Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Af hverju heitir hann bara "Flokkurinn"?

Þetta er góð og gild spurning. Möguleikarnir á góðu forskeyti voru hins vegar eiginlega alltof margir. Flest forskeytanna þrengja óneitanlega flokk sem vill eiga víða skírskotun. Stofnun Flokksins hefði þess vegna getað tafist um nokkra mánuði vegna átaka um nafnið á honum. Því var forðað í bili. En tökum dæmi:

Aðventista-, Afgreiðslufólks-, Allra-, Almenni, Bankamanna-, Bara-, Barna-, Bílstjóra-, Búddha-, Bænda-, Einkavina-, Eldri borgara-, Farmanna-, Fatlaðra-, Fjölmiðla-, Fjölskyldu-, Flestra-, Flugmanna-, Flugþjóna-, Fólks-, Fríkirkju-, Gangastúlkna-, Gáfaðra-, Greindra-, Hjóna-,  Hjúkrunarliðs-, Iðnaðarmanna-, Innflytjenda-, Innrásar-, Íslendinga-, Íþrótta-, Jafnaðarmanna-, Krata-, Kristilegi, Lamaðra-, Landbúnaðar-, Landsbyggðar-, Listamanna-, Lýðræðis-, Lýðveldis-, Lækna-, Menningar-, Miðaldra-, Miskunnar-, Múslima-, Náttúrverndar-, Nemenda-, Piparmeyja-, Piparsveina-, Réttlætis-, Ræstitækna-, Sambúðarfólks-, Siðbótar-, Sjómanna-, Sjúkra-, Sjúkraliða-, Skrifstofumanna-, Skynsemis-, Stjóra-, Söngvara-, Umhverfisverndar-, Umrenninga-, Ungmenna-, Útflytjenda-, Útlendinga-, Útrásar-, Vandamanna-, Velgefinna-, Velsæmis-, Verkamanna-, Verslunarmanna-, Vina-, Yngri borgara-, Þingmanna-, Öryrkja-...flokkurinn.

(Skyldi ég hafa gleymt einhverju?)


Lausar stöður Alþingismanna

Þrátt fyrir fullyrðingar um annað þá eru engin þingsæti fyrirfram frátekin. Þess vegna hvet ég frambærilegt fólk til að sækjast eftir því að komast í framboð með það að markmiði að komast á Alþingi. Það þarf ekkert stórkostlegt að gerast til að breytingar verði á þingi. Nokkur þúsund X þurfa að færast á milli bókstafa á kjörseðli.

Þú þarft að hafa einlæga löngun til að vinna fyrir samfélagið án eigingirni og annarra annarlegra hvata. Og kannski færðu þokkaleg laun fyrir það.

Til er fjöldi fólks sem trúir því að það geti orðið að góðum þingmönnum en býður sig aldrei fram. Ástæðurnar eru þó oftast ein af þessum: a) Viðkomandi þorir ekki að flytja ræðu fyrir framan annað fólk. b) Viðkomandi er hræddur við að verða hafnað í prófkjöri eða kosningum. c) Viðkomandi telur að hann verði rændur mannorði sínu og d) Viðkomandi heldur að hann tapi vinunum sínum af því að hann sé ekki lengur í sama flokki.

Allt eru þetta góðar og gildar ástæður, í sjálfu sér, en ekki svo erfiðar að ekki sé hægt að yfirvinna.

Þú þarft ekki að vera ræðumaður til að hefja leik í stjórnmálum. Það dugir að geta tjáð sig í rituðu máli, það getur flest vel gefið fólk. Framkoma í ræðum er auðlærð á námskeiðum og svo venst þetta furðu fljótt. Spurðu bara einhvern sem reynt hefur þetta í t.d. félagsstarfi.

Höfnunartilfinningin er erfið. Við erum ekki öll með útlit Brad Pitt eða Angelinu Jolie. Hvað með það. Horfðu á þá sem eru á Alþingi núna og spurðu sjálfan þig hversu margir séu þar útlitsins vegna? Margir á þinginu eru heldur ekki sérlega duglegir í ræðuhöldum en skila samt góðri þingvinnu, sem er oft mun meira virði fyrir samfélagið.

Hafirðu hreint sakavottorð dugir það flestum. Það er engin syndlaus í þessum heimi, við berum öll með okkur einhverjar syndir. Í þínu tilviki þarftu bara að spyrja þig að því hvort þínar syndir séu of miklar til að hindra hugsanlega þingsetu?

Ef einhver vinur þinn heldur vinskap við þig bara vegna sameiginlegrar stöðu í stjórnmálaflokki er það ekki þitt vandamál heldur hans. Þú getur aldrei búist við að allir hafi sömu skoðanir og því verði að virða sjónarmið annarra og bara gott að geta sett sig í spor viðkomandi.

Hugsaðu alvarlega um það á þessari stundu hver er tilgangur lífs þíns? Var þér ætlað að vinna að góðum verkum? Hefurðu hugrekki til að stíga á stokk núna eða viltu sjá eftir því næstu fjögur árin að hafa ekki þorað?

Ég vil fá póst frá fólki með hugrekki og þor til að vinna að góðum málum. Flokkurinn býr til vettvang til að veita frambjóðendum eins jafnan rétt til framboðs og mögulegt er. Tölvupóstfangið mitt er haukur@mtt.is – Hafðu samband!


Drög að stefnuskrá Flokksins

Flokkurinn er jafnaðarmannaflokkur.

Flokkurinn vill verða lýðræðisleg fjöldahreyfing.

Flokkurinn vill að landið verði eitt kjördæmi. Einstaklingum verð gert kleift að bjóða sig fram til Alþingis án flokks.

Flokkurinn vill auka gæði menntunar og tryggja öllum skólavist. Flokkurinn vill auka hlut íþrótta- og listakennslu í námi. Skólar verði heilsdagsskólar.

Flokkurinn vill tryggja öldruðum og öryrkjum mannsæmandi lífskjör sem og heimild til að vinna eins lengi og það sjálft og aðrir kjósa. Endurskoða þarf með hvaða hætti þetta fólk geti unnið án þess að tapa réttindum sínum.

Flokkurinn vill afnema gjafakvóta í sjávarútvegi og bjóða kvóta út til hæstbjóðenda á hverju ári. Sameign þjóðarinnar verði aftur “sameign þjóðarinnar”.

Flokkurinn vill afnema aðkomu ríkisins að óþarfa samkeppnisrekstri. Rekstur og aðkoma ríkisins að RÚV verði endurskoðuð með sátt í huga. Uppsöfnuð menningarverðmæti RÚV verði skilgreind sem “þjóðareign”.

Flokkurinn vill halda í opinberan rekstur sem fyrirsjáanlegt er að verði ekki samkeppnisrekstur að óbreyttu. Hér er sérstaklega átt við grunnveitukerfi landsmanna.

Flokkurinn vill skynsama nýtingu náttúruauðlinda.

Flokkurinn vill leiðrétta lög um starfsemi stjórnmálaflokka og afnema styrki til þeirra. Ríkissjóður á ekki að vera kosningasjóður sitjandi þings með frjálsa sjálftöku.

Flokkurinn vill leiðrétta lög um eftirlaun opinberra starfsmanna og stjórnmálamanna.

Flokkurinn vill ekki, a.m.k. á næsta kjörtímabili, sækja um aðild að Evrópusambandinu og vill halda í sjálfstæði Íslands. Ísland taki þátt í að bæta heiminn með aðild að sameinuðu þjóðunum.

Flokkurinn vill ekki aðild að hernaðarbandalögum.

Flokkurinn harmar stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar við Íraksstríðið.

Flokkurinn vill viðhalda og bæta heilbrigðiskerfi landsins.

Flokkurinn vill útrýma fátækt.

Flokkurinn vill draga úr ríkisútgjöldum. Það þýðir lækkun skatta. Dægur- og dekurmál víki úr fjárlögum.

Flokkurinn berst gegn spillingu.

Flokkurinn vill forvarnarstarf í fíkniefnamálum.

Flokkurinn lítur svo á að fjölskyldan sé hornsteinn samfélagsins. Það á að hvetja fólk til sambúðar og efla fjölskylduformið á þann hátt að hún sé athvarf allra meðlima hennar.

Flokkurinn umber að það hafi ekki allir sömu skoðanir. Flokkurinn kannar vilja stuðningsmanna sinna reglulega. Fundin verði leið til að meirihluti ráði sem mest stefnu hans.

Flokkurinn kýs sér formann og stjórn í beinni kosningu allra flokksmanna. Aðeins skráðir flokksmenn kjósa.

Flokkurinn auglýsir eftir góðum frambjóðendum og viðhefur prófkjör meðal skráðra stuðningsmanna. Frambjóðendur skulu hafa hreint sakavottorð.

Flokkurinn lítur á það sem heilbrigðan metnað að fólk vilji ná frama í stjórnmálum og bjóði því fram krafta sína til þess.

Flokkurinn vill fullkominn aðskilnað ríkis frá öllum trúarbrögðum.

Flokkurinn vill endurskoða stefnu í landbúnaðarmálum og skoða með hvaða hætti er hægt að bæta kjör bænda og jafnframt að gera landbúnað þjóðhagslega hagkvæmari.

Flokkurinn styður almennt frjálsa samkeppni í viðskiptum og gerir jafnframt kröfur um að leikreglur samfélagsins séu virtar.

Flokkurinn styður þá siðfræði að þú gerir aðeins það sem þú vilt að aðrir geri þér.


Kornið sem fyllti alveg mælinn

Ég hef verið spurður að því hvers vegna ég tæki þátt í stofnun Flokksins?

Svarið er einfaldlega það að Sjálfstæðisflokkurinn fór svo illa með trúnaðarsamband sitt við stuðningsmennina að það verður ekki lengur við unað. Hægt er að nefna stuðninginn við Íraksstríðið, hefnigjarna fjölmiðlafrumvarpið, eigingjarna eftirlaunafrumvarpið, yfirhylmingu og seinagang í olíusamráðsmálinu, herferðina á Baug, spillingu í einkavæðingu, klúðrið með varnamálin, gælur við hernaðarbrölt, yfirhylming hlerunarmála og ótal margt fleira. Mér finnst eins og mörgum öðrum að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eyðilagt ágæt fyrstu 8 ára stjórnartíma síns með endalausu tómu klúðri á síðasta kjörtímabili.

Kornið sem fyllti þó endanlega mælinn hjá mörgum Sjálfstæðismanninum, eins og mér, var endurreisn flokksforystunnar á dæmdum þjófi. Verknaður sem framin var í skjóli fjarveru forseta Íslands af Sjálfstæðismönnunum sem voru handhafar forsetavalds. Enginn nema forsetinn getur svarað því hvort hann hefði kvittað upp á syndaaflausnina með sama hætti.

Skilaboðin sem forysta Sjálfstæðisflokksins sendir eru þau að þjófnaður, mútuþægni, yfirhylmingar, umboðssvik og fleira séu ekki til að spilla fyrir því að þú getir ekki orðið öðrum “fyrirmyndar” Alþingismaður aftur. Það var sérdeilis óheppilegt dómgreindarleysi að forysta Sjálfstæðisflokksins kvittaði ótímabært upp á lækningu og betrun hins dæmda. Maður velti því alvarlega fyrir sér hvað hinn dæmdi gat eiginlega notað til að knýja á um "uppreista æru"?

Það er sorglegt að duglegir menn geti verið siðblindir. Þeir eiga bara ekkert erindi í forystuhlutverk í stjórnmálum. Þá skortir alveg samúð og samhyggð, þeir beita öllum brögðum og spila á allar tilfinningar fólks til að ná sínu fram.

Það hefur enginn upplýst ennþá að siðblinda hafi verið læknuð og því á maður með slíkan sorglegan kvilla ekkert erindi á Alþingi. Punktur!

Það skiptir ekki máli úr þessu hvort sá dæmdi verði þvingaður til að hætta framboði eða ekki. Eftir stendur að forysta Sjálfstæðisflokksins afhjúpaði ófyrirgefanlegt dómgreindarleysi og sýndi heiðvirðari hluta flokksins dæmalausa óvirðingu með upphafningu hins dæmda. Það voru hin "tæknilegu mistök".

Mér varð það ljóst að það er ekki heppilegt að stjórnmálaflokkar lifi of lengi. Alveg eins og vald spillir til lengri tíma má ljóst vera að fortíðardraugar flokka eins Sjálfstæðisflokksins eru orðnir til verulegra trafala. Flokkurinn ver orðið mestu af tíma sínum í að fela gamla spillingu og verður aldrei trúverðugur á ný. Betra er að byrja með hreint borð og skulda því ekki neinum neitt og eiga helst engra hagsmuna að gæta annarra en kjósenda. 


Flokkurinn stofnaður

Ágæti lesandi,

Flokkurinn - stjórnmálasamtök hafa verið stofnuð. Þetta er jafnaðarmannaflokkur sem vill skapa nýja umgjörð um bætt lýðræði og siðferði, aukið réttlæti og meiri samúð í íslensku samfélagi.

Flokkurinn verður til vegna þeirrar staðreyndar að núverandi þingflokkar draga annað hvort með sér of marga fortíðardrauga eða eru ekki að stefna að raunverulegu lýðræði. Þess vegna þarf að skapa nýjan vettvang til framboðs jafnaðarmanna.

Flokkurinn er með flest sjálfsögð og heilbrigð stefnumál sem ekki er ágreiningur um við aðra flokka. Hvað vill hann þá sem er öðruvísi?

Við sem stofnum Flokkinn gerum það ekki til að upphefja okkur sjálf og planta í efstu sæti framboðslistanna fyrirfram. Við munum leita eftir hæfum frambjóðendum með hreint sakavottorð og góða samvisku. Flokkurinn vill breyta kosningalögum jafnvel í þá veru að kjósendur geti kosið nákvæmlega þá sem þeir vilja, óháð flokkum og jafnvel flokkslausa einstaklinga. Þessi hugmynd að breyttri kosningalöggjöf verður komið á vefsíðu okkar www.flokkurinn.net þegar hún verður tilbúin.

Flokkurinn mun líka hýsa mismunandi skoðanir um það hvernig á að ná settum markmiðum. Menn og konur geta haft áhrif á stefnu hans og reynt verður að búa til vettvang þar sem reynt verður að finna með góðu þann málafarveg sem flestum hugnast hverju sinni.

Flokkurinn hefur gert drög að stefnuskrá í öllum helstu málum og verður hún líka birt á vefsíðu okkar. Þessi stefnuskrá er ekki fullmótuð, enda Flokkurinn rétt nýfæddur!

Afnema verður gjafakvótann í sjávarútveginum. Leiðrétta eftirlaunafrumvarp þingmanna og ráðherra. Viðurkenna stuðning við Íraksstríðið sem mistök. Hætta afskiptum af hernaðarbandalögum og láta með öllu ógert að ganga í Evrópusambandið á næsta kjörtímabili. Lagfæra mál fatlaðra, lamaðra, öryrkja og aldraðra í þá veru að tilraunir til að vinna séu ekki refsivert athæfi og þeir fái betur en áður að halda sjálfsvirðingu sinni. Fullkominn aðskilnað ríkis og trúarbragða. Berjast af alvöru gegn spillingu og endurskoða öll ríkisútgjöld með þeim hætti að stöðva sjálfvirka þenslustefnu í ríkiskerfinu.

Við viljum endurskoða mál er varðar fjölmiðla, gjaldmiðil landsins, landbúnað, sjávarútveg og viðskipti.

Við viljum efla heilbrigðis-, trygginga- og félagsmál.  Allir þegnar þessa lands geta lent í því að verða hjálpar þurfi. Útrýma þarf fátækt.

Mál innflytjenda eru fyrst og fremst mál verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Ef útlendingar njóta sömu vinnuréttinda og aðrir í landinu verður ekkert innflytjendavandamál. Vaka þarf samt yfir því að láta vandamálin ekki verða til með aðgæslu í þessum málaflokki.

Núverandi þingflokkar hafa gert harða atlögu að lýðræðinu með því að festa sjálfa sig í sessi með 300 milljóna króna fjárveitingu á fjárlögum til að reka starfsemi sína.  Með þessu er reynt að koma í veg fyrir að nýjar raddir heyrist á þinginu. Hvar voru lýðræðishugsjónir þingmanna þegar þetta var samþykkt? Þeir saka hver annan um spillingu og standa svo sameiginlega að lögbundnum en siðlausum þjófnaði úr ríkiskassanum. Sjálfir hafa flokkarnir sprengt allan kosningaauglýsingapakkann upp úr öllu valdi en nenna svo ekki lengur að sækja til einstaklinga, fyrirtækja og annarra hagsmunasamtaka með styrkina. Þetta er ótrúleg ósvífni.

Flokkurinn er ennþá bara lítið fræ. Þú getur haft áhrif á afdrif þess. Sendu mér hugmyndir þínar á tölvupóstfangið haukur@mtt.is og athugaðu hvort við getum átt samleið. Vinsamlegast sendið póst undir fullu nafni og kennitölu og helst símanúmer.


« Fyrri síða

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 265495

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband