Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Er fyllerísþvaður Sverris Stormskers boðlegt útvarpsefni?

Ég hef heyrt nokkra þætti Sverris og skil satt að segja ekki hvernig nokkur heilvita maður lætur sér detta það í hug að fara í viðtal til hans. Það er nokkuð skotklár ávísun á niðurlægingu fremur en einhverja upphafningu hafi viðmælendurnir búist við því. Hversu lengi þykir það sniðugt að plata fólk í útvarpsviðtöl til að niðurlægja það?

Sverri er margt til lista lagt en á meðan bjórinn talar í heila stað er hann bara fær um að framkalla bjánahroll þegar hann spyr spurninga sem skiptast bara á milli þess að vera fíflalegar, dónalegar eða barnalega vitlausar. Ekkert af viti. Fyrir mína parta er Sverrir ekki skemmtilegur lengur heldur brjóstumkennanlegur trúður. Hann hagar sér eins og sífullur róni sem er alveg skeytingarlaus um tilfinningar þeirra sem í kringum hann eru. Mig undrar hreint ekki að hann tapi vinskap og vinsældum með þessu háttalagi.

Hvað er Arnþrúður að hugsa? Vantar hana svona sárlega peninga að hún svífst einskis til stunda svona útvarpsvændi?

Á næstum öllum öðrum vinnustöðum væri svona maður rekinn umsvifalaust fyrir dónaskap og fyllerí. Ég vorkenni þeim starfsmönnum stöðvarinnar að þurfa að deila vinnustað með svona manni, margt af því er fólk sem vill láta taka sig alvarlega a.m.k. stundum.


mbl.is Guðni gekk út í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vesturlönd ætla að halda þriðja heiminum áfram í fátækt

Það eina sem jafnar í alvöru lífskjör í heiminum eru fullkomlega frjáls viðskipti án nokkurra tollmúra og auk þess að niðurgreiðslum verði alls staðar hætt samhliða.

Þetta er eina vitlega lausnin og yrði örugglega mjög erfið en það að draga hið óumflýjanlega á langinn er ekki betra.

Þetta er ein af ástæðum þess að ég vil ekki aðild að ESB. ESB aðild er bara til þess fallinn að stuðla áfram að fátækt í fjölmennustu löndunum sem elur svo aftur á óvild og andúð þessara þjóða vegna bolabragða í viðskiptum þegar þau þurfa nauðsynlega á viðskiptafrelsi að halda.

Ekki má gleyma því að sumum vesturlanda þótti lengi vel ekkert athugavert við að arðræna nýlendur í Afríku og Asíu í tugi og hundruð ára fyrr á tímum. Vesturlönd skulda þessum þjóðum að koma betur fram en þetta. 


mbl.is Slitnaði upp úr tollaviðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabært að leggja Sjálfstæðisflokkinn niður vegna spillingarmála

Ég kaus þennan flokk allt þar til í síðustu kosningum, eða í rúm 30 ár. Ég vann fyrir flokkinn af því að ég trúði því að unnið væri heiðarlega í málunum. Undir niðri vissi maður alltaf að það var ekki allt hvítþvegið hjá forystunni en svo kom staðfesting spillingarinnar svo hastarlega upp á yfirborðið að maður hrökklaðist burt. Ég er nefnilega einn af þeim sem hef orðið fyrir barðinu á siðblindum þjófum. Þeir iðrast ekki, betrast ekki og verða ekki heiðarlegri menn eftir refsivist.

Geir H. Haarde, Björn Bjarnason og Gunnlaugur Claessen misnotuðu stöðu sína sem handhafar forsetavalds til að náða Árna Johnsen og veita honum uppreista æru svo hann gæti boðið sig fram til Alþingis. Þeir lugu því blákalt í þjóðina að þeir væru að framkvæma einhverja alvanalega "rútínuafgreiðslu". Árni Johnsen dæmdur fyrir þjófnað, skjalafals, yfirhylmingu og brot í opinberu starfi var gerður að þingmannsefni. Ég tel hann að auki siðblindan mann og það verður ekki læknað með fangavist á fimm stjörnu fangelsishóteli á Snæfellsnesi þar sem menn lifa sælulífi.

Sjálfstæðisflokkurinn vissi betur en svo að hægt væri að bjóða upp á dæmda þjófa til að vera okkur hinum fyrirmynd inn á hinu háa Alþingi þar sem rjómi ráðvandra íslenskra manna og kvenna eiga að vera ef allt er eðlilegt.

Það skýrir ekkert þjónkun flokksins við Árna Johnsen nema það að líklega veit Árni Johnsen það mikið um fjöldamörg önnur spillingarmál í flokknum og fyrirtækjum tengdum honum að þeir gátu ekki haldið honum úti. Árni hefði þá sungið bara eitthvað annað en brekkusöngva.

Ég skil ekki með hvaða samvisku samþingmenn hans þola félagsskapinn hans. Það er flestum ljóst sem eitthvað þekkja til siðblindu að þó að Árni hafi tekið út "refsingu" í formi sæluvistar við höggymyndagerð  á fangelsihótelinu, þá kom hann út hvorki hótinu heiðarlegri né fullur iðrunar.

Agnes vinnur sér það eitt til sakar að segja satt á sinn pena hátt!

Stjórnmálaflokkur sem er orðinn jafn skemmdur og Sjálfstæðisflokkurinn á bara að leggja niður. Hjá alltof mörgu fólki eru stjórnmálaflokkar eins og heilög trúarbrögð. Það má fara að vakna út úr þessari vitleysu! 


mbl.is Árni stefnir Agnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Láta lífið til að verja eiturlyfjaframleiðslu fyrir vesturlönd - geðslegt djobb!

Sumar heimildir telja að nálega 10% afgönsku þjóðarinnar vinni á einn eða annan hátt við framleiðslu eiturlyfja, allt frá valmúarækt til efnavinnslu ópíums, hass og fleira góðgætis. Sömu heimildir telja að þetta sé allt að þriðjungur af þjóðarframleiðslunni þeirra.

Skyldi þetta vera aðalástæðan fyrir áhuga vesturlanda og NATO til að halda úti hernaði þarna? Annars staðar í þessum fjölmiðli var því haldið fram að Karzai forseti landsins hefði gefið út tilskipun um það að ekki mætti ákæra 20 stjórnendur eiturlyfjaframleiðslu í landinu. Það eru einfaldlega of mörg þjóðarbrot í Afganistan til að búast við því að þarna verði fljótlega friður, það þarf að stjórna því hins vegar hvert dópgróðinn fer.

Bandaríkjamenn eru í Írak til að stjórna olíuframleiðslu og stela henni undan. Hvenær hætta aðrar þjóðir, þar á meðal íslendingar, að styðja þennan ósóma? Hverjir græða á ástæðulausu eldsneytisokri í heiminum? Hvar lendir ólíugróðinn? Á sama stað og dópgróðinn?

Það þætti líklega skrýtið ef 32000 manns myndi á Íslandi hafa atvinnu við ólöglega eiturlyfjaframleiðslu. Til hvers er verið að senda íslendinga til þessa lands í "friðargæslu" þar sem 3.2 milljónir manna hafa atvinnu af því að eitra fyrir æsku vesturlanda?  


mbl.is Danskur hermaður féll í Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki trúverðugar skýringar

Mér finnast einhvern að svona tilkynningar séu út úr korti. Ef ólétta er ástæða fyrir því að hætta samstarfi við Garðar Thor Cortes af hverju lætur hann þá ekki Kiri Te Kanawa róa líka?

Það er heldur ekki haldbær skýring að einhverjum áfanga hafi verið náð með plötu númer tvö (sem er reyndar misheppnuð og flausturslega unnin).

Hafi menn ekki átt skap saman í samstarfinu er líklega best að segja það hreint út frekar en að reyna telja okkur trú um að hinar ástæðurnar séu eitthvað í námunda við sannleikann.

Einar ætti að vera vanari því að setja fram fréttatilkynningar í sambandi við umboðsmennsku sína en svo að hann telji þetta með sínum betri verkum í þeirri deild. 


mbl.is Einar Bárðarson dregur sig í hlé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru myndir af fórnarlömbum Ísraelsmanna?

Myndir finnst þessi fréttaflutningur dæmigerður fyrir þá hlutdrægni sem ríkir í fréttum af þessu endalausa ógeðslega stríði fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Vestrænir miðlar eru svo hallir undir gyðinga að þeir einir virðast hafa persónur og andlit. Hér er meira að segja gengið svo langt að vopnaðir hermenn Ísraels eru persónugerðir sem sérstök og saklaus fórnarlömb. Ef ég man þetta rétt þá drápu Ísraelsmenn hátt í þúsund saklausa óbreytta líbana í hefndarskyni fyrir þessa tvo.

Með þessu segi ég ekki að arabar séu neitt hótinu betri, það er ekki sérstakur munur á kúk og skít í þessu viðbjóðslega stríði. Það eru samt óbreyttir borgarar sem eru fórnarlömb stríða, ekki hermennirnir.


mbl.is Ísraelsku hermennirnir látnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er vonlausasti stjórnmálamaður landsins og þetta eru ástæðurnar:

Í desember 2006 stofnaði ég með nokkrum félögum mínum stjórnmálaflokk og var að vonast til að búa til nýjan alvöru jafnaðarmannaflokk og ræddi við mér merkilegri menn um aðkomu að honum sem leiðtogaefni í einu eða öðru formi. Reynslan sem ég fékk af þessu brölti var ótrúlega skemmtileg að mörgu leyti.

Ég kynntist pólitískt sinnuðu fólki sem var ótrúlega fjölbreytt. Allt frá snillingum niður í algjöra hálfvita svo vægt sé til orða tekið. Eins og svo margir byrjendur varð mér eiginlega ekkert ágengt nema að fá reynslu af ákveðnum málum, sérstaklega mannlega þættinum í sambandi við væntingar þessa ólíka fólks sem ég átti samskipti við. Þegar á reyndi hlupu flestir í sína hverja áttina vegna persónulegra væntinga um frama. Þessi reynsla sagði mér eiginlega að sumt "merkilega" fólkið hagaði sér furðu oft "ómerkilega" þegar á reyndi. 

Nú færist ég nær þeirri hugsun að dagar núverandi ríkisstjórnar séu taldir og kosningar hljóti að vera í nánd. Ég hef satt að segja enga trú á að Geir og Solla ætli að sitja út kjörtímabilið bara til að verða niðurlægð og ásökuð um efnahagslega vandræðaganginn sem verður þó varla nema hálfnaður eftir tvö ár ef að líkum lætur.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að pólitísk sýn mín sé með þeim hætti að sjálfsögðustu hugðarefni mín nái ekki í bráð þeim hljómgrunni sem ég tel þau sannarlega verðskulda og eru löngu tímabær vegna breyttra tíma og hátta.

Nefnum nokkur dæmi:

  • Ég vil standa vörð um sjálfstæði Íslands og er æfur vegna þeirrar landráðaumræðu sem aðild að ESB er í mínum huga. Líklega eru samt a.m.k. 50% þjóðarinnar ósammála mér í þessu.
  • Ég vil að ríkið hætti öllum afskiptum og útgjöldum til trúmála. Trúmál verði einkamál en en ekki á ábyrgð eða kostnað samfélagsins. Þjóðkirkjan trúir því að 80% þjóðarinnar standi á bak við hana og því er ég að skúra meirihluta þjóðarinnar af mér sem væntanlega kjósendur.
  • Ég vil leggja niður niðurgreiðslur og styrki til bænda og koma þeim út úr sárri fátækt og niðurlægingu. Þarna skúra ég 10% kjósenda burtu til viðbótar.
  • Ég vil leggja niður styrki til íþrótta, menningar og lista. Þessir liðir eiga að vera bornir af þeim sem vilja njóta. (Menntakerfið á að sjá um grunnþætti þessara mála). Þarna hlýt ég að skúra af mér minnst 30% kjósenda. Inni í þessu felst að fella niður styrki á RÚV og Þjóðleikhús og selja þessi batterí hæstbjóðanda (ef hann finnst þá!).
  • Ég vil afnema kvótakerfið í núverandi mynd og bjóða allan kvóta á markaði til hæstbjóðenda. Þarna fara a.m.k. 10% kjósenda.
  • Ég vil að mestu hætta útgjöldum til utanríkismála og tel að þau séu best verkuð með samvinnu við hin Norðurlöndin (sameiginleg sendiráð) sem og því að fleygja út varnarmálaþættinum sem í dag er bara hlægilegt ofsóknaræði sem síðast hefur verið ræktað upp í Sollu með innrætingu í höfuðstöðvum NATO (líklega í sömu ferðum og ESB bullið). A.m.k. 10% þjóðarinnar er nægilega ofsóknaróð til að vera mér ósammála hér.
  • Ég vil breyta kosningakerfinu þannig að landið verði eitt kjördæmi og hægt verði að kjósa bæði einstaklinga og flokka í sömu kosningum. Með þessu geturðu kosið besta fólkið þvert á flokkspólitík ef þú kærir þig um. Með þessu er líka hent út þjóðhagslega skaðlegu kjördæmapoti og prófkjörsvitleysu.
  • Sjálfsögð og þjóðhagsleg hagkvæmni flutnings flugvallarins er mér að skapi og þá er ég líka í andstöðu við 50% þjóðarinnar.
  • Þar sem ég er búinn að leggja til sparnað upp í tuga milljarða vís er hægt að hagræða þó svolítið til að bæta þjóðfélagið: Bæta grunnmenntun (með meiri áherslum á íþróttir og listir í æsku), bæta heilbrigðis, trygginga- og félagskerfi þjóðarinnar.
  • Lækkun skatta þýðir að almenningur fær meira ráðið um það með meira sjálfsaflafé hvers konar íþrótta-, menningu- og listamál hann vill styðja eða kaupa.
  • Ísland á að vera tollfríríki með opinn viðskipti við öll lönd í heiminum. Það betra að vera opið fyrir öllum viðskiptum í heiminum en að vera múrað inni í ESB með enga sjálfstæða getu til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki.
  • Mér þykir eiginlega grátlegt hvað íslendingar eru lítið opnir fyrir því að bæta samfélagið og leggja af ótrúlega heimskulegar tímaskekkjur og bull úr opinberum rekstri.
  • Ég hef á þessari bloggsíðu skrifað rúmlega 700 pistla, flesta um stjórnmál og samfélag og þeir þykja þó ekki nægilega merkilegir til að mbl. hafi þá í umræðunni (Ég mátti ekki gagnrýna Sjálfstæðsflokkinn og Moggan of mikið!). Löngu eftir að pólitíski áhugi annarra dó hef ég haldið áfram að viðra umbótamál án nokkurs sýnilegs árangurs.

Ég er ekki einn þeirra sem hefur valið að þegja um umdeild mál vegna ótta við að tapa stuðningi eins og flestir stjórnmálamenn á Íslandi gera. Í umdeildum málum þora fæstir að gefa upp skoðanir sínar af ótta við að tapa þeim atkvæðum sem þeir þurfa til að komast á þing. Þetta þýðir einfaldlega að á þingið veljast skaplausir, skoðanalausir og tækifærissinnaðir eiginhagsmunapotarar upp til hópa. Flestir að sækjast eftir persónulegum efnahagslegum ávinningi. Á þessu eru þó örfáar undantekningar.

Með þeirri hugmyndafræði sem ég hef sett fram á síðastu tæpum tveimur árum án þess að fá eiginlega nokkurn hljómgrunn hlýt ég að vera nokkurn veginn vonlausasti "wannabe" pólitíkus á Íslandi.

Hvernig skyldi þá standa á þeirri ótrúlegu þversagnartilfinningu að mér finnst sem ég hafi bara staðið mig mjög vel?


Íslenska krónan er ekki eini litli gjaldmiðillinn í heiminum

Ég hefði gaman af því að fá upplýsingar hvort Seðlabankinn hefði gert einhverja vitræna könnun á því hvort önnur lönd með smámynt eins og íslenska krónar er, séu í einhverjum sérstökum vandræðum með sýna gjaldmiðla.

Hér er listi yfir nokkur sjálfstæð ríki sem standa næst Íslandi í íbúafjölda og ensk heiti gjaldmiðla þeirra (heimild: www.wikipedia.com). Ég felldi niður þau lönd sem eru hluti af ESB eða ekki með fullt sjálfstæði.

Land                Íbúafjöldi        Gjaldmiðill

Macao               538.000      Macanese Patac

Cape Verde       530.000      Cape Verde Escudo

Solomon Isl.      507.000      Solomon Islands dollar

Suriname          507.000       Suriname dollar

Brunei              390.000        Brunei dollar

Bahamas          331.000        Bahamaian dollar

Ísland                   316.000           Ísl. króna

Maldive Isl.       306.000         Maldivian dollar

Barbados           294.000        Barbadian dollar

Belize                288.000        Belize dollar

 Hvernig standa þessir gjaldmiðlar í samanburði við íslensku krónuna?


mbl.is Evruhugmynd ekki ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Binda krónuna við Evru eða Dollar og afnema verðtryggingu

Ég hætti ekki að undrast hversu margir vilja afnema sjálfstæði íslendinga með ESB aðild.

Öll umræðan er í ætt við litla hóru að reyna að selja sig í fyrsta skipti og þar krefjast margir að hafnar verði aðildarviðræður strax við ESB til að láta reyna á það hvað býðst. Ég efast ekki um að það bjóðist ýmislegt til að byrja með á meðan ESB er að lokka þessa fámennu þjóð með mikið landrými og hafsvæði inn í bandalagið. Ef ég væri ESB sjálfur myndi ég kosta talsverðu til, þeir tapa engu nánast sama hverju þeir lofa. Loforðin má síðan taka til baka með lagasetningum seinna meir.

ESB aðild verður ekki framkvæmd öðruvísi en með sjálfstæðisafsali og það er í minni bók landráð og svik við íslenska þjóð. Einmitt nú virðist íslensk þjóð að meðaltali komin með svo mikla vanmáttarkennd að hún sér enga aðra leið út úr vandanum en að selja sig væntanlegum yfirforseta í Brussel. Er ekki allt í lagi með ykkur? Til hvers var eiginlega sjálfstæðisbaráttan? Til hvers var haft fyrir því öldum saman að losna við erlenda kúgun?

Ísland þarf að vinna sig út úr óhófi síðustu ára. Þjóðin á öll í vandræðum vega lánsfjársukks,  offjárfestinga og eyðslu og það þarf að vinna saman í því að komast út úr þessu sem ég er hræddur um að taki allavega nokkur ár, þvílík var eyðslan. Til að vandinn leysist þarf veruleg hófsemi að komast í tísku.

Sjálfstæðisafsal með aðild að ESB er eitthvað sem taka á útaf borðinu. Landráð vegna blankheita er ekki option. 


mbl.is Evruleið fremur en aðildarleið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Debakey lést sökum aldurs!

"Debakey lést sökum aldurs í gærkvöldi á sjúkrahúsi í Houston."

Come on guys, þetta er ekki hvorki boðleg þýðing né framsetning. Lesið þetta aftur!


mbl.is Frumkvöðull fellur frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 264892

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband