Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Hvað þarf Sjálfstæðisflokkurinn að gera mikið af sér til að þú hættir að kjósa hann?

Mér finnst eiginlega með ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn fái jafn mikið út úr skoðanakönnunum og raun ber vitni.

Ég velti því fyrir mér að flestir kjósendur hans hafi alls ekki gefið því neinn gaum hvað flokkurinn sá hefur eiginlega staðið fyrir á síðasta kjörtímabili. Hér er nokkurn veginn listinn sem rak mig úr flokknum og svari síðan hver fyrir sig:

  • Forystumenn Sjálfstæðisflokksins beittu brögðum við að gera dæmdum sakamanni kleift að bjóða sig fram til þings að nýju.
  • Forystumenn Sjáflstæðsflokksins hafa ekki haft fyrir því að viðurkenna að stuðningur ríkisstjórnarinnar við stríðsrekstur í Írak hafir verið stórkostleg og vanhugsuð mistök
  • Eftirlaunafrumvarpið að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins tryggir þingmönnum og ráðherrum flokksins í mörgum tilvikum tvöföld eftirlaun á við venjulegt fólk.
  • Enginn núverandi forystumanna Sjálfstæðisflokksins hafa viðurkennt að bæði fjölmiðlafrumvarpið alræmda og málefni Ríkisútvarpsins ohf. séu della frá upphafi.
  • Sjálfstæðisflokkurinn klúðraði öllum málum varðandi viðskilnað Varnarliðsins og gerir nú örvæntingarfullar tilraunir til að bæta við þau mistök með því að kaupa eitthvert vanhugsað æfingaflug frá nágrannaríkjum okkar.
  • Sjálfstæðismenn hafa algerlega brugðist  í helstu  velferðarmálum gagnvart  öldruðum og öryrkjum.  Á sama tíma og almenningur telst  vera í 6. sæti í lífsgæðum  eru  aldraðir og  öryrkjar í 20. sæti. Þeir hafa haft 4 kjörtímabil (16 ár) til að færa þessi mál til betri vegar. Trúir því einhver að mál aldraðra og öryrkja í þeirra málflutningi sé eitthvað annað en síendurtekið kosningaloforðaorðagjálfur?
  • Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa misbeitt valdi sínu til að leggja fyrirtæki Baugsmanna í einelti.
  • Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa misbeitt valdi sínu til að tefja og hylma yfir stærsta þjófnaðarmál Íslandssögunnar sem var olíusamráðið.
  • Prófkjörsbarátta efsta manns Sjálfstæðisflokksins er af sérfræðingum í auglýsingakostnaði talinn hafa kostað 15-20 milljónir króna. Þetta er næstum sama upphæð og maðurinn fengi útborgað sem laun fyrir þingmennskuna sína. Hvernig fékk hann þessa fjármuni? Lánaða? Hvernig launar hann greiðana?
  • Davíð Oddsson skyldi ekki eftir sig leiðtogaefni eftir 15 ára veru sína sem formaður Sjálfstæðisflokksins, hann skyldi eftir sig mannskap sem var þolinmóður að bíða færis eftir uppfærslu og kunni að hlýða!
  • Sjálfstæðisflokkurinn gegndi lykilhlutverki í að stela með lagasetningu 300 milljónum úr ríkissjóði til að borga kosningaauglýsingar, vegna leti við að fá spillingarféð frá stórfyrirtækjum og ríkari einstaklingum.
  • Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið þátt í að dreifa fjármunum úr ríkissjóði á báðar hendur án þess að fylgjast nokkuð með afdrifum þessa sama fjármagns. Hundruð milljóna í styrkjum eru týndar í hin ótrúlegustu mál.
  • Sjálfstæðisflokkurinn mun einkavæða Landsvirkjun og orkufyrirtækin. Geir Haarde hefur ekki dregið dul á þá skoðun sína.
  • Sjálfstæðisflokkurinn mun festa fiskveiðiauðlindina til frambúðar hjá útvegsmönnum, hann hefur beinlínis lýst því yfir að allri réttaróvissu um kvótann eigi að eyða.
  • Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa í aðdraganda kosninga lofað 4-500 milljörðum í alls kyns verkefni í algjöru heimildarleysi. Trúið þið því í alvöru ennþá að þessi loforð muni halda eftir kosningar?
Ég er hættur að kjósa þennan flokk, hvað með þig?

Vinstri græn tóku þátt í þjófnaði úr ríkissjóði

Ég þreytist seint á að benda á þversagnir í framburði þeirra stjórnmálamanna sem halda því fram að nýju lögin um fjármál stjórnmálasamtaka hafi yfir sér eitthvert yfirbragð heiðarleika og ráðdeildar. Þeir ákváðu það eitt í sameiningu að nenna ekki lengur að taka við og fela spillingarfjármagn frá stórfyrirtækjum og ríkum einstaklingum.

Núverandi þingflokkar ákváðu í sameiningu að stela (með lagasetningu) nærri 5 milljónum á hvern einasta þingmann á ári til að tryggja endurkjör þeirra. Þetta er hátt í að vera jafn há upphæði og þeir fá útborgað í laun. Ný framboð fá ekkert og eru auk þess skuldbundin til að þiggja ekki meira en 300.000 krónur frá  hverjum lögaðila.

Það er sniðugt að setja þessar hömlur á ný framboð á sama tíma og þingflokkarnir lögfesta að ríkissjóður brjóti sjálfur þessa meginreglu um 300.000 kallinn þeim sjálfum til handa!


mbl.is Bókhald stjórnmálaflokka á að vera öllum opið að mati VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin svarta framtíðarsýn - Hvað gerist ef bankarnir tapa?

Flestum finnst sem íslendingar séu líklega að upplifa besta skeið Íslandssögunnar og það er trúlega bara rétt svo langt sem það nær. Flestar tölulegar upplýsingar sem þjóðhagfræðingar bera á borð fyrir okkur styðja þessar almennu ályktanir.

En þetta er bara ekki svona einfalt. Mér finnst að við nánari skoðun á því hvernig efnahagslífið hefur farið á flug að þá sýnist mér það nánast alfarið komið til vegna einkavæðingar bankanna, sem sumir kalla einkavinavæðingu. Vegna fyrri stöðu sem ríkisbankar og ríkisábyrgðar gátu bankarnir komist í allt það lánsfé erlendis sem þeir kærðu sig um. Og þeir sannarlega kærðu sig um það. Bankar hafa bara eitt markmið og það er að græða. Þeim er lítt sama hvernig það gerist svo lengi að það bara gerist.

Stóru lánin sem bankarnir tóku var sett í umferð í formi húsnæðislána og annarra fjárfestingarlána. Bankarnir yfirbuðu íbúðalánasjóð og settu hann nánast til hliðar með samkeppni sinni. Þetta stórkostlega offramboð á lánsfé er nánast eina ástæðan fyrir því að fasteignaverð hefur a.m.k. tvöfaldast í verði á undanförnum árum. Þetta hefur líka haft áhrif á afleiddar greinar sem þenjast út í mismunandi sterkum takti við fasteignasprengjuna.

Bankarnir hafa grætt vel undanfarin ár og það er að sjálfsögðu jákvætt fyrir þá og eigendur þeirra. Hins vegar er undirstaðan veikburða. Bankarnir eiga gríðarlegar eignir, en þeir skulda líka að sama skapi gríðarlega. Eiginfjárstaða þeirra var um síðustu áramót undir 10% ef taka má mark á því að þeir hafi átt 8500 milljarða í eignum en skuldað 7900 milljarða á sama tíma.

Stærstur hluti útlána bankanna eru fjárfestingalán. Íbúðalánin til íslendinga vega þungt en ekki síður ævintýri þeirra með útrásarfyrirtækjum í útlöndum. Þeir hafa fjárfest í hlutabréfum útrásarfyrirtækjanna sem fjárfesta áfram til að ná völdum í grónum erlendum fyrirtækjum. Einhver tjáði mér að í hópi þessara íslensku fjármálasnillinga væri nóg að eiga 10% þá lánuðu bankarnir hin 90% til áhættufjárfestinga erlendis ef þeim líst á verkefnin. Það má öllum vera ljóst að til þess að græða jafn vel og raun ber vitni þarf að taka áhættu. Ef þetta væri á allra færi myndi a.m.k. annar hver íslendingur leika sama leikinn. Bjartsýni á þessu sviði er með þeim hætti að hlutabréfavísitölur á Íslandi eru á svo mikilli uppleið síðustu ár að þær eru ekki lengur trúverðugar. Undirstaðan undir þessu öllu er óhófleg skuldasöfnun og eyðsla á framtíðartekjum.

Nú komum við að spurningunni í fyrirsögninni. Hvað gerist ef það kemur verðfall á hlutabréfum eins og svo oft hefur gerst áður? Munið þið t.d. þegar NASDAQ vísitalan fór úr rúmum 5000 stigum niður í 1300 fyrir 5-6 árum? Ef slíkt hendir aftur þá tel ég að íslendingar tapi nánast öllum þjóðarauði sínum og ég skal skýra hvers vegna.

Við svona fall hlutabréfa, falla eignir bankanna í verði, þeirra hlutabréf í öðrum fyrirtækjum sem og skuldbréfaeignir hjá útrásarhetjunum. Þeir hætta þá á sama tíma að standa undir sambankalánunum frá erlendu stórbönkunum. Þeir verða þó ekki látnir fara á hausinn heldur verða þeir yfirteknir af lánadrottnum sínum. Þar með verður íslenska þjóðin hugsanlega á örfáum árum búin að henda íslensku bankakerfi út af borðinu og situr eftir með ekkert í þeim efnum nema hugsanlega sparisjóðina, hafi þeir ekki þá þegar verið einkavæddir og formbreytt í samræmi við hinar fjármálastofnanirnar.

Áður en þetta gerist eru líkur á búið verði að einkavæða Landsvirkjun og orkufyrirtækin þannig að þau verði í eigu bankanna. Þeir eru þegar farnir að seilast í þessa veru og hafa lýst áhuga sínum á þátttöku í þessari einkavæðingu, engum þarf að dyljast það. Á sama tíma eru bankarnir með tangarhald á fiskikvótanum hjá útvegsmönnum. Sjálfstæðisflokkurinn mun á næsta kjörtímabili sjá til þess að einkavæðing orkufyrirtækjanna og fiskveiðiauðlindinni gangi eftir. Geir Haarde hefur nægilega oft lýst áhuga sínum opinberlega í þessa veru til að nokkur þurfi að efast um það. 

Skv. ofansögðu má því lesa úr þessu að erlendir stórbankar geti á einu bretti, við óheppilegt verðfall erlendra hlutabréfamarkaða, eignast allt sem máli skiptir á Íslandi: Banka og fjármálastofnanir, Landsvirkjun, orkufyrirtækin og fiskimiðin. Ég tel því raunverulega hættu að íslendingar tapi sjálfstæði sínu í ævintýri íslensku fjármálasnillinganna með hjálp óhæfra stjórnmálamanna.

Vill einhver segja mér hvað við ætlum þá að eiga eftir? Er rétt að við grípum í taumana áður en þessi hætta verði raunverulegri? Er ofangreind og svört framtíðarsýn ólíklegri en að það geti aftur gosið í byggð?

Í stuttri nánustu framtíð er úrvalsveður þennan föstudag langa og því fyrirtak að njóta dagsins. 


Ágúst fengi hvort eð er ekki þessi atkvæði - hvað er hann að hugsa!?

Alveg er hann dæmalaus þessi málflutningur þeirra sem fara einatt í fýlu þegar ný framboð eru mynduð. Ágúst Ólafur, þessi annars vel greindi maður, virðist ekki skilja að sum okkar myndu ekkert frekar kjósa Samfylkinguna fremur en stjórnarflokkana. Hvað er þá dautt? Vill hann frekar að stjórnarflokkarnir fái atkvæðin sem hann fær ekki?

Þessi málflutningur er ómerkilegur hræðsluáróður sem á engan rétt á sér og er ómálefnalegur. Það eru allir frjálsir að því að mynda stjórnmálasamtök eins og önnur félög. Sættið ykkur við það! 


mbl.is Ágúst Ólafur: Hætta á að atkvæði detti niður dauð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert fóru 300 milljónirnar frá Íslandi?

Halldór og Davíð lofuðu á sínum tíma 300 milljónum "til uppbyggingar í Írak" eftir stríð.

Nú spyr ég Árna Mathiesen og Ríkisendurskoðanda: Hvert fóru 300 milljónirnar frá okkur? Var þeim kannski stolið líka? 


mbl.is Átta milljarðar Bandaríkjadala horfnir úr íröskum sjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Félagaskrá Sjálfstæðisflokksins er stærsta flokkslygin!

Þann 17. desember s.l. sendi ég framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins formlega úrsögn mína úr flokknum.

Í gær horfði ég að boð Sjálfstæðisflokksins um að mæta á setningu landsfundar og hef því fengið endanlega staðfestingu á því sem ég hef talið mig vita í mörg ár að félagaskrá þessa flokks er ein risastór sjálfsblekking.

Staðreyndin er nefnilega sú að mjög fáir greiða raunverulegt félagsgjald til flokksins og nöfnin eru fengin í skrána með því að starfandi félagar skrá samviskusamlega niður alla þá sem hugsanlega kjósa flokkinn. Ég tók sjálfur þátt í þessu starfi á síðustu öld. Sjálfur hef ég aldrei greitt félagsgjald en fengið flokksfréttir og ýmislegt sent þrátt fyrir það og verið lengi titlaður fulltrúaráðsmeðlimur óumbeðið.

Félagaskrá Sjálfstæðisflokksins sem slík er lygi. Það sem er rétt, er að skráin þeirra er listi yfir mögulega stuðningsmenn í kosningum og ekkert meira.

Mér þætti rétt að einhver á flokksskrifstofunni staðfesti með athugasemd hér að ég hafi verið strikaður út af skránni. Það tókst greinilega ekki að gera það með beinum tölvupósti til framkvæmdastjóra flokksins, sem trúlega er of upptekin við að telja kosningastyrkinn frá ríkissjóði til að sinna svona mjálmi. 


Grátið á Spáni - Aðeins á undan okkur í sjálfstæðismissinum

Á meðan ég var á Tenerife var aðeins ein sjónvarpsrás á ensku á hótelsjónvarpinu. Hún var BBC World og svo þurr að maður fann eiginlega bara eyðimerkurkeim af henni.

Ein frétt vakti þó athygli mína og það var að spánverjar voru að reyna að koma í veg fyrir yfirtöku eins stærsta orkufyrirtækis Spánar af hendi þýsks orkurisa. Spánverjarnir höfðu víst sett ein 19-20 ströng skilyrði fyrir yfirtökunni og þeir þýsku svöruðu bara með því að kæra málið til dómstóls ESB. Og þar þóttust menn sjá að yfirtakan yrði dæmd þeim þýsku í vil.

Mér finnst ég sjá þarna fyrirboðann að einkavæðingu Landsvirkjunar og orkufyrirtækjanna íslensku. Það verður að veruleika á næsta kjörtímabili ef Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram við völd. Þessi flokkur er nefnilega að snúast upp í það að vera í sérstöku kappi við að standa ALLS EKKI undir nafni. Þegar fjármálastofnanirnar verða búnar að eignast orkufyrirtækin og fiskinn í sjónum koma bara ennþá stærri erlend fjármálafyrirtæki og kaupa allt saman, og þar með sjálfstæði íslensku þjóðarinnar.

Hvað halda íslendingar (og þá sérstaklega hinir hugsandi Sjálfstæðismenn) að við eigum þá eftir? Bjarta framtíð sem leiguliðar erlendra stórfyrirtækja?


Skjótum gamla fólkið!

Flestir íslendingar virðast hafa fallist á að trúa því að við séum orðin ein ríkasta þjóð Evrópu og þar með heimsins. Þvílíkt lán!

Þrátt fyrir það eru margir sem álíta að til sé alltof mikið af fátæku gömlu fólki sem hímir allt að fimm saman inni á herbergjum elliheimilanna og þetta lið þekkist ekki og er ekki einu sinni skylt. Mér finnst stundum að umræðan sé á þann veg að jafnvel refsifangar fái betri aðbúnað en gamalt fólk á Íslandi, hvað þá öryrkjar og geðfatlaðir. Refsifangarnir fái þó allavega sér herbergi þótt lokað sé, heilsugæslu, tannhirðu, menntun og jafnvel vinnu ef svo ber undir.

Það er náttúrúlega hægt að skjóta bara þetta gamla fólk ef það er orðið svona mikið fyrir okkur. Sumum þeirra væri líklega bara greiði gerður með því. Í alvöru talað þá þarf að taka ákvörðun um að samfélagið ætli að virða líf og starf þessa fólks. Það voru nefnilega ekki allir jafn lánssamir í fjármálum sínum og þurfa aðstoð. Öryrkjar hafa hefðbundið átt jafnvel enn minni möguleika en aldraðir til auðsöfnunar!

Nýleg könnun segir að íslendingar séu í 6. sæti í heiminum í lífsgæðum. Á sama tíma eru aldraðir taldir á svipaðan mælikvarða í 20. sæti. Til að ná þeim upp í sama sæti og almenningur þurfa kjör þeirra að batna um 50%.

Framboð Baráttusamtakanna er að taka á sig mynd. Flokkurinn verður væntanlega hluti af því dæmi ef allt gengur eftir ásamt Baráttusamtökum eldri borgara og öryrkja og Höfuðborgarsamtökunum.


Meirihlutinn ræður - hvort sem það er vit eða ekki

Mér finnst niðurstaða kosninganna í Hafnarfirði eiginlega bara dapurleg. Hún var nefnilega engin. Það vann enginn þessar kosningar hvort sem fólk vildi stækkun álversins eða ekki. Nýr meirihluti bæjarfélagsins getur nefnilega tekið aðra ákvörðun um málið strax á næsta kjörtímabili. Það er ekkert sem hindrar það í sjálfu sér fari nýjar sveitarstjórnarkosningar þannig. Við búum við þannig stjórnarfar að ÖLL lög og ALLAR samþykktir má endurskoða.

Ég er reyndar á þeirri skoðun að ekki verði hjá því komist að venjulegt nútíma samfélag þurfi blöndu iðn- og atvinnugreina til að þrífast. Það þýðir að stóriðja er hluti af dæminu. Spurningin er bara sú hvort það sé ekki að verða þjóðareinkenni íslendinga að vera í ALLT-eða-EKKERT-málum. Við þurfum ekki að skoða annað en loðdýrarækt og fiskeldi í nýlegri fyrnd til að sjá að stundum höfum við verið of kappsöm í tilraunastarfsemi sem mátti gjarnan vera í smærri mæli til að byrja með, svona rétt til að komast að því hvort viðkomandi atvinnustarfsemi bæri sig eða ekki. Nei þetta varð að vera allt eða ekkert.

Meirihluti kjósenda ræður. Skiptir hér engu máli hvort þessi meirihluti hefur ekki vit á málinu eða ekki. Við höfum samþykkt svona leikreglur. Stundum má spyrja sig hvort kjósendur eigi að fá að kjósa um mál eða ekki. Ef við þyrftum á alvarlegri aðgerð að halda heilsunnar vegna þætti okkur ekkert sniðugt að leggja slíkt mál undir einhverjar almennar kosningar. Þó að þetta sé kannski ekki besti samanburðurinn er punkturinn sá að kjósendur vita stundum nánast ekkert um hvað er kosið, en ráða samt úrslitum! 


Kaupið varlega í útlöndum - Reynslusaga frá Tenerife

Nú er maður kominn heim úr 10 daga ferð til Tenerife, sem var skemmtileg, nærandi og eftirminnileg.

Einnig fékk maður ókeypis námskeið. Námskeiðið var í verslun. Nokkuð sem ég hélt að ég væri sérfræðingur í, en fékk samt óvænta skólun sem ég ætla að lýsa fyrir ykkur. Kannski getið þið nýtt þessa reynslu til að forðast óprúttna sölumenn á sólarströndum.

Þegar rölt er um ströndina á Playa de Americas eru búðirnar og veitingahúsin að skipta með sér athygli þinni. Sölumenn bæði veitingahúsa sem verslana standa á gangstígnum og reyna að draga þig inn. Harðastir allra eru indverjarnir með raftækjabúðirnar. Sem tækjadellukall leyfði ég mér að skoða stafrænar videotökuvélar og í augnabliks andvaraleysi var ég teymdur inn í eina slíka búð. Tilboðið hljómaði mjög vel €180 fyrir Sony DCR-SR40 videotökuvél (listaverð nálægt $990 vissi ég síðar). Ég vissi reyndar ekki hvað væri eðlilegt verð en uppsöfnuð vitneskja sagði mér að þetta væri þess virði að skoða. Um leið og ég ætlaði að ganga frá kaupunum hóf sölumaðurinn að sýna mér aðrar "nýjar" vélar og var sérstaklega umhugað að fá mig til að kaupa glænýtt módel af minni og handhægari vél með hærri pixlafjölda. Pixlafjöldinn væri jú aðalatriðið við kaup á slíkri vél (það er reyndar bara eitt af mörgum atriðum sem menn athuga). Hann tengdi vélarnar við sjónvarp og það fór ekki á milli mála að myndin á sjónvarpsskjánum var "nýju" vélinni í hag (hann hagræddi bara birtustigi til að villa um). Brátt voru þeir orðnir tveir að ólmast við að fá mig til að kaupa þessa nýju vél í stað Sony vélarinnar og beittu ýmsum brögðum eins og þeim að reyna að sannfæra mig um að konan myndi örugglega vilja handleika minni og flottar vél, hvort ég ætlaði virkilega að kaupa eitthvað sem konunni líkaði ekki, hvort ég ætlaði ekki að kaupa HD ready tökuvél og fleira sem var farið að hljóma eins og að verið væri að tefja fyrir því að ég keypti vélina sem ég var að skoða. Að endingu var þrefið við þá um verð á "nýju" vélinni farið að fara í taugarnar á mér og um það bil sem ég var að gefa eftir í baráttunni við þessa tvo útsmognu sölumenn kíkti ég á nafn framleiðandans og sá að það var ekkert sem var þekkt í þessum bransa: Sharpixel. Þegar ég benti þeim á að þetta væri óþekktur framleiðandi fullyrtu þeir að þetta væri Sharp. Ég sagðist ekki treysta þessu og vildi ganga frá upphaflegum kaupum, en þá drógu þeir skyndilega í land og sögðu að vélin væri ekki til og þeir yrðu að halda "sýningareintakinu" hjá sér. Það yrði að panta hana og það tæki nokkra daga. Ég ákvað þá að hætta við og fór eftir að við höfðum rifið VISA miða sem átti bara eftir að strauja. Sem sagt engin viðskipti fóru fram.

Þegar ég sagði öðrum frá þessu var mér bent á að ég hefði verið hársbreidd frá því að kaupa ódýra  MP4 tökuvél á fjórföldu verði. Ég hefði aldrei verið látinn fá Sony vélina, hún væri bara beita til að plata þig inn til að kaupa ónýtt dót á uppsprengdu verði.

Það hafa margir gert góð kaup í vélum á Kanaríeyjum. En miðað við mína reynslu þá hafa örugglega margir verið teknir í görnina með plati af því tagi sem reynt var á mér. Yfirleitt skammast menn sín fyrir að hafa verið plataðir og þegja þess vegna yfir því.

Sem betur fer slapp ég með skrekkinn, fylgist samt vandlega með því að ekki komi skrýtin VISA færsla frá þessum náungum því þeir skrifuðu hjá sér VISA númerið og fengu undirskriftarsýnishorn að sögn vegna ábyrgðarmála. Eftir að heim kom sá ég að upplýsingar sem Sumarferðir höfðu dreift (og ég EKKI lesið) bentu á þessar aðferðir óprúttinna kaupmanna. Þeir eru ótrúlega þolinmóðir að veiða þig í netið sitt og skjalla þig upp úr skónum á meðan.

Ég vil því nota þetta tækifæri og benda fólki á að kaupa þessi tæki af þekkingu og vita hvað þau kosta áður en farið er, helst alveg niður á módelnúmer viðkomandi tækis og kaupa bara frá framleiðendum sem eru þekktir. Notið ekki kreditkort, heldur einungis reiðufé.


« Fyrri síða

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 265617

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband