Ef velja þarf á milli þá fari bankarnir frekar á hausinn en almenningur

Jóhanna er alls ekki að skilja samhengið í fjarmálum ríkis og þjóðar.

Hún skilur það ekki enn þann dag í dag að ríkið eignaðist bankana með þjófnaði neyðarlaga. Í leiðinni er hent skuldum bankanna og eftir situr að aðaleignir "nýju" ríkisbankana eru kröfur á heimilin og fyrirtækin í landinu og þar er hvergi slakað í innheimtu nema hjá vildarfyrirtækjum eins og Árvakri (Mogganum) sem fékk þrjá milljarða niðurfellda. Ríkið getur ekki "tapað" því sem þeir eignuðust hvort eð er ekki með réttmætum hætti

Jóhanna skilur heldur ekki að það verður að vera réttlæti í niðurfellingu skulda og það skipti þá ekki máli hverjir voru sviknir með forsendubresti lánanna. Hér skiptir engu máli hvort einhverjir séu svo lánsamir að geta ennþá borgað þrátt fyrir að hafa verið teknir í görnina þeir eiga samt sama rétt á réttlátri niðurfellingu skulda.

Skv. vinnubrögðum Jóhönnu og Steingríms ætlar ríkið að vera stikkfrí. Þeir sem stýrðu hruninu þ.e. bankar og ríkið taka ekki á sig neinar byrðar. Þessu er öllu velt á almenning og fyrirtæki sem ekki stjórnuðu þessari dómadags vegferð í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar.

Með skilningsleysi sínu bíða þau þess að þau verði sett af næst með látum.

 


mbl.is Niðurfelling þýðir kollsteypu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón

Það verður kannske ekki á morgun.  Það verður kannske ekki í næsta mánuði, en mér þykir ekki ólíklegt að á næsta ári verði hér alvöru bylting, þar sem þetta fólk verður úthrópað sem skrumarar og loddarar.  Sjáum til...

Sigurjón, 4.6.2009 kl. 01:22

2 Smámynd: Sigurjón

...já og við ættum að hóa saman fólk í að bjóða fram í næstu kosningum.  Ég er sammála nánast hverju einasta atriði á stefnuskránni hjá þér Haukur, þannig að ég get verið með 100%.

Sigurjón, 4.6.2009 kl. 01:23

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Það er verið að vinna að nýju stjórnmálaafli: Samtök Fullveldissinna.  Þið viljið kannski koma þar að í stað þess að vinna frá grunni.

Axel Þór Kolbeinsson, 4.6.2009 kl. 09:16

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Haukur. Það ert greinilega þú en ekki Jóhanna, sem ekki skilur samhengið í fjármálum ríkisins og þjóðarinnar.

Ríkið á ekki og hefur aldrei átt gömlu bankana. Þeir eru þrotabú, sem eru til skiptameðferðar. Ríkið stofnaði hins vegar nýju bankana, sem tóku yfir starfsemi gömlu bankana og þar með þjónustu við viðskiptavini þeirra. Innheimtur þeirra á skuldum heimila og fyrirtækja er þjónusta, sem þeir vinna fyrir þrotabú gömlu bankanna.

Nú stendur yfir vinna við að meta verðmæti eigna þrotabúa gömlu bankanna. Þegar það hefur verið gert þá taka nýju bankarnir yfir skuldir gömlu bankanna i formi einneigna hér á landi og taka síðan við jafn verðmætum eignum úr þrotabúum þeirra í formi lána til einstaklinga og fyrirtækja hér á landi. Annað verður skilið eftir í þrotabúunum og sér skiptastjórn þeirra um að gera eins mikil verðmæti úr því og kostur er til að kröfuhafar fái eins stóran hluta eigna sinna til baka.

Þegar þetta hefur verið gert standa nýju bankarnir á núlli. Það er eignir þeirra eru metnar á sama vergildi og skuldir þeirra. Ríkissjóður mun síðan, sem eigandi þeirra koma með eiginfjárframlag, sem nemur 10% af verðmæti eigna og skulda þannig að bankarnir verði með 10% eiginfjárstöðu.

Inneignirnar í formi skulda einstaklinga og fyrirtækja verða metnar með afföllum þegar þær eru fluttar frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju í samræmi við mat á því hversu mikið útlánatap verður vegna þeirra skuldara, sem ekki geta greitt skuldir sínar að fullu. Ef það mat reynist vera rétt þá hvorki græða né tapa nýju bankarnir á því að taka þessar skuldabréfaeignir yfir með afföllum. Reynist um ofmat á væntu útlánatapi að ræða munu bankarnir græða á þessu en ef þetta reynist vera vanmat á væntu útlánatapi að ræða þá tapa bankarnir á þessu.

Ef gefnir eru afslættir til viðbótar við óhjákvæmilegt útlánatap vegna þess að hluti skuldara getur ekki greitt lán sín þá er það hreinn viðbótakostnaður við það, sem lendir á nýju bönkunum. Þann kostnað verður þá eigand bankans, ríkissjóður að fjármagna með einhverjum hætti til að halda því 10% eiginfjárhlutfalli, sem talið er nauðsynlegt til að bankarnir geti starfað áfram.

Þessi kostnaður mun því lenda á skattgreiðendum. Sama mun gerast með sparisjóðina ef þessi 20% niðurfellingaleið verður farin. Þá þarf að koma til aukið eiginfjárhlutfall til að vega upp á móti tapi þeirra og þar verður væntanlega ekki öðrum til að dreifa en ríkissjóði. Sé það ekki gert fara sparisjóðirnir í þrot og þá reynir á þær ábyrgðir á innistæðum í þeim, sem kveðið er á um í neyðarlögunum. Tap sparisjóðanna vegna þessarar leiðar mun því með einum eða öðrum hætti lenda á skattgreiðendum að mestu leyti.

Síðan er það Íbúðalánasjóður. Annað hvort þarf ríkissjóður að fjármagna lækkun á skuldum þar eða láta þá, sem hafa lánað Íbúðalánasjóði fyrir húsnæðislánum hans taka þann skell á sig. Þar er fyrst og fremst um að ræða lífeyrissjóði landsmanna. Þeir munu þá þurfa að lækka greiðslur til sjóðsfélaga sinna til að dekka það tap og væntanlegt tap vegna 20% niðurfellingar á sjóðsfélagalánum sínum. Slíkt mun auka kostnað ríkissjóðs vegna almannatrygginga því þær eru tekjutengdar að mestu leyti og því munu lækkaðar tekjur lífeyrisþega leiða til hækkunar á lífeyrisbótum þeirra frá Tryggingastofnun ríkisins.

Samhengið, sem þú virðist ekki skilja er að flöt niðurfelling skulda er ekkert annað en ákvörðun um að skattgreiðendur og greiðsluþegar lífeyrissjóða greiða hluta af skuldum lántaka. Skuldirnar hverfa ekkert við þessa niðurfellingu.

Hvað varðar meinta niðurfellingu skulda Árvakurs og annarra fyrirtækja þá er þar ekki um neina niðurfellingu að ræða heldur óhjákvæmilegt útlánatap. Fyrirtækið varð einfaldlega gjaldþrota og til að tryggja eins mikla endurheimtu lána fyrirtækisins ákváðu kröfuhafar að halda fyrirtækinu áfram í rekstri. Það að láta fyritækið hætta starfsemi og selja eignir þess hefði gefið þeim minna og þar með hefði tapið orðið meira.

Eftir að hafa leitað að kaupendum með hámarksverð í huga var ákveðið að semja við einn aðila um kaup á fyrirtækinu á tilteknu verði, sem hann var tilbúin til að borga fyrir það. Það verð var lægra en skuldirnar og því töpuðu kröfuhafar mismuninum. Það má alltaf deila um það hvort hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir fyrirtækið og þar mað minnka tapið en það hefur engin getað sýnt fram á það.

Það er reginmunur á því að fella niður skuldir aðila, sem eru borgunarmenn fyrir sínum skuldum og útlánatapi vegna gjaldrþots skuldara. Fyrir íslenska skattgreiðendur felst munurinn þó mest í því að slíkt óhjákvæmilegt útlánatap vegna þess að skudari getur ekki greitt skuldir sínar lendir á þrotabúi gömlu bankanna og þar með kröfuhöfunum í þrotabúin en niðurfelling skulda aðila, sem eru borgunarmenn fyrir sínum skuldum með lagasetningu frá  Alþingi lendir á íslenskum skattgreiðendum. Við munum aldrei geta komið því yfir á erlendu kröfuhafana hversu oft, sem framsókarmenn og ýmsir aðrir reyna að telja okkur trú um það.

Sigurður M Grétarsson, 4.6.2009 kl. 10:43

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sigurður, ég tel mig hafa prýðilegan skilning á þessu máli. Með neyðarlögunum stal ríkið bönkunum. Auk þess voru afnumdar allar góðar viðskiptasiðvenjur, lög um gjaldþrot, réttindi og skyldur starfsmanna fjármálafyrirtækja og önnur margvísleg lög og reglugerðir sem kveða á um eðlilega viðskiptahætti. Að auki var með þessum lögum ákveðið að ríkið ábyrgðist allt sparifé landsmanna þó svo að lög og reglur kvæðu á um að ábyrgjast upp að 3 milljónum króna. Með því að ábyrgjast sparifé hóf ríkið alvarlegustu mismununa sem sé þá að sparifjáreigendur fengu miklu meiri réttindi en þeir áttu skv. eldri lögum og reglum. Til að mæta auknum rétti sparifjáreigenda yfirtekur ríkið skuldakröfur gömlu bankana til að mæta sparifjárskuldbindingum sínum skv. bæði eldri og nýrri lögum. Þér yfirsést að ríkið átti aldrei lagalegt tilkall til skuldakrafna bankanna.

Megnið af skuldum íslendinga á sér uppruna í sambankalánum sem gömlu bankarnir tóku og eru nú mikið til afskrifaðar hjá þeim. Þér, ásamt mörgum öðrum, virðist fyrirmunað að sjá að ríkið átti ekki neitt af þessu þó svo að lögum skv. hafi þeim verið skylt að ábyrgjast sparifé með takmörkum í tæpum 3 milljónum.

Það er rangt að halda því fram að skattgreiðendur borgi eitthvað sem þeir áttu aldrei í upphafi tilkall til sem aðilar að ríkinu. Það er líka siðferðilega alröng rökfræði að ekki eigi að leiðrétta skuldir þeirr sem ennþá geta borgað. Hvers konar bull er það nú? Það er sama röksemd og að segja að það megi okra á fólki bara ef það getur ennþá borgað!

Ríkið og bankarnir eru þessa daga að handvelja hverjir fá að blæða og hverjir fá niðurfellingu skulda. Þessi spilling er á fullu innan kerfisins og enginn virðist vita hvað er í gangi. Nýjustu dæmin um t.d. Árna Tómasson skilanefndarmann segja manni allt sem segja þarf um vinnubrögðin þarna.

Ég hefði ætlað þér sem viðskiptafræðingi að geta viðurkennt þann forsendubrest sem lántakendur verða fyrir með hliðsjón af arfavitlausum og upplognum stýrivöxtum og meðfylgjandi verðbólgumælin og upplognum verðbótareikningum.

Það er líka ljóst að í meginatriðum eru það lántakendur sem hafa verið sviknir. Þeir sem engin lán tóku undanfarin ár mega bara vera þakklátir fyrir sína stöðu, en það er alrangt að halda því fram að þeir verði sem skattgreiðendur látnir borga fyrir lántakendur eitthvað.

Ég er nógu gamall til að hafa upplifað bæði að sparifjáreigendur voru sviknir af bankakerfinu fyrir árið 1977 og síðan voru skuldararnir teknir í rassgatið eftir árið 2005.

Haukur Nikulásson, 4.6.2009 kl. 15:37

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Axel, takk fyrir gott boð.

Ég er kannski ekki að byrja neitt frá grunni. Ég byrjaði með Flokkinn í janúar 2007 og er með stefnu í öllum málum ef þú nennir að lesa. Þetta tekur allt tíma og minn áhugi er ekki til skamms tíma ef þú skoðar það betur. Vandræði mín felast í því að vera alveg kross á móti ESB aðild og vera jafnframt krati. Það gerir mig að eylandi í pólitík þessa stundina.

Ég er hins vegar sannfærður um að fleiri verði á sömu skoðun og ég þegar fram í sækir.

Haukur Nikulásson, 4.6.2009 kl. 16:20

7 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sjonni, takk fyrir stuðninginn. Það verður að sjálfsögðu hóað í þig þegar að þar að kemur.

Haukur Nikulásson, 4.6.2009 kl. 16:45

8 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Hvar get ég nálgast yfirlit yfir stefnu flokksins?  

Annars rúmast Samtök Fullveldissinna krata, rétt eins og komma og kapítalista, svo lengi sem fólk er tilbúið að vinna saman að stefnumálum.  Ég er t.d. anarkískur þjóðhyggju-sósíalisti sem styður alþjóðasamstarf og kapitalískan markað.

Axel Þór Kolbeinsson, 5.6.2009 kl. 09:05

9 Smámynd: Haukur Nikulásson

Axel, hér eru drögin að stefnuskrá sem sett var saman 4. janúar 2007. Á þeim tíma var bullandi "gróðæri"!

Haukur Nikulásson, 5.6.2009 kl. 17:37

10 Smámynd: Sigurjón

Ég myndi skilgreina mig sem kapítalista með sósíalísku ívafi; ekki pilsfaldakapítalista eða jafnaðarmann.  Máski hægri jafnaðarmann...

Sigurjón, 6.6.2009 kl. 02:38

11 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Haukur. Ríkið á ekki gömlu bankanna. Það hefur því ekki stolið þeim. Ríkið á ekki heldur kröfur gömlu bankanna á heimilin í landinu, sem eru í formi lána bankanna til þeirra. Ríkið getur því ekki gefið afslátt af þessum kröfum gömlu bankanna á heimilin í landinu öðruvísi en að greiða fyrir það. Valið stendur því milli þess að lántakendur sjáflir greiði skuldir sínar að fulli eða að skattgreiðendur greiði þær að hluta til fyrir þær. Fullyrðingar framsóknarmanna og annarra, sem vilja fella niður hluta skulda heimila um annað eru bull.

Hvað forsendubrest varðar þá þarf að fá hann staðfestan af dómstólum til að unnt sé að koma kostnaðinum við það yfir á kröfuhafa gömlu bankanna. Ég get alveg fallist á það að gagnvart þeim, sem keyptu sína fyrstu íbúð eða stækkuðu verulega við sig getur vel verið að slíkur forsendubrestur fáist staðfestur. Við skulum hins vegar ekki gleyma því að fallið er blaðra sem sprakk og þeir, sem voru búnir að kaupa sínar íbúðir áður en fasteignaverðbólan fór af stað fengu mikla hækkun á íbúðir sínar umfram hækkun á vísitölu lánanna seinustu árin áður en blaðran sprakk og eru almennt í þeirri stöðu að verðmæti íbúða þeirra hefur hækkað meira en vísitala lána þeirra frá því þeir keyptu. Sama má segja um samanburð á launavístitölu og neysluvístiölu frá þeim tíma. Það er því ekki nema lítill hluti heimila, sem ákvæðið um forsendubrest getur átt við um. Ég hef skrifað um þetta áður á bloggsíðu mína. Það má sjá hér:

http://siggimaggi.blog.is/blog/siggimaggi/entry/862545/#comments

Þetta er ein af mörgum ástæðum fyrir því að flöt niðurfelling skulda hvort, sem það er kallað niðudrfelling eða að færa aftur vísitöluna, er út í hött að mínu mati og getur hvorki talist skilvirk né sanngjörn leið til að taka á vanda heimilanna.

Sigurður M Grétarsson, 10.6.2009 kl. 16:31

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 264894

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband