Færsluflokkur: Íþróttir

Nú má STOKE ER DJÓK höfundurinn éta eitthvað ofan í sig

Ég get alveg samglaðst Stoke að fara upp í úrvaldsdeildina. Þeir leika jú í gamla góða Þróttarabúningnum og þess vegna skildi ég aldrei af hverju Hlyni (Ceres4) stórköttara Þróttar og meðlimur í Merzedes Club var svo uppsigað við félagið að uppnefna þá sem djók.

Nú má Hlynur með heiðri og sóma éta þetta ofan í sig á þessari stundu. Hvað skyldi verðmæti félagsins hafa aukist eftir leik dagsins? Nú hefðu einhverjir betur setið á hlut sínum í félaginu.

Ég hefði líka alveg getað unnt hinum umdeilda Guðjóni Þórðarsyni að fara með liðið upp. Hann vann í því eins og kría í mannaskít en vannst ekki tími til þess vegna skilningsleysis eigendanna á því að vinna með knattspyrnuprímadonnum sem eru jú óaðskiljanlegur hluti þeirra sem við þetta starfa.

Ég stenst því ekki mátið í dag að vera ósammála hinum bloggskrifurum og vera kátur yfir þessum gleðidegi fyrrum íslendingaliðsins í Þróttaragallanum.


mbl.is WBA og Stoke City í úrvalsdeildina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Simply the best - Tiger Woods

Á þessu myndbandi get ég sameinað tvö áhugamál: Tónlist og golf. Tónlistin er lag Tinu Turner - Simply the best sem á svo dæmalaust vel við þetta flotta myndskeið af meistaratöktum Tiger Woods í golfinu.


Alltaf gaman að sjá okkar mann standa sig vel

Ég var að spila með finnunum Simon og Mika í fyrradag á Campo de Golf de las Americas hér á Tenerife og þeir eru ánægðir með sinn finnska mann á Evróputúrnum.

Ég vona bara að Birgir Leifur haldi ró sinni og spili okkur til sóma. Þetta er besta frammistaða hans í talsverðan tíma. Break a leg!


mbl.is Birgir á næst besta skori dagsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei hefði ég trúað því...

... gamla karlremban sem ég er, að ég ætti eftir að vera svona stoltur af íslenskum kvennabolta.

Til hamingju með árangurinn!


mbl.is Ísland vann Finnland 3:0 í leiknum um 7. sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar basl og vesen er gleðigjafinn!

Þannig er að við félagarnir vorum fengnir til að spila tónlist í fjallapartíi í Kerlingarfjöllum sem fékk heitið “Í spenning með Henning”. Henning smalaði nefnilega vinum og kunningjum meðal íslenskra fjallamanna sem nú til dags eru með ígildi 150-500 hesta hver við tærnar á sér og þeir rúlla nett um íslenskar heiðar á 38” – 54” dekkjum sem ég vil kalla lóðrétta gúmmíbjörgunarbáta. 

Ferðin uppeftir á laugardegi gekk tiltölulega áfallalítið fyrir sig fyrir utan smávægilegar festur sem ekki töfðu reyndar neitt að ráði. Þegar kallarnir fóru að brosa þegar vesenið byrjaði fór mig að renna í grun að ég hafði alla tíð misskilið þetta fjallasport. Hjá þeim er nefnilega meira vesen – meira gaman.

Um kvöldið var grillað ofan í hópinn og við Gunni reyndum að halda uppi fjöri með spilamennsku. Það var með auðveldasta móti því hópurinn var í dúndurstuði nánast allir sem einn. Þegar þannig háttar verður verkefnið tiltölulega auðvelt.

Um hádegið var haldið áleiðis suður í besta veðri. Halarófa hátt í 20 bíla. Og litlu ævintýrin byrjuðu. Snjóþungt og bratt gil tafði smástund. Finna þurfti vað yfir á. Þar voru smá festur. Fara þurfti mjög rólega yfir klakabrúaðar ár og var óneitanlega svolítill spenningur í mönnum.

Þegar menn héldu að hindrunum væri að mestu lokið festust margir bílar sig í krapapyttunum rétt sunnan við Svínárnes. Rigningar undanfarinna daga höfðu safnast upp í lónum á víð og dreif. Síðan hafði snjóað yfir og þarna duldust því víða faldir pyttir.

Þarna var baslað og vesenast í mikilli gleði fram undir kvöldmat í rúma 5 tíma. Bílstjórarnir brutu klakann með járnkörlum, mokuðu, spiluðu, blökkuðu, ankeruðu og notuðu sliskjur til að koma bílunum upp úr pyttunum. Allt þetta ásamt því að redda affelgun og vindleysi í dekkjum var leyst af fagmennsku og bílastóðið hafðist allt upp fyrir kvöldmat líkt og það hefði verið skipulagt fyrirfram. Maður sleppir aldrei tækifæri á góðu basli er setning sem á vel við hjá þessum mannskap. Ég áætla að hátt í helmingur bílanna hefði fest sig í krapapyttunum og allir fengu að taka þátt í baslinu að vild.

Nóni með klakann og Árni með karl úr járni

 Hér er Nóni, berhentur og brosandi mest allan tímann, að veiða klakann upp úr pyttinum hjá Patrólnum sínum í -12 stiga frosti. Hann kvartaði ekki um kulda! Árni á rauða Land Rovernum tók vel á því líka. Hans bíll var nefnilega næstur, líka með trýnið oní krapapyttinum. (Smellið þrisvar á myndina til að fá fram bestu gæði.) - Ljósm. Rúnar Daðason.

Þetta var skemmtileg og ný upplifun fyrir malbiksjeppaeigandann, sem í augnabliksfáfræði lét sér detta í hug að fylgja breyttu bílunum þarna uppeftir. Sem betur fer var haft vit fyrir honum.

Gunni og Haukur með leiktækin sín
 
Gunni Antons og ég með áhöldin okkar í höndum. Skemmtilegur og sérkennilegur staður fyrir gigg.
Ljósm. Rúnar Daðason.

Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir samveruna þessa helgi og er þess vegna til í að endurtaka leikinn að ári.


Það þarf að vekja eldmóðinn fyrir leikinn við svía

Það verður gaman að fylgjast með því hvernig Alfreð tekst að vekja andlegu hlið okkar manna. Ég er á þeirri skoðun að líklega hefur okkar landslið aldrei verið betra og reynslumeira á pappírunum en það skiptir bara engu máli þegar hólminn er komið.

Mörg lið á mótinu eru svo áþekk í getu að það lið sem nær upp stemmingu á andlega sviðinu í flestum leikjum vinnur mótið.

Ég vona að Alfreð nái að pipra upp í afturenda okkar leikmanna andlegu hliðina og ég er satt að segja svolítið spenntur að þessu sinni. En þar sem maður er nú bara áhorfandi verður maður að geta tekið því eins og maður ef þetta fer öðruvísi.

Aldrei hafa væntingarnar verið jafn miklar. Hins vegar vita allir sem að íþróttum koma að ef þú trúir því ekki að þú getur unnið þá gerir þú það bara ekki. Þess vegna þurfa "strákarnir okkar" (ennþá!) að trúa því að þeir geti þetta. Áfram Ísland! 

 


mbl.is Svíar spá Íslandi 10. sætinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var ekki Eiður búinn að ÞAGGA NIÐUR Í GAGNRÝNENDUM?

Mér finnast fréttir af högum Eiðs Smára stundum mjög undarlegar.

Sem áhugamaður um fótbolta þykist ég vita að það taki meira ein einn til tvo leiki til að festa sig í sessi einhversstaðar. Þegar stjörnurnar verða heilar má búast við að menn í fari á bekkinn aftur þótt þeir hafi staðið sig þokkalega eins og Eiður hefur gert.

Mitt í öllu þessu finnst manni að 365 hafi gert út á að Eiður myndi leika til að selja áskrift að sjónvarpsrásinni Sýn.

Svona fréttamennska dregur úr trausti manns á fjölmiðlun. Það er núna orðin mjög þunn lína á milli frétta, íþrótta og skemmtana.

Ég skal hins vegar fullyrða að Real Madrid var betra liðið í leiknum nánast allan tímann og ég er líka á þeirri skoðun að Eiður hefði átt að fá að byrja leikinn, miðað við fyrri frammistöðu. Hér gerði Frank Rijkard taktísk mistök og leikurinn bar þessu glögglega merki. Hvort hann hafi verið undir þrýstingi stjórnar að nota stjörnurnar Deco og Ronaldinho í þessum leik skal ósagt látið en eitthvað læðist samt að manni sá grunur.


mbl.is Real Madrid sigraði - Eiður úti í kuldanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert í húfi - Hvers vegna taka áhættuna?

Eiður er að reyna að vinna sér sæti í liðinu sem borgar honum háu launin. Ég tel nokkuð augljóst að hann taki ekki áhættu með leik sem er nánast eins og vináttuleikur. Því ekki hefur hann neina þýðingu úr því sem komið er.

Nú kann einhver að spyrja hvort hann hafi ekki stolt? Hann hefur það sjálfsagt en það hljóta að vera takmörk fyrir því hvaða áhættu menn taka gagnvart vinnuveitanda sínum. Ekki væri ég heldur hissa þó hann hefði verið beittur sams konar þrýstingi og þegar Barcelona meinaði honum að taka þátt í landsleiknum gegn Spáni. Það var hins vegar hneyksli.

Ef aðrar ástæður en ofangreindar væru hér að baki gæti hann sagt það bara hreint út, en ekki þegar um er að ræða yfirgang vinnuveitanda sem á skv. öllum fótboltareglum og hefðum að sleppa honum í landsleiki. Sá sannleikur þolir ekki opna umræðu.


mbl.is Eiður: „Ákvörðunin hefur ekkert með þjálfarann að gera“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara myndbirtingin er til að gera lítið úr Terry

Mér finnst John Terry málaður með þeim hætti að allt sé gert til að gera karlgreyið ljótan fyrir að þiggja há laun hjá ólíugarkanum Abramovich.

Það að velja mynd af honum með andlitsgrímuna (hann kinnbeinsbrotnaði um daginn ef ég man rétt) gerir hann grimmari og þá væntanlega gráðugri útlits en hann er í rauninni.

Ég hef tekið eftir því undanfarið eins og fleiri að blaðamenn Mbl séu farnir að lita fréttirnar eins sterkum litum og þeim er unnt. Ekki er ég viss um að það sé góð þróun.


mbl.is Taylor ver laun John Terrys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðjón hefði hentað betur en Ólafur

Ólafur er góður þjálfari. Við höfðum góða reynslu af honum hjá Þrótti og hann hefur náð góðum árangri hvar sem hann hefur verið. Hann er því til alls góðs maklegur.

Um landsliðið finnst mér gegna öðru máli. Þó að Ólafur sé góður þjálfari þá er hann ekki eins blóðugur upp fyrir haus eins og Guðjón. Þetta er þá í þeirri merkingu að ég tel landsliðið ekki þurfa þjálfara heldur miklu fremur brjálaðan leiðtoga sem öskrar þessa stráka í stuð á réttu augnabliki fyrir leiki. Þeir fá svo góð frí frá honum á milli!

Stjórn KSÍ ætti að vera kunnugt um þetta en hér lítur út fyrir að þeir vilji áfram vera í náðugu djobbi því Ólafur er allt of líkur "þægu" strákunum sem hafa verið viðloðandi landsliðið allt of mörg undanfarin ár með allt of skaplausum árangri. 


mbl.is Ólafur ráðinn landsliðsþjálfari?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 265495

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband