Áður hafði Davíð (óvart?!) knésett hina tvo bankana á undan

Það er þægilegt að benda á Gordon Brown til að finna sameiginlegan óvin. Hann hefur sannarlega áunnið sér óvild íslendinga með vanhugsuðum og ofbeldisfullum aðgerðum í skjóli hryðjuverkalaga. Ég vona innilega, okkar allra vegna, að við náum fram rétti okkar í því máli.

Orsök atburðanna byrjar samt hjá óhæfri stjórn Seðlabanka og þeirri staðreynd að Geir lét leiða þjóðina í tómt tjón með svo ótrúlega klaufalegum hætti að það verður að skoðast sem mestu stjórnunarmistök Íslandssögunnar.

Lánið sem Glitnir óskaði eftir fyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum var vegna gjalddaga 15. október næstkomandi. Óðagotið og ruglið sem Seðlabankinn dró ríkisstjórnina inn í framhaldinu hefur valdið hruni bankakerfisins, hruni á lánstrausti Íslands og trausti okkar sem þjóðar, og á eftir að draga borgarana miklu dýpra niður en lánsfjárkreppan þurfti að gera. Þetta getur maður fullyrt í ljósi þeirra frétta að íslendingum hefur staðið nægilegt fé til boða til að standa þetta af sér. Þeir nenntu bara ekki að bera sig eftir því og töldu ekkert í hættu.

Gjalddagi Glitnislánsins sem allt byrjaði á er ekki einu sinni runninn upp. Samt er Ísland algerlega rúið í skítinn efnahagslega, fjárhagslega og situr eftir virðingarlaust hálfvitaríki meðal þjóða heims.

Finnst einhverjum skrýtið að fólki verði heitt í hamsi og vilji draga mestu vitleysingana til ábyrgðar?

Dóminókubburinn sem Davíð stjakaði svo létt við er orðinn að mesta skrýmsli sem þessi þjóð hefur þurft að eiga við. Mín skoðun er sú að hefði Davíð ekki verið í Seðlabankanum hefði þjóðin ekki verið orðin gjaldþrota og rúin öllu trausti áður en kom að skuldadögum Glitnis svo hálfvitalega sem það hljómar. Á sama hátt og menn hafa sakað Geir um aðgerðarleysi þá er mér ljóst að skortur á aðgerðarleysi Davíðs kemur af stað þessari atburðarás, Geir lét hann ráða í fullkomnu skapleysi.

Gordon Brown er svo annað dæmi um mann sem heldur að það sé í góðu lagi að dangla aðeins í okkur til að afla sér vinsælda, ekki hjálpaði það. Þann skaða eigum við að sækja fyrir dómstólum.


mbl.is Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslendinga með valdníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hin Hliðin

Samkvæmt þessari útskýringu þá er þetta allt Seðlabankanum að kenna því hann vildi ekki lána Glitni peninga.  Svaraðu þessu þá, afhverju átti Seðlabankinn að lána Glitni peninga þegar enginn annar banki eða lánastofnun vildi gera það?  Glitnir hafði ekkert til að ábyrgjast þetta lán, annars hefði Glitnir fengið lán annarsstaðar.  Ekki satt?

Ef Seðlabankinn hefði lánað Glitni þessa peninga (sem enginn annar vildi gera) þá hefði Íslenska þjóðin tapað þeim peningum og ástandið hefði orðið jafnvel enn verra.

Hin Hliðin, 11.10.2008 kl. 11:51

2 identicon

Davíð Oddsson er maðurinn sem eyðilagði Ísland.

Þegar ég hugsa um Davíð Oddsson sé ég fyrir mér
í huganum þessa mynd.

http://www.schikelgruber.net/images/lastpic.jpg

Þarna er Davíð ásamt yfirhugmyndafræðingi sínum Hannesi Hólmsteini
kominn upp úr bunker Seðlabankans.
Hann er að virða fyrir sér árangur verka sinna og að fá sér frískt loft.

NB! Á þessari mynd eru statistar.
Maðurinn til hægri sem lékur Davíð Oddsson heitir Adolf Schickelgruber eða öðru nafni Adolf Hitler.
Sá sem leikur Hannes Hólmstein heitir Jósef Göbbels.
Rústirnar eru ekta.
Myndin er tekin seinnipart apríl árið 1945.

Ragnar (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 11:57

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Skógarpúki: Þú mátt trúa því sem þú vilt. Ég var líka lengi einn þeirra sem "trúði" á Davíð og var líklega sömu megin og þú. Þú átt þann rétt að trúa því sem þú vilt og ert örugglega ekki einn í þeim hópi. Ég er að eðlisfari jákvæður. Þess vegna skrifa ég hér til að fá útrás. Á Íslandi eru of margir í þeim hópi sem aldrei trúa neinu upp á nokkurn mann samt eru fangelsin full af öðlingum og þingið okkar m.a.s. með dæmda þjófa. Ég held að þú ættir að hætta Pollýönnu leiknum og reyna að sjá raunveruleikann.

Hin hliðin: Já, seðlabankinn átti að lána peningana. Millibankaviðskipti voru öll ónýt og þá kemur til kasta slíkra banka í öllum löndum að lána til þrautavara. Þetta er einmitt núna staðan í næstum öllum löndum heimsins í dag. Þetta hefði gefið okkur tíma til að ganga frá lánum frá rússum og jafnvel norðmönnum fyrir gjaldagann sem er 15. október næstkomandi. Finnst þér ekkert skrýtið við það að vera gjaldþrota löngu áður en þú átt að borga? Til viðbótar hlýtur þér að vera ljóst að þjóðin er nú þegar búin að tapa meira fé en allar bankarnir báðu um. Það má líka vera ykkur enn eitt sorglega umhugsunarefnið.

Ragnar: Ég er varla í skapi til að skoða eitthvert grín um Davíð. Ég tel hann þurfa að bera einhverja verstu byrði sem hægt er að ætla nokkrum manni og finn til með honum. Ég finn hins vegar meira til öllum þeim tugum þúsunda íslendinga sem eiga um sárt að binda þessa daga. Ég er líka sannfærður um að þjóðin er ekki búin að meðtaka áfallið, doðinn og afneitunin er enn ríkjandi.

Ég geri mitt besta til að vera jákvæður og hvet alla til samstöðu og kærleika á þessum viðbjóðslega tíma.

Haukur Nikulásson, 11.10.2008 kl. 12:14

4 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Við getum látið Spaugstofuna um að gantast með Davíð. Veruleikinn er bara sá að atburðarásin er eins og Haukur lýsir henni: tappinn var tekinn úr af seðlabankastjóra sem hefur gert röð mistaka. Að auki er hann höfuð græðgisvæðingar Íslands. Það er ljóst að það eru einhverjir sem bera ábyrgðina á því að þegar að fjármálakreppa ríður yfir heiminn þá eru Íslendingar fyrstir til að missa niður um sig buxurnar. Kanski maðurinn sem fékk mikla kauphækkun þegar hann skipti um vinnu og tók við starfi sem hann hefur ekki reynst hæfur til að gegna. Hann lagði hinn pólitíska grunn. Og hvar er stýrivaxtalækkunin??

Hjálmtýr V Heiðdal, 11.10.2008 kl. 12:47

5 Smámynd: Heidi Strand

Orðin um 5-10 eða hámark 15% endurgreiðslu á ICESAVE kveikti í Darling og Brown.

Heidi Strand, 11.10.2008 kl. 12:49

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Heidi, við skulum ekki bæta óþarflega í mistakaröð Davíðs. Það var símtal Darlings við Árna Mathiesen sem var víst kveikjan þar. Hefði hann líka heyrt í Davíð hefði trúlega allt farið á sama veg.

Haukur Nikulásson, 11.10.2008 kl. 12:56

7 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þessi Glitnis og Baugsmál gerast enn dularfyllri.  Nú er Baugur, fyrrum aðaleigandi Glitnis, að fá inn milljarða í fyrirtæki Baugs í Bretlandi frá Mr.Green auðkýfingi.  Því leitaði Jón Ásgeir ekki til Mr.Green strax þegar enginn banki vildi lána Glitni?  Eru bresku eignirnar mikilvægari en íslenski bankinn?

Kolbrún Hilmars, 11.10.2008 kl. 13:02

8 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Fyrir margt löngu var sagt að blaðrið í Steingrími Hermannssyni væri mesta efnahagsvandamál þjóðarinnar. Nú er það yfirnagarinn í seðlabankanum. Viðtalið í kastljósinu í vikunni var hið endanlega rothögg. Þessi slökkviliðsstjóri átti sjálfur mestan þátt í í kveikjunni. Það á að leysa hann frá störfum strax.

Sigurður Sveinsson, 11.10.2008 kl. 13:26

9 Smámynd: Haukur Nikulásson

Kolbrún,

Það hefur komið fram hjá Jóni Ásgeiri að hann bjóst við því að för Þorsteins Más Baldvinssonar til Seðlabankans yrði "feigðarför" ef ég man þetta rétt. Hann vildi reyna aðra leið. Þorsteinn var hins vegar stjórnarformaður Glitnis og réð því förinni. Þú mátt ekki gleyma því að búið var að dæma Jón Ásgeir frá því að vera sjálfur í stjórn með smáskítsdóm í Baugsmálinu. Glitni bar að leita til Seðlabankans og með aðrar persónur í lykilhlutverkunum tel ég víst að bankinn hefði fengið lán þegjandi og hljóðalaust og við værum ekki kominn í þessar svakalegu ógöngur, allavega ennþá.

Ég þarf eiginlega að gera hér svolitla játningu. Við fáum það miklar upplýsingar úr opinbera kerfinu til að leggja mat á atburðarásina þeim megin heldur en hjá auðkýfingunum og útrásarhetjunum að það kannski lítur út fyrir að maður sé alltaf hlutdrægur í þessum málum. Skortur á upplýsingum um þeirra störf veldur því að maður tjáir sig síður um það sem maður veit ekki. Með einelti Baugsmálsins í 5-6 ár fyrir dómstólum leiddi ekki ljós neina verulega meinta glæpahneigð þessara manna, í besta falli tilhneigingu til viðskiptaklækja sem eru ekki ástæða til þungra refsidóma.

Já, bresku eignirnar hans Jóns Ásgeirs eru margfalt verðmætari en bankinn. Ég hélt að flestum hefði verið það ljóst.

Skorrdal og Sigurður, takk fyrir innlitið og já: "We ain't seen nothing yet!"

Haukur Nikulásson, 11.10.2008 kl. 13:30

10 Smámynd: Haukur Nikulásson

Skógarpúki: Þegar einhver er búinn að hella yfir sig og þjóðina bensíni og kveikja í er óhætt að láta viðkomandi fara. Það þolir enga bið. Þetta er Davíð seðlabankastjóri (slökkviliðsstjóri?) og hans lið sem ég er að tala um.

Ég skal enn endurtaka það: Já það átti að lána og þú mátt alveg játa að það sem þú kallar 1/3 af gjaldeyrisvarasjóðnum var bara skiptimynt. Bankinn hafði ekki gert neitt til að ná í einhverja aura sem var nothæft til þrautavara. Þeir voru allan tímann meðvitaðir um að stærð bankanna var í óheilbrigðu hlutfalli við þeirra getu. Þeir áttu því að leita aðstoðar seðlabanka hinna norðurlandanna til að treysta undirstöður bankanna okkar. Okkar bankar voru nefnilega líka starfandi þar alveg eins og í Bretlandi. 

Fjárþörf Glitnis á komandi mánuðum mátti leysa. Þeir hefðu einfaldlega selt eða aðskilið erlenda hlutann, sama má segja um hina bankana. Það vantaði bara tíma til úrvinnslu málsins.

Mér dettur ekki í hug að ætla neinum sem ekki sér fram á að geta staðið við greiðsluskuldbindingar á næstunni að fremja sjálfsmorð. Réttlæting þín á aftöku Glitnis og því sem gerðist í framhaldinu áður en Glitnir varð greiðsluþrota segir mér allt sem ég þarf að vita um kunnáttu þína og framsýni til sjálfsbjargar. Hún er bara ekki til hjá þér.

Já það hefði kostað offjár að bjarga málunum, það hefði borgað sig og er þegar skynsömu fólki ljóst nú þegar. Tapið okkar er nú þegar óbætandi að margra mati vegna óþarflegra mistaka í Seðlabankanum. Þú skalt ekki undrast reiði fólks í garð vinnu bankans. Þeir eiga að fara STRAX!

Haukur Nikulásson, 11.10.2008 kl. 13:49

11 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Haukur, takk fyrir greinargott svar. 

Við erum mörg sem störfum í fjármálageiranum (þ.e. utan banka- og útrásarhluta hans) sem höfum undrað okkur á því á því frelsi sem útrásarsnillingarnir hafa notið til þess að skuldsetja þjóðina "upp í rjáfur" eins og sumir hafa orðað það.  Hafi íslensk yfirvöld haft úrræði til þess að hemja þeirra atferli innan skynsamlegra marka og látið ógert, þá munu þau þurfa að svara fyrir það síðar.

Mér þætti þó gaman að heyra hvernig fólk almennt heldur að breyta megi einni "kaupmaðurinn-á-horninu-búð" í milljarðaeignir á tveim áratugum með verslunarálagningunni einni. 

Kolbrún Hilmars, 11.10.2008 kl. 14:05

12 Smámynd: Haukur Nikulásson

Kolbrún það er hvorki nýtt né óeðlilegt að menn geti orðið bullríkir byrjandi með tvær hendur tómar.

Það er fjármálaleg útsjónarsemi, græðgi og sölumennska sem þurfa að vera til staðar. Í sinni einföldustu mynd getur þú keypt bíldruslu, þvegið hann og bónað og selt síðar á helmingi hærra verði og grætt vel. Til að skilja hvers vegna menn verða ofurríkir þarftu bara að stækka hlutföllin, breyta bíldruslunni í fyrirtæki, og hér þarf því ekkert að vera óheiðarlegt eða siðlaust á ferðinni.

Bankarnir nutu óeðlilegs frelsis til að stækka (vegna niðurfellingar bindisskyldu) og þeir höfðu samt fína eiginfjárstöðu. Þeir fóru hins vegar ógætilega (eins og margir aðrir bankar) í að lána of mikið til langs tíma til sinna viðskiptavina með skammtímalánum úr millibankakerfinu. Þegar  lánsfé á millibankamarkaði þrýtur verður greiðsluþrot sem reiknað er með að seðlabankar komi þá að.

Í ljósi aðstæðna má segja að "útrásarvíkingarnir" og auðmennirnir hafi farið geyst. Það hefur hins vegar ekki verið bent á að þeir hafi gert neitt sérstakt sem ekki var innan þeirra leikreglna sem íslenskir stjórnmálamenn höfðu skapað þeim með einkavæðingu og lagasetningum.

Reiðin tekur á sig ýmsar myndir í ásökunum á hendur þeirra sem eru lykilmenn í þessum málum. Ég er ekki sérstakt fórnarlamb aðstæðna en hef ómældan áhuga á því að vita hvaða raunverulega röð atvika setti Ísland í þessa grátlegu stöðu sem við þurfum nú öll að vinna okkur út úr.

Haukur Nikulásson, 11.10.2008 kl. 14:30

13 identicon

Er það þá komið að byltingin etur börnin sín, sem sagt frjálshyggja er búin

Adolf (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 15:07

14 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Takk aftur, Haukur, ég bíð líka eftir því að fá útskýringar á atburðarásinni; hvaða öryggisnet hefðu átt að vera til staðar en annað hvort voru það ekki eða brugðust.

Ameríska drauminn hef ég aldrei þolað sem fyrirbæri og þykir leitt að sjá hann í "aksjón" hérlendis.

Kolbrún Hilmars, 11.10.2008 kl. 16:12

15 Smámynd: Haukur Nikulásson

Kolbrún,

Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á. Ég sé aðallega að bindiskyldan hefði átt að vera áfram. Semja hefði átt við seðlabanka norðurlandanna um að vera bakhjarl okkar banka þar sem þeir störfuðu þar jafn mikið og raun ber vitni. Einnig hefði Fjármálaeftirlitið átt að vera með lausafjárpróf í svokölluðu álagsprófi sínu á bönkunum.

Að þessu sögðu má bæta því við að ég held að fræðilega sé ekki möguleiki á að yfirleitt nokkur banki geti staðist það að allir innlánsviðskiptavinir hans geri áhlaup og krefjist þess að fá að taka öll innlán ut í einu.

Okkar stórkostlega fjármálaslysi má líkja við það að tilla litla fingri á kjarnorkuhnappinn til að hrekkja einhvern en þrýsta óvart aðeins of fast.... 

Haukur Nikulásson, 11.10.2008 kl. 18:04

16 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sæll aftur Haukur, við endum með því að vera sátt og sammála

En ég má til með að lokum að vísa  á nýtt blogg fyrrverandi ríkisskattstjóra, sem er minn gúrú og mín fyrirmynd að heiðarlegum fjármálaviðskiptum; Indriða Þorlákssyni. Er að vísu svo tæknilega þroskaheft að ég hef ekki lært að tengja beint en slóðin er:

inhauth.blog.is 

Kolbrún Hilmars, 11.10.2008 kl. 19:14

17 identicon

"Hefðiáttfélagið heldur

hátíðafund í kvöld."

orti Þórarinn Eldjárn um árið og seinna í sama ljóði,

"uns alvís við okkur blasir

eftiráviskan spök,

Þá verður núið um nasir

og nöguð handarbök."

Mér bara datt þetta ljóð í hug eftir lesturinn á þessu bulli.

Grétar (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 19:56

18 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég var búinn að lesa blogg Indriða. Honum verður ekki frýjað vits og reynslu.

Grétar, það eru margir með óþol fyrir svona umræðu, fyrirgefðu okkur að þvælast svona fyrir þér og takk fyrir innlitið og vísuna góðu. 

Haukur Nikulásson, 11.10.2008 kl. 20:41

19 Smámynd: Haukur Nikulásson

Skógarpúki: Við þurfum ekki að endurtaka allt sem sagt er. Nóg er nú langlokan í þessu máli.

Viðtöl í sjónvarpi við Þorstein Má (í Kastljósi) og Jón Ásgeir (Stöð 2) eru mínar upplýsingar. Þú getur eflaust skoðað þessi viðtöl aftur í tímann viljir þú kynna þér þeirra málflutning.

Þú færð ekki hagfræðingana til að halda þessu lengur fram um illskástu leiðina er ég hræddur um. Eftir á að hyggja held að að fleiri séu nú sammála um að versta möguleika útkoma í ferlinu varð að veruleika.

Endurtekna talið í þér um "1/3 af gjaldeyrisforðanum" og "óðs manns æði" eru nánast beinar tilvitnanir í viðtalið við Davíð Oddsson í Kastljósinu. Hefurðu ekki fylgst með öðrum viðtölum og blaðamannafundum?. Er "Skógarpúkinn" kannski dulnefni fyrir Davíð Oddsson? Hvað veit ég?

Gjaldeyrisforði er óráðin tala Skógarpúki og er jafnvel í formi loforða.

Svo ég svari fyrst (???) spurningu þinni þá hef ég mína visku með því að fylgjast með því sem gerist í kringum mig og muna það sem ég nem úr fjölmiðlum og samtölum við fólk. Hinni spurningunni (??) er auðsvarað: Ég er minn eigin málsvari og tengist ekki ríkjandi valdhöfum, stjórnarandstöðu eða hagsmunahópum á nokkurn hátt.

Ef þú vilt ekki sleggjudóma um þig eða persónu þína mæli ég með því að þú leggir ekki inn svo vonda dómgreind hér í umræðuna að hún freisti manns til að vera kvikindislegur. Fyrir það skal ég sasmt biðja þig afsökunar. Enn meri virðingu mína fengir þú fyrir að koma fram undir nafni.

Gerðu það fyrir sjálfan þig að komast að því með sjálfstæðri eigin athugun hver atvikaröðin var í þessu dæmalausa máli og spurðu svo sjálfan þig: Hvernig gat það hugsast að ein ríkasta þjóð heims er allt í einu gjaldþrota í heilu lagi?

Takk fyrir innlitið. Rökræður um svona hitamál eru... hitamál

Haukur Nikulásson, 11.10.2008 kl. 22:52

20 Smámynd: Haukur Nikulásson

Svo ég svari sjálfur þessu með það hvort Davíð sé "Skógarpúkinn", veit ég að svo er ekki. Davíð kann ekki að nota tölvu og stærði sig jafnvel af því að kunna varla á takkasímann í fínu hornskrifstofunni í Svörtuloftum.

Haukur Nikulásson, 11.10.2008 kl. 22:55

21 Smámynd: Haukur Nikulásson

Fyrirgefðu Skógarpúki, þú nefnir ábyrgðir. Fyrri veðpakki Glitnis var ógildur vegna þess að ekki mátti veðsetja hluti tengda norska olíuiðnaðinum (650m EVra veð) og seinni pakkinn (1340m Evra veð) dæmdi Davíð "ónýtan" og "ástabréf". Glitnis menn fullyrða að seinni veðpakkin (tvöfalt stærri en lánsbeiðnin) hafi ekki verið skoðaður af seðlabankanum.

Meint árangursleysi Seðlabankans við gjaldeyrisöflun stenst illa þegar nú þegar eru vilyrði frá rússum og norðmönnum. Líklega "gleymdist" að hafa samband við þá eða hvað? Orð Davíðs eru engum manni sérlega trúverðug. Hann er tæpast maðurinn sem er duglegastur að hringja í útlendinga til að væla út lán, enda varla talandi á útlensku.

Haukur Nikulásson, 11.10.2008 kl. 23:17

22 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þrymur, það er óþarfi að fíflast hérna til að halda hlífiskildi yfir Davíð. Þú getur alveg látið það ógert. Það er nákvæmlega smjörklípuaðgerðin sem hann fann upp.

Hann átti ekki sök á lánsfjárkreppunni og efnahagshruninu. Hann átti hins vegar sinn mikilvæga þátt í svo stórkostlegum mistökum hér á landi að hann á að sjá sóma sinn í því að hætta. Þið hin, sem viljið halda áfram að dýrka þennan mann, eigið að taka hann til ykkar og stofna um utan um hann kirkju og trúarbrögð, svo mikil er blinda ykkar sumra.

Smjörklípan sem þú kemur með hingað er úreld. 

Haukur Nikulásson, 12.10.2008 kl. 06:51

23 Smámynd: Haukur Nikulásson

Skógarpúki: Þú verður víst að vera einn um dónaskapinn. Ég fæ stundum heimsóknir í þessa veru og læt slíkt standa og yfir mig ganga. Þó þú segir eitthvað miður fallegt um mig stendur það alltaf eftir að þú þarft að lifa við þín skrif, ekki fjarlægi ég þau!

Ég hef ekkert hatur á Davíð. Ég hef upplifað slíkar tilfinningar gagnvart öðrum en honum fyrir mörgum árum og veit að það gerir manni bara erfitt fyrir. Ég hef lært að fyrirgefa til að bera ekki þær byrðar sem hatur leiðir af sér. Davíð er í þessu tilviki bara svo dæmalaust óheppinn að vera orðinn þjóðhagslega stórskaðlegur að það verður að koma honum í eitthvað annað hlutverk. T.d. að skrifa aðra góða daga með Guðnýju.

Ég hef gott sjálfsálit og tel það mér til kosta en ekki vansa, en barnalegur er ég ekki.

Ég þakka þér fyrir innlitið og skrifin, Skógarpúki, jafnvel menn eins og þú veita manni nýja reynslu.

Haukur Nikulásson, 12.10.2008 kl. 13:03

24 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þrymur, ég var að sjálfsögðu með hlægilegan útúrsnúning. Þú gafst mér tilefnið til þess.

Af hverju þarf ég að endurtaka að Davíð eigi ekki sök á lánsfjárkreppunni og efnahagshruninu? - Lestu ekki svörin?

Ég er sammála þér um að kröfur um hæfni seðlabankastjóra þarf að vera í hæstu hæðum. Við sjáum best núna hvað núverandi seðlabankastjóri hefur gert afdrifarík mistök. Mér finnst að hann ætti að vera fyrstur í röðinni til að fá áfallahjálp.

Ég ætla enn og aftur að koma því að ég tel að Davíð hafi gert mistök, í bland við hrekk, óafvitandi um afleiðingarnar, þau eru frekar eins og stórslys í umferðinni af völdum glannaaksturs og dómgreindarskorts. Það eru þessi mistök sem settu okkur svona óvænt og kylliflatt á hausinn með tvo banka og svo skellti Gordon Brown Kaupþingi á eftir.

Haukur Nikulásson, 12.10.2008 kl. 18:24

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband