Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Læturðu kosningaloforðin blekkja þig aftur?

Ríkisstjórnarflokkarnir eru nú komnir á fullt með alls kyns samninga og loforð til að kaupa atkvæði vegna næstu Alþingiskosninga. Ávísað er milljörðum á fjárlög næstu ára án nokkurra heimilda í þeim tilgangi að afla sér fylgis.

Auk þess að núverandi þingflokkar hafi með lögum gefið sér 300 milljónir til að borga næstu kosningaauglýsingahrinu, þá virðast þeir ekki bera nokkurn kinnroða fyrir því að lofa hinum og þessum hópum nánast öllu sem beðið er um núna rétt fyrir kosningarnar.

Ef þeir vinna svo kosningarnar tekur svo bara við verkefnið að víkja sér undan loforðasamningunum með tilheyrandi undanbrögðum. Er ekki tímabært á þessari stundu að minna á öll þau málaferli og leiðindi sem loforðin frá síðustu kosningum öllu?

Ef hins vegar kosningarnar tapast þá verður nýjum stjórnarherrum legið á hálsi fyrir að uppfylla ekki loforðin, sem þó voru gefin í fullkomnu heimildarleysi. Er ekki tímabært að fólk sjái í gegnum þessa botnlausu spillingu og leikaraskap?

Maður spyr sig stundum hvort fólk sem sér ekki í gegnum svona vinnubrögð eigi nokkuð betra skilið? Jú, við skulum vona það. Við erum nefnilega öll þannig að það er hægt að plata okkur, spurningin er bara sú hversu oft er hægt að plata með sömu aðferðinni?


Frestið þessu ólánsmáli - RÚV málið þarf lengri vinnslutíma

Frumvarpið um RÚV er ótímabært af einni ástæðu: Of margar skoðanir eru á því í hvaða farveg á að setja þetta olnbogabarn þjóðarinnar. það er engin sátt í sjónmáli um þetta fyrirtæki.

Í ljósi stöðugrar tækniþróunar er skoðun fólks á því hvað beri að gera við RÚV á mjög ólíkum stigum.

Sumir eru hræddir við að fjölmiðlar fari í einokunarfarveg ef RÚV verður einkavætt og selt.  Það þurfi "óháðan" fjölmiðil svo ólík sjónarmið heyrist. Þetta fólk vill óbreytt ástand.

Aðrir telja að RÚV sé tímaskekkja sem beri að leggja niður og þá helst með því að selja þennan rekstur.

Svo er hópurinn sem telur að áhrif RÚV verði brátt að engu vegna Internetsins. Það stjórnar enginn Internetinu og þar verða allir fjölmiðlarnir með öllu stjórnlausir. Og enn bætast við fleiri sjónarhorn varðandi RÚV og aðra fjölmiðla.

Ég hef hlustað á mörg ólík sjónarmið og rök og hallast orðið helst að því að best sé að láta þetta óhreyft næstu tvö árin á meðan Internetvæðingin hellist yfir.


mbl.is Fundi um RÚV-frumvarp ekki frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær má draga milljarðinn af launum Valgerðar Sverrisdóttur?

Seinni hluta nóvember mánaðar 2006 sprungu vatnsleiðslur í líklega 20 fjölbýlishúsum á varnarsvæðinu sem þá var komið í umsjá utanríkisráðherra Valgerðar Sverrisdóttur.

Allir sem vilja vita, vita að vatn frýs ekki nema lokað hafi verið fyrir heita vatnið. Það aulalega yfirklór að kaldavatnsleiðslur springi vegna hreyfingaleysis kalda vatnsins er náttúrlega bara barnalegt bull. Ef heita vatnið rennur þá heldur það þýðu á ÖLLU húsinu, og líka kaldavatnslögnunum, þó engin sé í íbúðunum. Það er ekkert flókið við þetta. Það er líka vitað að þrátt fyrir að Valgerður héldi öðru fram, þá voru húsin vel byggð af Íslenskum aðalverktökum sem voru samkeppnislausir og gátu því bæði gert það vel og rukkað fullt verð fyrir. Umræðan á Alþingi um málið er hér.

Flestum sem hafa eitthvert vit á svona málum er ljóst að tjónið er bara öðrum hvorum megin við milljarðinn, líklega öfugu megin. Hvaða venjulega tryggingarfélag sem er, er ekki nema örfáa daga að kasta sæmilega nákvæmu tjónamati á þetta mál.

Á þetta mál að vera í "athugun" fram yfir kosningar eða getum við farið að draga þennan kostnað af Valgerði Sverrisdóttur fyrir kosningar? Sem utanríkisráðherra hlýtur hún jú að axla ábyrgðina eða hvað?


Stuðningur við Íraksstríðið - áframhaldandi þjóðarskömm

Hvenær ætla okkar háu herrar og konur að vakna til meðvitundar um stuðninginn við Íraksstríðið?

Viðkvæðið um að við skiptum ekki máli á ekki við. Við höfum áður verið vandlætingarfullir á alþjóðavettvangi AF MINNA TILEFNI!

Fréttir um hengingar á saklausum óbreyttum borgurum í hefndarskyni við hengingu Saddams Husseins vekja manni verulegan óhug. Reynið að setja ykkur í spor þessa ógæfufólks.

Nú á fjölga í herliði bandaríkjamanna og teygja þetta ömurlega ástand enn frekar á langinn. Á einhvern undarlegan hátt er smám saman að skríða að manni sú staðreynd að Bandaríkin séu með þessu orðið hið illa stórveldi.

Geir og Valgerður! Það er kominn tími á að þið takið þá ákvörðun að bakka út úr stuðningi ykkar við þetta ógeð sem fyrirrennarar ykkar voru blekktir út í. 


Má bara hafa eina skoðun á hverju máli í stjórnmálaflokki?

Ég horfði á hluta af Silfri Egils á sunnudaginn og uppgötvaði þá að Sjálfstæðismaður í þættinum krafði, með látum, varaformann Samfylkingarinnar um já eða nei svar við því hvort Samfylkingin hefði virkilega ekki stefnu varðandi stækkun álversins í Straumsvík. 

Ég fann mér til mikillar undrunnar að Sjálfstæðismaðurinn virtist trúa því í alvöru að heill stjórnmálaflokkur eins og flokkurinn hans hefði eina skoðun á því máli þ.e. þá að stækka beri álverið.

Þetta er sorglegt. Getur nokkur heilvita maður trúað því að heilu stjórnmálaflokkarnir séu með svo samstíga hóp að þar hafi allir sem einn eina skoðun á hverju máli? Auðvitað ekki.

Flokkurinn hefur það á stefnuskrá sinni að virða að fólk hafi mismunandi skoðanir. Það þarf því að meðhöndla álitamál og undirbúa vettvanginn til að hægt sé að vinna úr slíkum málum með skoðanaskiptum og síðan skoðanakönnunum þar sem meirihluti fái að ráða ferðinni eftir að mál hafi verið yfirfarin. Nútíma samskiptatækni á netinu leyfir að slíkt sé gert án tímafrekra fundahalda og óþarfa tímaeyðslu. Það er spennandi tilhugsun að tæknin geti verið okkur hjálpleg að færa fleiri mál í lýðræðisátt.

 

 


Konur óskast til þingstarfa

Flokkurinn er jafnréttisflokkur. Þetta skal ekki fara á milli mála.

Áratugum saman hafa bæði konur og menn kvartað, rökrætt og rifist um það hvers vegna konur séu ekki jafnmargar á þingi, í stjórnunarstöðum og öðrum áhrifamiklum embættum í stjórnsýslu og fyrirtækjum.

Jafnrétti hefur verið komið á með lögum og í sumum tilvikum hafa reglur kveðið á um að ráða skuli frekar konu ef staða mála er þannig að það vanti að jafna leikinn.

Þrátt fyrir almenna viðleitni í samfélaginu er ljóst að þetta hefur hreint ekki tekist. Ég þekki enga karlmenn sem viljandi beita sér gegn konum sérstaklega. Ég þekki hins vegar karlmenn sem keppa við hvern sem er um stöður, völd og áhrif, bæði konur og karla, og gefa ekkert eftir.

Ástæðurnar fyrir röngum kynjahlutföllum er ekki illmennska karlmanna heldur líffræðilegt eðli þeirra. Hórmónastarfsemi karla veldur því að þeir eru kappasamari en konur og þetta á ekki bara við um líkamlegt atgervi til íþrótta heldur líka til valda og áhrifa. Margir femínistar viðurkenna ekki þessa kenningu og sætta sig helst ekki við að almennt hlaupi karla hraðar, hoppi hærra og lyfti þyngri hlutum. Samt lifa þær almennt lengur, eru friðsamari og fá að ala börnin. Því miður er það svo að það gildir einu hvort sett séu lög og reglur um jafnrétti, slík lög breyta ekki meðfæddum eðlismun kynjanna. 

Ég þekki mjög margar konur sem kjósa að lifa í friði. Það eru ennþá til konur sem eiga þá ósk heitasta að fá að sinna heimilum og börnum í friði. Þær hafa einfaldlega enga sérstaka löngun til að stjórna heiminum. Hvers vegna mega þær ekki hafa slíkt val?

Ég þekki líka konur sem vilja keppa um stöður, völd og áhrif. Ég hef hingað til ekki orðið var við að konur með hæfileika til jafns við karlmenn hafi verið haldið sérstaklega niðri. Margar þessara kvenna hafa náð æðstu metorðum í samfélaginu og ég neita því með öllu að láta bendla mér við "meint" misrétti gagnvart konum. Það er enginn efi í mínum huga að þegar konur gefa sig að stjórnunarstörfum eru þær fyllilega jafn hæfar til starfa. Þær eru bara færri sem gera það heldur en karlarnir enn sem komið er.

Mig langar sérstaklega að beina því til kvenna að bjóða sig fram til þátttöku í framboði Flokksins. Við sem stöndum að stofnun Flokksins erum ekki að vinna að sérhagsmunum eins hóps í samfélaginu frekar en annars. Við viljum sátt meðal karla og kvenna, yngri og eldri borgara, heilbrigðra og þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Við þurfum að sýna hvert öðru meiri virðingu. Tölvupóstfangið er haukur@mtt.is

 


Viljum við áfram sjálfstætt Ísland eða er okkur bara sama?

Mikið er rætt um að íslendingar eigi að taka upp Evru og líka að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Ég vil hvorugt. Og ég vil helst geta lofað því næstu fjögur árin. Fólk verður að geta treyst því að landið afsali sér ekki sjálfstæði sínu á næstu 4 árum. Það tók margar aldir að fá sjálfstæði, viljum við henda því eftir rétt rúm 60 ár?

Öll umræðan um aðild að Evrópusambandinu er bara á efnahagslegum nótum. Allt snýst um peninga og betri kjör. Ég heyri nánast enga umræðu um aðra þætti. Af hverju eigum við sérstaklega að  ganga í Evrópusambandið frekar en að vinna að bættum samskiptum við ALLAR þjóðir? Af hverju fæ ég á tilfinninguna að Evrópusambandið sé álíka söfnuður og eineltisklíka í barnaskóla? Við eigum bara að mynda bandalög á heimsvísu til að sýna fram á að við séum öll á sama hnettinum með svipuð markmið til betra lífs.  

Í fyrsta skipti á minni rúmlega 50 ára ævi er íslenska krónan einhvers virði og þá fyrst vilja menn í alvöru leggja hana niður! Gjaldmiðillinn er lítill og margir telja það að hann eigi ekki tilverurétt vegna smæðar sinnar og vanmáttar. Með svipuðum rökum getum við hætt að vera íslendingar sökum fámennis og vanmáttar, viljum við það?

Stórveldi eins og Bandaríkin eru nú helsta ógnin við heimsfriðinn. Evrópa stefnir að því að verða annað stórveldi á borð við Bandaríkin og geta því hæglega fengið annan álíka forseta og George W. Bush þegar fram í sækir. Ósætti tveggja slíkra leiðtoga eykur hættu á raunverulegri heimsstyrjöld. Er þetta það sem við viljum taka þátt í að skapa?

Ef heimurinn er hins vegar settur saman úr minni stjórneiningum er þar af leiðandi minni hætta að vondir leiðtogar leiði heilu heimsálfurnar í stríð til ná fram markmiðum sínum.

Bush þurfti ekki innrás í Írak til að koma Saddam Hussein frá völdum. Ein vel stýrð byssukúla hefði nægt til að ná fram því markmiði. Markmiðið með innrásinni var raunverulega að ná völdum yfir olíuauðnum. Þetta ætti hverju barni að vera ljóst.

Ísland á að vera áfram sjálfstætt ríki og láta rödd sína heyrast á alþjóðavettvangi í anda friðar og bræðralags.  Látum duga að vinna í gegnum sameinuðu þjóðirnar. Seljum ekki torfengið sjálfstæði okkar í vanhugsaðri auragræðgi.


Er nokkuð hægt að uppræta spillinguna?

Það er kunnara en frá þurfi að segja að spilling þrífst í stjórnmálum, líka á Íslandi.

Spilling er oftast tengd mönnum persónulega en sé betur að gáð er henni viðhaldið af eðli og uppbyggingu stjórnmálaflokka sem hafa hýst hina spilltu við völd og áhrif.

Vandamálið við að uppræta spillingu er oft eitthvað á þessa leið:

Ungur, efnilegur einstaklingur með hugsjónir og stjórnmálaáhuga fer að starfa í ungliðahreyfingu flokks. Hann þykir duglegur og vegna hæfileika, fallegrar framkomu og efnilegrar ræðumennsku er boðinn fram og nær inn á lista. Í framhaldinu eru kosningar og viðkomandi er kannski orðinn borgarfulltrúi eða þingmaður. Hvað gerist þá?

Flokksforystan tekur til við að skóla viðkomandi. Fyrst er hann látinn hafa aðstöðu til vinnu sinnar. Síðan tekur við að útvega honum aukastörf í nefndum og ráðum til að hækka launin. Næst tekur við að hann þarf að koma upp betra húsnæði og fleiri lífsins þægindi. Honum er útveguð lóð á góðum stað. Honum er útvegaður vinnukraftur til að koma upp húsinu og á einhvern undarlegan hátt berast ekki reikningar fyrir vinnunni við það eða ýmsa aðra hluti. Smám saman venst ungi frambjóðandinn því að vera sé að gauka að honum ýmsum greiðum sem lítð sem ekkert þarf að endurgreiða. Svona líða fáein ár við það sem virðist björt og áhyggjulítil framtíð full af frama og vonum.

Með tímanum fer ungi stjórnmálamaðurinn að heyra af því hvernig kaupin gerast í pólitíkinni en er þá sjálfur orðinn reyrður niður vegna þess að meðreiðarsveinar hans eru búnir að koma honum á spenann. Hann getur ekkert unnið gegn spillingarmálunum því hann er sjálfur kominn á kaf í hana í grandaleysi við að þiggja greiðana. Nafnið hans og gjörðir eru komnar í svörtu bækurnar. Þær má ekki opna.

Fjármögnun stjórnmálaflokka hefur verið flestum hulin í gegnum árin. Vitað er þó að þeir hafa gjarnan sótt fé til þeirra fyrirtækja sem þurfa á einhverri opinberri fyrirgreiðslu að halda. Það eru líklega fáir sem ekki kunna einhverjar sögur af þessum málum í kringum sig. Það er bara ekkert gert af ótta við að verða útskúfaður úr samfélaginu. Oft er fólk líka meðvitað um að hugsanlegt sé að það haldi vinnu sinni vegna þessarar sömu spillingar og því sé hætta á að tapa henni ef farið er að gera athugasemdir. Hvað er þá unnið með að uppræta spillinguna?

Sífellt taka nýir menn við keflunum á valdatoppi flokkanna. Þeir erfa ekki bara embættin. Þeir erfa líka það verk að halda áfram að hylma yfir alla gömlu spillinguna sem hefur viðgengist í flokkunum þeirra áratugum saman. Margra ára uppeldi þeirra sjálfra sem "hlýðinna" flokksmanna gerir það að verkum að þeir vita nákvæmlega hvernig á að halda á keflinu.

Flokkurinn, sem slíkur, byrjar með hreint borð í næstu kosningum. Hvernig honum tekst að forðast spillingu er bara í sögulegri framtíð.


Hugmynd að nýjum kosningalögum

Eftirfarandi hugmyndir að nýjum kosningalögum sendi ég þingmönnum í nóvember s.l. Ég birti þetta aftur hér til að fyrirbyggja misskilning um hvað var raunverulega í þessum tillögum: 

Hugmyndin er að menn fái að kjósa bæði flokka og persónur. Prófkjör flokkanna yrðu þannig líka felldar inn í kosningarnar.

Kjósendur eru ekki allir flokkspólitískir heldur mynda skoðanir á því fólki sem býður sig fram. Við erum nefnilega mjög mörg sem vildum fá að kjósa þá frambjóðendur sem eru í boði þvert á flokksstöðu þeirra. Ég til að mynda get hugsað mér að kjósa þingmenn úr öllum flokkum og lít þá þannig á málið að ég fái þá að kjósa landslið þingmanna, en ekki bara flokkslið.

Með nútíma tækni er auðveldlega hægt að leyfa okkur breytt fyrirkomulag kosninga. Langflestir myndu kjósa rafrænt og fá útgefinn einhvers konar persónulegan kosningalykil sem er þá sambærilegur við svokallaðan veflykil sem nú er notaður til að staðfesta vilja manna og skýrslur gagnvart skattyfirvöldum.

Hugmyndin að nýrri kosningalöggjöf gengur út á þessi atriði:

1. Landið verður eitt kjördæmi.

2. Þeir sem að lágmarki hafa 200 meðmælendur geta boðið sig fram til þings. Hugmyndin að baki 200 meðmælendum er sú að frambjóðandinn sýni málinu alvöru með því að hafa fyrir að ná þessum undirskriftum.

3. Frambjóðandi geti merkt sig ákveðnum stjórnmálaflokki eða boðið sig fram persónulega án flokks.

4. Kjósandi geti kosið 10 persónur, þvert á flokkslínur og persónur.

5. Kjósandi geti kosið einn flokk án niðurröðunar. Hans 10 atkvæði falla þá sjálfkrafa á 10 efstu menn flokksins eins og aðrir kjósendur þess flokks raða þeim niður.

6. Flokkarnir hafa alltaf, í skjóli samtakamáttar, betri möguleika á að mynda stjórn. Persónubundnir kosnir frambjóðendur geta þá gengið til liðs við þá eftir atvikum.

7. Kosningar taki yfir t.d. tvo daga um helgi og þá má reikna með að fella megi niður utankjörstaðaatvæðagreiðslu þar sem hægt verði að kjósa í gegnum netið hvar sem menn eru staddir. Netsamband frá tölvu væri þá það eina sem kjósandi þyrfti til þess að neyta atkvæðisréttar.

Svona kosningalög ættu að eyða prófkjörum í núverandi mynd, sem eru að verða í hæsta máta vafasöm fyrirbæri í ljósi þeirrar staðreyndar að þau kosta suma frambjóðendur meira en nemur laununum fyrir þingstarfið. Prófkjörsbarátta einstaklings sem kostar á milli 10 og 20 milljónir hlýtur að vekja upp óþægilegar spurningar um fjármögnun og endurgjald fyrir slíka styrki.

Landið þarf að sjálfsögðu fyrir löngu að vera orðið eitt kjördæmi. Svona kosningafyrirkomulag leyfir hverjum einasta kjósanda að kjósa nákvæmlega þann frambjóðanda sem hann vill en ekki bara næstum því og óbeint eins og nú er.

Flestum má alveg vera ljóst að mjög almennur aðgangur að nettengingum gerir Íslendinga hvað best fallna til að endurbæta kosningalöggjöf með aðstoð tölva. Þeir sem ekki treysta sér til að nota tölvur til kosninga geta eftir sem áður notað hefðbundinn göngutúr á kjörstað. Kjósi hann það þá falla hans atkvæði með þeim hætti sem segir í 5. lið hér að ofan. 


Sjálfvirk og hömlulaus þenslustefna í ríkisfjármálum

Fyrir rúmum 25 árum síðan starfaði ég hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Þar átti ég góð ár og þessi vinnustaður var lærdómsríkur, ég var heppinn í starfi og vann með mörgu góðu fólki.

Ég vann síðast sem deildarstjóri í fjárhagsbókhaldi sjóhersins og skyldi þá betur hvernig opinberar stofnanir eru neyddar til að eyða hverjum einasta eyri sem til þeirra er veitt í gegnum fjárlög. Málið er einfaldlega það að ef úthlutuðu fjármagni er ekki eytt með einhverju móti er viðkomandi stofnun refsað með því að lækka framlag til hennar árið eftir. Það er því talin hrein heimska stjórnenda slíkra stofnana að láta slíkt henda sig jafnvel þó ekki sé þörf fyrir það fé sem þeir fengu.

Á þeim tíma sem ég starfaði voru því næstum því haldin litlu jólin ef afgangur var af framlaginu til sjóhersins. Gripið var til þess að endurnýja húsbúnað, kaupa tæki, mála, teppaleggja, flísaleggja og fleira eingöngu til þess að koma í veg fyrir að framlögin yrðu minnkuð næsta ár á eftir.

Fjármál íslenska ríkisins eru ekki mikið frábrugðin þessu. Forstöðumenn ríkisstofnana eyða því sem þeir fá. Það er engin leið að umbuna þeim fyrir góðan rekstur. Ef þeir reyna það er hætta á að þeir annað hvort af tvennu baki sér óvinsældir samstarfsmanna eða að stofnunin þeirra sinnir ekki skyldum sínum til fulls. Þetta er því í alvöru vandrataður og erfiður vegur.

Með þessum annmarka er ljóst að ríkissjóður, með núverandi fyrirkomulagi, getur ekki annað en aukið útgöld sín því að allar nýjar þarfir, bæði alvöru þarfir sem og gerviþarfir, þarf að fjármagna með auknum skatttekjum. Ef skatttekjur duga ekki til grípa stofnanir til þeirra ráða að búa til "Afgreiðslugjald", "Þjónustgjald", "Heimsóknargjald", "Pappírsgjald" og guð má vita hvað þetta er allt kallað sem eru duldar skattahækkanir sem hinir almennu borgarar þurfa að þola.

Skv. nýlegum fréttum er fleirum en mér ljóst að lítið sem ekkert eftirlit er með því hvernig fé ríkissjóðs er varið, aðhald er lítið sem ekkert vegna þess hversu vanmáttugt embætti ríkisendurskoðar er. Framkvæmdavaldið heldur embætti ríkisendurskoðunar viljandi í eins miklu svelti og mögulegt er vegna þess að ef það verður stærra koma bara fleiri óverjandi mál upp á yfirborðið.

Stjórnmálaflokkar sem fá rekstur sinn og kosningabaráttu greidda úr ríkissjóði munu ekki hafa frumkvæði að því að bæta hér úr. Þeir hafa ekki til þess nokkurn siðferðisstyrk í ljósi eigin sjálftöku úr þessum sömu sjóðum.

Þetta verður bara að vera verkefni okkar hinna. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 264928

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband