Færsluflokkur: Ferðalög

Hann er ennþá með skófar Sir Alex á rassinum!

Það ætti flestum að vera kunnugt að Beckham var alls ekkert sáttur við að vera seldur frá United.

Ég sé ekki hvernig maður með eitthvert stolt ætti að fara til baka og væla út æfingatíma á þeim stað. Nú mega fleiri tjá sig um þetta. 


mbl.is Beckham aftur til Arsenal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar golffélaga á Tenerife - einhver?

Ég er með golfsettið mitt með hér á Tenerife (Playa de las Americas) þó enginn af mínum ferðafélögum spili golf. Hef ég farið svolítið á æfingasvæðin en ekki ennþá farið hring af því ég vil gjarnan hafa einhvern talandi félagsskap. Ef einhver er í svipuðum sporum má hringja í mig í síma 00-354-6952524.


Þegar basl og vesen er gleðigjafinn!

Þannig er að við félagarnir vorum fengnir til að spila tónlist í fjallapartíi í Kerlingarfjöllum sem fékk heitið “Í spenning með Henning”. Henning smalaði nefnilega vinum og kunningjum meðal íslenskra fjallamanna sem nú til dags eru með ígildi 150-500 hesta hver við tærnar á sér og þeir rúlla nett um íslenskar heiðar á 38” – 54” dekkjum sem ég vil kalla lóðrétta gúmmíbjörgunarbáta. 

Ferðin uppeftir á laugardegi gekk tiltölulega áfallalítið fyrir sig fyrir utan smávægilegar festur sem ekki töfðu reyndar neitt að ráði. Þegar kallarnir fóru að brosa þegar vesenið byrjaði fór mig að renna í grun að ég hafði alla tíð misskilið þetta fjallasport. Hjá þeim er nefnilega meira vesen – meira gaman.

Um kvöldið var grillað ofan í hópinn og við Gunni reyndum að halda uppi fjöri með spilamennsku. Það var með auðveldasta móti því hópurinn var í dúndurstuði nánast allir sem einn. Þegar þannig háttar verður verkefnið tiltölulega auðvelt.

Um hádegið var haldið áleiðis suður í besta veðri. Halarófa hátt í 20 bíla. Og litlu ævintýrin byrjuðu. Snjóþungt og bratt gil tafði smástund. Finna þurfti vað yfir á. Þar voru smá festur. Fara þurfti mjög rólega yfir klakabrúaðar ár og var óneitanlega svolítill spenningur í mönnum.

Þegar menn héldu að hindrunum væri að mestu lokið festust margir bílar sig í krapapyttunum rétt sunnan við Svínárnes. Rigningar undanfarinna daga höfðu safnast upp í lónum á víð og dreif. Síðan hafði snjóað yfir og þarna duldust því víða faldir pyttir.

Þarna var baslað og vesenast í mikilli gleði fram undir kvöldmat í rúma 5 tíma. Bílstjórarnir brutu klakann með járnkörlum, mokuðu, spiluðu, blökkuðu, ankeruðu og notuðu sliskjur til að koma bílunum upp úr pyttunum. Allt þetta ásamt því að redda affelgun og vindleysi í dekkjum var leyst af fagmennsku og bílastóðið hafðist allt upp fyrir kvöldmat líkt og það hefði verið skipulagt fyrirfram. Maður sleppir aldrei tækifæri á góðu basli er setning sem á vel við hjá þessum mannskap. Ég áætla að hátt í helmingur bílanna hefði fest sig í krapapyttunum og allir fengu að taka þátt í baslinu að vild.

Nóni með klakann og Árni með karl úr járni

 Hér er Nóni, berhentur og brosandi mest allan tímann, að veiða klakann upp úr pyttinum hjá Patrólnum sínum í -12 stiga frosti. Hann kvartaði ekki um kulda! Árni á rauða Land Rovernum tók vel á því líka. Hans bíll var nefnilega næstur, líka með trýnið oní krapapyttinum. (Smellið þrisvar á myndina til að fá fram bestu gæði.) - Ljósm. Rúnar Daðason.

Þetta var skemmtileg og ný upplifun fyrir malbiksjeppaeigandann, sem í augnabliksfáfræði lét sér detta í hug að fylgja breyttu bílunum þarna uppeftir. Sem betur fer var haft vit fyrir honum.

Gunni og Haukur með leiktækin sín
 
Gunni Antons og ég með áhöldin okkar í höndum. Skemmtilegur og sérkennilegur staður fyrir gigg.
Ljósm. Rúnar Daðason.

Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir samveruna þessa helgi og er þess vegna til í að endurtaka leikinn að ári.


Heil vika á golfvöllum Spánar

Ég og Arnar fórum í viku golfferð til Spánar. Af þeim sökum hef ég ekki nennt að setja niður einn einasta punkt í bloggið, ákvað að gefa því líka frí á meðan þó ég hefði aðstöðu til þess alla ferðina.

Ferðin tókst í alla staði vel og við vorum meira að segja svo heppnir að rigningarspárnar höguðu sér þannig að rigna áður en við byrjuðum 4 og hálfan tíma (18 holur) hring og síðan bara þegar við höfðum lokið leik. Þannig gekk það í fjóra daga í röð.

Við spiluðum þrjá velli nálægt Torrevieja. Villamartin völlurinn er slæmur og varla boðlegt að rukka þar fullt gjald. Þar er mikil vinna í gangi og búið að klessa öllum teigum á rautt og jafnvel færa þá framfyrir rauða teiga. La Finca nálægt Algorfa er 4ra ára gamall og er stór, breiður og glæsilegur í alla staði. Hann er erfiður á fótinn. Þarna er umhirða gjörólík Villamartin sem er þó í eigu sömu aðila. Las Ramblas völlurinn er mjög fallegur og þokkalega hirtur. Þar er verið að byggja nýtt klúbbhús og því erfitt að finna afgreiðsluna í fyrstu. Þarna er mikið landslag og því mjög gaman að labba þennan völl. Brautirnar eru líka skemmtilega fjölbreyttar. Campoamor völlinn fórum við ekki vegna þess orðspors sem fer af honum núna þ.e. að hann sé í óboðlegu ástandi. Við keyrðum þó á svæðið og því verður ekki neitað að umhverfi hans er mjög glæsilegt.

Pabbi og mamma tóku mjög vel á móti okkur og gistum við hjá þeim þessa viku í yfirlæti sem hæfði a.m.k. 6 stjörnu hóteli!

Eftir stendur að ekkert plagaði mann í þessari ferð nema á köflum eigið getuleysi í þessari íþrótt. Ég er hvorki fyrsti né síðasti maðurinn til að þurfa þola þá staðreynd.


Konsert í Jökulheimum

Ég verð seint kallaður mikill ferðalangur, en það kemur fyrir. Um daginn stakk Gunni Antons upp á því að ég kæmi með honum upp í Jökulheima við rætur Tungnáarjökuls í Vatnajökli. Þetta væri vinnuferð og það yrði okkar númer að sjá um að halda konsert þarna fyrir vinnuliðið.

Við stappfylltum bílinn af hljóðfærum og lögðum í hann upp úr 8 á laugardagsmorgni. Stoppuðum stuttlega á Selfossi og Hrauneyjum. Frá Hrauneyjum er rúmlega klukkutíma akstur inn í Jökulheima og að þessu sinni var vegurinn bara óvenju góður. Fyrst var farið út að jökulsporði og þar óðu nokkur hreystimenninn drulluna með gult málband og GPS tæki. Nokkuð drjúgt var í ánum þarna en ekki mikil fyrirstaða fyrir stóra breytta jeppa. Á meðan aðrir dyttuðu að öðrum málum bárum við Gunni dótið okkar í hús.

Svo var stillt upp og var spilað við þær sérstöku aðstæður að rafmagn var fengið úr 3kW ljósavél og áheyrendur voru allir karlmenn. Maður bjóst því ekki við að það yrði dansað. En það reyndist rangt. Þegar á leið rann allt saman í graut: Guðaveigar, góður matur, tónlist og brandarar og úr varð skemmtilegt partý. Um tíma óttuðust menn að skálinn félli saman við þennan hristing og en ekki varð meira tjón en svo að rykið úr þakbitunum náðist niður. Okkur til mikils léttis kvörtuðu nágrannarnir ekkert!

Um morguninn hélt Gunni svarta sunnudagsmessu sem olli einhverjum krampakviðum en engum varð alvarlega meint af. Heim var haldið um hádegi og gekk tíðindalítið og vel fyrir sig.

Þetta má alveg endurtaka mín vegna. Félagar í Jöklarannsóknarfélaginu reyndust hinn ágætasti félagsskapur. Takk fyrir mig!


Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband