Þögnin gerð að vopni í áróðursstríðinu

Það er athyglisvert hvernig stjórnmálamenn geta gert þögnina að vopni.

Nýleg dæmi eru t.d. þögn Björns Inga Hrafnssonar varðandi boðsferðir sínar og þögn Sivjar Friðleifsdóttur um misnotkun sína á framkvæmdasjóði aldraðra til útgáfu á sínum prívat áróðursbæklingi. Guðmundur Jónsson í Byrginu sést ekki lengur og Árni Johnsen hefur hægt um sig (trúlega að ráði ímyndarsmiða Sjálfstæðisflokksins).

Í seinni tíð er sífellt meira gripið til þessa vopns vegna þess að ef þau svara engu þá lítur út fyrir að þeir sem eru að krefjast svara séu haldnir ofsóknaræði á hendur þeim og líta bara illa út kvakandi eftir játningum á misgjörðunum.

Þögnin á eftir að verða mikið notuð sem vopn í áróðursstríðinu fyrir kosningar. Geir Haarde hefur t.a.m. verið tiltölulega þögull ef frá er tekið nauðungarbirtingarmynd hans vegna Byrgis og Breiðavíkurmálanna. Hann mun síðan fara aftur í sitt þagnarbindindi vegna þess að það heldur atkvæðum heima. Um leið og hann tjáir sig er nefnilega hætta á ferðum í þeim efnum.

Forysta Sjálfstæðisflokksins er nefnilega að vonast til að kjósendur þeirra kjósi eins og oftast áður þ.e. hugsunarlaust með miðtaugakerfinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Haukur.

Þetta er allt saman hárrétt athugað hjá þér. Haltu áfram! 

Þann 9. nóvember ritaði ég opið bréf til formanns Samfylkingarinnar í Mbl. Efni bréfsins var um sinn uppáhalds mál Ingibjargar, það er misbeiting valds, og ég gerði mér því von um að fá svör. En viti menn; Ingibjörg steinþagði. Þögnin er ræfilslegt vopn en freistar samt margra stjórnmálamanna. Sumir þeirra vildu helst aldrei þurfa að ræða nein mál nema í hópi "klúbbfélaga" á Alþingi.

Hér er bréfið:

"Sæl Ingibjörg. Mig langar að spyrja þig að einu, en ekki formálalaust: Í ársbyrjun 2004 var þingflokksformanni Samfylkingarinnar afhent svohljóðandi ályktun frá vel á 3. þúsund kjósendum: „Við mælumst til þess að lög um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara frá 15. desember 2003, verði endurskoðuð. Við endurskoðun laganna verði haft að leiðarljósi að almenningur og kjörnir fulltrúar almennings búi í grundvallaratriðum við sömu eftirlaunaréttindi. Forréttindi ganga gegn réttlætis- og lýðræðishugmyndum þorra landsmanna, sérstaklega forréttindi kjörinna fulltrúa. Þeir sem kjörnir eru til að setja lögin mega hvorki búa sjálfum sér almenn réttindi umfram þau sem umbjóðendur þeirra njóta né afmarka almenningi grundvallarréttindi sem þeir sjálfir vilja ekki una við og telja ófullnægjandi.”  Samráð löggjafarvalds og framkvæmdavaldsSvo sem þér er kunnugt var forsaga málsins sú að formenn stjórnarandstöðuflokkanna, alþingismennirnir Guðjón Arnar Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon, ráðgerðu heimulega frumvarp um eftirlaun. Nánar tiltekið, Frumvarp til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Það gerðu þingmennirnir í samráði við handhafa framkvæmdavaldsins, þá Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Málið snerist sem sagt um eftirlaun handhafa þriggja þátta ríkisvaldsins, utan eitt höfuðatriði þess, sem kvað á um 50% álag á þingfararkaup þeirra formanna stjórnmálaflokka á Alþingi sem ekki væru ráðherrar. Ég læt þér eftir að finna út hverjir það myndu vera.Leyndin yfir frumvarpinu var slík að þingflokkur Samfylkingarinnar fékk ekki að líta það augum fyrr en 40 mínútum áður en það var lagt fram. Svo fór að stjórnarandstöðu­þingmennirnir sem fluttu frumvarpið hrukku frá stuðningi við það er þeir áttuðu sig á efni þess og lítilli hrifningu þess kvartsára almennings á Íslandi sem stundum vill upp á dekk. Utan einn þingmaður, Guðmundur Árni Stefánsson, þá bráðum tilvonandi sendiherra í Svíþjóð. Hann hvikaði ekki. Enda var ein réttlæting forréttindanna sú að með þeim væri komið í veg fyrir að fyrrverandi alþingismenn sæktu í opinber embætti og sættu svo ámæli fyrir að njóta forgangs vegna stjórnmálastarfa sinna. Höfundar frumvarpsins höfðu fleira göfugt í huga. Til dæmis þá „lýðræðislegu nauðsyn“ að geta vikið til hliðar fyrir ungu efnisfólki, „án þess að hætta fjárhagslegri afkomu sinni“, eins og segir í greinargerð. Frumvarpsmenn voru þannig reiðubúnir að brjóta sig í mola fyrir lýðræðið og létta undir með kjósendum við val á fólki til setu á Alþingi. Oft er haft á orði að glæpir borgi sig ekki. Miklu sjaldnar er minnst á góðverkin og það sem af þeim getur hlotist. Þetta gustukaverk stjórnmálaforingjanna borgaði sig margfaldlega. Hver þeirra um sig hafði upp úr því jafnvirði tuga milljóna.  Nú ert þú sjálf farin að hafa hag af þessu, Ingibjörg.Meðan á skammvinnri afgreiðslu eftirlaunafrumvarpsins stóð fórst þú niður í Alþingishús. Flestir ætluðu að erindi þitt hafi verið að benda félögum þínum í Samfylkingunni á það hve mikil svívirða frumvarpið væri. Því trúi ég. Einn þingmaður stakk upp á því við mig löngu síðar að erindi þitt hefði verið að kanna hvort ekki væri eitthvað bitastætt í frumvarpinu fyrir varaformenn flokkanna einnig. Því trúi ég ekki. Samt er ég órólegur yfir stöðu málsins. Þingflokksformaður Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson, hefur lýst því yfir að engin lýtaaðgerð á eftirlaunalögunum komi til greina. Þau eigi einfaldlega að afnema. Fleiri þingmenn VG eru sama sinnis. Gallinn er sá að þingflokkurinn þorir ekki að taka afstöðu í málinu. Háir þeim foringjahollustan. Meðan svo er verður að skoða afstöðu einstakra þingmanna og þingflokks VG sem yfirhylmingu. Staðan innan þíns eigin þingflokks er ekki síður ræfilsleg. Ég hef nefnt við nokkra þingmenn Samfylkingarinnar að rétt væri að þrífa upp eftir sig í þessu máli. Enginn þeirra mótmælir því, en öllum er tregt tungu að hræra. Sumir koma ekki upp einu orði.  VillandiNú er boðað frumvarp Samfylkingarinnar um endurskoðun á eftirlaunalögunum. Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að lagfæra handvömm sem varð í flýtinum í desember 2003. Sem sagt þá að fyrrverandi þingmenn og ráðherrar geti þegið full eftirlaun samtímis því að vera í launuðu starfi. Í raun er boðað frumvarp aðeins lýtaaðgerð á eftirlaunaófreskjunni. Ekki lagabót heldur til þess fallið – vísvitandi eða ekki – að slá ryki í augu fólks. Láta líta svo út sem eftirlaunahneykslið hafi verið afnumið og festa um leið forréttindin í sessi. Andstaðan við eftirlaunafrumvarpið byggðist ekki á því sem boðuðu frumvarpi er ætlað að flikka upp á. Fjölmiðlar afhjúpuðu þann galla löngu eftir að forréttindalögin voru samþykkt. Óréttlætið og forréttindin yrðu jöfn sem áður. Því spyr ég þig, Ingibjörg: Munt þú beita þér fyrir því að þingflokkur Samfylkingar­innar samþykki þessa plastaðgerð á eftirlaunalögunum eða ertu reiðubúin að taka höndum saman við réttsýnt fólk í öðrum flokkum og í eigin röðum og afnema eftirlaunaósómann undanbragðalaust? Forréttindahyggjan, spillingin og misskiptingin í íslensku samfélagi er orðin viðbjóðsleg.

Hjörtur Hjartarson"

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 13:55

2 identicon

Mér fynst að þeir sem eru aldir upp á stolnum dósamat frá kananum ættu ekki að kasta fyrsta steininum það er sá sem sindlaus er sem á að gera það.

Björn Kjartansson (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 17:12

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Athyglisvert bréf Hjörtur og mjög upplýsandi. Stjórnmálamenn eru raunar ekki einir um að velja þögn sem vopn. Það er líka þekkt í viðskiptum. Takk fyrir að deila þessu bréfi með mér.

Björn, ég man bara sem krakki eftir útrunnum dósamat.

Haukur Nikulásson, 17.2.2007 kl. 21:12

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 264907

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband