Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Guðrún Inga Sívertsen í stjórn KSÍ

Mér finnst aðalfréttin vera glæsileg kosning Guðrúnar Ingu Sívertsen í stjórn KSÍ. Hún fékk 114 af 118. Þetta er "rússnesk" kosning glæsilegs fulltrúa okkar Þróttara sem verður nú sameiginlegur fulltrúi okkar allra og mun örugglega sinna því með glæsibrag.

Þarna er kominn hugsanlegur kandídat í formannskjör KSÍ þótt síðar verði. Til þess þarf hún að ávinna sér traust í störfum sínum og þá getur allt gerst. 


mbl.is Geir Þorsteinsson kjörinn formaður KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær þiggurðu of mikið Björn Ingi?

Það er athyglisvert að heyra ofan í Björn Inga Hrafnsson varðandi mál sem ég tel vera (vægt til orða tekið) á mörkum velsæmis og spillingar. Fræg er frammistaða hans í Kastljósi þar sem hann varði eigin þátttöku í hagsmunagæslu Óskar Bergssonar með því að skjóta "þið-eruð-líka-spilltir" skotum á viðmælendur sína. 

Varðandi boðsferð Kaupþings til London hafði Björn Ingi þetta að segja í Fréttablaðinu (vonandi rétt eftir honum haft):

"Mér var boðið í þessa ferð en var ekki í opinberum erindagjörðum. Kaupþing er viðskiptabankinn minn og mér var boðið að kynna mér nýjar höfuðstöðvar þessa fyrirtækis. Ég hef oftast tekið því vel þegar fyrirtæki vilja kynna mér starfsemi sína,

"Strax við komuna tóku við fyrirlestrar um starfsemi fyrirtækisins og íslensku útrásina. Þetta var mjög forvitnilegt enda hef ég lengi verið áhugamaður um velgengni íslenskra fyrirtækja erlendis."Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins var Björn Ingi eini stjórnmálamaðurinn með í för, aðrir voru kaupsýslumenn í viðskiptum við bankann. Björn Ingi telur ekkert óeðlilegt við það að hann hafi þekkst boð Kaupþings. "Það er auðvitað alltaf umhugsunarefni í hvert sinn hvort þiggja eigi svona ferðir. Ég hef hins vegar margoft kynnt mér starfsemi íslenskra fyrirtækja, bæði hér og erlendis, og þetta var ekkert því frábrugðið."

Hjá okkur öfundsjúkum almúganum vakna þær spurningar hvort Kaupþing bjóði öllum viðskiptavinum sínum svona trakteringar? Var hann á "Saga Class" farrými? Hvernig voru veitingarnar og viðurgjörningurinn? Flott veisla um kvöldið? Skemmtanir? Fékk hann hálsmenn eða armband handa konunni? Var hún kannski sjálf með? Fékk hann ferðadagpeninga hjá Borginni? Skyldi Björn Ingi sitt eigið veski eftir heima? Er hann svo heppinn að þegar hann langar til útlanda að þá sé alltaf einhver tilbúinn að bjóða? (Sbr. margoft)

Nú spyr ég Björn Inga Hrafnsson: Hvað telurðu að þú megir þiggja mikið áður en það kallast spilling?

Ég held að fleiri en ég vilji vita hvar þú telur vera mörk spillingar. Þar sem þú ert duglegur við að lýsa skoðunum þínum á mönnum og málefnum væri gott að vita álit þitt á þessu tiltekna máli.


Lítil klókindi að ganga í 3% flokk!

Ég get ekki séð að það sé pólítískt klókt af Kristni Gunnarssyni að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn eftir allt sem á undan er gengið. Flokkurinn er klofinn eftir brotthvarf Margrétar og mælist hann með 3% fylgi (sem kannski er álíka trúlegt og 45% fylgi Sjálfstæðisflokksins).

Ef Kristinn er að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn á þessum tímapunkti þá sýnist manni að hann vilji vera þar sem er góðan "fæting" er að finna! 


mbl.is Kristinn til frjálslyndra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er kominn grunnur að STÓRU sameiginlegu "sérframboði"?

Það er undarleg þessi hegðun hjá mörgu fólki að tala niður til þeirra sem vilja mynda nýja stjórnmálaflokka. Þetta fólk þreytist ekki á að telja upp að það verði til níu eða tíu ný lítil og aumingjaleg sérframboð um hvert litla óánægjuefnið sem hægt sé að velta sér upp úr. Þetta er aðferð til að tala niður öll öfl sem hugsanlega geta hróflað við þeim flokkum sem fyrir eru.

Staðreyndin er samt sú að unnið er hörðum höndum víða að reyna að koma saman nýju sameinuðu framboði sem hefur víðan grundvöll undir merkjum umhverfisvænnar jafnaðarstefnu.

Framtíðarlandið mun í kvöld funda um það hvort samtökin vilji breyta sér í virkt stjórnmálaafl með framboð í huga. Til þess þarf aukinn meirihluta og verður fróðlegt að sjá hvernig það fer. Ég þykist viss um að það verði einhver andstaða við það enda er félagið yfirlýst sem "þverpólitískt".

Hvort sem félagið, sem slíkt, samþykkir framboð eða ekki, þá tel ég nægja að merkisberar þess félags, aðallega Ómar Ragnarsson og Andri Snær Magnason eigi að taka þátt í stóru sameiginlegu framboði sem verið er að reyna koma saman ásamt hópum áhugafólks úr hinum ýmsu áttum. Sameiginlegt því fólki er að hugnast ekki að kjósa hina flokkana af ólíkum ástæðum.

Ég sendi félögum í Framtíðarlandinu mínar bestu kveðjur og hvet þá til að taka þátt í að koma frá núverandi stjórn og sinna þeirri borgaralegu skyldu að taka þátt í mótun þess að reka hér samfélagið á vitlegri hátt en nú er gert.

Ef við stöndum saman getur nefnilega orðið til nýtt STÓRT sérframboð sem tekur 25% fylgi eða meira. Ég heyri marga lýsa draumum sínum í þessa átt.


Viljum við láta fullkomna þjófnaðinn á þjóðarauðnum?

Heyrst hefur að forysta Sjálfstæðisflokksins sé búin að lýsa því yfir að "eyða þurfi réttaróvissu um kvótakerfið".

Miðað við fyrri gjörðir þessarar ríkisstjórnar sem nú situr þýðir þetta bara eitt. Það á að færa "sameign þjóðarinnar" þ.e. fiskinn í sjónum lagalega í hendur kvótakónganna til eilífðar. Þar með verður fullkomnaður þjófnaður Íslandssögunnar.

Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin ganga erinda Landssambands íslenskra útvegsmanna og hafa engin áform uppi að koma þessari "sameign þjóðarinnar" aftur í hennar hendur, þar sem hún á heima skv. stjórnarskránni. Svo virðist sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi hreinlega "týnt" þessu máli eftir fund með LÍÚ.

Skv. ofansögðu er ljóst að haldi ríkisstjórnin velli, eða ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi stjórn með Samfylkingunni, verði sjávarútvegsauðlindinni endanlega stolið. Við getum bara komið í veg fyrir þetta með því að kjósa ekki þessa flokka í næstu kosningum. 


Verkfall leysir líklega vandamálið - Fangelsin lokast!

Þær eru blendnar tilfinningarnar sem hríslast um mann þegar maður heyrir að hugsanlegt verkfall fangavarða þýði að loka verði fangelsunum!!!

Við, svona venjulegir hálfvitar, höfum lengi haldið að þau ÆTTU að vera LOKUÐ!?

Nú skil ég loksins af hverju lögreglan er alltaf að eltast við fanga í lausagöngu í borginni... hmmm...


Eignast álfyrirtækin Landsvirkjun og hinar veiturnar?

Það virðist vera áhugamál margra Sjálfstæðismanna að nú sé kominn tími til að einkavæða Landsvirkjun og aðrar veitur í landinu.

Ég hélt fyrst að þetta væri bara grín þegar ég heyrði þetta. Þó svo að ég sé yfirhöfuð hlynntur því að ríkið sé ekki í óþarfa samkeppnisrekstri þá sé ég ekki fyrir mér neina samkeppni um það að selja okkur rafmagn, vatn, hita og skolpþjónustu. Allt eru þetta samfélaginu svo mikilvægar grunnþarfir að á meðan ekki er að vænta neinnar samkeppni sé best að þetta sé áfram á forsjá opinberra aðila.

Hugsið ykkur ef álfyrirtækin eignast rafveiturnar. Dettur fólki í hug að verð á orku lækki til okkar? En til þeirra? Heldur fólk að við fáum betur að vita hvað þeir greiða sjálfir fyrir raforkuna? Öll leyndin um raforkuverðið til álfyrirtækjanna er með þeim hætti að líklega skammast menn sín fyrir að gefa hana upp? Ef ekki, hvers vegna er þá leyndin?

Sjálfstæðisflokkurinn gengur harðast fram í þessum hugmyndum og þær má raunverulega óttast ef sá flokkur verður í stjórn eitt kjörtímabilið enn. Ég trúi því ekki að óreyndu að hinn almenni borgari styðji einkavæðingu af þessu tagi og þetta er bara enn ein ástæða þess að gefa  þarf Sjálfstæðisflokknum frí frá stjórn landsins. 


Enn einn innistæðulaus kosningavíxill stjórnarflokkanna

Þeir láta sér ekki segjast ráðherrarnir sem sækjast eftir endurkjöri að þeir hafi enga heimild til að ráðstafa fjármunum ríkisins fram í tímann með þeim hætti sem þeir gera nú hver um annan þveran. Það jaðrar við að þeir þurfi að panta tíma hjá fjölmiðlunum til að koma þessum innistæðulausu kosningavíxlum sínum að.

Það er aldrei látið fylgja með í þessum kynningum að svona "letter of intent" hefur enga skuldbindandi þýðingu fyrir nýja valdhafa að loknum kosningum. Þegar þeir svíkja þetta eftir kosningar má búast við að kennt verði um "breyttum forsendum" eða "það þurfti því miður að draga saman".

Má ekki biðja ráðherrana að hætta að lofa fé sem þeir hafa ekki ráðstöfunarrétt yfir? 


mbl.is Veittar verða 218 milljónir í aukið umferðareftirlit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband