Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Það voru margir búnir að spá öðru áfalli á undan Sigmundi Davíð

Ég er til dæmis einn þeirra. Ástæðan er m.a. sú að stjórnvöld hafa ekkert gert af viti frá því að Davíð felldi Glitnisbankann ótímabært og með offorsi.

Núverandi stjórn hefur reynt ýmislegt en virðist þó ekki í það heila tekið átta sig á því samhengi að allir lántakendur hafa verið teknir jafnt í görnina er varðar vexti, verðbætur og gengislánin. Leiðrétting á skuldastöðu heimila og fyrirtækja verður að vera gegnsæ og hlutfallsleg til að vera réttlát. 

Það er ótrúlegt að sumt fólk heldur því fram að sumir eigi ekki skilið að fá skuldaniðurfellingu vegna óhófs og bruðls í lántökum og eyðslu. Þau eiga samt sama hlutfallslega réttinn til niðurfellingar og aðrir. Öðruvísi verður ekkert réttlæti í því að koma þessari þjóð aftur á réttan kjöl.

Þótt það sé afar ólíklegt að ég kjósi Framsóknarflokkinn að þessu sinni er ég ánægður með áherslu þeirra á leiðréttingu skulda og var m.a. einn þeirra sem lagði þetta til við þá og aðra þingmenn s.l. haust.

Það er eiginlega þvert á samúð mína með Framsóknarflokknum að verða að viðurkenna að þeir eru með einu vitlegu tillöguna á þá veru að koma heimilum og fyrirtækjum raunverulega til hjálpar.

Það er hins vegar morgunljóst að það verða fljótlega aðrar kosningar vegna þess að það er eiginlega allt óuppgert ennþá. Ekki bara efnahagsmálin heldur líka spillingarmál þingmannsefnanna sem nú sækjast eftir kjöri. Það er fyrirsjáanlegur ófriður bæði utan og innan þingsins og það jafnvel strax í sumar.


mbl.is Sigmundur Davíð spáir öðru hruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver kýs Guðlaug? - Réttið upp hönd!

Guðlaugur Þór Þórðarson er bara rétt búinn að opna gættina í stóra mútupokann sinn. Hann á eftir að opna hann allan. Ef ekki með góðu þá með aðstoð lögreglu.

Hvað fékk hann frá IAV? - Hvernig fjármagnaði hann líkamsræktarstöðina í Glæsibæ sem hann byggði með konunni sinni?  Hversu góðir voru verktakarnir við hann? - Hver leyfði þeim að byggja þarna á svæði sem var fullbyggt? - Fyrir hvað fékk hann besta bitann úr þessari húsbyggingu?

Nei, það er langt í frá að hann sé búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum. Sé tekið mið af svörum hanns á borgarafundinum þá er hann grunaður um mútuþægni og það er bara næsti bær við að vera grunaður um þjófnað.

Mig langar að vita hver getur eiginlega kosið þennan mann á þing? - Er það sama liðið og kýs dæmda þjófinn úr Vestmannaeyjum?


mbl.is Segir 40 aðila hafa styrkt sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkarnir á þingi allir sekir um sjálftöku almannafjár

Hvernig getur fólk búist við því að hægt sé að losna við spillta og mútuþægna stjórnmálamenn þegar flokkarnir sjálfir afgreiða sig með 370 milljóna framlagi úr vösum almennings?

Hvernig er hægt að búast við nýliðun í stjórnmálum þegar gefið er 370 milljóna króna framlag í forgjöf?

Hvernig er hægt að búast við að stjórnmálamenn í þingflokkunum séu heiðarlegir ef flokkarnir eru það alls ekki?

Ofangreindar spurningar ættu að nægja mörgum til að kjósa alls ekki þá flokka sem eru nú á þingi og hafa sammælst um svona sjálftöku.

Mér er skapi næst að kjósa Borgarahreyfinguna núna þrátt fyrir stefnuleysi þeirra.


mbl.is Vill endurskoðun á lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar fór hugsanlega atkvæðið mitt á VG

Ég hef undanfarna daga spáð í það hverjum maður greiðir atkvæði sitt á laugardag. Reyndar hef ég sagt hverjum sem heyra vill að VG eða Borgarahreyfingin væri líklegust að þessu sinni.

Það er hins vegar dapurlegt að heyra þessa yfirlýsingu gömlu bekkjarsystur minnar úr Versló, hún ætlar að gulltryggja að ég kjósi ekki VG þrátt fyrir spillingu og ógeðið í kringum hina flokkanna. Ég ætlaði meira að segja að fyrirgefa þeim umhverfishelgislepju og femínisma. Nú er það fyrir bí. Ég kýs ekki flokk sem vinnur svo stórkostlega gegn þjóðarhag að vilja ekki olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Það er mér óhugsandi. Hvers konar hálfvitaútspil er þetta hjá Kollu svona rétt fyrir kosningarnar?

Miðað við þessa stöðu er ég orðinn tilneyddur að kjósa Borgarahreyfinguna sem ég tel þó vera einnota batterí og nánast skoðanalausa í öllum málum.

Ég geri allt annað en að skila auðu, þar með segir maður að manni sé sama.

Mér er ekki sama.


mbl.is VG gegn olíuleit á Drekasvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgatrúfélagið Sjálfstæðisflokkurinn

Ég undrast alltaf sífellt meir hversu mikið flokkarnir líkjast trúfélögum fremur en alvöru stjórnmálaflokkum. Ég hélt í einfeldni minni að ef flokkar stæðu sig ekki ætti að refsa þeim með þeim einfalda hætti að velja sér nýjan stað fyrir atkvæðið sitt.

Sem ævilangur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins til haustsins 2006 skal ég uppýsa að því fylgir gríðarlegur léttir að tengja sig ekki lengur við öfgatrúflokk sem er sem sekur um spillingu, lygi, mútuþægni, einkavinavæðingu, yfirhylmingu, sértæka hagsmunagæslu og grímulausa upphafningu á þjófum til þingstarfa.

Hvers vegna geta sumir Sjálfstæðismenn ekki kosið neitt annað? - Jú, þeir halda að þeir séu að sýna staðfestu og tryggð. Þeim er óhætt að vakna því að það er ekkert göfugt eða mannbætandi við það að halda tryggð við uppsafnaða óknytti og grímulaust eiginhagsmunapot fárra einstaklinga.

Það hefur enginn flokkur í sögunni farið jafn langt frá tiltölulega saklausri og ágætri stjórnmálastefnu og Sjálfstæðisflokkurinn. Þess vegna á að gefa honum gott frí að þessu sinni. Sendið honum skilaboðin með því að kjósa VG eða Borgarahreyfinguna. Þessi flokkur þarf á duglegri flengingu að halda.


mbl.is Margir ætla að skila auðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB leysir engin vandamál - Bara flótti

Það er eiginlega synd að stjórnin skuli jafn ráðalaus og raun ber vitni. Umræðan um aðild að ESB er flótti frá raunverulegum vandamálum. Hér er verið að undirbúa flótta og því verður það verkefni okkar hinna að þurfa að hefja sjálfstæðisbaráttu á nýjan leik aðeins 65 árum eftir að við fengum það.

Ég trúi ekki að óreyndu að meirihluti íslendinga muni styðja ESB í að ná yfirráðum hér. Tæknilega séð er þetta bara landráð.


mbl.is Til Evrópu með VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvar er svo viðtalið við Ástþór?

Ég finn hvergi þetta viðtal við Ástþór.

Er látið hjá líða að birta það vegna þess að hann kalli gagghænuna "gagghænu"?


mbl.is Ástþór í Zetunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ætlast menn til siðbótar í viðskiptum ef ríkið er óheiðarlegt?

Frá fyrsta degi vissi ég að neyðarlögin sem Alþingi setti voru óheiðarleg. Þau voru upphafið að kennitöluflakki bankanna undir stjórn ríkisins. Með neyðarlögunum var öllum góðum viðskiptasiðvenjum kippt úr sambandi og meira að segja var bannað með lögum að lögsækja bankana næstu tvo árin. Það er með ólíkindum en stjórnarandstaðan var þvinguð til að samþykkja lagasetninguna og þess vegna hefur ekki heyrst styggðaryrði frá núverandi stjórnarflokkum um þennan dæmalausa gjörning.

Það má því segja að ríkið hafi innleitt nýja viðskiptahætti. Það sem áður var bara subbulegt kennitöluflakk veitingahúsa hér áður fyrr er nú staðlaður viðskiptamáti hjá ríkinu í gegnum bankakerfið sem þeir stálu með húð  og því hári sem þeir vildu. Annað skildu þeir eftir í höndum skilanefndarmanna sem hver um sig hefur 3 milljónir á mánuði fyrir að skúra yfir óhæfuverk ríkisins. Ég held að fólki sé smám saman að verða ljóst hvernig þeir haga þessum málum.

Forstjori Pennans kemur út úr þessari frétt gersamlega siðlaus. Það á að moka einhverri dúsu ofan í þá sem eru álitlegir birgjar og láta hina éta það sem úti frýs. Hér er klár mismunun á ferð. Forstjóri Pennans er þarna að brjóta lög og mismuna kröfuhöfum og það er með ólíkindum að hann beinlínis játi þetta í blaðaviðtali. Þvílík heimska!


mbl.is Kröfuhafar Pennans segja farir sínar ekki sléttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG og Borgarahreyfingin eina leiðin til að senda íhaldinu skýr skilaboð

Sem landlaus maður í pólitík er ég kominn á þá skoðun að þeir sem vilja senda Sjálfstæðisflokknum skýr skilaboð í næstu kosningum geti bara kosið Vinstri græna eða Borgarahreyfinguna.  En hvers vegna er það?

Sem ævilangur Sjálfstæðismaður til haustsins 2006 ákvað ég að refsa íhaldinu með því að kjósa Samfylkinguna út á loforð þeirra um að vera andstæður póll við þá. Mér til mikillar armæðu og kaldhæðni við atkvæði mitt fór Samfylkingin í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þetta þýddi einfaldlega að mér fannst Samfylkingin gera grín að atkvæði mínu og saurga með þessu. Mér fannst mér þess vegna pólitískt nauðgað með þessu framferði þeirra

Eini flokkurinn sem lofar því að fara ekki í stjórn með íhaldinu eru vinstri grænir. Þrátt fyrir óþolandi femínisma og umhverfishelgislepju ætla ég að horfa framhjá þeim ókostum að þessu sinni í skiptum fyrir meiri pólitískan heiðarleika á öðrum sviðum. Mér hugnast nefnilega almennt störfin þeirra Steingríms Joð og Katrínar Júlíusdóttur. Staðan er því þannig í dag að líklegast er gamli hægri- og einkaframtakskratinn úr íhaldinu að ganga alveg yfir götuna að þessu sinni og kjósi VG. Dauðasök íhaldsins er nú eins og vorið 2007: Spilling, einkavinavæðing, mútuþægni, yfirhylming, lygi og upphafning á þjófum til starfa.

Borgarahreyfinguna kynnti ég mér sérstaklega. Þar er skammtíma hugsjónamennska á ferð en engin alvöru stjórnmál. Það er nokkurn veginn útilokað að ég muni kjósa stefnulausa og einnota stjórnmálamenn sem einnota kjósandi að þessu sinni. Borgarahreyfingin er bara pappírsþurrka þegar þörf er á tusku hið minnsta. Stjórnlagabreytingar sem eru eina málið þeirra var nefnilega drepið í lok síðasta þings.

Lýðræðishreyfing Ástþórs er hreinræktað grín fyrir þá sem vilja fíflast með atkvæði sitt.

Sjálfstæðismenn sem ekki þola vinstri græna ættu því óhikað að kjósa Borgarahreyfinguna fremur en að skila auðu eða gera ógilt. Þú sendir engin skilaboð með dauðu atkvæði, mundu það!


mbl.is Kosningar kosta 200 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er milljarðamæringurinn að splæsa í súpu fyrir fátæklingana?

Ég skil ekki ennþá hvernig Framsóknarmönnum datt í hug að velja Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem formann flokksins.

Hvernig getur nokkrum manni dottið í hug að milljarðamæringur sé besti og trúverðugasti kosturinn fyrir þjóð þar sem fátækt og atvinnuleysi fer vaxandi?

Ég held stundum að fólki sé ekki sjálfrátt þegar stjórnmálaflokkar eru annars vegar. Samlíkingin við einhvers konar öfgatrúfélög kemur óhjákvæmilega upp í hugann þegar hin blinda tryggð við flokkana er skoðuð.


mbl.is Kosningakjötsúpa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 264903

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband