Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Varnir Íslands - Verjast hverjum? - Hvað kostar það?

Mér finnst einhvern veginn orðið neyðarlegt að fylgjast með tilraunum Geirs Haarde og fleiri við að reyna finna einhverja til að verja Ísland. Verja Ísland og þá fyrir hverjum má ég þá spyrja?

Það eina sem kemur upp í hugann eru hugsanlegar hefndaraðgerðir frá austurlöndum þar sem okkur væri refsað fyrir að styðja stríðsreksturinn í Írak. Að öðru leyti steðjar engin ógn að Íslandi. Loftsteinar og náttúruhamfarir eru mun meiri ógn.

Besta vörn íslendinga er falin í því að lýsa stuðninginn við Íraksstríðið mistök og draga okkur út úr öllu hernaðarbrölti með NATO. Ég skil ekki hvernig nokkur maður getur varið það að við séum að senda fólk til Afganistan og Íraks í "friðartilgangi" þegar augljóst er flest öllum að þetta hernaðarflandur vesturlanda er orðin helsta ógæfa fólks í þessum heimshluta.

Ég fullyrði að það er meira við þessa fjármuni að gera heldur en að kasta þeim í hernaðartilburði og má þar nefna öldrunar-, öryrkja-, félags-, heilbrigðis- og tryggingarmál svo fátt eitt komi upp í hugann. Núverandi stjörnvöld hafa setið of lengi og bera ekki lengur nokkurt skynbragð á hvernig verja skuli skatttekjum landsmanna. 

Ég ætti eftir að sjá að við íslendingar myndum sætta okkur sjálfir við svona afskipti af innanríkismálum okkar ef til kæmi.

Ofsóknaræði Geirs, Björns og fleiri birtist í tilhneigingu til að hafa óþarfa afskipti af fjarlægum þjóðum sem við vitum lítið sem ekkert um. Einnig óþarfa hnýsni í málefni hér heima sem á ekkert skylt við eðlilegt eftirlit með borgurum þessa lands. Ef þeir verða kosnir aftur í stjórn verða fljótlega sett á koppinn  leyniþjónusta og "greiningardeildir" og fleira sem ofsóknaræðið óhjákvæmilega kallar á.


Ætlast þeir til að þessu sé trúað

Ég hef aldrei vitað að verktakar geri meira en þeir fá borgað fyrir. Tré sem setja á niður aftur væru einfaldlega látin liggja þarna eins og starfsmaður í Heiðmörk benti réttilega á.

Ætlast þeir til í alvöru að því sé trúað að þeir hafi ætlað að flytja trén til baka og gróðursetja aftur?

Halda þeir að fólk trúi því að þeir hafi ætlað að passa upp á þessi tré í Hafnarfirði?

Hversu heimskt halda þeir að fólk sé?

Ég skil ekkert í fulltrúa Kópavogsbæjar að hjálpa verktakanum að reyna að ljúga sig út úr þessu. Hér hefði betur dugað að hylma yfir með þögninni einni saman. Sumir hafa bara ekki kunnáttu til þess. Eins og oft áður er þjófnaður oft heimskulegur og í þessu tilviki er yfirhylmingartilraunin enn heimskulegri.


mbl.is Segir um 30 tré úr Heiðmörk í geymslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtnar tengingar við trúarsöguna

Ég varð hugsi yfir þeim orðum biskupsins yfir Íslandi í Kompásþættinum þegar hann talaði um rætur þjóðkirkjunnar og rúmlega 1000 ára afmælis hennar.

Mér varð á að fara aðeins að hugsa um söguna og enduruppgötvaði mér til skelfingar að sögutenging biskupsins sé á alvarlegum villigötum. Raunar svo villtum að maður er eiginlega hálf feiminn að setja þetta á borð.

Okkur hefur verið kennt að kaþólski biskupinn í Skálholti Jón Arason, og synir hans líka, hafi verið afhausaðir árið 1550 að undirlagi upphafsmanna sértrúarsafnaðar hinnar Lútersku að boði Kristjáns III danakonungs. Hvernig getur biskupinn haldið því fram að hér sé þá um eðlilegt framhald þjóðkirkjunnar að ræða? Ef ég man þessa sögu rétt þá voru haldnar bókabrennur og fleira í framhaldinu til að afmá öll merki hins kaþólska siðs. Hér er því kominn hinn rétti stofndagur hinnar íslensku Lútersku þjóðkirkju. Frumherjar Lútersku þjóðkirkjunnar eru af þessum sökum ábyrgir fyrir eyðileggingu menningarverðmæta bara af því að þau tilheyrðu öðrum kristnum sið en þeim sem náði völdum.

Þetta er eins og að byggja hús, rífa það síðan, fordæma, brenna, byggja nýtt og halda síðan afmælisdag gamla horfna hússins hátíðlegan. Hér hefur eitthvað skolast til í tengingunum. Hin ógeðfellda staðreynd er að upphaf hinnar Lútersku þjóðkirkju Íslands er morð á æðsta trúarleiðtoga landsins á þeim tíma sem vann sér það til óhelgis að verja hinn kaþólska sið að boði páfans í Róm. Það hefði því verið frekar við hæfi að halda upp á 450 ára afmæli morðsins á Jóni Arasyni árið 2000. Orðhengislháttur um að haldð hafi verið upp á "kristnitöku" er síðan notað þegar þessar staðreyndir eru gerðar opinberar. Saga kristinna kirkna er nefnilega ötuð alls kyns óþverra í gegnum tíðina, allt fram á þennan dag.

Til að fyrirbyggja allan misskilning þá tel ég biskup almennt hinn mætasta mann þrátt fyrir þennan skilning hans á sögunni og tregðu við að gera samkynhneigða að jafnréttháum meðlimum samfélagsins. Trúarsöfnuðir hafa veitt mörgum sálum hugarró og hjálp og það skal ekki forsmáð. En það breytir ekki þeirri skoðun minni að aðskilja beri ríki og trúarsöfnuði og þetta verði einkamál hvers einstaklings án opinbers stuðnings.

Texti og hljómar Eurovision lagsins á Söngtextasíðu Davíðs

Undanfarin ár hef ég sett inn talsvert af textum og hljómum (fyrir gítar) á söngtextasíðu Davíðs.

Þessi síða er  gullnáma fyrir þá sem hafa  gaman af því að  syngja og spila á gítar. Þarna eru nefnilega rjóminn af öllum íslenskum dægurlögum og  flest með hljómsetningum fyrir gítar. Einnig er hægt að "transponera" flestum lögum þannig að allir ættu að geta fundið tóntegund við hæfi.

"Ég les í lófa þínum" með Þróttaranum Eiríki Haukssyni setti ég þarna inn í dag og þið getið æft ykkur á því fyrir næsta partý. 

Söngtextasíða Davíðs.


Trúin á að vera einkamál

Ég er einn þeirra sem hef þróað með mér eigin trúarbrögð og iðka þau með sjálfum mér. Ég er ekki einu sinni viss um hvort ég eigi yfirhöfuð trúbræður eða systur sem hugsa svipað.

Eins og flestir aðrir íslendingar var ég alinn upp í þjóðkirkjunni og var t.d. skírður og fermdur af kirkjunnar mönnum og lét mér það vel líka. Tel mig raunar hafa bara siglt hugsunarlaust með straumnum, sem mér fannst álíka hugsunarlaus eftir á að hyggja.

Með aldrinum hefur maður farið að efast um að biblían sé helgirit, enda er búið að lauma því að manni að hún hafi verið samin að mestu um árið 300 e. kr. og því sé hún álíka áreiðanleg sem slík eins og það að ætla að skrifa eitthvað um atburði og fólk frá árinu 1706. Við sem fylgjumst með fréttum vitum ósköp vel að fréttir gærdagsins eru ekki einu sinni áreiðanlegar og þú getur fengið jafn mismunandi sjónarhorn á atburði eins og vitnin eru mörg. Hver sér hlutina með sínum augum.

Ég hef þó með einfaldri aðferð búið mér það til að trúa á afl hins góða og veðja á að það sé tilvera eftir dauðann. Ef það væri ekki tilvera eftir dauðann skiptir ekki máli hvernig þú hagar þínu lífi og þá getum við sagt að þú eigir bara að ota þínum tota eins lengi og þú kemst upp með það. Eitthvað segir mér þó mjög sterkt að alheimurinn, lífið og tilveran séu of merkileg fyrirbrigði til að geta verið heilber tilviljun. Ég trúi því sem sagt að eitthvað stjórni þessu sem er okkur æðra. Öll trúarbrögð ganga reyndar í þessa veru. Hins vegar er sammerkt öllu þessu að ekki virðast dauðlegir menn fá nokkra vitneskju um það sem er handan grafar og dauða. Manni er nær að halda að okkur sé bara ekki ætlað að fá meira að vita í þessu lífi.

Það virðist líka vera að flest okkar trúum á það að við eigum að lifa til að gera góða hluti frekar en slæma. Þegar við gerum eitthvað slæmt höfum við samviskubit sem virðist hafa verið gróðursett í okkur til að halda flestum okkar á mottunni. Til að taka saman þessa trúarumræðu í eitt þá má segja að ég trúi því að ég eigi að lifa til þess að gera góð verk. Þetta hefur maður reynt eftir megni og það fylgir því einhvern vegin betri líðan að gera helst ekkert sem maður þarf að sjá eftir, samviskunnar vegna.

Flest öll trúarbrögð sem ég hef kynnt mér virðast eiga það sammerkt að þú eigir bara að gera það sem þú vilt að aðrir geri þér. Þessi einfalda setning segir okkur nánast að öll lög og reglur ættu að vera óþörf í venjulegu samfélagi manna ef farið væri eftir þessu. Því miður er ekki hægt að einfalda hlutina með þessum hætti. Til þess erum við í heild okkar of gallaðar mannverur.

Samt vil ég árétta þá skoðun mína að aðskilja eigi ríki og kirkju og vinna í því að samfélagið sem slíkt skipti sér ekki af trúmálum fólks nema þegar þau kássast inn á aðra með ónotalegum hætti. Trúmál eigi þess vegna að vera einkamál hvort sem fólk vill iðka þau í hópum eða, eins og ég, bara með sjálfu sér. 


Hvaða flokksgæðing vantar nú vel launaða vinnu?

Alveg er það furðulegt að þegar einhvern flokksgæðinginn vantar vinnu þá er rokið til og eitthvað búið bara til að koma viðkomandi fyrir á góðum launum. Ég hélt að dæmið með Óskar Bergsson hefði verið alveg nóg í bili.

Verkefnisstjóri Skák-akademíu Reykjavíkur!!! Er ykkur alvara með þessu rugli. Við erum að tala um skák sem er afþreying og áhugamál venjulegs fólks og á ekkert erindi inn í opinbera stjórnsýslu. Það er nóg af fólki sem leggur fé og fyrirhöfn í skákina og ég held að flestir sjái að brýnni verkefni geti borgin fundið til að bæta hag íbúanna en þetta.

Fordæmisgildið er það að allir aðrir geti gert jafn réttmæta kröfu um að áhugamálin þeirra séu styrkt úr opinberum sjóðum. Ruglið stoppar greinilega ekkert hérna.


mbl.is Skákakademía Reykjavíkur stofnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögnin gerð að vopni í áróðursstríðinu

Það er athyglisvert hvernig stjórnmálamenn geta gert þögnina að vopni.

Nýleg dæmi eru t.d. þögn Björns Inga Hrafnssonar varðandi boðsferðir sínar og þögn Sivjar Friðleifsdóttur um misnotkun sína á framkvæmdasjóði aldraðra til útgáfu á sínum prívat áróðursbæklingi. Guðmundur Jónsson í Byrginu sést ekki lengur og Árni Johnsen hefur hægt um sig (trúlega að ráði ímyndarsmiða Sjálfstæðisflokksins).

Í seinni tíð er sífellt meira gripið til þessa vopns vegna þess að ef þau svara engu þá lítur út fyrir að þeir sem eru að krefjast svara séu haldnir ofsóknaræði á hendur þeim og líta bara illa út kvakandi eftir játningum á misgjörðunum.

Þögnin á eftir að verða mikið notuð sem vopn í áróðursstríðinu fyrir kosningar. Geir Haarde hefur t.a.m. verið tiltölulega þögull ef frá er tekið nauðungarbirtingarmynd hans vegna Byrgis og Breiðavíkurmálanna. Hann mun síðan fara aftur í sitt þagnarbindindi vegna þess að það heldur atkvæðum heima. Um leið og hann tjáir sig er nefnilega hætta á ferðum í þeim efnum.

Forysta Sjálfstæðisflokksins er nefnilega að vonast til að kjósendur þeirra kjósi eins og oftast áður þ.e. hugsunarlaust með miðtaugakerfinu. 


Hvernig dettur fólki spilling í hug?

Það kemur engum á Íslandi á óvart að dómar falli nú orðið eins og þeir gera.

Játningar sakborninga duga ekki einu sinni til þess að fá fram sakfellingar sbr. olíusamráðsmálið.

Í þessu tilviki þykir heldur ekki tiltökumál þó að einn aðili hafi verið allt í senn: Stjórnarformaður ríkisfyrirtækisins, formaður einkavæðingarnefndar og síðan orðið kaupandi að öllu trallinu. Hvernig dettur fólki spilling í hug?


mbl.is Máli vegna sölu Íslenskra aðalverktaka vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú átt núna að borga kosningaauglýsingarnar

Lögin um fjármál stjórnmálaflokkanna sem samþykkt voru í desember s.l. fá litla sem enga umfjöllun fjölmiðla þrátt fyrir að vera einhver mesta atlaga sem gerð hefur verið að lýðræðinu. Hvers vegna er það? Jú, ástæðan er sú að þingflokkarnir eru allir SAMSEKIR í siðblindri lagasetningu sinni varðandi ríkisstyrki til stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Þeir fengu allir hlutfallslega sinn skerf af þessum ránsfeng og þegja þunnu hljóði þess vegna.

Ríkisstyrkur þessi nemur hvorki meira né minna en a.m.k. 1200 milljónum á 4 árum eða nærri 20 milljónum á hvern einasta þingmann. Þeir eru því nánast að fá með sér styrk sem fer hátt í launin þeirra á hverju ári. Það hlýtur hver að sjá að þessi ógnarfjárhæð kæfir öll möguleg ný stjórnmálasamtök héðan í frá. Það er nánast útilokað að koma nokkrum málstað inn á þing þótt brýna nauðsyn beri til. Kjósendur eiga eftir að sjá stærsta og geggjaðasta kosningaauglýsingasukk allra tíma í næstu Alþingiskosningum. Og það í boði þeirra kjósenda sem styðja þá jafnvel ekki.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að almennu eftirliti með fjárveitingum sé ábótavant. Þingmönnum er orðið alveg sama hvert peningarnir fara svo lengi sem þeir fái líka sinn skerf.

Þær röksemdir sem heyrast fyrir því að stjórnmálaflokkarnir taki fé úr ríkissjóði eru þær helstar að þá sé hægt að opna bókhald flokkanna. Það var ekki hægt áður vegna þess að þá hefði komið í ljós öll sú spilling sem felst í greiðslum frá ríkum fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa fengið í staðinn fyrirgreiðslu á næstum öllum sviðum þjóðlífsins. Það fæst ekkert ókeypis frá stuðningsaðilum stjórnmálaflokka, alla styrki þarf að gera upp fyrr eða síðar með spillingargreiðum. Það er líka ljóst að þó að bókhald flokkanna verði opnað nú þegar eina greiðslan kemur nánast frá ríkinu að ekki verði kíkt neitt á eldri árin með spilltu greiðslunum. Svo virðist sem þingheimur hafi fest sig í þeirri dæmalausu rökhugsun að betra væri að mútugreiðslur til stjórnmálaflokkanna kæmu bara beint úr ríkissjóði!

Mig langar að spyrja þingmenn: Hvar var lýðræðishugsjón ykkar á þeirri stundu þegar atkvæði voru greidd um þetta siðlausa frumvarp? Hvernig datt ykkur í hug að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins rúmaði þennan verknað? Hvers vegna er úthlutunin byggð á 4 ára gömlum kosningum þegar sömu 4 árin eru næstum fyrningartími á flestar aðrar fjárkröfur? Hvernig datt stjórnarandstöðuflokkunum í hug að samþykkja þetta? Er hægt að fá þessa lagasetningu ógildaða með dómi vegna brots á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar?

Kjósendur eiga ekki að þurfa að borga auglýsingakostnað stjórnmálaflokka, slík sjálftaka úr ríkissjóði hlýtur að enda með skelfingu.

Ætla stjórnarflokkarnir að tæma ríkissjóð næstu tvö til þrjú kjörtímabil?

Núna á síðasta korterinu fyrir kosningar eru stjórnarflokkarnir enn að gefa út innistæðulausu kosningavíxlana og nú hafa þeir heldur betur aukið við við loforðalistann. Átta ný jarðgöng eru komin á listann. Nú virkilega að ná til kjósenda, það fá ALLIR jarðgöng núna.

Þar með lítur út fyrir að núverandi stjórn sé að koma í veg fyrir að það verði yfirhöfuð ekki neitt fjármagn fyrir næstu stjórn úr að moða ef standa á við alllt sem þeir lofa í fullkomnu umboðsleysi.

Það er orðið tímabært að fólk geri sér grein fyrir að þessi loforðasúpa á sér engan lagalegan grunn, þetta fólk ræður ekki ókomnum fjárlögum og því eru þetta marklaust með öllu. Hér er bara enn ein tilraunin til að toppa allt í kosningaloforðunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 264821

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband