Þegar starfið verður miklu stærra en sú sem sinnir því

Valgerður Sverrisdóttir er því miður ekki í miklu áliti hjá mér. Ég tel hana raunar einn ofmetnasta stjórnmálamann samtímans og með öllu óhæfa til að gegna ráðherradómi. Hún er í starfi sem krefst miklu meiri hæfileika en hún býr yfir.

Henni hefur verið hlíft þrátt fyrir að hafa opinberað veikleika sína með ótrúlegum hætti. Tökum dæmi:

Sem ráðherra hefur hún ekki axlað ábyrgð á hundruða milljóna króna tjóni á pípulögnum í íbúðarhúsunum á varnarsvæðinu. Hún fékk eignirnar til umsjónar, fékk aðvaranir um að það þyrfti að halda hita á húsunum yfir vetrartímann og hundsaði það með öllu. Niðurstaðan er áðurnefnt tjón. Það er greinilega alger sátt meðal ríkisstjórnarinnar að þegja um þetta mál fram yfir kosningar. Hvers konar ráðherraábyrgð er hér til staðar? Hvaða ríkisstofnun á að sjá um að þetta mál fari í opinbera rannsókn?

Hún stendur fyrir því rugli að skipa Sigríði Dúnu sem sendiherra Íslands í Suður-Afríku. Þetta er starf sem sinna má með síma, interneti og fjarfundarbúnaði frá Rauðarárstíg í Reykjavík! Hér er bara verið að hygla einkavinum samstarfsflokksins. Hvaða hagsmuni hefur almenningur af þessu sendiherraprjáli? Hvað er ráðherrann eiginlega að hugsa?

Þegar hún tók við utanríkisráðuneytinu var hún ófær um að taka við frágangi varnarsamningsins og það mál var áfram í höndum Geirs H. Haarde, sem klúðraði því hvort eð er. Til hvers er verið að skipa ráðherra sem fyrirfram er ófær um að vinna að málum sem eru í gangi? Þetta var meira að segja eina stóra málið sem þurfti að vinna að einhverju viti.

Hvernig er hægt að skipa utanríkisráðherra sem er nánast ómálga á erlendri grund? Ræðan hennar hjá Sameinuðu þjóðunum er mörgum sérlega eftirminnileg. Hún bögglaðist á enskum texta með orðum sem hún gat varla lesið eða borið fram og skildi greinilega ekki hvað hún var að segja. Bjánahrollurinn og skömmin yfir þessari frammistöðu hennar fyrir hönd þjóðarinnar gleymist seint.

Síðasta afrekið hennar er þessa daga að kvitta upp á hundruða milljóna króna útgjöld til að niðurgreiða yfirflugþjónustu og skipaheimsóknir frá Noregi. Þó hún færi í gegnum pyntingarbekk gæti hún ekki bent okkur á óvininn! 

Ég mæli með því að kjósendur í Norðausturkjördæmi leyfi þessari konu að njóta afraksturs spillta eftirlaunafrumvarpsins hið fyrsta, það er þó mun minna tjón en að láta hana starfa áfram.

Einhverjum kann að finnast þetta harkalega að Valgerði vegið. Þegar það liggur fyrir að kjörnir þingmenn og ráðherrar sæti næstum aldrei neinni ábyrgð er þetta eina tækifærið til að meta störf þeirra. Svona met ég starf hennar og get því ekki mælt með henni áfram. Þetta er réttur kjósenda. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Athyglisverð samantekt.  Má búast við sambærilegri úttekt á öðrum ráðherrum?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 25.4.2007 kl. 11:07

2 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Það liggur í hlutarins eðli að ef hún sætti pyntingum gæti hún bent á óvin... væntanlega ÞANN SEM VÆRI AÐ PYNTA HANA!

Annars er óþarfi að telja þetta allt upp - tungumálakunnáttan, eða fullkominn skortur þar á, er feykinæg ástæða ein og sér.

Ingvar Valgeirsson, 25.4.2007 kl. 15:34

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.4.2007 kl. 12:42

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Það var DO sem skipaði Sigríðu Dúnu eins og 10 aðra sendiherra á 11 mánaða setu sinni á stóli að mig minnir.

Gestur Guðjónsson, 26.4.2007 kl. 17:54

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 264923

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband