Trúin á að vera einkamál

Ég er einn þeirra sem hef þróað með mér eigin trúarbrögð og iðka þau með sjálfum mér. Ég er ekki einu sinni viss um hvort ég eigi yfirhöfuð trúbræður eða systur sem hugsa svipað.

Eins og flestir aðrir íslendingar var ég alinn upp í þjóðkirkjunni og var t.d. skírður og fermdur af kirkjunnar mönnum og lét mér það vel líka. Tel mig raunar hafa bara siglt hugsunarlaust með straumnum, sem mér fannst álíka hugsunarlaus eftir á að hyggja.

Með aldrinum hefur maður farið að efast um að biblían sé helgirit, enda er búið að lauma því að manni að hún hafi verið samin að mestu um árið 300 e. kr. og því sé hún álíka áreiðanleg sem slík eins og það að ætla að skrifa eitthvað um atburði og fólk frá árinu 1706. Við sem fylgjumst með fréttum vitum ósköp vel að fréttir gærdagsins eru ekki einu sinni áreiðanlegar og þú getur fengið jafn mismunandi sjónarhorn á atburði eins og vitnin eru mörg. Hver sér hlutina með sínum augum.

Ég hef þó með einfaldri aðferð búið mér það til að trúa á afl hins góða og veðja á að það sé tilvera eftir dauðann. Ef það væri ekki tilvera eftir dauðann skiptir ekki máli hvernig þú hagar þínu lífi og þá getum við sagt að þú eigir bara að ota þínum tota eins lengi og þú kemst upp með það. Eitthvað segir mér þó mjög sterkt að alheimurinn, lífið og tilveran séu of merkileg fyrirbrigði til að geta verið heilber tilviljun. Ég trúi því sem sagt að eitthvað stjórni þessu sem er okkur æðra. Öll trúarbrögð ganga reyndar í þessa veru. Hins vegar er sammerkt öllu þessu að ekki virðast dauðlegir menn fá nokkra vitneskju um það sem er handan grafar og dauða. Manni er nær að halda að okkur sé bara ekki ætlað að fá meira að vita í þessu lífi.

Það virðist líka vera að flest okkar trúum á það að við eigum að lifa til að gera góða hluti frekar en slæma. Þegar við gerum eitthvað slæmt höfum við samviskubit sem virðist hafa verið gróðursett í okkur til að halda flestum okkar á mottunni. Til að taka saman þessa trúarumræðu í eitt þá má segja að ég trúi því að ég eigi að lifa til þess að gera góð verk. Þetta hefur maður reynt eftir megni og það fylgir því einhvern vegin betri líðan að gera helst ekkert sem maður þarf að sjá eftir, samviskunnar vegna.

Flest öll trúarbrögð sem ég hef kynnt mér virðast eiga það sammerkt að þú eigir bara að gera það sem þú vilt að aðrir geri þér. Þessi einfalda setning segir okkur nánast að öll lög og reglur ættu að vera óþörf í venjulegu samfélagi manna ef farið væri eftir þessu. Því miður er ekki hægt að einfalda hlutina með þessum hætti. Til þess erum við í heild okkar of gallaðar mannverur.

Samt vil ég árétta þá skoðun mína að aðskilja eigi ríki og kirkju og vinna í því að samfélagið sem slíkt skipti sér ekki af trúmálum fólks nema þegar þau kássast inn á aðra með ónotalegum hætti. Trúmál eigi þess vegna að vera einkamál hvort sem fólk vill iðka þau í hópum eða, eins og ég, bara með sjálfu sér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þarna erum við sko sammála aðskilnað Rikis og Kirkju og það sem fyrst/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 18.2.2007 kl. 01:31

2 identicon

Varðandi Biblíuna, þá er hún áreiðanlegasta rit sem mannkynið hefur um fortíð sína.  Ef þú skoðar aldur elstu afritana þá eru elstu handritsleyfar Nýja Testamentisins frá því kringum 100-150 e.kr. en það er mjög stutt frá upprunalegu handritunum þess.  Þegar kemur að Gamla Testamentinu þá sönnuðu Dauðahafs handritin að það sem við höfum í dag er hið sama og menn höfðu frá 200-100 f.kr.  Að varðveita handrit og gera svona nákvæm afrit er gífurlegt afrek enda var mikið lagt í það og það var heil stétt hjá gyðingum sem sá um að gera afrit af handritunum sem gerði það samkvæmt mjög ströngum reglum.  Síðan hefur fornleyfafræðin styrkt mjög mikið af þeim sögum sem er að finna í Biblíunni.

Annars skil ég vel þína sýn á þetta en langar aðeins að bæta við.  Varðandi dauðann þá vitum við fyrir víst að við munum deyja og flestir hafa löngun til að deyja ekki. Einnig höfum við þekkingu á hvað er gott og hvað er slæmt eða samvisku.  Það sem allir(lesist þú) ættir að gera er að horfa aðeins í spegil og athuga hver þín staða er.  Boðorðin tíu þjóna þeim tilgangi að vera sem spegill sem maður getur séð sjálfan sig í.  Þegar maður les "þú skalt ekki stela, þú skalt ekki ljúga, þú skalt ekki girnast það sem þú átt ekki" og fleira þá sér maður að maður er sekur.  Það sem þarf síðan að spyrja sjálfan sig að er ef maður myndi deyja næstu nótt, ætti maður þá skilið eilíft líf.  Biblían er alveg skýr að lygarar og þjófar munu ekki komast inn í himnaríki og ég held að það sé nokkuð augljóst að það er aðeins réttlátt og nauðsynlegt.  Svo það sem maður þarf að spyrja sjálfan sig að er hvað á maður að gera...

Mofi (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 15:09

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Athyglisvert innlegg frá þér Mofi. Ég held að við deilum sömu lífsgildum og erum trúlega alveg sammála varðandi siðfræði biblíunnar og því að hún þjóni ágætlega tilgangi sínum sem mannbætandi lestrar- og kennsluefni.

Það er hins vegar guðfræðin og trúarfrásagnirnar sem ég kaupi ekki jafnlétt. Það t.d. fréttist fátt af því hverjir hafa fengið vist í himnaríki eða helvíti eftir atvikum. Það hefur enginn skroppið þangað og komið til baka til að kjafta frá því sem þar fer fram.

Varðandi vist í helvíti til handa lygurum og þjófum er ég ekki jafn viss og þið sem trúið Biblíunni stafrétt. Ég lít svo á að þeir sem eru ólánssamir í úthlutun mannkosta eigi bágt frekar en að vera eðlisvondir. Það er ástæða til að sýna þeim sams konar samhyggð og þeim sem eru fatlaðir á geði eða líkamlega. Þjófar og lygarar eiga held ég sjaldnast góða daga með þessum kvillum sínum og eru oftast uppteknir af feluleiknum varðandi galla sína, kannski ekki ósvipað og áfengis- og dópfíklar sem eru annars konar ólánsfólk sem má alveg vorkenna.

Biblían er á margan hátt ósanngjörn og óvægin og tekur mið af siðferðisgildum þess tíma sem hún er skrifuð á og er því að mörgu leyti tímaskekkja í því samfélagi sem við lifum.

Þetta umræðuefni getur trúlega enst okkur ævilangt... takk fyrir tilskrifið. 

Haukur Nikulásson, 20.2.2007 kl. 18:00

4 identicon

Líklegast er aðal ástæðan fyrir því að fréttist fátt frá helvíti er af því að það er ekki til í þeim skilningi sem flestir hafa. Við sitjum uppi með heiðinn skilning á hvað helvíti er sem kemur líklegast frá grikkjum þar sem hinir "vondu" þjást í eldi um alla eilífð. Þetta er ekki það sem Biblían kennir en hún kennir líf eða dauða, ekki líf í þjáningum enda hvernig getur Guð verið góður og líka valið að kvelja fólk um alla eilíf.  Tökum til dæmis fræga setningu sem Kristur sagði:

Jóhannesarguðspjall 3:16. Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

Alltaf sett þannig upp að það er annað hvort líf eða dauði. Aldrei sett þannig fram að það sé líf í paradís eða líf í þjáningum í eldi.  Mjög skemmtilegt og fróðlegt samtalið sem þessi setning kemur frá. Þarna er Kristur að tala við mann sem var sérfræðingur í lögum gyðinga og hafði líklegast haldið lögmálið að betur en nokkur lifandi maður í dag en hann samt hefði ekki öðlast eilíft líf.

Það sem hver einstaklingur stendur frammi fyrir er að þegar hann skoðar sjálfan sig t.d. með hjálp Boðorðanna tíu þá sér hann að hann hefur brotið gegn Guði. Þú sérð að himnaríki væri ekki góður staður ef það væri fullt af lygurum, þjófum, nauðgurum og þess háttar fólki.  Þú vonandi sérð að þetta á við okkur líka, ég að minnsta kosti veit fyrir sjálfan mig að ég hef logið og stolið á minni ævi og fleira sem ég vildi helst gleyma.  Það eru vissulega margir sem sökkva enn dýpra en sem betur fer höfum við loforð um að þar sem myrkrið er mikið er náðin enn meiri.

Þetta er efni til að endast alla ævina enda mikilvægustu spurningarnar sem við glímum við; hver er sekur og hver er saklaus og hvað verður um mann þegar maður deyr.

Mofi (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 11:07

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 265321

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband