Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Getur verið að nöldur og tuð virki þegar allt kemur til alls?

Hún átti enga leið út úr þessu dæmi. Fréttastofa Stöðvar 2 hefur beitt hana svo miklum þrýstingi að hún verður að leysa þetta mál fyrir þinglok annars missir hún gjörsamlega allan trúverðugleika sem stjórnmálamaður.

Pirringur hennar yfir hinum sífelldu áminningum Stöðvar 2 var ljós öllum, ég veit satt að segja ekki hver hefði átt að geta staðið gegn svona stöðugu einelti vegna málsins.

Ég vildi að fréttastofur landsins gætu leiðrétt fleiri óréttismál með sams konar hætti: Þjófnaðinn á varnarsvæðinu, rugluðum fjárveitingum til utanríkis- og varnarmála, kirkjunnar, landbúnaðar..... ok ok ég farinn að tuða aftur. 

En þegar allt er á botninn hvolft þá er líklegt að síendurtekið tuð og nöldur veki fólk á endanum til að samþykkja breytingar á tímaskekkjum í rekstri samfélagsins.


mbl.is Eftirlaunalög Alþingis verða felld úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði líka getað kennt dómurunum um... eða veðrinu... eða...

Gunnar Oddsson fær prik hjá mér. Er ekki að skafa utan af hlutunum og tekur þessu af karlmennsku og raunsæi.

Það er hans hlutverk að brýna sína menn til dáða á vellinum og hann er vel meðvitaður um það.

Ég hvet mína menn til að hysja upp um sig og hafa gaman af þessu, fyllast eldmóði, og þá kemur árangurinn í kjölfarið.

Lifi Þróttur! 


mbl.is Gunnar Oddsson: Síst of stór sigur hjá Fjölni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bush-hækjan og stríðshaukurinn Blair væntanlegur yfirforseti Íslands?

Ég fæ stundum skrýtna tilfinningu þegar verið er að spá í hver verði fyrsti forseti Evrópusambandsins og þar með raunverulegur verðandi þjóðarleiðtogi þeirra íslendinga sem vilja ganga í Evrópusambandið.

Ég skil ekki hvers stór hluti þjóðarinnar vill fela sig svona manni á vald!

Hvernig dettur einhverjum heilvita íslendingi í hug að Evrópusambandið vilji fá íslendinga í sambandsríkið til að gera okkur eitthvað gott? Síðan hvenær hefur ekki síngirni ráðið ferðinni í allri pólitík?

Ísland er fámennt land með mikið landrými og stórt og auðugt hafssvæði. Hitler stefndi að yfirráðum yfir allri Evrópu ("lebensraum") og nú er orðin veruleg hætta á að næsti "Hitler" fá þessi völd, setjist að í Brussel og stjórni íslendingum sem yfirforseti... úr fjarska í gegnum síma og internet. 


mbl.is Sarkozy hættur stuðningi við Blair í embætti forseta ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúa þeir samt aldrei neinu...

Í kaffitímanum var verið að ræða kynferðisáreitismál prestsins og sýndist sitt hverjum. Málið er greinilega til umræðu manna á meðal hvort sem fólki líkar það betur eða verr.

Ég sagði þeim að einn af þekktari kristnu bloggurunum á Moggablogginu hefði í símatíma á útvarpsstöð borið blak af prestinum og sagt að hann ætti það til að faðma sóknarbörn og kyssa á kinn og væri sko örugglega hafður fyrir rangri sök. Hann væri bara svo hlý persóna, þetta væri honum eðlilegt og að hann tryði því alls ekki að nokkur fótur væri fyrir þessari ásökun.

Einn félaganna við borðið kyngdi sopanum sínum, horfði á mig hvössum augum og sagði: "Það er alveg merkilegt með þessa trúuðu. Eins og þeir trúa mikið, þá trúa þeir samt aldrei neinu hver upp á annan!"


Er formennska í íþróttafélögum stökkpallur fyrir upprennandi pólitíkusa?

Þróttur er eitt af mínum hjartfólgnu íþróttafélögum, hin eru TBR og GKG. Í átta ár var ég stjórn félagsins og tel að ég hafi lagt mitt fram þar eins og svo margir aðrir. Var líka þátttakandi í fótbolta og hafði gott og gaman af.

Síðan 1994 hef ég bara fylgst með félaginu úr fjarlægð og fundist félaginu vera mislagðar hendur í mörgu, sérstaklega fjármálum. Það var að mörgu leyti jákvætt að félagið fluttist í Laugardalinn en það hefur sýnt sig í ljósi sögunnar að vera mjög dýrkeypt því félagið er nú eignalaust með öllu í dag. Rekstur undanfarinna ára hefur verið á kostnað eigna meira og minna frá því maður hætti. Á þeim tíma var unnin sjálfboðavinna við uppbyggingu eigna sem tíðkast ekki í dag.

Á vefsíðu félagins um daginn var tilkynnt að formaðurinn Kristinn Einarsson hyggðist hætta og það yrði gengið til kosninga. Í athugasemd með fréttinni kom spurning frá Jóni Ólafssyni um það hvort einhver hefði boðið sig fram og síðan önnur frá mér þar sem ég spurðist fyrir hvort ekki væri upplagt að Guðrún Inga Sívertsen væri ekki upplögð í að taka við, það myndi jú styrkja stöðu hennar innan KSÍ og auk þess ætti hún að vera vel að sér í fjármálum. Af einhverjum ástæðum hvarf fréttin og athugasemdirnar okkar Jóns.

Ég mætti ekki á aðalfund en þar var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Jórunn Frímannsdóttir kosin í stjórn ásamt manni sínum Sigurbirni Jónassyni og, að því er virðist, öðrum vinum og kunningjum.

Ég hef ekki séð nein viðbrögð við kosningu Jórunnar og manns hennar. Finnst sjálfum skrýtið að mannfæðin sé svo mikil innan félagsins að hjón séu nú kosin í aðalstjórn, auk þess sem það er sjaldan talið æskilegt að stjórnir hverfi af vettvangi í heilu lagi eins og nú gerist. Það vantar þá öll tengsl við fortíðina þegar svo gerist.

Einnig finnst mér það aukast að stjórnmálamenn láti kjósa sig í stjórnir íþróttafélaga og nýlegt er dæmið um Guðlaug Þór Þórðarson sem formann Fjölnis. Það virðist vera nokkuð ljóst að hér fara hagsmunir saman. Það er auðveldara fyrir íþróttafélagið að fá fjármagn ef tengsl við borgarstjórn eru svona náin og stjórnmálamennirnir fá formennskuna í félaginu í CV-ið sitt. Er þetta góð þróun mála?

Skv. uppl. af vef borgarstjórnar er Jórunn starfandi við hjúkrun um kvöld og helgar hjá Sóltúni. Sem borgarfulltrúi á fullum launum er hún í þessum nefndum að auki: Borgarráð, varamaður. Stjórn eignasjóðs, formaður. Skipulagsráð. Velferðarráð, formaður. Stjórn Faxaflóahafna. Hverfisráð Laugardals. Stjórnkerfisnefnd. Í fulltrúaráði Eirar. Í fulltrúaráði Skjóls, varamaður. Í stjórn og fulltrúaráði Skógarbæjar, varamaður. Í stýrihóp um búsetuúrræði eldri borgara. - Manni verður bara spurn, hvenær finnur hún tíma fyrir störf sem formaður Þróttar?

Þar sem fréttin og athugasemdirnar hurfu af vefsíðu félagsins (sem einhver má reyna að útskýra) vil ég hafa þessa umræðu hér en ekki þar sem athugasemdir eiga það til að týnast.

Er Þróttur kominn í þá stöðu að vera orðinn þurfalingur í borgarkerfinu? 


Geir og Solla: Sendið þetta hermálabrölt í burtu og sparið peninga!

Mér finnst Geir H. Haarde tala tveim tungum þessa dagana. Í aðra röndina á fólk að spara og hætta að taka lán nema brýna nauðsyn beri til.

Í hina tekur hann á móti herþotum sem eiga að "gæta lofthelgi" íslendinga og kostar þjóðina hundruð milljóna í útgjöld. Sem fyrrum starfsmaður Varnarliðsins og fyrrum Sjálfstæðismaður fullyrði ég að ekkert af þessu hernaðarbrölti íslendinga hafi gert nokkurt einasta gagn í gegnum tíðina annað en að ala á ótta og tortryggni.

Afskipti okkur af innanríkismálum annarra þjóða gerir heldur ekkert gagn, hvað þá að vera með stríðsyfirlýsingar eins og Davíð og Halldór stóðu að á sínum tíma og hafa ekki enn verð dregnar til baka sem vitleysa. 

Hvenær á að vakna út úr þessari hernaðarmartröð? 


mbl.is Frönsku herþoturnar lenda um 11 leytið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekkert skrýtið við þetta... pabbi hans var svona!

Gunnar Antonsson var mér sammála um að Pálmi Pálmason eldri hefði verið yfirburða íþróttamaður í Vogahverfinu strax sem gutti upp úr 1960. Hann var bestur í öllu því sem hann iðkaði. Hann var í bekk með Gunna og bjó í sama stigagangi og ég í Álfheimunum.

Dr. Kára Stefánssyni kæmi því frammistaða Pálma Rafns ekkert á óvart því þeir væru með alvöru boltagen í sér. Ég þekki nokkur dæmi um að boltahæfileikar erfist og finnst það eiginlega stundum hálf gremjulegt hvað sumir okkar þurfa að hafa meira fyrir þessu boltaveseni en aðrir sem fá þetta frítt í genunum.  - Til hamingju Valsmenn!


mbl.is Valur sigraði í Meistarakeppni KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Ernir ætti að slaufa þessu með slaufurnar sínar

Lengi vel hélt ég að Sigmundur Ernir væri íhugull og djúpvitur fréttamaður. Hann var svo ábúðarfullur við fréttalestur að maður fær ósjálfrátt á tilfinninguna að maðurinn hljóti að hafa samið allt sem hann les.

Hann gerir það ekki. Hann er hins vegar megin höfundur efnis í þætti sínum Mannamáli. 

Hann endar þessa þætti á því að úthluta svokallaðri slaufu til einhvers sem honum finnst skara fram úr. Ekki veit ég annað en að hann ráði því alveg sjálfur hverjum hann úthlutar slaufunni í hvert sinn.

Núna finnst mér að hann megi hætta þessu slaufuveseni. Hann er kominn á villigötur með þetta. Í kvöld er hann aðeins einn í viðbót sem lætur blekkjast af því að bílasalinn Hekla hf. sé rekið til að vinna sérstaklega gegn verðbólgu. Ég get upplýst Sigmund Erni um það að tilgangur Heklu hf. er að selja bíla til að græða peninga. Stundum eru fyrirtæki með blekkingar í kynningarskyni og ég hélt að flestir hefðu séð í gegnum það hvernig fyrirtækið blekkti forystu ASÍ og SA til að taka þátt í, sýnilega vel heppnuðu, PR-múvi þess.

Sigmundur Ernir sá hins vegar ekki í gegnum þetta og heldur greinilega að Hekla hf. sé einhvers konar baráttudeild Seðlabankans í verðbólgumálum. 


Katrín Jakobsdóttir er A L L S S T A Ð A R !

Annað hvort þarf ég að leita mér hjálpar eða sjónvarpsstöðvarnar! Það er sama á hvaða sjónvarpsstöð ég stilli, allsstaðar birtist Katrín Jakobsdóttir í einu eða öðru hlutverki.

RÚV föstudagskvöld - Útsvar - Katrín Jakobsdóttir í spurningakeppni.

ÍNN veftv - Katrín Jakobsdóttir með Illuga Gunnarssyni.

RÚV - Silfur Egils - Katrín Jakobsdóttir í pallborði.

Stöð 2 - Mannamál - Katrín Jakobsdóttir í bókmenntaumræðu.

Er kannski raunin sú að það er annað hvort offramboð á þessari geðþekku konu eða yfireftirspurn?

Mér skilst að konan sé þingmaður í fæðingarorlofi. Varaformaður vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og örugglega í gommu af nefndum. Hvenær fær barnið hennar sopann sinn?

(Ef þetta hefði verið Sóley Tómasdóttir léti ég leggja mig inn á notalega stofnun! Devil)


Nú má STOKE ER DJÓK höfundurinn éta eitthvað ofan í sig

Ég get alveg samglaðst Stoke að fara upp í úrvaldsdeildina. Þeir leika jú í gamla góða Þróttarabúningnum og þess vegna skildi ég aldrei af hverju Hlyni (Ceres4) stórköttara Þróttar og meðlimur í Merzedes Club var svo uppsigað við félagið að uppnefna þá sem djók.

Nú má Hlynur með heiðri og sóma éta þetta ofan í sig á þessari stundu. Hvað skyldi verðmæti félagsins hafa aukist eftir leik dagsins? Nú hefðu einhverjir betur setið á hlut sínum í félaginu.

Ég hefði líka alveg getað unnt hinum umdeilda Guðjóni Þórðarsyni að fara með liðið upp. Hann vann í því eins og kría í mannaskít en vannst ekki tími til þess vegna skilningsleysis eigendanna á því að vinna með knattspyrnuprímadonnum sem eru jú óaðskiljanlegur hluti þeirra sem við þetta starfa.

Ég stenst því ekki mátið í dag að vera ósammála hinum bloggskrifurum og vera kátur yfir þessum gleðidegi fyrrum íslendingaliðsins í Þróttaragallanum.


mbl.is WBA og Stoke City í úrvalsdeildina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband