Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Nú er kominn tími til að hætta öllu mjálmi - ÞAÐ ÞARF EITTHVAÐ AÐ HEYRAST!

Eitt stærsta ríkið innan ESB er Bretland. Þeir hafa skotið Ísland í kaf með beitingu neyðarlaga um varnir gegn hryðjuverkum. Efnahagslegu hryðjuverki þeirra á Ísland er ekki einu sinni lokið. Þeir ætla líka að hirða allar eigur íslendinga upp í skuldir og kvaðir. Ég tel Það ágætt að vera búin að komast að því hvað ESB er aumt samfélag í raun áður en meirihlutinn hér á landi kemst í að sækja um aðild.

Yfirdrepsháttur með einhverju orðagjálfri sem síðan fyllir alla fjölmiðla Evrópu mun þagga niður í mjóróma íslendingum. Okkar málstaður er kaffærður og ef við viljum sporna við því þarf að láta í sér heyra svo um munar. Til þess eru aðeins tvö lítil ráð og á þau verður hlustað:

Slíta stjórnmálasambandi við Bretland umsvifalaust. Rökin gegn því að þurfa að eiga samskipti við breta eru komin langt fram úr ásættanlegri diplómatískri kurteisi. Bretar hafa ekki sýnt okkur neitt nema yfirgang, óbilgirni og dónaskap. Við erum í nauðvörn og þurfum því núna að haga okkur samkvæmt því. Það er ekki lengur nein aukin áhætta fólgin í þessari aðgerð. Norðmenn myndu örugglega umbeðnir aðstoða okkur við að gæta hagsmuna okkar í Bretlandi á meðan þetta gengur yfir. Þykist raunar vita að þeir myndu stoltir leggja sig alla fram við að aðstoða litla bróður í því efni.

Segja Ísland úr NATO. Bandalagið er ekki einu sinni að virka innbyrðis gagnvart svokallaðri "vinaþjóð". Það liðkar örugglega fyrir samingum við rússa um lánafyrirgreiðslu og nú má Geir vera sammála mér um að það ER þörf nýrra vina.

Ég tel almennt sjálfsagt að sýna stillingu í öllum málum, en það er ófyrirgefanlegt geðleysi að bregðast ekki harkalega við því að vera sem þjóð sett á hausinn með jafn stórfelldu efnahagslegu óhæfuverki eins og bretar eru sekir um.


mbl.is ESB-leiðtogar styðja Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan ekki sökudólgurinn

Það er ekki oft sem mér finnst menn segja nákvæmlega það sem ég vildi sagt hafa. Þó dettur inn einn og einn á borð við Jóhann J. Ólafsson sem skrifar góða grein í Fréttablaðinu í dag.

Krónan hefur nefnilega verið höfð fyrir rangri sök. Þú notar ekki teskeið til að moka skurði. 


Hagsmuna hverra er verið að gæta?

Ég trúi ekki öðru en að þessi lækkun sé í hróplegu ósamræmi við væntingar næstum því allra hér á landi.

Er því furða að spurt sé um hverra hagsmuna sé verið að gæta núna? Eru það kannski erlendir eigendur eftirliggjandi krónubréfa sem stjórna förinni í þessum efnum? 


mbl.is Stýrivextir lækkaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja, Geir Haarde, er það bara GAMLI Glitnir sem verður í vanskilum?

Í dag er loksins komið að greiðsludeginum sem Glitnismenn voru að reyna að bjarga. Í stað þess að hjálpa þeim afgreiddi Seðlabankinn þá með gjaldþroti og niðurlægingu á fjórum dögum. Ég tel að sagan muni setja þetta upp sem mestu fjármálamistök Íslandssögunnar.

Það er nokkuð ljóst held ég að íslendingar hefðu frekar viljað þá stöðu í dag að Glitnir hefði fengið þessa peninga og að landið í heild sinni hefði fengið við það ráðrúm til að eiga við alþjóðlega sjúkdóminn sem felst í lánakreppunni.

Þess í stað urðum við fyrsti sjúklingurinn í heiminum sem dó og það má þakka óðagoti bankastjórnar Seðlabankans og "ábyrgra" aðila í ríkisstjórn. 


mbl.is Örlagaríkt lán á gjalddaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin skylda að birta vinnugögn fjármálafyrirtækja - Þetta er EKKIFRÉTT

Ég er nokkuð viss um að skýrslan hafi ekki sagt okkar hagfræðingum neitt mikið meira en þeir vissu sjálfir löngu áður.

Stundum er samt eðlilegt að kalla til utanaðkomandi álit, eins og gert er t.d. í sambandi við lækningar og sjúkdóma.

Ég sé heldur ekkert athugavert að þessi skýrsla hafi ekki verið birt. Hún er unnin fyrir Landsbankann , þeirra eign og því fullkomlega eðlilegt að birta ekki skjöl sem geta valdið viðskiptalegu tjóni.

Bankaskýrsla undir stól er þess vegna fréttatilbúningur í lágum gæðaflokki, og skrýtin leið til að gera vinnu bankastarfsmanna tortryggilega. Einkafyrirtækjum er ekkert skylt að birta vinnugögn og rannsóknir sem þau borga fyrir.


mbl.is Bankaskýrsla undir stól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennitöluflakkarar mega líka gæta orða sinna!

Ríkið er ekki hvítþvegið af vafasömum fjármálagjörningum frekar en aðrir síðustu daga.

Ríkið notar kennitöluflakk sem áður var bara eignað veitingahúsum borgarinnar. Ríkið ætlar að skúra sig af skuldbindingum bankanna erlendis en ætlar að hirða kröfur á skuldara hans til að eiga upp í þær innistæður sem þarf hvort eð er að ábyrgjast skv. lögum og ófrávíkjanlegum alþjóðasamningum.

Neyðarlögin sem sett voru 7. október s.l. má kalla hálfgerð "fjármálaleg hryðjuverkalög" vegna þess að þau gera Fjármálaeftirlitinu kleift að gera næstum því hvað sem því sýnist, hvernig sem því sýnist og hvenær sem því sýnist í nánustu framtíð.

Nú þegar ber á því að kennitöluflakkið ætli að þvælast fyrir. Þrátt fyrir hvatningu Geirs Haarde um að útflytjendur flytji gjaldeyri heim þá fæst hann ekki fluttur vegna skulda "gömlu bankanna" erlendis. Hér er greinilega orðin hætta á að allt stíflist vegna þeirra vanhugsuðu aðgerðar Seðlabankans að setja Glitni og Landsbankann á hausinn með það í huga að þjóðnýta eigurnar upp í óhjákvæmilegar skuldbindingar á innlánum en henda öðrum skuldum eins og hverju öðru drasli gjaldþrota óreiðumanna. Hrun Kaupþings var hins vegar ekki ætlunin.

Enn fær maður á tilfinninguna að teknar séu vondar ákvarðanir á eftir öðrum vondum. Stundum vonast maður samt til að hafa rangt fyrir sér eins og t.d. núna. Neyðarlögin eru langt í frá skotheldur verknaður hafi einhver haldið að þau væru það.

Það er nefnilega ekki allt rétt sem ríkisstjórnir gera, hvorki í Bretlandi né Íslandi.


mbl.is Verða að svara til saka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málssókn á hendur breska ríkinu má mín vegna hafa forgang

Málssókn vegna þess skaða sem Gordon Brown olli íslensku þjóðinni með frystingu eigna með hryðjuverkalögum má hafa forgang.

Það er eðlilegt að gera strax kröfu á ríkisstjórn Bretlands vegna misnotkunar laga með skelfilegum afleiðingum fyrir heila þjóð eins og okkur.

Það er reyndar svo að það er næstum illmögulegt við svona aðstæður að meta endanlegar tjónatölur.

Það er örugglega ekkert upplífgandi að fylgjast með tölum kauphallarinnar þessa dagana. 


mbl.is Úrvalsvísitalan 715 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ókeypis efnahagsráðgjöf - Betri tillögur einhver?

Mér finnst við þessar aðstæður tilvalið að rifja upp þær skoðanir sem ég hef viðrað undanfarin tæp tvö ár í nærri 800 pistlum, sem flestir hafa verið um stjórnmál.

Hér koma nokkrar þeirra:

Fella niður milljarða styrki til landbúnaðarmála. Í fyrsta lagi er ekki eðlilegt að ein starfstétt njóti verndar umfram aðrar í nútímasamfélagi. Hagræðing þarf að vera í formi stækkun búa. Það er nokkuð sjálfgefið að landbúnaður verður nú samkeppnisfærari þegar gengi krónunnar hefur fallið.

Fella niður styrki til allra trúarbragða. Þjóðkirkjan verði tekinn af fjárlögum og hinir trúuðu reki þessi starfsemi eins og hver önnur hugðarefni og áhugamál. Þetta er fáránlegasta tímaskekkjan í siðuðu og upplýstu samfélagi. Hér sparast milljarðar.

Fella niður styrki til menningarmála og íþrótta fullorðinna. Fólk á sjálft að sjá um þetta. Þetta innifelur að hætta opinberum styrk til Sinfóníunnar og RÚV (sem á að selja). Hætta styrkjum til leikhúsa og annarrra stofnana sem eru niðurgreiddar af ríkinu til að fólk geti leikið sér. Það er ekki ásættanlegt að ríkið niðurgreiði leikarskap þeirra áhugamála sem njótendur vilja ekki halda uppi með sjálfsaflafé.

Hætta öllum útgjöldum til varnarmála. Þetta hefur engan tilgang lengur. Við höfum ekki lengur ráð á útgjöldum í svona huglægan ótta.

Hætta rekstri óþarfa sendiráða um allan heim og kaupa þá þjónustu hjá sendiráðum hinna norðurlandanna með t.d. einum sendifulltrúa hjá þeim.  Hér sparast milljarðar og hægt að selja talsverðar eignir.

Hætta þátttöku í NATO. Þetta sparar mörg hundruð milljóna. Auk þess er tímabært að afneita þátttöku í Íraksstríðinu og biðjast afsökunar á frumhlaupi Davíðs og Halldórs í því efni.

Breyta Íslandi í eitt kjördæmi og ganga þannig frá kosningum að fella prófkjör inn í þær og leyfa kjósendum að velja þingmenn úr öllum flokkum og gera einstaklingum kleift að bjóða sig fram án flokks. Nútíma tækni getur leyft að kosningar endurspegli raunverulegan vilja þjóðarinnar en ekki örfárra flokksleiðtoga. Þetta sparar milljarða í óraunhæfum framkvæmdum sem tengjast kjördæmapoti.

Leiðrétta eftirlaunafrumvarpið. Það sparar kannski ekki nema einhver hundruð milljóna en setur nauðsynlegt fordæmi í að siðbæta stjórnmálin.

Yfirfara og fella niður launuð nefndarstörf sem engu skila. Sem dæmi þá er forsætisráðherrafrúin á háum launum hjá byggingarnefnd spítalanna og nú þegar búið að slá af verkefnið. Þegar Geir talar um að herða sultarólina má hann líta í eigin garð með hliðsjón af þessu og eftirlaunafrumvarpinu.

Ríkið innkalli allan fiskveiðikvóta og bjóði út. Það er hefur aldrei gefist betri tími til að taka til í kvótakerfinu.

Rikið taki til baka eignaupptökuna á Varnarsvæðinu. Heyrst að ekkert hafi verið greitt ennþá fyrir eignirnar sem þá voru metnar á 30 milljarða en seldar fyrir 14 fyrir tilhlutan fjármálaráðherra til bróður síns og vina. Í tengslum við þetta er hneyksli að fjármálaráðherrann skipi stóran hluthafa í eigendahópnum í stjórn nýja Landsbankans. Honum verður væntanlega falið að láta Landsbankann aðstoða þá við að halda fengnum. Pólitísk spilling dó ekki með bankahruninu, því miður!

Með öllum þessum sparnaði er hægt að lækka skatta og fella niður tolla og gera Ísland að tollfríríki. Við eigum að hefja til vegs og virðingar algerlega haftalaus viðskipti við allar þjóðir heims, ekki bara Evrópu. Ísland hefur alla möguleika á að vera öðrum fyrirmynd þó nú syrti í álinn í bili.

Aðalhlutverk ríkisins á að vera vandaður rekstur nauðsynlegrar samfélagsþjónustu. Undir þetta falla heilbrigðis-, mennta-, félags-, trygginga- og öldrunarmál. Auk þessu rekstur löggæslu, dómskerfis og samgöngumannvirkja. Eflaust má bæta einhverjum liðum sem við teljum nauðsynlegt en eru veigaminni.

Áhuga- og dekurmál sjálfskipaðra fagurkera eiga ekkert erindi í útgöldum samfélagsins.

Hvað finnst þér? 


Thats what friends are for - Dionne & Friends

Lagið That's what friends are for sem Dionne Warwick flytur hér ásamt vinum fór í efsta sæti Bandaríska listans árið 1985. Með henni á upphaflegu upptökunni eru Stevie Wonder, Elton John og Gladys Knight. Lagið var gefið út til að afla fjár vegna stuðnings við rannsóknir á AIDS. Þessi útgáfa er hins vegar með Dionne, Stevie, Whitney Houston (frænku Dionne) og Luther Vandross og er hreint afbragð.

Vinátta er kannski eitthvað sem þarf að skerpa á þessa dagana. 


Egill Helgason varð sjálfum sér til skammar í nornaveiðum

Ef menn ætla að slá sig til riddara meðal þjóðarinnar með því að taka "útrásarvíkinga" af lífi í beinni útsendingu er betra að þeir hafi kynnt sér málin í fyrsta lagi, haldi ró sinni, hrópi ekki hálfgerð ókvæðisorð að viðmælandanum og leyfi þeim örlítið að tjá sig. Hafi maður vonast eftir því að fá svör við vitrænum spurningum þá eyðilagði Egill það með vanhæfni sinni.

Egill Helgason var svo stjórnlaus í eigin þætti að hann kvaddi Jón Ásgeir í fýlu en hélt svo áfram viðræðunni.

Nú geta menn spurt sig: Hvor fékk betri meðferð hjá RÚV: Davíð eða Jón Ásgeir? 


mbl.is Jón Ásgeir: Fær ekkert út úr sölunni á Baugsfyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 264929

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband