Írak og hætti í NATÓ. Í þessu felst líka viss efnahagsaðgerð í kostnaðarminnkun.


mbl.is Kröfu um að birta kosningaúrslit hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningin ógild vegna misræmis í fjölda kjósenda og kjörseðla?

Hmm... þetta hlýtur að vera umhugsunarefni því það er útilokað að kjörstjórn geti skilað inn gögnum sem stemma af réttan fjölda merktra kjósenda og síðan jafnmörgum körseðlum upp úr kjörkassanum.

Ég hefði gaman af því að heyra hvað lögfræðingar héldu um þennan verknað? Hvað myndi íslensk kjörstjórn gera?


mbl.is Borðaði kjörseðilinn í stað þess að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söngvakeppni framhaldsskólanna - Hverjir hlusta á krakkana áður en þau fara?

Sem áhugamaður um tónlist hef ég oftast gaman af því að horfa á þessa keppni framhaldsskólanna. Núna fæ ég hins vegar of mikið af þeim óþæginda bjánahrolli sem fylgir því að hlusta á falskan söng.

Í ár bregður svo við að nærri 3 af hverjum 4 aðalsöngvurum eru svo tónvilltir að ég vorkenni þeim sárlega að þurfa að þola að frammistaða þeirra sé að eilífu geymd á spjöldum sögunnar þeim til armæðu og leiðinda. Í kvöld verður því miður að segja eins og er að gæði keppninnar gerir þessa dagskrá á laugardagskvöldi frekar dapra.

Mér finnst eiginlega að þessum krökkum sem hreinlega greiði gerður að fella út fyrr þá sem ekki halda tón í sínum lögum. Reyndar skal ég játa að þetta er ekki alltaf mögulegt því að taugaóstyrkur á þessari úrslitastundu setur flesta þessara tónvilltu krakka í enn meiri vandræði og var kannski ekki alveg fyrirséð fyrr en í beinni útsendingu.

Fyrir flesta þessara krakka er vandinn sá að þau eru ómeðvituð um að þau þurfa að vera búinn að ná lögum sínum 120% ef þau ætla að flytja þau sómasamlega undir því álagi sem þessu fylgir, vegna fjölda áhorfenda, vitneskju um sjónvarpsútsendingu og uppsöfnuðum spenningi.

Mér finnst eins og það sé verulegur munur á þessu á milli ára. Það sem ég hef séð í kvöld er óvenju slakt að þessu leyti. Betri þjálfun söngvaranna og ráðleggingar varðandi taugaálags er þeim mjög mikilvæg og hefur í of mörgum tilvikum ekki verið sinnt sem skyldi. Ég velti auk þess fyrir mér hvort þau hafi haft nóga góða monitoringu (heyrt nógu vel í sjálfum sér). 


Ha! Missti ég af einhverju? - Var ekki Bush búinn að vinna þetta stríð?

Það er þyngra en tárum taki að nefna þetta ólánsstríð í enn einu blogginu. Vandamálið er bara að þjáningum fólksins í Írak linnir ekkert þrátt fyrir að nokkur ár séu síðan Bush lýsti yfir sigri. En alltaf virðast einhverjir efast um að hann hafi sigrað á þesum slóðum. Við hin eigum ekki að gleyma því að við íslendingar berum ennþá ljóta skömm í þessu máli.

Íslenska ríkisstjórnin hefur hvorki lýst yfir andúð á þessu stríði né breytt um stefnu og það má víst ennþá heita svo að "innrásin hafir verið rétt í ljósi þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir". Hjá hinni íslensku hækju Bandaríkjamanna hefur ekkert breyst.

Solla situr snyrtilegt kaffiboð og lætur Condoleezzu Rice skjalla sig í hálftíma og heldur síðan bara "Star-struck" heim á leið aftur fullkomlega sátt og endurforrituð. Nú getur Solla sagt um Condi að hún sé "vinur sinn" alveg eins og Davíð um "vin sinn Bush" og Ólafur um "vin sinn Al Gore". 

 


mbl.is Barist í Bagdad
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankinn tekur skortstöðu á íslenskum fasteignamarkaði - Hver missti vitið núna?

Þetta er tilvitnun úr nýjasta hefti Peningamála (2008-1 bls. 33) sem Seðlabankinn gefur út: 

"... og að íbúðaverð lækkar
Kólnun á húsnæðismarkaði hefur þegar komið fram í því að verðhækkun íbúðarhúsnæðis hefur u.þ.b. stöðvast, þrátt fyrir umtalsverða hækkun byggingarkostnaðar, og velta hefur minnkað hratt. Horfur eru  að lækkun ráðstöfunartekna, þrengingar á lánamörkuðum og aukið framboð íbúðarhúsnæðis leiði til umtalsverðar verðlækkunar. Gert er ráð fyrir að húsnæðisverð lækki um u.þ.b. 30% að raunvirði á spátímabilinu."

Ég leyfi mér að feitletra síðustu setninguna, vegna þess að í henni felst að Seðlabankinn er að nota sömu brögð gagnvart íslenskum fasteignaeigendum og erlendir vogunarsjóðir eru sagðir hafa notað gegn íslenska hagkerfinu þ.e. að taka svokallaða skortstöðu. Hér virðist tilgangurinn sá að ná niður verðbólgu með því að Seðlabankinn bara þröngvi niður verði á fasteignum almennings í landinu með algerlega ábyrgðarlausum kjafthætti.

Hér er reyndar smá munur á. Seðlabankinn hefur sett heimsmet í stýrivöxtum sem veldur því að íslendingar eru að greiða hæstu raunvexti í heimi. Stýrivextirnir eru hafðir svona háir m.a. til að hátt í 1000 milljarðar í krónubréfum erlendra spákaupmanna verði ekki leystir út því þá kemur til stórkostlegrar gengisfellingar krónunnar.  Auk þess sem almennir fasteignaeigendur eiga skv. þessari skortstöðu Seðlabankans að tapa 30% af raunvirði eigum við líka að greiða hæstu vexti í heimi til að borga fasteignirnar sem bankinn ætlar að kjafta niður til ársins 2010. Megnið af þessum vaxtagreiðslum íslenskra fasteignaeigenda renna til erlendu spákaupmannanna.

Mig undrar ekki að sumir hagfræðingar hreinlega æpi eftir því að yfirblýantsnagarinn í Seðlabankanum verði settur af vegna þess að hann sé orðinn sérstakt íslenskt efnahagsvandamál!


mbl.is Alvarleg staða efnahagsmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heil stétt tekur þátt í lögbrotum og þeim fíflaskap að refsa þeim sem enga sök eiga

Ég er eiginlega orðlaus yfir þeirri dæmalausu heimsku sem þessi frönsku mótmæli bera með sér.

Ég skil ekki hvernig atvinnubílstjórar halda að þeir fái einhverja samúð með mótmælum sem fela í sér að refsa almennum vegfarendum sem enga sök eiga á þeirra bágindum ef slíkt á að kalla.

Ég minni á að þessir menn hafa kosningarétt og hafa kosið þessa stjórn yfir sig og ég skal vera fyrsti maðurinn til að minna þá á að þeir geti breytt málum með því að taka þátt í stjórnmálum í stað þess að röfla bara eftir á og standa fyrir aðgerðum sem eru lögbrot og það er ekki hægt að una slíku þrátt fyrir  að menn hafi að sínu mati réttlátan málstað.

Þó svo að ég sé sammála því að ríkið stundi alls kyns okur á ólíklegustu sviðum og að stjórnmálamenn stundi síðan subbulega sjálftöku úr þessum sömu skattpeningum þá verður að fara eftir þeim reglum sem settar hafa verið. Þessu breytum við ekki nema með pólitík hvort sem fólki líkar það betur eða verr.

Lögregla á skilyrðislaust að sekta alla þá bíla sem staðnir eru að því að leggja ólöglega og hindra umferð - hvernig á annars að ætlast til að aðrir fari eftir lögum og reglum? Með sömu rökum er okkur hinum heimilt að skera á hjólbarða þessara manna af því að þeir hindra för okkar. Er ekki tími kominn til að vakna úr þessu heimskukasti?


mbl.is Sturla: „Málið verður klárað"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gítarhetjur - meltið þennan gaur!

Þetta video er eiginlega bara fyrir gítarhetjur. Hér er einn á ferðinni og þá meina ég hraðferðinni! 


Við getum bætt kjörin sjálf án inngöngu í ESB

Það er margtuggin rangtúlkun hjá ESB sinnum (Eiríki Bergmann og svokölluðu Evrópufræðasetri) að það þurfi ESB aðild til að neyða íslensk stjórnvöld til að fella verndartolla af landbúnaðarafurðum sem nefnd er helsta ástæðan fyrir háu matarverði. Sannleikurinn er nefnilega sá að íslendingar geta fellt þessa verndartolla niður einhliða og án nokkurra afskipta ESB. Matarokur á Íslandi er að stærstum hluta heimatilbúið vandamál vegna verndarstefnu í landbúnaði með ofurtollum og vörugjaldarugli.

Það er betra að halda sig utan ESB og gera Ísland að tollfrísvæði og freista þess að verða dreifingarmiðstöð í frjálsum viðskiptum.  Það að vera utan ESB hindrar líka að vörur frá Asíu og Afriku geti hækkað vegna verndar- og refsitolla sem ESB setur á sumar vörur þessara landa í þeim tilgangi að hindra samkeppni við framleiðslu í Evrópu.

Það er eineltisbragur á ESB. Af hverju þurfa lönd að mynda samtök? Samtök eins og ESB hafa engan annan tilgang en þann að mynda eineltisbandalag gegn öðrum þjóðum heims.

Íslendingar eiga að hafa þann manndóm að vera í frjálsum viðskiptum við öll ríki í heiminum því það er siðferðilega rangt að draga heilu löndin og heimsálfurnar í dilka með þeim hætti sem ESB gerir óhjákvæmilega.

Óháð þessari umræðu getur verið opið hvort íslendingar nota áfram krónu sem gjaldmiðil eða ekki. Það þarf ekki að koma neitt við umræðuna um ESB aðild. ESB ákveður ekki hvort íslendingar nota Evru sem gjaldmiðil eða ekki. Við höfum notað alla gjaldmiðla að vild í okkar viðskiptum. Tæknilega séð getum við ákveðið að nota hveiti eða gull sem gjaldmiðil sama hversu kjánalega sem slík röksemd kann að hljóma.


mbl.is Telja líklegt að kjör almennings myndu batna með ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Simply the best - Tiger Woods

Á þessu myndbandi get ég sameinað tvö áhugamál: Tónlist og golf. Tónlistin er lag Tinu Turner - Simply the best sem á svo dæmalaust vel við þetta flotta myndskeið af meistaratöktum Tiger Woods í golfinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 264940

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband