Hvernig verða leiðinleg og illa skrifuð blogg vinsæl?

Ég hef stundum kíkt á dálkinn "vinsælast" og verið að furða mig á því að ég hefði á köflum eitthvað skrýtinn smekk fyrir sumu af því lesefni sem sumir meðbloggararnir bjóða upp á.

Mér hefur nefnilega fundist vera hér mikill fjöldi bloggara sem varla geta komið frá sér óbrengluðum setningum og eru auk þess jafnvel með leiðinlega pistla en samt með sérkennilega mikla aðsókn.

Við frekari skoðun kemur ýmislegt í ljós. Á upphafssíðu bloggsins þ.e. www.blog.is eru 8 bloggarar auglýstir efst á upphafssíðunni undir "Umræðan". Ef þeir hafa eitthvað álitlegt fram að færa þá kíkir maður á einhverja þeirra í framhaldinu, hina þekkir maður orðið af leiðinlegu efni og lætur bara vera. Við enn nánari skoðun komst ég að því að valdir eru 44 bloggarar sem skiptast á um að vera í þessum auglýsingagluggum og birtast þeir handahófskennt alltaf einhverjir 8 í senn. Síðan er greinilega alltaf einhverjum hluta af þessum 44 "auglýstu" bloggurum skipt út en sumir eiga þarna fast sæti mánuðum og vikum saman.

Margir þessara bloggara eru þekktir úr þjóðlífinu og er sérstaklega hampað þó þeir hafi í raun sumir lítið skemmtilegt eða áhugavert fram að færa enda ber vinsældalistinn, sem hægt er að skoða, það glöggt með sér. Mér til gamans skoðaði ég hvar þetta fólk væri á vinsældalistanum miðað við svona  "auglýsingu". Mér til furðu er t.d. "ofurbloggarinn" Björn Bjarnason, sem er alltaf í auglýsingaglugganum "Umræðan", bara í 210. sæti á vinsældalistanum yfir mest sóttu síðurnar. Auðvitað er Björn í metum hjá ritstjórn Mbl. sem fyrrverandi blaðamaður og núverandi dómsmálaráðherra. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, finnst ekki inni á topp 400 listanum þrátt fyrir að vera meðal hinna útvöldu.

Skv. ofansögðu þá hampar ritstjórn Mbl. ákveðnu fólki hér á blogginu og reynir að tryggja að það fái lesningu á síðum sínum hvort sem það verðskuldar það vegna efnistaka eða ekki.  Þó ég nefni frægasta bloggarann sem dæmi um sérstakan skjólstæðing ritstjórnarinnar þá er vissulega fólki úr öðrum flokkum hampað með sama hætti. Ég er því ekki sérstaklega að saka ritstjórnina um pólitíska ritskoðun hér, langt í frá. Ég vil líka taka fram að ritstjórn Mbl. er LÍKA að hampa mörgu mjög vel ritfæru og skemmtilegu fólki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Og það er bara fyndið að stór hluti þessara aðila eru í ca 90% tilvika að linka á frétt af mbl og nánast endurskrifa hana

Heiða B. Heiðars, 9.3.2007 kl. 01:15

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hefurðu ekki velt fyrir þér af hverju fólk á svona marga bloggvini ? Ég er nýgræðingur hér, en ég hef séð það strax og þarf ekki mikinn vísdóm til, að fólk er einfaldlega að tryggja að það geti lesið blogg frá fólki sem því líkar við.  Því sumir bara einfaldlega sjást ekki meir.  Þannig að þegar maður sér áhugaverða pistla, þá grípur maður hálmstráið "bloggvinur" og þar með getur maður gengið að skrifum viðkomandi án þess að lenda i eltingum út um allar trissur.

Ég hef svo sem furðað mig á þessum gæðingum sem tróna þarna efst, og sé það sem þú ert að tala um nákvæmlega.  Þannig að i raun og veru er þetta svona spurning um að oflof er háð.  ég hef séð svo marga einstaklinga hér sem skrifa algjörlega frábærlega og viturlega um svo margt, sem aldrei eða mjög sjaldan tróna þarna meðal átta efstu, eins og Jónu kynfræðing sem er algjör perla, Prakkarann sem veitir þvílíkar perlur út og suður, og bara svo marga aðra frábæra penna og réttsýnt fólk sem gaman er að lesa. 

Ég hef svo sem ekki leitað mikið eftir því að fá bloggvini. En sem betur fer hafa samt fjölmargir viljað gerast blogg vinir mínir og ég er þakklát fyrir það.  En ég sé alveg í hendi mér hvað liggur á bak við þarna. 

En svona er lífið. Menn sækja það sem þeir hafa áhuga á.  Og lesa það sem skiptir þá máli.  Hitt fer inn um annað og út um hitt.  En stjórnendur mættu alveg skoða þetta af einlægni hvort þeir séu á réttu róli þarna, eða hvort þeir ættu ef til vill að hætta þessu "séra" dæmi og bara leyfa þeim sem fólki vill hlusta á að tróna fremst.  Það væri heillavænlegast þegar til lengdar lætur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.3.2007 kl. 01:18

3 Smámynd: Púkinn

Þeir eru reyndar fleiri en 44, en samkvæmt því sem Púkinn hefur heyrt stendur til að fjölga í "bloggelítunni" upp í um 200 eða svo.

Hvort Púkinn er sjálfur nægjanlega málefnalegur til að lenda í þeim hópi er síðan allt annað mál. 

Púkinn, 9.3.2007 kl. 09:07

4 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ég vil komast í elítuna.  Hvernig á ég að bera mig að?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 9.3.2007 kl. 15:47

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Því miður Matthildur, vissi ég það, væri ég þar!

Haukur Nikulásson, 9.3.2007 kl. 16:06

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Skoðaði þetta núna kl. 17.00 mér til gamans. 11 koma nýir inn og 11 fara út. Heildarfjöldinn er líklega hárréttur hjá mér eða 44. Fjórðungi liðsins er því skipt út daglega skv. þessu.

Árni Matthíasson umsjónarmaður, skrifar pistil í dag og skiptir sjálfum sér inn á. Hann er kannski sjálfsagður þar sem hann er jú tónlistarblaðamaður Mbl.

Ég ætla að kíkja á þetta á morgun og athuga breytinguna þá og hætta svo þessum pælingum sem ég lít á sem könnun á því hvernig fjölmiðlar stýra því sem ætti að vera dægurumræða á jafnréttisgrundvelli. 

Haukur Nikulásson, 9.3.2007 kl. 17:18

7 Smámynd: Birgir Guðjónsson

Hef einnig verið að velta þessu fyrir mér. Langar samt ekkert á vinsældarlistann gæti þurft að blogga daglega eða nokkrum sinnum á dag til að halda sætinu í topp 40. Kem hér með tillögu til Mogga bloggs. Er ekki tilvalið að gera skoðannakönnum um skemmtilegasta bloggið - "leiðinlegasta bloggið" nýliði ársins o.s.f. Síðan gæti Mogginn verið með blogg partý og blogg sigurvegurum væri afhent vegleg verðlaun.  Þetta er jú blaðið okkar !

Birgir Guðjónsson, 9.3.2007 kl. 23:12

8 Smámynd: Árni Matthíasson

Sæll vertu Haukur.

Það sem kallast Umræðan í dag og hét áður Valin blogg byggist á lista af bloggurum sem settur er saman af stafsmönnum mbl.is. Sem stendur eru á listanum nákvæmlega 88 bloggarar.

Þegar forsíðan á blog.is er birt er valið af handahófi af þeim lista úr nýjustu færslum. Sá bloggari sem ekki skrifar færslu í tvo daga dettur út af listanum, en færist sjálfkrafa inn á hann aftur þegar hann skrifar nýja færslu. Sama á við um þá sem birtast á forsíðu mbl.is.

Menn hafa verið duglegir við að tala um elítu, sérstaklega þeir sem ekki eru á listanum, kvartað hefur verið yfir því að ekki væri nóg af konum, of mikið af femínistum, eintómir sjálfstæðismenn og svo má telja. Hið rétta í þessu er að ekkert er spáð í stjórnmálaskoðanir eða kynferði þegar valið er inn á listann, aðeins er litið til þess hversu málefnaleg skrifin eru, hve ört er skrifað og hversu vel.

Nú ber svo við að jafnvel fremstu og skemmtilegustu bloggarar eiga sína slæmu daga, en ekki er amast við því. Aftur á móti kemur iðulega fyrir að bloggurum er kippt út af listanum ef þeir fara að blogga um hluti sem líklegt er að mjög fáir, mjög þröngur hópur, hafi áhuga á, og eins ef þeir snúa sér að því að blogga ekki um neitt, sem gerist líka.

Sé litið á vinsældalista bloggara sést að margir af þeim sem eru inn í umræðunni eru ofarlega á vinsældalistanum, en alls ekki allir, enda er vinsældalistinn ekki endilega mælikvarði á gæði. Björn Bjarnason er dæmi um það, í 211. sæti eins og þú bendir á, en duglegur, málefnalegur og vel skrifandi bloggari, sama hvaða augum menn annars líta skoðanir hans.

Svo má nefna það að ef smellt er á bloggfærslu af forsíðu mbl.is eða forsíðu blog.is er það ekki talið sem heimsókn, enda viljum við ekki gefa mönnum ósanngjarnt forskot (?nc=1 í tenglinum).

Eins og menn vita þá er eitt það skemmtilegasta við bloggið að þar fær rödd almennings að hljóma til jafns við rödd atvinnumanna - blaðamanna, rithöfunda, álitsgjafa og stjórnmálamanna. Á umræðulistanum eru 88 bloggarar ólíkrar gerðar, stjórnmálamenn, nemar, iðnaðarmenn, rithöfundar, tónlistarmenn, blaðamenn, fræðimenn, húsmæður og húsfeður, fyrirtæki og félagasamtök. Mis mikið ber á fólki enda er það mis duglegt við að skrifa. Sumir komast í stuð þegar fjallað er um klám, aðrir hafa eiginlega bara áhuga á fiskveiðimálum, sumir eru alltaf að segja frá mat og uppskriftum, enn aðrir vilja bara skrifa um listir og svo má telja.

Líklegt verður að telja að mikið verði af bloggi um stjórnmál á næstu vikum, af augljósum ástæðum, en svo koma eflaust upp málefni eins og klámráðstefnan á Sögu, tengibraut í Mosfellsbæ, Álver í Straumsvík, Smáralindabæklingurinn eða eitthvað ámóta sem leggur bloggið undir sig í nokkra daga og lognast svo útaf í bili að minnsta kosti. Þannig er bloggið fyrst og fremst spegill þess sem rætt er í þjóðfélaginu og gefur miklu betri mynd af því en aðsent efni í blöðum eða þættir í útvarpi - hraðinn er svo miklu meiri.

Eins og Púkinn nefnir viljum við gjarnan fjölga á listanum yfir Umræðubloggara, gjarnan að þeir yrðu 200 eða fleiri, og við erum sífellt að bæta við á listann. Vel má vera að þú eigir eftir að komast á listann eða einhver af þeim sem brugðist hafa við færslu þinni, en það fer eftir þeim mælikvarða sem ég nefndi hér að ofan.

Það er svo ekkert víst að allir kæri sig um að vera á listanum, ég hygg að margir séu að blogga fyrir sjálfa sig fyrst og fremst og kæri sig kollótta hvort einhver lesi eða ekki, finnst jafnvel betra ef það eru fáir. Reyndar eru dæmi þess að áhuginn fyrir því hve margir séu að lesa hafi orðið að hálfgerðri þráhyggju og þá held ég það sé betur heima setið en af stað farið.

Mér finnst tillagan um skemmtilegasta bloggið góð, en ekki vil ég fara að verðlauna það leiðinlegasta, það er ekki gott að vera að velta sér uppúr neikvæðninni. Má svo ekki halda því fram að vinsældalistinn sé góður mælikvarði á það hvaða blogg séu skemmtilegust? Ekki eru menn að fara trekk í trekk inn á leiðinleg blogg?

Árni Matthíasson , 10.3.2007 kl. 09:46

9 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sæll Árni og takk fyrir innleggið og fyrirhöfnina við svarið.

Þú staðfestir nokkuð vel hlutina og leiðréttir töluna 44 í 88. Samt þegar ég prófaði komu ALDREI fleiri inn en 44 á þeim tíma sem ég prófaði. Vera má að ég hafi prófað of skamman tíma dagsins.

Ég dreg enga dul á að ég vilji lestur. Ég er að fikta við að viðra pólitískar skoðanir og tel mig tilheyra oftast hinum hófsamari þögla meirihluta sem eru í mörgum flokkum. Eini munurinn hjá mér og flestum hinna er að ég er ekki sérlega þögull. Stundum betra að svo væri.

Sem fjömiðli ber ykkur skylda að gera bloggið eftirsótt meðal lesenda og um það þarf ekki að deila. Það sem hins vegar truflaði mig var að sífellt var verið að beina manni inn á bloggsíður sem mér fannst ekki verðskulda sérstaka auglýsingu. Ég gleymdi raunar að nefna eina hjá kollega þínum sem finnur sig í því að endurtaka sama brandarann sinn dag eftir dag.

Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt tjáninga- og samskiptaform og þetta víkkar út sjóndeildarhring manns fyrir skoðunum annarra, sem maður er kannski ekkert endilega sammála. Flestir taka því vinsamlega að maður komi með athugasemdir á síðurnar þeirra en aðrir (sem betur mjög fá) hafa allt að því bitið af manni höfuðið fyrir að lýsa skoðunum sínum. Maður reynir þá að forðast að styggja slíkt fólk frekar. 

Ég held að við efumst hvorugur um að hér verði mikil og skemmtileg umræða um pólitíkina næstu tvo mánuði fyrir þá sem hafa áhuga á henni. Aðrir munu sjálfsagt fá upp í kok, en geta þá huggað sig við að velja önnur umræðuefni á þessum síðum.

Þið megið vera stoltir af þessum vettvangi, hann allavega virkar mun opnari og skemmtilegri á mig heldur en hjá helsta keppinautnum þar sem maður finnur helst ekki neitt.

Aftur kærar þakkir fyrir svarið og fyrirhöfnina. 

Haukur Nikulásson, 10.3.2007 kl. 11:26

10 Smámynd: Birgir Guðjónsson

Þakka Árna fyrir upplýsandi og greinargott svar.

Varðandi skemmtilegasta bloggið o.s.f þá var þetta "ókeypis" markaðshugmynd.Mér skilst að aðsóknin sé eitthvað að minnka "sjá Björn Inga". 

Væntanlega er Mogginn að halda út þessari blogg þjónustu til að auglýsa blaðið, fá einhverjar tekjur upp í kostnað og áður en langt um líður þegar þjónustan hefur fest sig í sessi, að fá auglýsingatekjur í gegnum þessa þjónustu.

Að gefnum þeim forsendum sem þú upplýsir er ég ekki viss um að vinsælasta bloggið sé það skemmtilegasta, þ.s að vinsældarlistinn gefi glögga mynd af því.

Síðan vill ég benda þér á að gildismat einstaklinga er mjög mismunandi hvað er leiðinlegt o.s.f. en þetta var nú sett inn í gæsalappir svona til að ýkja málefnið sem skrifað var um. Er annars hjartanlega sammála um neikvæðnina. Það er samt nauðsynlegt á köflum að fara inn á leiðinleg blogg til þess að átta sig á og hafa samanburð á hvaða blogg eru skemmtileg.

Birgir Guðjónsson, 10.3.2007 kl. 12:01

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband