Og hvað á ég þá að kjósa?

Nú þegar ljóst er að maður verður sjálfur ekki hluti af neinu framboði er víst best að viðurkenna að þá er bara eftir að ákveða hvað skuli kjósa.

Framsóknarflokkurinn er spilltasti flokkur landsins miðað við höfðatölu. Hann stendur ekki fyrir nema eitt málefni og hann selur allt annað fyrir völdin. Það eina sem hann passar eins og sjáaldur auga síns er að verja bændasamfélagið og viðhalda þar með mesta matvælaokri í heiminum í dag. Mannvalið er takmarkað. Aðeins Jónína Bjartmarz er mér að skapi sem frambærilegur frambjóðandi. Siv Friðleifsdóttir var í talsverðu áliti hjá mér en féll alveg þegar hún gerði kosningabæklinginn sinn á kostnað framkvæmdasjóðs aldraðra og bætti um betur með því að sýna þar enga iðrun þegar hún var gagnrýnd fyrir það.

Sjálfstæðisflokkurinn er útaf sakramentinu eftir 30 ára dyggan stuðning minn þar í öllum kosningum. Ég sætti mig ekki við framboð Árna Johnsen með stuðningi flokksforystunnar, stuðninginn við Íraksstríðið, einkavinavæðingu fyrirtækja og áframhaldandi einkavinavæðingu  annarra auðlinda eins og Landsvirkjunar og orkufyrirtækjanna. Geir H. Haarde er ekki leiðtogi og það hlýtur fólki að fara verða deginum ljósara. Þægu stuttbuxnadrengirnir gerðu ekkert þegar Davíð missti sig í Baugseineltinu og fjölmiðlafrumvarpsruglinu, þá reis enginn upp til að hafa nokkurt vit fyrir honum. Það voru mér vonbrigði að, merkilegt nokk, Árni Sigfússon (náfrændi Árna Johnsen!) skyldi ekki gefa kost á sér í forystusveitina. Mannvalið hjá íhaldinu hefur líklega aldrei verið lakara en einmitt núna. Aðeins Ásta Möller er eina manneskjan sem ég treysti þar að einhverju leyti.

Samfylkingin er að verða eiginlega alveg skoðanalaus nema í málum sem ég er bara klárt á móti eins og aðild að ESB. Ingibjörg Sólrún er svo mikill wannabe forsætisráðherra að það er bara orðið pínlegt. Sjáið bara bloggsíðu Ágústar Ólafs, varaformanns, meira að segja hann virðist líta á kynferðið sem aðalatriðið í dag. Samfylkingarfólk er samt þessa stundina frekast mér að skapi. Ég hef mikið álit á Jóhönnu Sigurðardóttur, Katrínu Júlíusdóttur og fyrrum starfsfélaga mínum Láru Stefansdóttur. Allt traustvekjandi konur. Ágúst Ólafur er mjög efnilegur, en mér finnst hann full ungæðislegur í skoðunum. Hann mun þroskast.

Vinstri græn eru bara öfgaflokkur, sem vill bara upphefja konur til að starfa við ekki neitt. Það koma engar vitlegar tillögur um eitt eða neitt frá þessum flokki. Flokkurinn hefur þó eina alvöru leiðtogann meðal flokksforingja og það drífur hann áfram. Ögmundur og Kolbrún, þótt umdeild séu, bera með sér heiðarleika sem er virðingarverður. Þetta dugar bara ekki til að gera flokkinn að raunverulegum kosti.

Frjálslyndir eru að mestu leyti drop-out úr Sjálfstæðisflokknum. Síðast notaði hann kvótamálið til að aðgreina sig frá hinum flokkunum. Nú höfðar hann með lævíslegum hætti til útlendingahatara. Enginn áróður, bara fullt af "viðvörunarorðum" duga til að ná til þeirra. Þeir frambærilegu menn sem þarna eru í framboði eru bara snyrtilegir í útliti og máli, en selja sig ekki sem hugsjónamenn því miður. Leiðtoga- og samskiptahæfileikar formannsins eru litlir sem engir.

Íslandshreyfingin hefði getað orðið alvöru stjórnmálaafl ef Jón Baldvin hefði tekið að sér að leiða það dæmi. Þá hefði komið alvöru bragur á stefnumál og breiðari grundvöllur. Eins og staðan er nú hefur hreyfingin bara yfir sér einstrengislegt stóriðjustopp og stefnu Margrétar Sverrisdóttur sem á stystu málefnaskrána: "Ég!". Ómar, Margrét og Jakob brugðust alveg í því að laða til sín þá hópa sem vildu vinna með þeim. Þeim var svo annt um að raða sér í sæti og koma vinum sínum fyrir líka að ekkert annað komst að. Þau súpa nú bara seyðið af svona þröngri sjálfmiðun. Þrátt fyrir alla sína hæfileika er Ómar ekki leiðtogi, til þess er hann of mikill einfari og á erfitt með að taka ákvarðanir og standa fastur við stefnumál.

Og nú veltir maður þessu fyrir sér fram til 12. maí, fer á kjörstað og kýs X....? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Bendi  á að auður seðill er svolítið steitment.

Hinsvegar er Árni Sigfússon alls ekki bróðursonur Árna Johnsen - Árni á tvo bræður, báða yngri og heita þeir Elías og Þröstur. Þessir þrír eru alveg yfirdrifið nóg svo við förum ekki að bæta einhverjum Sigfúsi við. Þeir Árnar eru hinsvegar systkinabörn. Ætli Sigfússyni finnist það ekki alveg feykinóg...

Jú, málefnaskrá Margrétar er stutt og hnitmiðuð og slær þar með út þá málefnaskrá, sem áður var styst. Það er málefnaskrá Samfylkingarinnar, sem hljóðar einhvernveginn á þessa leið: "Koma Sjálfstæðisflokknum frá og sjá svo til".

Ég er ekki sammála því að Ögmundur beri með sér heiðarleika, verandi formaður verkalýðsfélags, hvar hann virðist hafa misnotað sjóði félagsins í þágu VG - það finnst mér ekki heiðarlegt.

Nenni ekki að skrifa meira, við gætum gert þetta í allan dag...

Ingvar Valgeirsson, 26.4.2007 kl. 11:32

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Það er rétt hjá þér að þeir eru náfrændur. Ég breytti færslunni til samræmis við það.

Ögmundur er ólaunaður formaður BSRB og ég hef aldrei heyrt af því að hann hafi misnotað fé samtakanna. Fáðu t.d. Guðlaug Þór Þórðarson til að vera jafn nægjusaman í sínum launum. Hann munaði ekkert um að vera á fullum launum borgarfulltrúa og alþingismanns í þrjú ár. Núna þiggur hann a.m.k. laun sem alþingismaður og stjórnarformaður OR á sama tíma.

Haukur Nikulásson, 26.4.2007 kl. 12:32

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú þarf að lesa þér betur til um málefni flokkana Haukur minn.  Það er til dæmis ekki rétt að Frjálslyndi flokkurinn sé að mestu dropp out ur D.  Þarna hafa margir lagt hönd á plóg, fólk bæði úr öðrum flokkum, sem fann sig ekki þar og svo fólk sem aldrei fyrr hefur starfað í pólitík.  Þetta með útlendingana ráðlegg ég þér að skoða hvað verið er að segja.  En ekki bara taka inn það sem þeir segja sem hæst gala. 

En ekki ætla ég að hafa þetta lengra.  Ég þekki vel til í flokknum hef verið í miðstjórn undanfarin ár, og er núna í varastjórn.  Ég hef átt minn þátt í að byggja upp málefnahandlbókina og er stolt af henni. 

En eins og ég segi.  Þú ættir ef til vill að lesa þér til um stefnur allra flokkanna, svo má taka líka inn í hvað menn segja og hvað menn svo gera.  það er ekki alltaf sami hluturinn.  En taktu þá ofan fordómagleraugun minn kæri.  Og gangi þér vel. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.4.2007 kl. 12:37

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ásthildur ég biðst afsökunar á því að fara heldur grunnt yfir sögu í þessari samantekt. Það er bara ekki hægt að halda athygli fólks með langlokum í stíl við Hannes Hólmstein. Þess vegna dregur maður saman hlutina í hraðsoðna sleggjudóma. Ég er þó að reyna koma tilfinningu minni fyrir flokkunum fyrir í hálfgerðum skyndibita og hann verður alltaf harðneskjulegur.

Það eru góð mál í stefnuskrám allra flokka. Ég hef lesið þær allar og tel mig einn mjög fárra sem hafa nennt slíku, því ég notaði það sem bitastætt þar í stefnuskrá Flokksins. Stefnuskrár flokkanna verða því sem næst 90-95% eins þegar upp er staðið. Ég veit að það er mjög gott fólk í öllum flokkum, þú þar á meðal. Ég hef lesið vandlega það sem Frjálslyndir hafa haft um útlendingaumræðuna að segja, lagt inn athugasemdir hjá bæði Jóni Magnússyni og Magnúsi Þór hér á bloggsíðunum þeirra og þykir því hart að fá það í hausinn að hafa ekki kynnt mér umræðuna frá flokknum sem er meira en alrangt svo vægt sé til orða tekið!

Haukur Nikulásson, 26.4.2007 kl. 13:07

5 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Sko.... Ef þú vilt vera viss um að atkvæðið þitt vigti eitthvað í að losa okkur við stjórnarflokkana þá er Samfylkingin besti kosturinn

Og skoðanaleysið sem þér finnst ríkja þar er bara afleiðing þess að hinir er með soddan öfga í öllum málum og það er ekki vænlegt til árangurs. Díll?

Heiða B. Heiðars, 26.4.2007 kl. 13:31

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég ætlaði ekki að móðga þig Haukur minn. Biðst velvirðingar á því.  Auðvitað eru skyndibitar stuttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.4.2007 kl. 13:56

7 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þú móðgar mig ekki Ásthildur. Langt í frá, svona viðkvæmur er ég ekki.

Haukur Nikulásson, 26.4.2007 kl. 14:28

8 Smámynd: Haukur Nikulásson

Skv. fréttum dagsins dettur Jónína út núna af listanum mínum sem bjartasta von heiðarlegra frammara. Verðandi tengdadóttir hennar fær ríkisborgararétt eftir 15 mánaða dvöl. Tilviljun? Yeah right!

Haukur Nikulásson, 26.4.2007 kl. 23:37

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband