Ég er vonlausasti stjórnmálamaður landsins og þetta eru ástæðurnar:

Í desember 2006 stofnaði ég með nokkrum félögum mínum stjórnmálaflokk og var að vonast til að búa til nýjan alvöru jafnaðarmannaflokk og ræddi við mér merkilegri menn um aðkomu að honum sem leiðtogaefni í einu eða öðru formi. Reynslan sem ég fékk af þessu brölti var ótrúlega skemmtileg að mörgu leyti.

Ég kynntist pólitískt sinnuðu fólki sem var ótrúlega fjölbreytt. Allt frá snillingum niður í algjöra hálfvita svo vægt sé til orða tekið. Eins og svo margir byrjendur varð mér eiginlega ekkert ágengt nema að fá reynslu af ákveðnum málum, sérstaklega mannlega þættinum í sambandi við væntingar þessa ólíka fólks sem ég átti samskipti við. Þegar á reyndi hlupu flestir í sína hverja áttina vegna persónulegra væntinga um frama. Þessi reynsla sagði mér eiginlega að sumt "merkilega" fólkið hagaði sér furðu oft "ómerkilega" þegar á reyndi. 

Nú færist ég nær þeirri hugsun að dagar núverandi ríkisstjórnar séu taldir og kosningar hljóti að vera í nánd. Ég hef satt að segja enga trú á að Geir og Solla ætli að sitja út kjörtímabilið bara til að verða niðurlægð og ásökuð um efnahagslega vandræðaganginn sem verður þó varla nema hálfnaður eftir tvö ár ef að líkum lætur.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að pólitísk sýn mín sé með þeim hætti að sjálfsögðustu hugðarefni mín nái ekki í bráð þeim hljómgrunni sem ég tel þau sannarlega verðskulda og eru löngu tímabær vegna breyttra tíma og hátta.

Nefnum nokkur dæmi:

  • Ég vil standa vörð um sjálfstæði Íslands og er æfur vegna þeirrar landráðaumræðu sem aðild að ESB er í mínum huga. Líklega eru samt a.m.k. 50% þjóðarinnar ósammála mér í þessu.
  • Ég vil að ríkið hætti öllum afskiptum og útgjöldum til trúmála. Trúmál verði einkamál en en ekki á ábyrgð eða kostnað samfélagsins. Þjóðkirkjan trúir því að 80% þjóðarinnar standi á bak við hana og því er ég að skúra meirihluta þjóðarinnar af mér sem væntanlega kjósendur.
  • Ég vil leggja niður niðurgreiðslur og styrki til bænda og koma þeim út úr sárri fátækt og niðurlægingu. Þarna skúra ég 10% kjósenda burtu til viðbótar.
  • Ég vil leggja niður styrki til íþrótta, menningar og lista. Þessir liðir eiga að vera bornir af þeim sem vilja njóta. (Menntakerfið á að sjá um grunnþætti þessara mála). Þarna hlýt ég að skúra af mér minnst 30% kjósenda. Inni í þessu felst að fella niður styrki á RÚV og Þjóðleikhús og selja þessi batterí hæstbjóðanda (ef hann finnst þá!).
  • Ég vil afnema kvótakerfið í núverandi mynd og bjóða allan kvóta á markaði til hæstbjóðenda. Þarna fara a.m.k. 10% kjósenda.
  • Ég vil að mestu hætta útgjöldum til utanríkismála og tel að þau séu best verkuð með samvinnu við hin Norðurlöndin (sameiginleg sendiráð) sem og því að fleygja út varnarmálaþættinum sem í dag er bara hlægilegt ofsóknaræði sem síðast hefur verið ræktað upp í Sollu með innrætingu í höfuðstöðvum NATO (líklega í sömu ferðum og ESB bullið). A.m.k. 10% þjóðarinnar er nægilega ofsóknaróð til að vera mér ósammála hér.
  • Ég vil breyta kosningakerfinu þannig að landið verði eitt kjördæmi og hægt verði að kjósa bæði einstaklinga og flokka í sömu kosningum. Með þessu geturðu kosið besta fólkið þvert á flokkspólitík ef þú kærir þig um. Með þessu er líka hent út þjóðhagslega skaðlegu kjördæmapoti og prófkjörsvitleysu.
  • Sjálfsögð og þjóðhagsleg hagkvæmni flutnings flugvallarins er mér að skapi og þá er ég líka í andstöðu við 50% þjóðarinnar.
  • Þar sem ég er búinn að leggja til sparnað upp í tuga milljarða vís er hægt að hagræða þó svolítið til að bæta þjóðfélagið: Bæta grunnmenntun (með meiri áherslum á íþróttir og listir í æsku), bæta heilbrigðis, trygginga- og félagskerfi þjóðarinnar.
  • Lækkun skatta þýðir að almenningur fær meira ráðið um það með meira sjálfsaflafé hvers konar íþrótta-, menningu- og listamál hann vill styðja eða kaupa.
  • Ísland á að vera tollfríríki með opinn viðskipti við öll lönd í heiminum. Það betra að vera opið fyrir öllum viðskiptum í heiminum en að vera múrað inni í ESB með enga sjálfstæða getu til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki.
  • Mér þykir eiginlega grátlegt hvað íslendingar eru lítið opnir fyrir því að bæta samfélagið og leggja af ótrúlega heimskulegar tímaskekkjur og bull úr opinberum rekstri.
  • Ég hef á þessari bloggsíðu skrifað rúmlega 700 pistla, flesta um stjórnmál og samfélag og þeir þykja þó ekki nægilega merkilegir til að mbl. hafi þá í umræðunni (Ég mátti ekki gagnrýna Sjálfstæðsflokkinn og Moggan of mikið!). Löngu eftir að pólitíski áhugi annarra dó hef ég haldið áfram að viðra umbótamál án nokkurs sýnilegs árangurs.

Ég er ekki einn þeirra sem hefur valið að þegja um umdeild mál vegna ótta við að tapa stuðningi eins og flestir stjórnmálamenn á Íslandi gera. Í umdeildum málum þora fæstir að gefa upp skoðanir sínar af ótta við að tapa þeim atkvæðum sem þeir þurfa til að komast á þing. Þetta þýðir einfaldlega að á þingið veljast skaplausir, skoðanalausir og tækifærissinnaðir eiginhagsmunapotarar upp til hópa. Flestir að sækjast eftir persónulegum efnahagslegum ávinningi. Á þessu eru þó örfáar undantekningar.

Með þeirri hugmyndafræði sem ég hef sett fram á síðastu tæpum tveimur árum án þess að fá eiginlega nokkurn hljómgrunn hlýt ég að vera nokkurn veginn vonlausasti "wannabe" pólitíkus á Íslandi.

Hvernig skyldi þá standa á þeirri ótrúlegu þversagnartilfinningu að mér finnst sem ég hafi bara staðið mig mjög vel?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Mér líst ekki illa á þetta. Aðskilja skal ríki og kirkju. Ég vil skoða kosti og galla ESB.  Þar erum við ekki sammála. Styrkir til íþróttamála eiga ekki að vera á vegum ríkisins. Kvótakerfið út í hafsauga.  Utanríkismál....við ættum að láta okkur duga einn fulltrúa í sendiráðum  hjá hinum Norðurlöndunum...hvað erum við að þykjast þessi örþjóð?  Kjósum einstaklinga.  Þú ert ekkert algalinn.

Hólmdís Hjartardóttir, 16.7.2008 kl. 00:12

2 Smámynd: Sigurjón

Ég er reyndar sammála flestum stefnumálunum hjá þér Haukur.  Þó tel ég mig ekki vera jafnaðarmann.  Ég þarf kannske að skoða sjálfan mig aðeins betur...

Sigurjón, 16.7.2008 kl. 01:38

3 Smámynd: Sverrir Einarsson

Með þessarri upptalningu telur þú búið að spara svo mikið að hagræða megi og borga hitt og þetta t.d. í íþróttir!!! sem þú telur upp framarlega í upptalningunni eigi að vera á kostnað þeirra sem stundi!! Hvernig á að skilja þetta. Kannski eru fleirri svona krossar í "stefnuskránni" Og við eigum bara að ganga í ESB ef við fáum að hirða kostina en getum losnað við að taka gallana með líka.

Patentlausnir eru ekki til, ekki heldur þó þeir séu settir í "stefnuskrá"

ps hvað átti þetta framboð að heita (eða hét)

Eigðu svo góðann dag, það ættla ég að gera.

Sverrir Einarsson, 16.7.2008 kl. 01:47

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Hólmdís, það eru ekki allir að skilja að ESB lofar öllu fögru á meðan verið er að gleypa Ísland.

Sigurjón, ég komst að því að ég væri jafnaðarmaður þótt ég hefði kosið íhaldið mest alla mína tíð. Jafnaðarmennska þýðir ekki að það eigi að taka allt og skipta nákvæmlega jafnt niður, heldur að skapa jöfn tækifæri og sjá líka um þá sem þurfa aðstoð. Í sinni einföldu mynd að vera eins og góður heimilisfaðir (eða móðir) við alla fjölskylduna.

Sverrir, ég vil styðja betur við íþróttir, menningu og listir hjá börnum í grunnskólum til að finna út hver þeirra eru móttækileg og hafi einhverja hæfileika. Ég sé ekki tilgang í að borga fullorðnu fólki sem ekki getur lifað af listinni án opinberra styrkja. Ég hef sjálfur t.d. tónlist sem mjög alvarlegt áhugamál og iðka sömuleiðis badminton og golf. Ég tel að ég eigi að borga þetta sjálfur. Þarna tel ég mig vera samkvæman sjálfum mér. Mér finnst fullkomlega óeðlilegt að ríkið borgi áhugamál fólks eins og þennan lið sem og trúmál og ýmislegt annað sem eru bara huglæg dekurmál einstaklinga og félaga. Við verðum að hafa einhverjar línur í því hversu bjánaleg útgjöld samfélagsins eigi að vera því annars er ekki hægt að hafa hemil á endalausri kröfugerð um opinbera styrki við hvaða dellumál sem er.

Ég sé enga kosti við ESB, tel þetta eineltisklíku sem myndar tollabandalag til að verjast innflutningi frá þriðja heiminum. Með því er verið að halda þessum ríkjum áfram fátækum. Mörg lönd Evrópu eru gamlar nýlenduþjóðir og herraríki og ættu sum að vera með sögulega skömm af framkomu sinni við þriðjaheimslöndin. Það að mynda bandalag gegn þeim með ESB er í mínum huga bara áframhaldandi skömm.

Hvers vegna á ekki heimurinn allur að vera eitt svæði í þessu tilliti? Því hefur enginn svarað. Grægði og sjálfsupphafning Evrópuþjóða með þessari klíkumyndum ESB er ekki í anda jafnaðarmennsku, hvað þá nokkurs raunverulegs mannkærleika.

Sverrir, ég held að ég hafi ekki sett fram sérstakar þversagnir í skoðunum mínum. Ég má eflaust bæta framsetninguna eitthvað svo þú sjáir ekki krossa eins og þennan með íþróttirnar sem mér hefur vonandi tekist að skýra.

Haukur Nikulásson, 16.7.2008 kl. 07:43

5 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Ég hef nú nokkrum sinnum skipst á skoðunum við þig og oftar en ekki ósammála þér... og bara gaman af því. En stundum hef ég fundið kjöt á beinunum hjá þér. Líka í þessari upptalningu hjá þér.

Ég er á móti ESB eins og það er í dag, þó ég sé að eðlisfari fylgjandi sameiningu í stórar einingar (sé þeim vel stjórnað).

Hvað varðar fjármálatenginu ríkis og kirkju, þá má ekki gleyma því að þegar um þetta var samið, þá átti kirkjan fjöldan allann af jörðum og öðrum eignum um allt land. Þessar eignir voru afhentar ríkinu, gegn því að ríkið héldi kirkjunni uppi fjárhagslega til framtíðar. Svo hefur ríkið selt þessar jarðir smá saman. En með þessu lauk þessum leiguliðakerfi í bændastéttinni sem hélt lýðnum í torfkofum fram á síðustu öld. Þannig að þessi "kostnaður" er kannski ekki beinn baggi á herðum skattgreiðenda. Þetta mál þyrfti að gera upp áður en hægt væri að rifta þessu samkomulagi.

Niðurfelling styrkja til landbúnaðar myndi setja helming búa á hausinn, en svo myndi restin ná sömu kjörum með hærra matvælaverði til okkar neytenda og hinn helmingur þeirra matvæla sem við neyttum yrðum við að kaupa á "heimsmarkaði" sem önnur ríki gætu lokað á okkur hvenær sem þeim hentaði. Svo er hætta á sjúkdómum, erfitt að verjast hormónakjöti, skordýraeiturskjöt, þungmálmakjöt, lyfjasullskjöt (þetta er allt til þó auðvita sé til heilbrigt kjöt líka) og við gætum fengið útrunnin matvæli eins og við höfum verið að fá fréttir af undanfarið (þar sem útrunnu var hrært saman við nýtt og selt sem nýtt til neytenda). Fyrir utan að við yrðum alltaf að framleiða mjólk hér á landi því nýmjólk er ekki hægt að senda milli landa með skipi, heldur yrði að fljúga með hana. Verðir á nýmjólk á Grænlandi sem kemur með flugi frá Danmörku kostar um 500kr líterinn.

Sammála þér með styrki til menningar og lista, en ósammála styrkjum til íþrótta, þar sem íþróttir hafa reynst mjög góð forvörn gegn áfengi og fíkniefnum.

Sammála með kvótann, en með þeirri viðbót að kvótakostnaðurinn væri eini kostnaður útgerða. (þ.e. þyrftu ekki að greiða aðra skatta).

Það mætti klippa niður utanríkisútgjöld um helming.

Varnarmál (þessa umræðu höfum við nú tekið áður) þá er ég fylgjand vörðu land, eins og heimsástandið er í dag og verður áfram. Heimurinn er bara ekki nógu góður til að taka áhættuna eins og er.

Kjördæmaskiptin. Ég myndi vilja stækka verulega sveitafélögin (með sameiningum) sjá svona 10 sveitfélög og færa meira af verkefnum frá ríki til sveitafélaga. (eftir slíka stækkun). Svo getur landsmálapólitíkin verið landsmálapólitík í öllu landinu sem eitt kjördæmi.

Hvort sem flugvöllurinn í Reykjavík fer eða verður, þá vill ég sjá tvo flugvelli á SV horninu. Hvort sem "hinn" sé í miðborg RVK, Hólmsheiði, Lönguskerjum, Kapelluhrauni eða á vestanverðu Suðurlandi. Það er öryggismál að þeir séu tveir.

Ég vill borga skatta, en ég vill að skattpeningar mínir nýtist í vitrænni hluti. T.d. klára að malbika alla vegi áður en göng eru boruð út og suður.

Tollar... þeir hafa sína kosti og galla. Það þýðir ekki að benda á þá sem einhvern skratta á fjósbitanum, sem þyrfti að skjóta svo allt verði gott. (ekki frekar en verðtryggingin). En tollar eru ósanngjarnir fyrir neytendur, en geta verið sanngjarnir fyrir vinnandi fólk (sem eru nefnilega líka neytendur) og semja þarf alla tolla niður og reikna út kosti og galla hvers tilviks og taka ákvarðanir út frá því.  

Svo er eitt enn. Ég vill að skattpeningar mínir verði notaðir í að leggja járnbraut hringinn í kringum landið, tvöfallt spor með rafstreng og allir flutningar á landi verði með rafmagnslestum sem knúnar verði af jarðvarma- og vatnsfallavirkjunum. Það myndi bæta verulega stöðu landsbyggðarinnar, spara kostnað af innkaupum á olíuvörum, lestin gæti tekið bíla svo maður geti tekið lestina í ferðalag en notað bílinn á staðnum. Auðvitað er stofnkostnaðurinn hár, en til lengri tíma litið, þá mun slík lest mala gull í sparnaði fyrir okkur.

Að öðru leiti erum við sammála um að vera ósammála... var það ekki?

Júlíus Sigurþórsson, 16.7.2008 kl. 20:22

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þakka þér fyrir að nenna að lesa og skrifa Júlíus. Jú við getum vissulega haft mismunandi skoðanir. Ég er nokkuð öruggur um að ég finn aldrei nokkra manneskju sem myndi samsinna mér með öll þessi mál. Það er bara útilokað.

Þú getur samt treyst því að ég lesi það sem þú skrifar og það hefur kannski áhrif á skoðanir mínar. Maður verður nefnilega að vera tilbúinn að hlusta og jafnvel skipta um skoðun ef því er að skipta og mér er sama hvaðan góðar hugmyndir koma.

Járnbrautarhugmyndin er örugglega þess virði að skoða. Það byrjar bara með einfaldri kostnaðaráætlun og hagkvæmnisútreikningum.

Takk fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Haukur Nikulásson, 16.7.2008 kl. 22:19

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Haukur þú ert bara flottur í þessu og mikið til í þessu öllu/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 18.7.2008 kl. 14:24

Höfundur

Haukur Nikulásson
Haukur Nikulásson
Höfundur hefur starfað í tölvugeiranum mestan sinn feril, lengst af í eigin rekstri. Starfar nú sem ráðgjafi og kláraði nýlega frumkvöðlanám í háskólanum Keili.

Hann iðkar íþróttir, tónlist og stjórnmál af talsverðum móð.

Athugið: Ég hendi hiklaust út ómálefnalegum leiðindum og persónulegu skítkasti sem ekki á erindi í umræðuna... að mínu mati!

Pistlarnir hér eru hans eigin skoðanir.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 264894

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband