Skortur á samkeppni er þjóðarmeinsemd íslendinga

Nánast öldum saman gátu íslendingar kvartað yfir einokunarverslun dana á Íslandi.  Frelsi til viðskipta fékkst á endanum og það má núna færa rök fyrir því að langþráð viðskiptafrelsið hafi í raun liðið undir lok allt of snemma.

Íslenska ríkið tók við sumum þessara viðskiptaþátta og halda sumum þeirra enn sbr. sölu á áfengi og tóbaki í gegnum ÁTVR. Þetta hef ég stundum leyft mér að kalla ríkiseinokaða eiturbyrlun. Þetta er óhreina barnið hennar Evu, því hið opinbera úðar þessu í fólk og skammast svo yfir afleiðingunum og vill helst ekkert af þeim vita. Okrið á þessum vöruflokki á sér ekki hliðstæðu með óhóflegum tollum sem og áfengisgjaldi.

Samkeppni þar sem menn hafa frjálsa aðkomu hefur líka átt erfitt uppdráttar undanfarið vegna þess að hörðustu fulltrúar græðginnar eru að teygja anga sína í öll möguleg og ómöguleg viðskipti. Völd og áhrif í viðskiptum eru nefnilega að færast á alltof fáar hendur og þar eru notuð óvönduð meðul til að koma samkeppnisaðilum fyrir kattarnef.

Öðru hvoru berast okkur raddir þeirra sem finna fyrir óþverrabrögðum í viðskiptum og við hlustum á þau með öðru eyranu og gleymum jafnharðan, kemur okkur ekki við. Samkeppnisstofnun á að taka þessi mál upp en gerir lítið sem ekkert, trúlega vegna þess að siðferði ríkisins er oft ekki hótinu betra.

Nýjustu dæmin sem ég man eftir eru hvernig reynt er að koma í veg fyrir að Atlantsolía komist inn á markaðinn með því að undirbjóða verð þeirra í næsta nágrenni við þeirra stöðvar. Hitt dæmið er aðferð stóru lyfjakeðjunnar við að drepa apótekarann á Akranesi. Hann á að svelta burtu þó það þýði að lyfjaverð sé langlægst á Akranesi á meðan það gengur yfir. Lyfjakeðjuna munar ekkert um þetta í smá tíma á meðan lífið er murkað úr litla aðilanum. Tíma- og staðbundin undirboð á vöru og þjónustu eru miskunnarlaust notuð í þessum heimi. Almenningur lætur sér fátt um finnast vegna þess að stóra lyfjakeðjan er með lægra verð og felur sig með aðstoð skammtímagræðgi almennings sem hreinlega skilur ekki aðferðarfræðina. Þegar litli aðilinn er horfinn sökum vanmáttar hækkar lyfjarisinn verðið hægt og bítandi og situr síðan einn að öllu.

Mín tilfinning er sú að samkeppni er nær horfin á allt of mörgum sviðum og nefni hér heild- og smásölu, banka- og fjármálastarfsemi, bensín- og olíusölu, orkusölu, tryggingasölu og ótal fleiri veigaminni sviðum. Hafi einhverjum dottið í hug að samráðsfundir á borð við þá sem fóru fram í Öskjuhlíðinni forðum daga séu liðnir undir lok þá má fólk íhuga málin betur. Þeir fara núna fram um borð í einkaþotum á leið til útlanda. Þar eru tryggðarbandalögin mynduð í dag. Smærri aðilar í viðskiptum finna vel fyrir því að eiga enga möguleika á sölu á samkeppnisfærri vöru og þjónustu vegna þess að tilheyra ekki réttri viðskiptaklíku. Þeir sem ráða lögum og lofum í íslenskum viðskiptaheimi eru löngu hættir allir samkeppni á Íslandi, hér ríkir fullkomið samráð. Þeir láta nægja að berjast í útlöndum, ýmist einir eða í samstarfi ef svo ber undir.

Ríkið er ekki sannfærandi í að beita sér gegn ólöglegu samráði vegna þess að það ástundar sjálft dæmalaust okur í gegnum ÁTVR og viðheldur sóðalegu okri á matvælum með verndartollum og haftastefnu í landbúnaðarmálum til að verja hagsmuni síðustu manna í bændastétt, sem telja sig, líkt og kvótakóngarnir í fiskinum, eiga rétt á áskrift að milljörðum úr vösum almennings sér til viðhalds.

Smærri aðilar í viðskiptum hafa ekkert bolmagn til að reka dómstólamál gegn svona óþverrahætti í viðskiptum. Lögfræðikostnaður er of hár til þess. Stjórnmálamenn hjálpa heldur ekkert, ástæðan er nefnilega sú að hörðustu viðskiptahéðnarnir eiga ítök inn í pólitíkina og fjármagna að stórum hluta.

Þegar frelsið er komið á endastöð sökum ójöfnuðar og einkaeinokunar hvað gerum við þá? Tillögur eru vel þegnar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Magnússon

Góðar hugleiðingar Haukur. Frelsið er aldrei á endastöð. Sé það ekki fyrir hendi eða í samræmi við það sem við viljum sjá þá verður að berjast fyrir breytingum.  Það er rétt að samkeppni er allt of lítil og ríkisvaldið hefur í ýmsum tilvikum komið í veg fyrir samkeppni sbr. búvörur og nú varðandi lyfin með því að banna póstverslun með lyf.  Við erum með dýrustu lán í Evrópu og dýrasta mat í Evrópu og dýrustu lyf í Evrópu svo nokkuð sé nefnt. En þessu er hægt að breyta. Ekki með því að færa það í ríkiseinokunina heldur með því að auka frelsið og hafa betra eftirlit með því að það virki. Ég ætla að beita mér fyrir því og vona að við eigum samleið í því Haukur.

Jón Magnússon, 30.8.2007 kl. 11:02

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Íslandsflug hóf að fljúga til Ísafjarðar fyrir nokkrum árum. Þá snarlækkaði flug hingað.  En fólkið sjálft notaði eftir sem áður Flugfélagið, svo það endaði með því að Íslandsflug gafst upp.  Við getum stundum haft eitthvað með þetta að segja sjálf.  Mig minnir að svipað dæmi og þú nefnir á Akranesi hafi komið upp í Vestmannaeyjum, nema að ráðherra greip þar í taumana, og mig minnir endilega að almenningur hafi risið upp og krafist þess að slíkt yrði ekki gert.  Það er oft eins og við séum sofandi sauðir þegar kemur að svona málum.  En þetta gerðist líka hér á Ísafirði, sagt var að apotekaranum hefði verið stillt upp við vegg, ef þú selur ekki opnum við bara við hliðina á þér.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.8.2007 kl. 11:38

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband