Davíð = litla stúlkan með eldspýturnar

Ég er á því að Davíð hafi varist fimlega í Kastljósinu í gærkvöld, enda fékk hann heilan þátt sem hann stjórnaði. Sigmar kom engu að því Davíð sagði honum bara endalaust bíddu! og blaðraði út í eitt. Svo fimlegar voru röksemdafærslurnar að hann hefði getað talað ömmu sína upp úr gröfinni. Þetta kann hann manna best.

En fólki sem finnst eitthvað mikið til koma má benda á að það er auðvelt að færa rök fyrir því að hvítt sé svart og svart sé hvítt. Maðurinn sem kallaði útrásarvíkingana "óráðsíupésa" er nefnilega sá sami sem fann upp eftirlaunafrumvarpið og skipaði sjálfan sig seðlabankastjóra. Mig undrar ekki að maðurinn vaði yfir hina bankastjóra Seðlabankans og ríkisstjórnina á skítugum skónum.

Samlíking hans um að skamma slökkviliðið var alveg brilliant. Hann gleymdi því bara að hann var sjálfur litla stúlkan með eldspýturnar sem bar eld að húsinu áður en slökkviliðið kom á staðinn.

Rússagullsklúðrið hans er prívateign og ótrúlega barnalegt háttalag manns sem á að vera varkár embættismaður með lágan róm. Það var líka hneisa að hann skuli tala um erfiða stöðu Kaupþings.

Tilboð rússa og síðar norðmanna eru búin að afsanna að ekki hafi verið nægur tími til að aðstoða báða bankana ef unnið hefði verið af yfirvegun. Lánagjalddagi Glitnis er ekki einu sinni runninn upp ennþá. Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa bara verið í stjórnlausu kvíðakasti og panikki í rétt rúma viku. 

Það er mín skoðun að engum manni í íslandssögunni hefur tekist að vinna þjóð sinni jafn mikið tjón á jafn skömmum tíma og Davíð Oddsson nú. Hafi hann gert eitthvað gott á ferlinum hingað til mun það hverfa djúpt í þeim fjárhagslega drullupytt sem hann skapaði þjóðinni núna.

Til að taka af allan vafa, þá átti ég hvorki hlutabréf í Glitni né Landsbankanum. 

 


mbl.is FME tekur Glitni yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var frábært að sjá og heyra Davíð enn einu sinni sýna þjóð sinni hvern mann hann hefur að geyma. Hvernig hann af yfirvegun og festu mætir erfiðum málum og af innsæi greinir kjarna vandamálanna. Þrátt fyrir að einhverjir hafi farið offari í því umhverfi sem Davíð og samverkamenn hanns skópu með frelshugsjónir sínar að vopni, þá veit Davíð að frelsinu verður ekki um kennt hvernig komið er. Hann stendur keikur með íslenkri alþýðu, atvinnulífi og framtíð þessa lands. Ást hans á landi og þjóð ættu öllum að vera ljós. Íslandssagan á eftir að setja hann á stall með bestu sonum þjóðarinnar, sem réð heilt og hélt ró sinni í hamförum lausafjárvandans og heimskreppunar sem skekur þjóðina og heim allan nú í lok fyrsta tugs nýrrar aldar. Ég fann rósemi fylla hjartað við orð Davíðs.

Óttar Felix Hauksson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 06:40

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Óttar, þetta er gott og háðskt grín hjá þér. Hugsaðu þér, það eru sumir sem halda þetta í alvöru!

Haukur Nikulásson, 8.10.2008 kl. 06:55

3 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Tek undir hvert orð hjá þér Haukur.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 8.10.2008 kl. 07:19

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Davíð er hvorki sökudólgur né neitt.Hann er ekkert þess vegna á hann að fara.

.

Sigurgeir Jónsson, 8.10.2008 kl. 07:24

5 identicon

Atburðir síðustu vikna eru ekkert grín og ég held, Haukur minn, að þorri þjóðarinnar deili með mér þeirri skoðun að Davíð er sá maður sem best hefur reynt að beina þjóðarskútunni í örugga höfn á ólgutímum. Hann er sannkallaður Churcihll okkar tíma. Hvenær eigum við annars að taka lagið saman aftur? Það var stuð á okkur á Pollamótinu í den Haukur.

Óttar Felix Hauksson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 07:33

6 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sá sem gerir mistök á að víkja.Davíð er ekki framtíð Íslands.Það hljóta allir að sjá.Hann er einfalslega búinn.Hann á að hafa manndóm í því að segja strax af sér. Það hafa mörg mikilmenni gert.Nelson flotafroringi neitaði að segja afsér og skipulagði fram til dauðastundar baráttuna við Napóleon. það var afsakanlegt því Bretar unnu.

Sigurgeir Jónsson, 8.10.2008 kl. 07:35

7 Smámynd: Haukur Nikulásson

Óttar, ég skil þig svo vel. Ég dáði Davíð á sínum tíma og kaus allt þar til í síðustu kosningum. Svo fóru að renna á mann tvær grímur. Það togast alltaf á í manni  gömul tryggð og síðan nýr sannleikur. Útslagið með íhaldið var dæmdi "söngvarinn" í Vestmannaeyjum sem flokkurinn minn þröngvaði inn á þing með brögðum. Það sannfærði mig um að siðferði væri ekki ofarlega í þessum flokki og því síður jafnaðarmennska.  Fram að því hafði flokkurinn notið alls vafa um heilindi á þeim bæ. Ég get unnt þér þinnar skoðunar á þessu máli. Ég hef nefnilega gaman af því að komast í rökræðurnar.

Giggið á Pollamótinu er ljúft í minningunni Óttar. Ég er alltaf að spila og til í flest á þessum síðustu og verstu tímum. Ég heyrði í Dýra um daginn og mér heyrist hann haldinn sömu sýkinni og fyrrum. Það gæti verið gaman að taka lagið í fullskipuðu bandi. Þú ert með alla þræði í það.

Skoðaðu þetta.

Haukur Nikulásson, 8.10.2008 kl. 08:03

8 identicon

Hvernig á Ísland að bjarga bönkum sem eru með tóflu sinnum þjóðarframleiðslu landsins? Hefðiru frekar kosið að Seðlabankinn hafi tekið lán til að bjarga bönknum og um leið sökkva ríkinu. Þetta með að þjóðnýta bankana er ekkert að gerast bara hérna á Íslandi. Veit nú ekki betur en það er frétt núna á mbl sem það sama er að gerast í Bretlandi, land sem er með margfalt meiri þjóðarframleiðslu en Ísland.

Ég held að það skipti meiru máli að hafa starfandi íslenska banka en að hafa eitthverja risa stóra íslenska banka sem eru með starfsemi sína útum allan heim. Þessir bankar voru orðnir of stórir og það var búið að vara við þessu mörgum sinnum. 

Davíð hefur gert margt gott í þessu landi en hann á einn avar öflugan óvin hérna á Íslandi, fjölmiðla. Fjölmiðlar þrífast á athygli og hvernig fær maður meiri athygli en neikvæð umfjöllun? Og ef það hentar þá væri fínt að krydda aðeins umfjöllunina til að hafa hana meira spennandi. 

Ég tel að það sem seðlabakninn er að gera núna er rétt og eftir það sem Davíð sagði í gær ætti þjóðin að geta andað léttar. Þeir í seðlabankanum eru að hugsa um hag þjóðarinnar en ekki hag einhverja aðilia sem voru tilbúnir að taka áhættu með peningana sína. 

Þessi kreppa og efnahagsástand er útum allan heim akkurat núna og er ekkert Ísland fyrirbæri. Ísland lendir svona illa í þessu útaf því við erum lítil 300 þúsund manna eyja með þrjá banka sem eru margfalt stærri en Ísland. 

Eggert (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 08:22

9 Smámynd: Haukur Nikulásson

Eggert,

Þú hefur margt til þíns máls. En ég sé málið á þann veg að þó að íslensku bankarnir hafi verið of stórir fyrir íslenska hagkerfið voru enn möguleikar að halda því gangandi.  Það að gefast upp jafn skyndilega er eins og að halda því fram að við munum öll deyja og því besta að ljúka því bara af með sjálfsmorði frekar en að finna næstu máltíð eins og við gerum flest.

Það virðist nefnilega vera að koma í ljós að ekki hafi verið unnið af þeirri íhugun sem svona mál krefst. Óðagotið og panikkið réð ferðinni meira en skynsemin. Það er bara verst að aðstæður hvers dags ráða því hver tiltrú fólks er á huglægar eignir og það er hreint út sagt verulega óþjóðhagslegt að Davíð skuli hafa haft þessa stjórn á efnahagsmálunum jafn neikvæður og hann hefur verið í umræðunni sem er algerlega ósamboðið stöðu hans sem seðlabankastjóra. Stundum er gott að hafa leiðtoga með ákveðna sýn og stjórnsemi. Í þessu tilviki hefur það hins vegar að snúist upp í verstu andhverfu sína. 

Það eru klár öfugmæli að kalla fjölmiðlana versta óvin Davíðs, hver annar fær heilan kastljósþátt til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri?

Haukur Nikulásson, 8.10.2008 kl. 09:02

10 identicon

Ég sé að Eggert er að hausinn á réttum stað.

Þegar menn átta sig á því að Glitnir var kominn í þrot þá fara menn að geta hugsað eðlilega. Lán Seðlabankans uppá einungis 84 milljarða hefði dugað Glitni í 2 mánuði, þá var aftur komið að skuldadögum og á meðan eru markaðir að hrynja í kringum okkur, heldur þú Haukur að allir útí heimi sem eru að loka bankalínum hingað og þangað vilji endalaust lána íslenskum bönkum sem fjölmiðlar og greiningastofnanir útí heimi hafa verið að gagnrýna mikið síðustu mánuði !!!!

"Það virðist nefnilega vera að koma í ljós að ekki hafi verið unnið af þeirri íhugun sem svona mál krefst. Óðagotið og panikkið réð ferðinni meira en skynsemin"

Glitnir kom í leit að hjálp þegar þeir gátu ekki hjálpað sér sjálfir og aðrir voru ekki tilbúnir að lána þeim, þeir voru komnir í þrot. Stórt lán var að koma á gjalddaga, heldurðu að menn hafi bara getað sest niður í ró og næði og tekið 1-2 mánuði í að klára þetta dæmi??? Nei, þetta er að gerast hjá okkur það sem er að gerast úti, hlutirnir verða að gerast hratt enda enginn er enginn tími í dag eins og markaðurinn er að sýna!.

Og skv. kenningu þinni að Seðlabanki íslands hafi gefist upp við að halda bönkunum gangandi í stuttann tíma með RISA STÓRUM SKAMMTI AF ALMANNA FÉ með litlum sem engum tryggingum (komið á daginn að veðið sem glitnir gaf var verðlitíð) þá jafngilti þetta því að ef einstaklingur eða fyrirtæki kæmi í banka og segði honum að hann ætti risa stóra gjaldadaga framundan sem hann/fyrirtækið gæti ekki borgað og enginn vildi lána fyrir og væri í raun kominn í þrot þá væri best fyrir bankann að halda áfram að lána þessum einstakling/fyrirtæki peninga sem væru jafnvel 1/5 af veltu bankans!!!!! Ég held að allir með örlitla skynsemi sjá að þetta gengur ekki. Best væri ef fyrirtækið minnkaði við sig skuldir og seldi eignir til að halda sér gangandi og það er það sem Ríkið/seðlabanakinn er að gera.

Brjánn (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 10:51

11 Smámynd: Haukur Nikulásson

Brjánn,

Það er rétt hjá þér að það er alltaf áhætta að lána bönkunum. Taktu nú eftir: Glitnir þurfti 150m Evra til að ganga frá gjalddaga sem er 15. október n.k. eftir því sem næst verður komist. Þeir voru því þokkalega tímanlega með beiðni sína. Ástæðan fyrir beiðninni hefur líka komið fram. Seðlabankinn hafði smeygt sér í lánalínu Glitnis og fengið lán á sama stað sem gerði það að verkum að þýski bankinn neitaði að lána þeim það sem hafði verið opið áður.

Margir aðrir en ég halda því fram að ef Davíð hefði ekki verið Seðlabankastjóri og Jón Ásgeir stærsti hluthafi Glitnis hefði þessi lánveiting farið fram þegjandi og hljóðalaust eins og þessi viðskipti gera öllu jöfnu. Seðlabankinn er banki bankanna og það er ekkert nýtt að þeir fjármagni svona þarfir viðskiptabankanna. Það er þeirra hlutverk skv. lögum. Seðlabankinn (Davíð) hafði enga heimild til að gera þetta yfirtökutilboð, hann hefur hins vegar fullt umboð skv. 7. gr. laga um Seðlabankann til að lána það sem umbeðið var væru eðlilegar tryggingar lagðar fram. Þessi í stað dæmir hann veðin ónýt og framhaldið er öllum kunnugt.

Snúum þessu upp á þig sjálfan, ef þú getur ekki greitt afborgarnir ertu gjaldþrota skv. skilgreiningu Davíðs á Glitni þó svo að bókhaldið sýni fram á stórkostlega eign. Fasteignir seljast ekki í dag og skv. því eru þær ónýtar sem veð og þar með geta bankarnir innkallað öll lán og gert okkur öll gjaldþrota á einu bretti. Sýnist þér þetta vera réttlát staða?

Allur venjulegur rekstur banka, fyrirtækja og einstaklinga gerir ráð fyrir að þú hafir tekjur jafnt og þétt til að standa við skuldbindingar. Það að halda því fram að það kæmu nýir gjalddagar hjá Glitni var óþverraleg og röng staðhæfing sem byggir á því að gera ráð fyrir því að bankinn hætti hreinlega að hafa tekjur, hvers konar bullframsetning er það? 

Brjánn, ég skil ótta þinn við að henda góðu fé á eftir slæmu. Mér sýnist að við séum í verri stöðu núna meira að segja löngu áður en kom að gjalddaga Glitni. Við erum hreinlega með ónýtt bankakerfi, ónýtt lánstraust ríkisins og að auki komnir í milliríkjadeilu við breta. Þetta er einstakt og fordæmislaust skemmdarverk sem með hreinum ólíkindum má rekja til eins manns sem margir trúa að sé hálfgerður guð í mannsmynd. Það er ýmislegt annað en guðslíki að koma í ljós, því miður.

Haukur Nikulásson, 8.10.2008 kl. 11:17

12 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég tel rétt að bæta því að Seðlabankinn gat lánað bönkunum en jafnframt krafist þess að þeir losuðu um og seldu erlendar eignir til að mæta frekari þörfum um lausafé. Til viðbótar því sem áður hefur verið talið er hægt að kenna óðagoti Seðlabankans um að eignir bankanna í útlöndum fóru í óþarfa uppnám og tilheyrandi verðfall. 

Haukur Nikulásson, 8.10.2008 kl. 18:29

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 264891

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband