Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

New York Times veit allt um íslenskt efnahagslíf - Yeah right!

Þetta er nú meiri þvættingurinn. Ég veit satt að segja ekki hvort maður á að hafa fleiri orð um það af hverju Mogginn lepji þessa vitleysu upp úr útlendum blaðamanni.

Helst dettur manni í hug að blaðamaður Moggans sé "starstruck" af því að þetta er New York Times þ.e. aðalblaðið í henni Ameríku!


mbl.is Ættu að líta til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki fallegt að ljúga úr ræðustól Alþingis

Svona fullyrðingar eru lygi. Hann hefur ekki nokkra hugmynd um það hvort hægt verði að standa við þessar skuldbindingar en verður í ljósi stöðu sinnar að halda því fram.

Hann veit líka sem er að það verður eiginlega ekkert hægt að sannreyna hann næstu sjö árin vegna þess að það er verið að rúlla þessum vanda yfir á börnin okkar. - SVEI!

Það veit enginn hvort eignir Landsbankans duga eitthvað eða hrynji enn frekar í verði.

Það veit enginn hvort neyðarlögin standist málaferli og áhlaup kröfuhafa. Ég efast um það stórlega.

Það veit enginn hvernig og hvenær islendingar ná sér á strik efnahagslega.

Það veit enginn hvort hér verður nægur fjöldi fólks sem VILL standa undir IceSave reikningnum.

Vegna allra þessara ósvöruðu spurninga er hægt að fullyrða að Gylfi ljúgi úr ræðustól Alþingis.


mbl.is Getum staðið við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í stríð á milli sparifjáreigenda og skuldara?

Neyðarlögin eru mér ofarlega í huga síðustu mánuði vegna þess hversu flausturslegur og vanhugsaður gjörningur þau voru.

Það virðast fæstir gera sér grein fyrir því að með neyðarlögunum var allt sparifé tryggt að fullu. Skipti þá engu máli hvort um væri að ræða 20.000 evrur eða 2.000.000 evra. Skv. fyrri löggjöf voru aðeins tryggðar 20.000 evrur skv. EES samningi og reglum um innistæðutryggingar. Með því að stela bankakerfinu í heilu lagi með neyðarlögunum er ríkið búið að rugla allri samningsstöðu og klúðrið er sífellt að vinda upp á sig. Núverandi valdhafar, þ.e. Jógrímur, eru samábyrgir vegna þess að þau samþykktu neyðarlögin og leyfa sér þess vegna ekkert að gagnrýna þau. Til að borga sparifjáreigendum innistæður langt umfram fyrri reglur verður tryggt að ríkið mun ekkert gera til að taka skuldir almennings og lækka þær til samræmis við forsendubrest undanfarinna ára. Þessi sami forsendubrestur er nefnilega líka hluti af rétthærra sparifé þeirra sem nutu upplogins gengis gróðæristímans og falsaðrar verðbólgumælingu.

Þegar fólki verður þetta samhengi skulda og sparifjár betur ljóst mun enn magnast reiðin og óánægjan með skilningsleysi á samhengi hlutanna og því sem er réttlæti í meðferð fjármuna af hendi stjórnvalda.

Fólk má gefa sér þá einföldu staðreynd að þegar stjórnvöld setja lög og reglur um fjármálagerninga er alltaf verið að færa fjármuni frá einum aðila til annars - og fjarri því að vera réttlátt eins og nú sýnir sig!


mbl.is Strandi Icesave, strandar allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsluáróðurinn á fullu núna!

Ég óttast að IceSave ríkisábyrgðin verði samþykkt í þinginu með hótunum.

Ég er líka að spá því að þeir þingmenn VG sem ekki geta samþykkt málið verði af formanni sínum sendir í "frí" á meðan þénugri varamenn greiði atkvæði með þessu. Slíkt hefur svo sem áður verið gert. Allt til að allir haldi andlitinu.

Ég skora á þingmenn að fella frumvarpið. Ef þið samþykkið þessi ósköp eru margir sem hafa svarið að yfirgefa skerið. Það verða þá enn þyngri byrðar á þá sem eftir sitja.

Það er ekkert réttlæti fólgið í því að fólk borgi lán sem það tók ekki og það á við um meirihluta þessarar þjóðar sem sættir sig ekki við þennan skuldaklafa sem getur hæglega orðið 1200 milljarðar ef neyðarlögin verða ógilt með málaferlum.

Það hlýtur að vera flestum skuldugum íslendingum nægileg refsing að borga lán sem hafa hækkað með svindli í falsaðri verðbólgumælingu og upplognu gengi.


mbl.is Umsátur um Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er heitið ,,Stöðugleikasáttmáli" auglýsingabrella?

Ég hélt að það ætti að vera komið nýtt veruleikaskyn í íslenskt samfélag í kjölfar þess raunveruleika sem blasir við okkur öllum.

Stöðugleikasáttmáli hljómar eins og argasti brandari eða í versta falli auglýsingaskrum og þá hverra?

Það eina sem er stöðugt er hrunið.


mbl.is Undirritað í Þjóðmenningarhúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirlýsing um þjóðargjaldþrot gæti verið rétta leiðin upp úr skítnum

Það er ekki séð fyrir endann á þeim erfiðleikum sem nú blasa við hinni íslensku þjóð í efnahagsmálum. Í kvöld var viðskiptaráðherra neyddur til að samþykkja þann möguleika við Sigmar í Kastljósinu að við gætum verið í allt að 1200 milljarða mínus eftir 7 ár ef neyðarlögin standast ekki áhlaup málaferla.

Ég hef löngum haldið því fram að setning neyðarlaganna var vanhugsaður verknaður unninn í taugaveiklun og meira að segja núverandi valdhafar voru plataðir til að samþykkja. Svo brátt bar þá lagasetningu að að fjöldi þingmanna viðurkenndi að hafa ekki lesið lögin áður en þeir samþykktu þau.

Nú stöndum við frammi fyrir því að setja okkur á hausinn með 650-1200 milljarða klafa sem við losnum aldrei við eða lýsa yfir þjóðargjaldþroti (sovereign default) og þurfa að búa við nokkurra ára vanþóknun sem ég tel að verði skammvinn vegna almennrar kreppu í heiminum. Flestir eru svo uppteknir af eigin vandamálum að Ísland verður ekki ofarlega í hugum manna jafnvel bara að ári liðnu. Lesið hér hvernig málum háttaði hjá Argentínumönnum árin 1999-2002.

Kosturinn við þjóðargjaldrot er að þá erum við á núlli núna og vitum þá hver botninn er: Hann er hér og nú.

Vandræðin við að koma þessu í kring er þjóðarstolt sem er að þvælast fyrir okkur. Þessu þjóðarstolti má líkja við krabbameinssjúkling sem vill ekki viðeigandi meðferð vegna lyfjaskalla!

Með þjóðargjaldþroti getum við líka ótrufluð hafið leiðréttingu á efnahagskerfi þjóðarinnar, notað útflutningsgreinar til að kaupa helstu nauðþurftir erlendis á meðan við erum að byggja okkur upp. Leiðrétting skulda heimila og fyrirtækja verður þá óumdeilanlega fær leið.

Hvernig réttlæti ég þessa subbulegu leið: Hamfarir kalla á aðgerðir til sjálfsbjargar. Það er hægt að sjá það fyrir sér að taka þátt í uppbyggingu sem byrjar á botninum en ekki allt að 1200 miljarða í mínus sem við eigum flest enga sök á!


mbl.is Eva Joly: Botninum ekki náð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú átt að borga ALLAR skuldir - Hvort sem þú fékkst lán eða ekki!

Ég held stundum að fólk sé ekki alveg að gera sér grein fyrir þeir köldu en einföldu staðreynd að hver einasti borgari þessa lands er að fá 6 milljóna króna skuld vegna IceSave í hausinn.

Það skiptir engu máli hvort þú tókst lán eða ekki. Sex milljónirnar eru bara þinn bónus frá bankahruninu. Þeir sem eru ábyrgir fyrir því eru ekki á landinu og hafa fæstir verið yfirheyrðir. Þeirra bónus var öðruvísi en þinn... jákvæður!

Miðað við að 400 manns mættu á Austurvöll á laugardaginn mætti ætla að þorri þjóðarinnar teldi sig bara sleppa vel frá mesta "gróðæristímanum" í sögu þessarar þjóðar.


mbl.is Ísland fær helming eigna Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það stefnir í stjórnarkreppu

Ráðaleysi bæði fyrri stjórnar og núverandi er grátleg staðreynd. Hvorug stjórnanna hefur sýnt sig færa  um að taka á málum með jafn stórtækum hætti og þörf er á í jafn stórtæku hruni og raun ber vitni.

Eins og maður hefur tuðað hér margoft þá er minnsti samnefnari það eina sem hægt er að koma sér saman um og það er bara allt of lítið. Það vantar allt þor til alvöru verka.

Leiðrétting skulda heimila og fyrirtækja er enn sem fyrr brýnast en það mega þau Jógrímur ekki til hugsa vegna þess að eitthvað af útrásarvíkingunum gætu hugsanlega notið góðs af því, auk þess sem sumir  eru ennþá færir um að borga!

Með svona röksemdum gegn einu nothæfu tillögunum er ekki annað en hægt að vorkenna núverandi stjórn og það stefnir því í að það komi stjórnarkreppa ofan í efnahagskreppuna og ég sé þá ekki hver á eiginlega að vinna með öðrum að stjórn þessa blessaða lands. Að minnsta kosti er orðið ljóst núna að það verður fljótlega kosið aftur.


mbl.is Icesave gæti fellt stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upptaka frá 1959 - Jólasveinar einn og átta

Pabbi keypti flottan Telefunken radíófón líkast til 1958 eða 1959 hjá Georg Ámundasyni. Í þessu tæki var útvarp, segulband, plötuspilari og margir góðir hátalarar. Ég átti margar góðar stundir fyrir framan þessa stórkostlegu græju.

Eins og önnur börn lærði ég eitthvað af lögum og þá gjarnan af vinylplötum. Ein þeirra var skemmd og ég lærði lagið á henni með skemmdinni. Hún fór að spila sama hringinn í sífellu...

Samkvæmt þessu á ég núna 50 ára hljóðupptökuafmæli sem "tónlistarmaður".

Upptakan er efst í spilaranum hér til vinstri.

 

Telefunken radíófónn árgerð 1958

 


Bankasýsla ríkisins er mark um vanhæfi ríkisstjórnarinnar

Þetta er hrein og klár örvænting. Steingrímur og Jóhanna eru búin að sjá að þau ráða ekkert við að koma upp bankakerfinu aftur. Þá þarf að fá hjálp til að fela vanhæfið.

Bankarnir eru ekkert að gera fyrir fólk eða atvinnulíf. Þeir draga lappirnar í öllum málum þar sem ég þekki til. Í verstu tilvikum eru þeir að setja þá verst settu á hausinn og hirða eignirnar.

Í öðrum málum eins og t.d. með Moggann eru milljarðarnir afskrifaðir til að halda þessu batteríi úti. Ef bankarnir eru nú ríkisbankar eiga þeir að gæta jafnræðis. Mogginn fékk 3 milljarða af þeim 4 sem þeir voru sagðir skulda afskrifaða. Það þýðir að öll önnur fyrirtæki og almenningur eiga heimtingu á að njóta hlutfallslega sömu kjara ef aðstæður eru svipaðar. - Haldið þið að það geti gerst? - Hvar er jafnaðarmaðurinn þinn núna, Jóhanna Sigurðardóttir?

Ríkisstjórnin veit að það er verið að handvelja skuldara, þá sem á að bjarga og þá sem á að fella. Ef eitthvað er þá er spillingin í fjármálakerfinu verri núna en nokkru sinni fyrr. Það sem er líka morgunljóst er að það eru ennþá sama fólkið í bönkunum sem sér um þetta á lítið lægri launum en fyrrum.

Bankakerfið, sem fór á hausinn með þjóðina, er núna að láta viðskiptavinina bera allt uppi þó það sé til blóðs tekið. Allt með velþóknun og/eða skilningsleysi núverandi valdhafa.


mbl.is Stofna Bankasýslu ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband