Rógurinn um Ingibjörgu Sólrúnu - Um hvað snýst málið?

Ég hef sjaldan orðið var við annan eins málflutning nokkurra stuðningsmanna flokks eins og Samfylkingarmanna við að reyna sannfæra þjóðina um að það sé í gangi stórbrotin rógsherferð á hendur formanni Samfylkingarinnar frú Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Egill Helgason skrifaði um málið á umræðusíðu sinni á Vísisvefnum og sakaði menn um nafnlausan róg og delluskrif.

Í sakleysi mínu skrifaði ég, undir fullu nafni, athugasemd sem Egill leyfði sér að fjarlægja sem ritskoðun. Ég var að benda á að hann hefði viðkomandi bloggara fyrir rangri sök, hann væri bæði nafngreindur og auk þess ekki að flytja nein orð sem túlka mátti sem róg. Ég tel Egil ekki óhlutdrægan í þessu máli þó hann vilji eflaust meina annað. Ég skil ekki hvers vegna Egill tekur að sér að "vernda" Sollu með þessu móti.

Samfylkingarfólki virðist fyrirmunað að sætta sig við að fólk kjósi hana ekki. Þetta er eini stjórnmálamaðurinn á Íslandi þar sem þú ert beinlínis orðinn rógberi ef þú lýsir því yfir að þú annað hvort viljir bara ekki kjósa hana eða að þú treystir henni ekki fyrir atkvæði þínu.

Mann grunar að það sem Samfylkingarfólkinu finnst vera rógur sé það álitamál meðal fólks hvort Solla hafi svikið málstað R-listans þegar hún hvarf úr borgarstjórastólnum til að vera forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Sú kosning varð Samfylkingarmönnum sérstök ástæða depurðar, því að þrátt fyrir mjög þokkalegan kosningasigur, náði Solla hvorki því að verða þingmaður (fyrr en síðar) né því að verða forsætisráðherra. Í þessu máli má fólk alveg hafa þá skoðun að Solla hafi fengið forsætisráðherra í magann en orðið fyrir pólitísku fósturláti og síðan er bara sorg hjá Samfylkingunni. Fólki finnst hún hafi svikið loforðið um að sinna borgarstjórastólnum fyrir persónulegan metnað. Er þetta rógurinn?

Að öðru leyti verður ekki annað sagt um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að hún sé vönduð kona og sómakær á alla lund. Við erum bara sum sem viljum ekki kjósa hana og þurfum ekki að rökstyðja það á nokkurn hátt frekar en það hvort við viljum kjamsa á rauðum Opal eða grænum Tópas.

Nú er spurning hvort þessi pistill teljist enn ein nafnlausa rógsgreinin?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Ég get bent þér á fjölda greina, bloggsíða o.fl þar sem farið er hamförum gegn formanni Samfylkingarinnar - sem eru með hreinum og beinum ólíkindum.

Eggert Hjelm Herbertsson, 11.4.2007 kl. 17:00

2 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Það má finna fjölda greina hvar farið er með óhróður gegn formönnum og félögum allra flokka. Ef skotin eru fleiri á Ingibjörgu er það vegna þess að hún hefur svolítið boðið upp á það sjálf. Ingibjörg þarf þó ekki að örvænta, því innan fárra daga verður meira um blammeringar í garð Margrétar Sverris, enda hefur hún gert svo upp á bak síðustu vikurnar að hún er komin með svokallað "klepramullet".

Ingvar Valgeirsson, 11.4.2007 kl. 17:43

3 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Egill Helgason er duglegur við að þurka út og eyða öllu sem ekki hentar hanns skoðunum, er með betri ritskoðurum dagsins.

Enda er oft eins og þættirnir hanns séu kynning á persónulegu skoðunum, frekar en kynning ólíkra við horfa samtímans

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 11.4.2007 kl. 19:44

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Enn eitt dæmi um ritskoðun Egils Helgasonar var í kosningasjónvarpinu á stöð 2 núna í kvöld. Hann nefndi ekki einu orði 1,5% fylgi Baráttusamtakanna. Hreinlega sleppti því að lesa þessa tölu. Baráttusamtökin sem hafa varla kynnt sig einu orði og eru auk þess í uppnámi vegna vandræðagangs talsmanns aldraðra.

Haukur Nikulásson, 11.4.2007 kl. 22:46

5 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Ingibjörg hefur fengið þónokkra gagnrýni, sumt ómálefnalegt sem þá er hægt að flokka sem árás ef menn vilja og annað mjög málefnalegt. Það sem hún hefur fengið á sig nær nú samt ekki því sem menn hafa mest fengið á sig undanfarin ár að ég tali nú ekki um áratugi. Annars finnst mér að menn eigi ekki að væla undan svona löguðu heldur leggja sitt fram af festu og rökum.

Ragnar Bjarnason, 11.4.2007 kl. 22:51

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Eggert, þetta er einmitt það sem ég var að meina. Hvar eru þessar rógsíður nákvæmlega?

Haukur Nikulásson, 11.4.2007 kl. 22:51

7 identicon

Margir eru einhverra hluta vegna með Ingibjörgu á heilanum og reyna að grafa undan henni eins og þeir geta með ómerkilegum málflutningi líkt og staksteinar hafa stundað. Mogginn hefur lagt línurnar fyrir Sjálfstæðismenn og allt skal gera til að skíta hana út. Þetta sjá allir sem vilja sjá. Þið hinir eruð meðvirkir og notið blinda augað vegna einhvers haturs sem á rætur sínar að rekja til áralangrar stjórnarandstöðu Sjálfstæðismanna í borgarstjórn.

Ég held reyndar að óvild margra í hennar garð sé byggt einfaldlega sexisma

Ágúst Þór Ragnarsson (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 23:37

8 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Það er ekki óeðlilegt að rætt sé um formenn stjórnmálaflokka og ýmislegt segja menn. Mér hefur fundistað menn séu tiltölulega harðvítugir gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu sem er afar hæfur stjórnmálamaður. Engum dettur í hug að ræða um það að sá fjöldi sem kýs Sjálfstæðisflokkinn geri það af því að Geir sé svo stórkostlegur enda hefur afar lítið komið frá honum og hann segir yfirleitt sem minnst. Sem er kannski rétta leiðin í kosningabaráttu;-)

Annars er þetta R-lista mál bara klisja Haukur, ekki eru menn að býsnast yfir Kristjáni Þór Júlíussyni sem brást sínum kjósendum með því að hætta að vera bæjarstjóri af því hann ætlaði í þingframboð og hikar svo ekki við að þiggja biðlaun þrátt fyrir að vilja sjálfur snúa sér að öðru. Það er nú mál sem er með ólíkindum. Ingibjörg Sólrún þurfti að hætta sem borgarstjóri af því samflokkarnir í R listanum gátu ekki sætt sig við að hún færi yfirleitt á lista hjá Samfylkingunni. Ég held að sú aðgerð hafi umfram allt annað hindrað fall ríkisstjórnarinnar í síðustu kosningum og ekki til fyrirmyndar.

Lára Stefánsdóttir, 11.4.2007 kl. 23:45

9 identicon

Hjartanlega sammála þér Haukur.   Mér hefur reynst ómögulegt að finna blogg þar sem rógi er beitt eða farið sé eitthvað illa með kellinguna, samt hef ég gert í því að lesa öll blogg undanfarna daga, þar sem fyrirsögnin bendir til að fjallað sé um hana.  Að öðru leyti les ég aðeins vinsælustu bloggarana eða þá sem birtast á forsíðunni þegar ég rekst inn.   Þess vegna lít ég á þetta væl sem örvæntingu af hálfu Samfylkingarfólks, enda hlýtur því að líða ákaflega illa í ljósi þess álits sem þjóðin hefur á því ef marka má skoðanakannanir.    Að mínu viti eru þetta ekki sérlega ígrunduð viðbrögð, að kenna alltaf öðrum um ófarir sínar.  

Líklegasta skýring er að samfóingar, sem kvarta hvað mest hafi verið svona blindaðir af foringjadýrkun sinni að þeir bregðist við eins og lítil börn, sem heyra einhvern segja að mamma þeirra sé ekki fullkomin. Ef sú skýring er eitthvað í áttina, þá má örugglega flokka pistilinn þin sem grófan róg og líka þetta innlegg mitt, ekki síst þar sem ég nota orðið "kellingin".   Hvað ætli Sjallar segðu ef ég notaði "kallinn" um Geir?

Og skammst þú þín svo Haukur.

PS: Líka sammála þér með Egill Helgason; hann er búinn að missa allan trúverðuleika sem hlutlaus stjórnálarýnir í mínum huga.   Sem er leitt, því kallinn getur verið fjári skemmtilegur inn á milli.

Bjarni M. (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 23:59

10 Smámynd: Haukur Nikulásson

Innlegginn hér eru eiginlega öll í góðu lagi. Mig vantar bara rógsíðutilvísanir frá Eggerti. Lára ég er sammála þér með Kristján Júl, þetta er ósvífið, sjálfmiðað og eigingjarnt af honum og algerlega hliðstætt við Sollu, þarna eru þau í sama boxinu. Ég tel líka að þú sért með mér í því að íhaldið græði á því að sýna helst ekkert frambjóðendur sína og því minna sem þeir tala því betur helst fylgið og jafnvel eykst. Kannski Solla þurfi að hverfa til að vera eftirsóttari?

Ég hef heyrt fólk kalla Sollu "kerlinguna" og finnst það smekklaust og særandi fyrir hennar hönd. Hún er reyndar bara u.þ.b. einu ári eldri en ég.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að Geir sé ekki leiðtogi, hann kom bara úr 13 eða 15 ára geymslu flokksins sem þolinmóður varamaður Davíðs og beið síns tækifæris. Solla má þó eiga það að vera miklu meiri leiðtogi en Geir, en hefur bara einhvern veginn misst niður vinsældir, hverju svo sem um á að kenna. Ég er líka sammála Bjarna M um viðkvæmni Samfylkingarfólks á allri neikvæðri umræðu um formanninn sinn. 

Haukur Nikulásson, 12.4.2007 kl. 00:13

11 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Er ekki bara allt í lagi að vera viðkvæmur fyrir fólkinu sínu, það er ekkert eftirsóknarvert að ganga tilfinningalaus inn í kosningabaráttu. Ég fyrir mitt leyti vildi þó miklu fremur tala um stefnuna okkar og ítarlegrar tillögur að aðgerðum en hvort fólk lætur einhverja fara í taugarnar á sér.

Það er gaman að takast á við fólk sem er ósammála manni í orðræðu, af henni má alltaf læra, jafnvel það að hvorugur hafði rétt fyrir sér heldur lá möguleiki í leyni sem enginn kom auga á fyrr en farið var að ræða málin. En svo er líka stundum gaman að takast á með orðræðu og æfa orðskylmingar. Pétur Blöndal gerði mér þann greiða að takast á við mig síðast þegar ég var á þingi og það var gríðarlega gaman. Algerlega ósammála manninum en þykir ennþá vænt um að hann var ekkert að draga úr þegar varaþingmaður fór að skylmast á við hann. Hinsvegar er jafn þreytandi þegar menn eru bara í orðskylmingum og haga sér eins og þeir séu í Morfís keppni þegar þeir eru í pólitík. Þekki nokkra svoleiðis sem maður mætir varla án þess að þeir séu að slá orðsleggjunni um allt í kringum sig. Ég fer þá venjulega að gá til veðurs ... enda hefur orðræðan þá engan tilgang.

Lára Stefánsdóttir, 12.4.2007 kl. 00:24

12 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sammála þér Lára. Svona rökræður virka bara þegar þú getur haft samúð með málstað hins aðilans og virt hann en verið samt heiftarlega ósammála. Aðeins þannig eru rökræðurnar áhugaverðar. Mér finnst ótrúlega gaman að því að eiga rökræður við "góða" viðmælendur og þessi vettvangur er kjörinn til þess. Ég hef fengið helling út úr þessu og takk fyrir þinn þátt!

Haukur Nikulásson, 12.4.2007 kl. 00:55

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég hef undanfarið upplifað alveg ótrúlegan róg og umsnúning á sannleikanum á fólki sem mér þykir vænt um í Frjálslyndaflokknum, svo ég get vel skilið að öðrum sárni þegar ráðist er að þeirra fólki.  En hvað Egil varðar henti hann síðustu leyfum af virðingu fyrir honum sem fjölmiðlamanni út um gluggan, þegar hann skrifaði þriggja blaðsíðna grein (með myndurm) reyndar um stjórnmálaflokkana og fabúleringu um útkomu í kosningunum án þess að nefna Frjálslynda flokkinn einu sinni á nafn.  Það er í lagi að vera á móti einhverjum, eða jafnvel vera illa við einhverja flokka eða menn, en að ætlast til að fólk beri tiltrú til þeirra þegar þeir haga sér með þessum hætti er í besta falli barnaskapur eða bara heimska.  Þetta sem þú nefnir er bara enn einn nagli í þá líkkistu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.4.2007 kl. 10:11

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband