Er aldrei hægt að taka á bruðli stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur?

Hvern fjandann ætla þeir að gera við svona 8 milljóna króna tæki í virkjunarhúsi? Horfa á enska boltann yfir bjórkollu?

Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa ítrekað verið gómaðir í alls kyns bruðli með opinbert fé og vegna hlutafélagavæðingar gerir eigandinn ekki neitt í þessum málum.

Aðalbygging OR var óhóflega dýr vegna hönnunarrugls og síðan hafa menn leikið sér með fé borgarbúa í gæluverkefnum og áhugamálum svo sem línu net, risarækjueldi, kaupum á landi undir frístundabyggð og ótal fleiri málum.

Þeir gera í raun allt annað en það sem við borgarbúar og viðskiptavinir og eigendur fyrirtækisins eigum skýlausan rétt á, og það er að þeir andskotist til að lækka frekar orkuverðið til okkar!

Ég krefst þess að borgarstjórn taki þetta til umfjöllunar og setji bönd á þennan mannskap. 


mbl.is Tvö 103 tommu sjónvörp seld á átta milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Hvernig hægt er að kalla linu.net bruðl á ég mjög erfitt að skilja. Stofnunin lagði ljósleiðara um mestalla Reykjavík fyrir allar helstu stofnanir og fyrirtæki. Þar má nefna stofnanir eins og spítalana, alla grunnskóla og framhaldsskóla og fleira. Að sama skapi nýta öll stærstu fyrirtæki landsins sér ljósleiðaranetið sem lina.net lagði. Það er eflaust ekkert mál að finna bruðl hjá ríki og borg en ég myndi ekki kalla Linu.net eitt þeirra.

Egill M. Friðriksson, 2.10.2007 kl. 11:50

2 identicon

Sæll haukur Nikk.! má ég spyrja..... hefuru komið inn í hellisheiðar virrkjun? ef svo er skaltu ekki vera comenta á hvað fer í sýningarsalinn (nálin) og hvað ekki, þér að segja er ég búinn að vera þarna sem heimalingur nær 2 ár og finnst alltaf mikið til þessa hússkoma og vel hepnað í alla staði, passar vel inn í umhverfið. áður en svona orð eru höfð uppi bendi ég á að fólk fari uppeftir (tekur ca 30 til 40 min) og skoði hvað vantar í þennan sal, ykkur að segja kostar 103 tommu málverk þrefalt meira en sjónvarps altarið svo sé ég ekki betur að þú sért maður sem vill bæta samfélagið , get ekki séð hvernig þú gerið það með rausi út í bláinn

Gísli (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 11:52

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Gísli, ekki vissi ég af því að það hefði verið settur upp sýningarsalur þarna. Það bætir bara við bruðlið og prjálið þarna og ekki á bætandi.

EgillM, ég hefði átt að taka Línu net út úr þessu. Hún átti ekki rétt á sér í upphafi en er að slysast til að ganga upp, ég skal viðurkenna það. Hjá OR er samt af nógu af taka í bruðlinu og snobbinu.

Haukur Nikulásson, 2.10.2007 kl. 13:06

4 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Lína.net er ekkert að slysast til að ganga upp.  Ljósleiðarinn er einfaldlega grunnkerfi 21. aldarinnar og verður okkur jafnsjálfsagt og rafmagnið innan fárra ára.  Það vissu Alfreð og félagar og tóku þá hárréttu ákvörðun að koma þessu í gang á sínum tíma þrátt fyrir mikinn mótbyr.  Andstæðingar þeirra í pólitík (sem hugsuðu bara í fjórum árum í senn) nýttu sér fjárfestinguna til að rakka þá niður en geta ekki sagt mikið í dag þegar 7 milljarðarnir eru orðnir 10 milljarða króna virði og munu fara í um 30 milljarða á næsta ári.  Þá heyrist ekki mikið í Gulla og félögum.  Ég er ekki í vafa um að virðið á eftir að hækka mjög verulega á næstu árum með aukinni nýtingu ljósleiðarans.  Fyrir 100 árum hefur "eyðslan í þetta fjandans rafmagn" örugglega þótt alveg út úr korti hjá þeim sem hugsuðu ekki nema eitt kjörtímabil fram í tímann.

Eyðsla í land undir frístundabyggð er líka á misskilningi byggt.  Það er land sem OR á í dag vegna þess að undir því er orka eða vatnsréttindi sem við munum þurfa á að halda eftir kannski 30-50 ár.  OR þarf hins vegar ekkert á landinu ofanjarðar að halda.  Markmiðið með skipulagningu frístundabyggðar er því að reyna að ná inn einhverjum tekjum á þessa eign sem er að skapa kostnað í dag vegna girðinga, opinberra gjalda og almennrar hirðu.  Sem bónus þá verða auðvitað til þar viðskiptavinir sem kaupa þjónustu fyrirtækisins í frístundahúsið sitt.

Tilgangurinn með sýningarsvæðinu á Hellisheiði er að koma inn sem viðkomustaður í "Gullna hringinn" og er áætlað að taka á móti um 300 þúsund gestum þarna á ári og kynna þeim sérstöðu Íslendinga í umhverfisvænni nýtingu jarðvarma til húshitunar og rafmagnsnotkunar.  Einnig er þarna tekið á móti þeim erlendu gestum sem vilja kynna sér nýtingu Íslendinga á þessum miðlum og er það að skapa viðskiptatækifæri upp á milljarða eða milljarðatugi út um allan heim á næstu árum og áratugum.

Hugmyndin með rækjueldinu var einfaldlega að búa til háklassa vöru sem væri hægt að selja á 2000 - 3000 kr./kg., nýtti mikið heitt vatn í framleiðslu sína og gæfi fyrirtækinu þannig tekjur til lengri tíma.  Í augnablikinu virðist það ekki vera að ganga og því er stefnt að því að slá að dæmi af nú um áramótin ef ekki tekst að selja það.  Talað er um að aðeins 1 af hverjum 10 frumkvöðlaverkefnum í heiminum verði að raunverulegri mjólkurkú.  Þetta er einfaldlega eitt af þessum níu.  Góð hugmynd sem virðist þó ekki hafa komist alla leið þótt enn geti ræst úr því.

Haukur, veistu hver rafmagnsreikningurinn þinn er?  Hvað ertu að eyða háu hlutfalli af neyslu þinni í orku?  Fæstir vita þetta og verða hissa þegar þeir komast að því hvað þetta er í raun mikil lífsgæði fyrir lágt verð.

Að lokum: Nýja OR húsið er minna í fermetrum talið en þau hús sem hitaveitan, vatnsveitan og rafmagnsveitan seldu þegar þetta hús var byggt.  Það hefði örugglega verið hægt að byggja það enn ódýrar og spara meira í umhverfi hússins.  OR hefur hins vegar burði til að hafa snyrtilegt í kringum starfsemi sína og fegra þannig umhverfi sitt.  Fólk getur auðvitað verið á móti því en það fjármagn sem er að fara í það er svo lítið hlutfall af veltu fyrirtækisins að það myndi kannski lækka hjá þér rafmagnsreikninginn um 3 kr. ef fyrirtækið færi að gera eins lítið og það kæmist af með þegar kemur að útliti bygginga okkar, borholuhúsa, dælustöðva, höfuðstöðva, Elliðaárdalsins o.s.frv.  Útlit umhverfis okkar eru lífsgæði líka.  Það er einfaldlega skemmtilegra að vera til í fallegri borg.

Já Haukur minn, OR vill nefnilega líka bæta íslenskt samfélag eins og þú og hefur burði til að gera það vel.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.10.2007 kl. 16:47

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sæll Sigurður,

Ég skal strax leyfa þér að heyra að þú kemur þínu máli vel fyrir þig og skipulega.

Það sem okkur greinir á um er hversu langt OR á að ganga með fé sem fengið er frá eigendum sínum. Ég geri mér grein fyrir því að það er hægt að græða á ýmsum verkefnum og færa góð rök fyrir því að gera hitt og þetta. Ég tel það bara ekki vera hlutverk OR að notfæra sér of hátt þjónustuverð til að leika sér í alls kyns áhættuverkefnum sem koma þeirra rekstri ekki við nema með veikum og óljósum tengingum eins og frístundalandið.

Þú getur með sömu rökum og að ofan sagt að OR eigi að fjárfesta í öllu sem notar mikið rafmagn. Þó svo að OR húsið sé hugsanlega minna en það sem fyrir var þá átti það að vera minna vegna sameiningar. Varla var verið að sameina veiturnar nema til að hagræða eða hvað? Hönnun hússins með yfirhalla fokdýr óþarfi og sýndarmennska. Þessi yfirhalli hækkaði byggingarkostnaðu út yfir öll velsæmismörk. Það er líka þekkt að æðibunugangur við að flytja ótímabært í húsið olli því að mest öll gólfefni urðu ónýt vegna þess að menn nenntu ekki að bíða eftir því að steypan í gólfunum þornaði áður en parket var lagt niður. Þetta var gert í trássi við ráðleggingar fagmanna.

Ég tel það ekki í verkahring OR að standa í "sýningarstarfi" fyrir ferðamenn. Þetta er nákvæmlega eitt af þessum dekurverkefnum sem stjórnendur OR hafa farið í. Næst verður líklega reist upp leikhús á svæðinu, sundlaug, nýtt blátt lón, hótel eða eitthvað ferðamannavænt til að hafa ofan af fyrir gestum eða hvað? Hvar telurðu að OR eigi að stoppa í fjáraustri og framkvæmdagleði sinni?

Það má vel vera að þér finnist orkureikningurinn ódýr miðað við aðstæður annarsstaðar, en hann á líka bara að vera það. Hitaveita Reykjavíkur er líklega eitthvert mesta gæfuspor sem stigið hefur verið í samfélagsþjónustu nokkurrar borgar og það er löngu kominn tími á að borgarbúar fái að njóta þeirrar framsýni í lækkuðu verði.

Lína net var um langan tíma með mjög ógæfulega fjárhagslega ásýnd. Um það var ekki deilt. Ef þessi framkvæmd er að skila sér er það bara ánægjuefni, en það réttlætir ekki að stjórnendur OR geti notað það til að réttlæta hvaða leikaraskap í fjármálum sem er. Ég er ekki viss um að fyrirtækið verði alltaf jafn heppið.

Því miður, Sigurður, fær maður á tilfinninguna að þeir sem ráða ferðinni hjá OR hafi ekki lengur mikið jarðsamband í sambandi við ráðstöfun fjármuna og ég tel að það þurfi að kenna mönnum þarna meiri hófsemi með fjármuni sem eru jú ennþá eign misríkra og misfátækra borgarbúa.

Ég er því marki brenndur að á meðan samfélagið sér ekki sómasamlega um þá sem minna mega sín sökum fötlunar, veikinda og annarra báginda þá fer flottræfilsháttur á vegum opinberra fyrirtækja bara í skapið á mér.

Haukur Nikulásson, 2.10.2007 kl. 18:05

6 identicon

Lína.net var gott og gilt verkefni sem var einfaldlega of stórt til þess að íslenskt fyrirtæki gæti lagt svo stóra fjárhæð í.

Aftur á móti er ég sammála Hauki með gallerí og frumkvöðlastarfssemi.

Hluthafar fyrirtækissins eiga að koma í veg fyrir frekara bruðl....það væri t.d. miklu meira vit í að setja svona sali upp á sjúkrahúsum eða strætóstöðvum þar sem borgarar geta notið þess.

8M í sjónvarp álíka langt frá miðborginni eins og Keflavíkurflugvöllur er úti í hróa hött!!!!

Og ef þú Sigurður vilt meina það að OR sé að reyna að bæta íslenskt þjóðfélag....þá ættu þeir að halda að sér höndum þegar þensla gengur yfir landið... og borga niður skuldir.....ef þá vantar einhverjar skuldir þá á ég 150 þús yfirdráttarheimild sem mig vantar að losna við.... 

Magnús Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 18:40

7 Smámynd: Promotor Fidei

Mikið er ég sammála þér Haukur. Og mikið bruðl í orkuveitumálum á Íslandi öllu.

Rafmagn er ódýrt á Íslandi, en ætti líklega að vera ókeypis! Þannig bárust á dögunum fréttir af 19,3 milljarða hagnaði Landsvirkjunar fyrstu 6 mánuði ársins. Heilar 265.000 krónur á meðalfjölskylduna -sem æltti að duga fyrir öllum orku- og vatnsreikningum heimilisins og gott betur.

Að kaupa sjónvarp fyrir 8 milljónir til að stilla upp úti í sveit er erkitýpískt dæmi um hvernig farið er með almannafé í þessum geira. Veit ég um margt þarfara sem gera mætti við peningana, og mætti t.d. mun frekar verja þeim til góðgerðarstarfs frekar en ímyndarrúnks ef ekki má nota tekjuafganginn til að lækka orkureikninga heimilanna.

Promotor Fidei, 2.10.2007 kl. 18:52

8 identicon

Á OR ferðamálaráð? Eða eru þeir að spá í fjárfestingar erlendis sem ekki skila sér í íslenska kassann?

Magnús Þór (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 20:13

9 identicon

Ég held, að það væri ágætt að fara rétt með staðreyndir áður en menn fara vaða elginn.

O.R. fer ekki með opinbert fé. Það eru ekki skattar sem fara í fyrirtækið, þó svo að segja megi að svo hafi verið eitt sinn. O.R. er sjálfstætt starfandi fyrirtæki á frjálsum markaði en er að mestu leyti í eigu Reykjavíkurborgar sem og Akraness og Borgarbyggðar. Ykkur er algjörlega frjálst að versla við önnur orkufyrirtæki, enda ríkir samkeppni á þessum markaði. Fyrirtækinu, rétt eins og Hagkaupum, 365 miðlum og FL group er frjálst að fara með tekjur sínar sem þeim sýnist, svo lengi sem fyrir liggi samþykki stjórnar sem m.a. stjórnendur borgarinnar sem kosnir hafa verið af almenningi sitja í. Í stað þess að væla yfir ímyndarrunki osfrv. legg ég til að þið hættið viðskiptum við O.R. ef þið eruð óánægðir með þá þjónustu sem fyrirtækið veitir ykkur og/eða kjósið eitthvað annað til stjórnar í borginni.

Einnig legg ég til, áður en menn fara kasta steinum úr glerhúsi, að þið heimsækið gestamóttökur fyrirtækisins og skoðið þá landkynningu sem þar fer fram. Við Íslendingar teljum alla þessa orku sjálfsagða, en skoðið hvað nágrannaþjóðir okkar þurfa að borga fyrir heitt vatn og rafmagn. Skoðið með hvaða hætti þessi orka er framleidd og þá mengun sem af því hlýst. Skoðið líka hvernig þróun orkuverðs í samanburði við byggingarvísitölu undanfarin ár. Nýting jarðvarma og kynning þeirrar leiðar í orkusöfnun hlýtur að skipta okkur máli, í ljósi allrar umræðu um hitnandi veðurfar og gróðurhúsaáhrif. Við hljótum jú að vilja búa vel í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Þorsteinn Mar (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 21:17

10 Smámynd: Leifur Ingi Vilmundarson

Áhugaverðar umræður! Mér finnst all lengi hafa verið ákveðinn fnykur af Orkuveitunni, af svipuðum meyði og sú illa lykt sem við og við leggur frá Seðlabankanum. Pólitískir bitlingar og almennt bruðl hefur einhvern veginn alltaf loðað við báða staði og svo virðist sem viljinn til að bæta ímyndina sé takmarkaður. Átta milljónir er svo sem ekkert milli vina í þessum geira...að eyða þeim í eitthvað risa plasmasjónvarp í einhverja virkjun uppi á heiði hljómar bara vægast sagt illa þegar orðstírinn er eins og hann er!

Er þetta ekki bara litli afturhaldskommatitturinn sem býr inni með okkur sumum...sem sárnar þegar (fyrrverandi) ríkisfyrirtæki sletta skyrinu á þenslutímum þar sem einstæðar mæður hafa ekki efni á lágmarks leiguhúsnæði og gamalmenni deyja drottni sínum úti á stofugangi á undirmönnuðum elliheimilum þar sem íslenska heyrist vart lengur??

Leifur Ingi Vilmundarson, 2.10.2007 kl. 22:55

11 identicon

Þorsteinn Mar:

Einfeldingur?

Heldur þú virkilega að engin sjái í gegnum þessa vitleysu?

Er OR á hlutabréfamarkaði?

Er OR í eigu sveitafélaga...sem eru í raun samfélag einstaklinga sem búa í sveitarfélaginu?

OR er dótturfélag nokkura sveitarfélaga og þá eign sveitarfélagana sem eru íbúar í viðkomandi sveitarfélögum. 

Hefur þú annars séð mörg einkahlutafélög vera að eyða peningum í landkynningu á Íslandi nema þá ferðaskrifstofur eða einhverjir sem hafa beinan hag af þeirri landkynningu.

Held að svarið sé nei...vegna þess að hluthafar yrðu ekki sáttir ef það kæmi upp 8M kr. sjónvarpskjáir útum allt. 

Magnús Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 23:30

12 identicon

Einfeldingur? Nei, en leyfi mér að efast um þig úr því þú þarft að draga fram svona vopn í umræðu sem þessari.

Heldur þú virkilega að engin sjái í gegnum þessa vitleysu? Í hverju felst vitleysan? Er það rangt að O.R. stundi ekki landkynningu? Er það rangt að O.R. stundi ekki skattheimtu? Er það rangt að O.R. fari ekki með opinbert fé? Er það rangt að O.R. sé í eigu þeirra sveitarfélaga sem ég nefndi? Er það rangt að fyrirtækið er sjálfstætt starfandi orkufyrirtæki? Er það rangt að þú getir valið við hvaða orkufyrirtæki þú verslar? Í hverju felst vitleysan? Mér þætti gaman að heyra það, svo ég viti þá allavega betur eftir á. 

Er OR á hlutabréfamarkaði? Nei, hélt ég því fram? Kemur einhvers staðar fram að O.R. sé á hlutabréfamarkaði?

Er OR í eigu sveitafélaga...sem eru í raun samfélag einstaklinga sem búa í sveitarfélaginu? Já, O.R. er í eigu þeirra sveitarfélaga sem ég nefndi. Það þýðir ekki að fyrirtækið fari með almannafé, eða að það stundi það að innheimta skatta. O.R. innheimtir gjöld fyrir þá þjónustu sem það veitir, líkt og mörg önnur fyrirtæki, hvort sem þau eru opinber eða ekki gera. Þér er hins vegar frjálst að versla við þetta fyrirtæki, ólíkt t.d. RÚV sem er þó í eigu allra landsmanna.

OR er dótturfélag nokkura sveitarfélaga og þá eign sveitarfélagana sem eru íbúar í viðkomandi sveitarfélögum. Reyndar er O.R. ekki dótturfélag, heldur sjálfstætt starfandi orkufyrirtæki. Reykjavik energy invest er dæmi um dótturfélag O.R.

Hefur þú annars séð mörg einkahlutafélög vera að eyða peningum í landkynningu á Íslandi nema þá ferðaskrifstofur eða einhverjir sem hafa beinan hag af þeirri landkynningu? Hver segir að O.R. hafi ekki beinan hag af landkynningu sem þessari? Ég veit ekki betur en að O.R. sé þátttakandi í verkefnum víða um heim, bæði í þróunarlöndum sem og annars staðar. Einnig held ég að þar á bæ sé verið að vinna að ýmsum verkefnum tengdum jarðvarmavinnslu í samvinnu við lönd, ríki og háskóla hér og þar í hinum stóra heimi. 

Magnús, lastu svar mitt? Mér er til efs að þú hafi gert það, miðað við hvernig þú svarar mér hér. Og reynir auk þess að upphefja rök þín með að ýja að því að ég sé einfaldur. Væri ekki nær að þú héldir þig við efnið og sýndir fram á í hverju ég fer með rangt mál.

Þorsteinn Mar (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 00:04

13 identicon

Já, O.R. er í eigu þeirra sveitarfélaga sem ég nefndi. Það þýðir ekki að fyrirtækið fari með almannafé, eða að það stundi það að innheimta skatta.

á að vera:

 Já, O.R. er í eigu þeirra sveitarfélaga sem ég nefndi. Það þýðir ekki að fyrirtækið fari með  opinbert fé, eða að það stundi það að innheimta skatta.

Þorsteinn Mar (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 00:27

14 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þorsteinn Mar, ég skil ekki hvernig þú getur litið svo á að OR sé ekki í opinberri eigu.

Eina ástæðan fyrir því að þetta er hlutafélag er vegna þess að stjórnendur þess eru að reyna að einkavæða það sem er í mínum huga bara það sama og að stela því frá almenningi.

Það er engin samkeppni í orkusölu, það er bara opinber lygi. Málflutningur þinn er í anda þeirra sem vilja í græðgi sinni koma þessu fyrirtæki í hendur einkaaðila sem geta haldið áfram að okra á braðnauðsynlegri samfélagsþjónustu sem á meira skylt við grunnþarfir okkar í samfélaginu heldur en dekurmál. Grunnþarfirnar er jafn réttur til mennta, heilsugæslu, félagsmála, almannatrygginga og þess háttar þar sem maður vonar að meirihluti þjóðarinnar haldi í jafnaðarmennsku á því sviði.

Mér finnst einfaldlega rangt að fyrirtæki sem byggt hefur verið upp í samfélagseigu sé platað út úr ístööulitlum og mútuþægum stjórnmálamönnum með þeim hætti sem þegar hefur hent mörg önnur fyrirtæki. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að opinber fyrirtæki eigi ekki að standa í samkeppnisrekstri en orku- og veitukerfi eiga mjög langt í land að vera alvöru samkeppnisrekstur. Þar er beitt lyginni til að koma þessum fyrirtækjum í græðgisvæðinguna.

Það sem mér finnst hræðilegast er að horfa upp á þetta gerast jafn hratt og raun ber vitni. Núverandi forstjóri er orðinn aðalstjórnandi REI (Reykjavík Energy Invest) sem er útrásarfyrirtæki og verður fljótlega komið í eigu einkaaðila. Forstjórinn er þar með kominn með alla þræði bæði í OR og REI til að kippa undan því að borgarbúar og samfélagið almennt fái rönd við reist þegar þessu fyrirtæki og öðrum orkufyrirtækjum verður stolið frá okkur. REI er bara spottinn sem notaður verður til að sprengja þetta í burtu.

Hér þarf að bremsa græðgisvæðinguna af - STRAX! 

Haukur Nikulásson, 3.10.2007 kl. 07:38

15 identicon

Haukur, hef ég ekki margsinnis sagt að fyrirtækið sé í eigu Reykjavíkurborgar, Akraness og Borgarbyggðar? Ég er ekki að segja að það sé ekki í opinberri eigu, reyndar hefur það hvergi komið fram hjá mér. Hins vegar hef ég margsinnis sagt að það sé sjálfstætt starfandi orkufyrirtæki á frjálsum markaði, sem sagt: Það nýtir hvorki opinbert fé né hefur einkaleyfi til orkusölu heldur starfar í samkeppni við önnur svipuð fyrirtæki. Maður þarf ekkert að leita lengi til að finna þessa skilgreiningu. Lögum samkvæmt hefur þú rétt til að kjósa við hvaða fyrirtæki þú verslar. Ég nýti þennan rétt minn óspart. Ég sníðgeng ákveðin fyrirtæki af því ég vil ekki eiga viðskipti við þau, af ástæðum sem er óþarft að telja upp hér. 

Ég tel ekki koma málinu við hvað þú telur vera opinberar lygar eða ekki. Hitt er staðreynd. Lögin kalla á þessa samkeppni og lagaumhverfið sem fyrirtækið býr við er með þeim hætti að það verður að haga sínum seglum eftir segja til um með hvað hætti starfsemin á að vera. Það er ekkert hægt að neita því. Hvernig hefur síðan spilast úr þessum aðstæðum er annað mál og háð skoðun hvers og eins. Ef þú telur á þér brotið, ætti að vera auðvelt fyrir þig að hafa samband við Samkeppnisstofnun eða Umboðsmann Alþingis. Úr því þú ert ósáttur, gerðu eitthvað í því. Þú bætir ekki samfélagið með blaðri. 

Hverjar mínar óskir eru um framtíð O.R. eru líka málinu óviðkomandi og koma hvorki þér né öðrum við. Ég gef mig ekki út fyrir að vita hvað þú hugsar og þætti vænt um þú kæmir fram með svipuðum hætti við mig.

Það hvernig stjórnmálamenn tala um O.R. skaltu eiga við þá, en ekki mig. Auk þess hefur margsinnis komið fram í málflutningi þeirra að þeir ætla ekki að einkavæði O.R., það er síðan bara undir hverjum og einum komið hvort hann trúi því eða ekki. Ef þér sýnist þessir menn ljúga, þá er um að gera og reyna koma þeim frá völdum.

Þú ert augljóslega maður hugsjóna. Það er öfundsvert og mættu fleiri vera eins og þú. Þú nýtir líka rétt þinn til málfrelsis. Ekki nýta einungis hann, nýttu öll þín réttindi. Þú hefur rétt til að gera eitthvað í málinu. Þú hefur rétt til að sýna vanþóknun þína á þessu bruðli, eins og þú kallar það, með því að hætta viðskiptum við fyrirtækið. Þú hefur rétt á því að kæra O.R. til Samkeppnisstofnunar teljir þú þá stunda okurverslun eða hafi einokunaraðstöðu á þessum markaði. Ef þú ert ósáttur, gerðu eitthvað í málinu.  

Þorsteinn Mar (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 10:47

16 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þorsteinn Mar, okkur greinir á um samkeppnishlutann því ég tel hann ekki virka "Jack-shit" eins og krakkarnir segja. Það er nánast enginn verðmunur á rafmagnsverðinu á milli þessar "samkeppnisfyrirtækja". Það er eitt að setja þessa samkeppni í lög og annað að sjá þau í alvöru virka. Þau gera það bara alls ekki.

Þú mátt ekki misskilja mig með að ég er ekki sósíalisti sem vill að allt sé í opinberri eigu. Ég vil sjá opinbera forsjá á grunnþjónustu sem varðar okkur öll og eru í anda þeirrar jafnaðarstefnu að allir hafi sama góða grunninn til að byggja tilveruna á eins og ég nefndi í annarri athugasemd. Ég hef ekkert á móti því að menn græði á starfsemi sinni og það er ekki bara æskilegt heldur nauðsynlegt.

Við höfum allt of mörg dæmi þar sem menn hafa setið báðum megin borðsins þegar fyrirtæki í opinberri eigu hafa verið seld. Eitt grófasta dæmið er þegar stjórnarformaður IAV var líka í einkavæðingarnefnd og endaði á því að kaupa fyrirtækið. Það var engum böndum komið á þann þjófnað. Mér þykir t.d. líka fjárhagslegur uppgangur Finns Ingólfssonar grunsamlegur án þess að hafa nokkuð fyrir mér í því. Ég þekki mannlegt eðli nægilega vel til að vita fyrir víst að græðgi sumra manna á sér engin takmörk og það vil ég hefta þegar grunnþjónusta við samfélagið á í hlut.

Mín vegna má einkavæða einokunarsölu ríkisins á áfengi og tóbaki svo dæmi sé tekið. Það er mér að skaðlausu að stofnanir ríkisins hætti að byrla þegnum sínum eitur.

Ég er ekki að ætla þér persónulega ekki eitt eða neitt í þessu sambandi heldur benti á að málflutningur þinn væri "í anda þeirra sem... (o.s.frv.)" Ég reyni að gera mér far um að vera málefnalegur þó ég eigi til sterk lýsingarorð. Ég get unnt mönnum að vera ósammála mér og þó að við blásum svolítið vegna skoðanaágreinings þarf ekki að hleypa þessu í nein leiðindi. Ég hef gaman af þessum rökræðum.

Mér misheppnaðist að gera mig gildandi í pólitikinni í vor og tek því eins og hverjum öðrum lærdómi. Ég hef lært á hljóðfæri og geri mér því kannski betur grein fyrir því að enginn okkar stekkur fullmótaður til áhrifa á þeim vettvangi frekar en í mörgu öðru. Ég á líka eftir að komast að því hvort mín tegund af málflutningi fær hljómgrunn eða ekki. Ég vil hafa áhrif í þessa veru, en er kannski ekki tilbúinn að fara í byltingarleiðangur eða skæruhernað til að ná fram markmiðum mínum. Og athyglissýkin er ekki nægileg til að "ég komi nakinn fram!" eins og segir í kvæðinu.

Hvað svo sem öllu rekur þá stend ég í þessu pólitíska þrefi á meðan ég hef gaman af því og það gerist ekki of mannskemmandi. Takk fyrir þitt innlegg.

Haukur Nikulásson, 3.10.2007 kl. 11:54

17 Smámynd: Leifur Ingi Vilmundarson

Jæja strákar!

Mér sýnist nú að það sé búið að máta okkur alla í hvelli....nýtt skrýmsli orðið að raunveruleika, 40 milljarða kvikindi! Njótið heil!

Leifur Ingi Vilmundarson, 3.10.2007 kl. 18:58

18 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Góðar umræður.

Það er samkeppni.  Nú geta þú og ég og allir hinir stofnað fyrirtæki keypt rafmagn í heildsölu af einhverjum bónda úti á landi sem er með virkjun í bæjarlæknum eða hvaða framleiðanda sem er, fengið sömu kjör á flutning hjá Landsneti og dreifingu hjá OR og stóru aðilarnir á markaðnum (skv. reglugerð) og selt rafmagnið á frjálsum markaði til neytenda.

Af einhverjum ástæðum hafa þessi fyrirtæki ekki ennþá sprottið upp þrátt fyrir að þetta hafi nú verið opið í næstum tvö ár.  Eina ástæðan sem mér dettur í hug er að það hljóti að vera svona lág álagning á þessum markaði, nóg er hann stór.  Ef hann væri eftirsóknarverður þá hlytu fleiri aðilar að vera komnir inn á hann.

OR notast við aðferðarfræði millideildasölu til þess að bókhald þess sé algerlega gagnsætt.  Það þarf að vera hægt með nokkrum músasmellum að taka út kostnað við hverja veitu fyrir sig annars vegar og hvern framleiðsluþátt fyrir sig (framleiðslu - dreifingu - sölu).  Með millideildasölu þá endar kostnaðurinn hjá þeim aðila innanhúss sem óskaði eftir honum en ekki hjá þeim aðila innanhúss sem framkvæmdi verkið.  Þetta kemur í veg fyrir að einn hluti starfseminnar geti niðurgreitt annan, t.d. að einokunarhlutinn (heitt og kalt vatn) geti greitt niður samkeppnishlutann (rafmagn).

Málið er Haukur minn að fólk sýnir því ótrúlega lítinn áhuga að hætta í viðskiptum við OR þrátt fyrir að það megi það núna.  Oftast talar það um að það nenni því hreinlega ekki þar sem verðið sé ekki hærra en raun ber vitni eða að þetta sé nú svosem ágætt.

OR fjárfesti á síðasta ári fyrir um 30 milljarða króna og stefnir að einhverju svipuðu á næsta ári.  Megnið af þessu er ljósleiðarauppbygging, virkjanagerð og almenn uppbygging grunnkerfisins t.d. í nýjum hverfum og endurnýjun í gömlum.  Þetta eru stóru upphæðirnar.  Stjórnendur OR ákveða ekki sjálfir hvenær þeir fjárfesta.  Það eru sveitarstjórnirnar sem ákveða að byggja nýtt hverfi og þá á OR að vera tilbúið á hliðarlínunni hvenær sem er og leggja milljarða í grunnkerfin sem koma til baka á ca. 30-40 árum.  Til þess að geta þetta þarf fyrirtækið að vera fjárhagslega sterkt og hafa þannig breytt bak.

Aðalatriðið með Reykjavik Energy Invest er að það er ekki beinn hluti af OR heldur sjálfstætt fyrirtæki.  Því er haldið algerlega aðskildu þar sem þar er um verulegan áhætturekstur að ræða og því ekki rétt að íbúar sveitarfélaganna ábyrgist ævintýri á erlendri grund eða að skuldbindingar á þeim vettvangi geti haft áhrif á samfélagsþjónustuhlutann.  Þar er OR er ennþá Sf þá bera íbúar Reykjavíkur ábyrgð á fjárhagsskuldbindingum fyrirtækisins.  Þegar það verðu Hf á næstu mánuðum þá mun það þurfa að standa undir skuldbindingum sínum sjálft sem er gott.

Íslendingar með OR í broddi fylkingar eru heimsmeistarar í nýtingu á jarðvarma.  Að sjálfsögðu er það hlutverk fyrirtækisins að kynna þessa nýtingu og halda úti kynningarstarfsemi sem Íslendingar jafnt sem útlendingar geta kíkt á.  Þú ert velkominn bæði á Nesjavelli og í Hellisheiðarvirkjun.  Þar er opið alla daga og ég held um helgar líka.  Þarna hafa þjóðarleiðtogar komið í röðum sem og aðilar frá fyrirtækjum sem eru að fara í samstarf við REI út um allan heim.  Þarna koma einnig ýmsir hópar, fjölskyldur á sunnudagsrúntinum sem vilja fræðast o.s.frv.  Auk þess tekur OR á móti börnum úr grunnskólum Reykjavíkur og kynnir fyrir þeim vísindi, eðlisfræði og fleira þess háttar í Rafheimum í Elliðaárdal.  Þar er fyrirtækið að rækta framtíðina og skapa áhuga barna að leggja fyrir sig raunvísindi í framtíðinni.  Við munum svo sannarlega þurfa á þeim að halda í orkuútrásinni.

Það hefur gerst undanfarin ár að fjöldinn allur af sveitarfélögum á vestur- og suðurlandi hafa sóst eftir því að OR tæki veitur þeirra yfir.  Ástæðan hefur verið sú að fyrirtækið hefur burði til að reka stöðug og öflug kerfi á ódýran hátt og veita íbúunum þessa þjónustu margfallt ódýrar en þessar smærri veitur hafa gert.  Ég veit til þess að í einu bæjarfélagi þar sem OR tók við rekstri veitnanna lækkuðu reikningar bæjarbúa um 40%.

OR selur lífsgæði og stendur sig verulega vel á því sviði á alþjóðlegan mælikvarða.  Fyrirtækið er stórt á íslenskan mælikvarða og ber því ábyrgð gagnvart samfélaginu.  Það ber ábyrgð á fræðslu um þetta séríslenska fyrirbrigði sem það er leiðtogi í, það ber ábyrgð gagnvart umhverfinu í allri sinni starfsemi og hefur meðal annars ræktað upp Elliðaárdal undanfarna áratugi en þar eru bæði heitavatnsborholur og rafmagnsframleiðsla, það styður dyggilega við háskólasamfélagið og þar með þekkingaruppbyggingu þjóðarinnar o.s.frv. o.s.frv.  Stór fyrirtæki sem hafa bolmagn til eiga að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og koma góðu til leiðar.

Það er reyndar mín persónulega skoðun að OR eigi að taka að sér strætó og gera það með glans.  Fyrirtækið hefur burði til að fjárfesta einhverjum milljörðum í uppbyggingu almenningssamgangnakerfis á heimsmælikvarða sem yrði raunverulegur valkostur við bíl númer 2 á heimilum.  Bílum í Reykjavík hefur fjölgað um 40% á tíu árum.  Spáið í það! - 40% - og voru þeir ekki sérstaklega fáir fyrir tíu árum.  OR er best í því að veita hlutum í hvern krók og kima veitusvæðisins, hvort sem það er heitt vatn, kalt vatn, rafmagn, fráveita eða gögn.  Hví skyldi það ekki veita fólki?  Það er mín skoðun að setja eigi í gang 12 ára tilraunaverkefni og hafa frítt í strætó til 2020.  Með verulegri uppbyggingu kerfisins og því að hafa frítt í strætó til 2020 væri hægt að búa til almenningssamgangnamenningu í Reykjavík sem ekki er til staðar núna.  Þegar fólk væri farið að nota kerfið þá væri hugsanlega möguleiki á að það stæði undir sér eftir 2020.  Núna þegar enginn notar það eru engar líkur á því að það standi nokkurn tímann undir sér þótt arðsemi almenningssamgangna sé auðvitað fyrst og fremst mæld í minni bílaumferð sem leiðir til minni mengunar, minni viðskiptahalla, fækkunar umferðaslysa, minni kostnaðar við umferðarmannvirki o.s.frv.

OR hefur afl til góðra verka og þá ímynd að gera þá hluti vel sem það gerir á annað borð.  Þess vegna er það eftirsóknarverður samherji sem lýsir sér í þeim fjölda sveitarfélaga sem hafa óskað eftir samstarfi við það á undanförnum árum og nú með öllum þeim fjölda erlendra aðila sem óskað hafa eftir samstarfi við fyrirtækið.  Við eigum að vera stolt af þessu fyrirtæki á heimsmælikvarða sem við eigum.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 4.10.2007 kl. 00:28

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 265322

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband